Ebba Dahlmann 1932-2014

Ebba DahlmannÖrn Bárður Jónsson

Minningarorð

Ebba Dahlmann

húsmóðir og fv. bankastarfsmaður

frá Ísafirði

1932-2014

Útför frá Neskirkju í Reykjavík

4. febrúar kl. 13

Jarðsett í Görðum

Þú getur hlustað á ræðuna og lesið hana hér fyrir neðan.

Friður Guðs sé með okkur.

Stutt var á milli þeirra systkina, Ebbu og Jóns. Ég átti við hana tvö símtöl fyrir útför bróður hennar. Hún var orðin veik og treysti sér ekki að sitja lengi við athöfnina og bað mig að skila góðri kveðju. Hún vildi koma á framfæri við mig því sem henni fannst standa uppúr á æviskeiði Jóns. Hugsunin var skýr og málið tært, málhraðinn enn á góðu skriði. Tuttugu og fimm dögum eftir andlát Jóns og níu dögum eftir útför hans mætti hún sínu skapadægri 24. janúar s.l., daginn fyrir sólarkaffi Ísfirðinga þegar þeir fagna því að sólin hefur náð að skína yfir kirkjugarðinn, kirkjuna og náð niður í Sólgötu sem ber nafn af þessum árvissa atburði. Þá fagnar fólk komu ljóssins fyrir vestan og brottfluttir hér syðra, ljóssins, sem er forsenda alls lífs á þessari jörð.

Hún ólst upp á Ísafirði „í faðmi fjalla blárra“. Þar var gott að vera barn á liðinni öld.

Halldór tengdasonur hennar fékk mér í hendur ljósrit af blaðsíðu Vesturlands, blaðs vestfirskra sjálfstæðismanna, frá 22. maí 1947 en þá var Ebba á 15. ári. Þar er sagt frá því að Haraldur Guðmundsson, skipstjóri kom með nýjan bát til bæjarins. Það var Ásólfur, smíðaður í Svíþjóð og rekinn af Skutli. Maður í Hnífsdal auglýsir ljósavél til sölu. Sagt er frá andláti verkamanns í Súðavík og erfiljóð birtist ásamt mynd af 17 ára, fríðum pilti. Níels málari og Guðrún voru gefin saman í hjónaband af sr. Sigurði. Aðalfrétt síðunnar er um skólaslit Gagnfræðaskólans. Þar er nafn Ebbu tvítekið. Hún varð efst í II. bekk bóknámsdeildar og hlaut bókaverðlaun fyrir „dugnað við nám“.  Á sömu síðu er svo nafnalisti fermingarbarna um hvítasunnu þetta vor og í þeim hópi er nefnd Jóhanna systir Ebbu. Athygli mína vakti að þar eru nöfn tveggja ísfirskra drengja sem báðir létust í desember á liðnu ári, Jóhanns Símonarsonar og Jóns Kristmannssonar. Og svo eru í hópi gagnfræðinga nafn Gunnar sem átti eftir að verða lífsförunautur hennar og Dúnnu eða Guðrúnar móðursynstur minnar.

„Kynslóðir koma, kynslóðir fara, allar sömu ævigöng“, segir í fögrum sálmi.

Hugurinn leitar vestur í öflugan bæ sem fóstrað hefur margt gæfufólk sem látið hefur um sig muna á margan hátt fyrir land og þjóð.

Ebba var góðum gáfum gædd og efnileg ung kona. Ástin vitjaði hennar snemma og hún trúlofaðist lífsförunauti sínum er hún var 16 og hann 18 ára.

Ebba fæddist á Borðeyri þann 18. september, 1932. Hún lést á Landspítalanum þann 24. janúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Sigurður Dahlmann, f. 31. mars 1899, d. 19. nóvember 1955, og Guðlaug Dahlmann, f. 7. ágúst 1907, d. 24. júní 1993.

Ebba var elst systkina sinna en þau eru:

Jóhanna Dahlmann f. 18. október 1933, maki Guðmundur Agnar Ásgeirsson f. 29. ágúst 1927, d. 16. nóvember 2006.

Jón Dahlmann f. 30. desember 1938, d. 30. desember 2013. Maki Dagný Kristjánsdóttir f. 28. janúar 1942.

Svanborg Dahlmann f. 19. nóvember 1943, d. 18. maí 2001, maki Örn Arnþórsson f. 5. febrúar 1945.

Hinn 22. september 1951 giftist Ebba Gunnari Kristjánssyni, f. 21.september 1930.  Foreldrar hans voru Kristján Bjarnason, f. 11. desember 1898 í Stapadal í Arnarfirði, d. 26. desember 1977, og Solveig Bjarnason, f. Anderson, í Risör í Noregi 13. mars 1902, d. 4. maí 1987. Systir Gunnars er Dagný, f. 28. janúar 1942, maki hennar var Jón Dahlmann, bróðir Ebbu, en hann lést þann 30. desember síðastliðinn eins og fyrr var getið.

Ebba og Gunnar eignuðust þrjú börn. Þau eru:

1) Guðlaug, f. 14. september 1950, en hún lést 2012, öllum harmdauði, falleg, mæt og góð manneskja. Ekkill hennar er Halldór V. Kristjánsson, f. 26. maí 1946. Þeirra börn eru: a) Solveig Sif, b) Jón Vídalín, f. 19. febrúar 1975, c) Gunnar Áki, f. 6. ágúst 1978.

2) Hanna Lára, f. 21. mars 1955. Hennar börn eru Elísabet Rakel Sigurðardóttir, f. 13. nóvember 1978, og Gunnar Freyr Barkarson, f. 27. nóvember 1985.

3) Sigurður Axel, f. 30. desember 1958. Hans dætur eru: a) Fanney Ebba, f. 28. nóvember 1989, og Rakel Björk, f. 5. september l992. Stjúpdóttir Sigurðar er Fjóla Katrín Elvarsdóttir, f. 10. nóvember 1987.

Ebba lauk gagnfræðaprófi  frá Gagnfræðaskóla Ísafjarðar árið 1948 og fór þá að vinna á símstöðinni á Ísafirði með foreldrum sínum en faðir hennar var Símstöðvarstjóri.

Hún var síðan heimavinnandi húsmóðir, en tók að sér píanókennslu fyrir Tónlistarskóla Ísafjarðar og launaútreikninga fyrir Norðurtangann hf.  Árið 1968 hóf Ebba störf í Útvegsbankanum, Ísafirði – síðar Íslandsbanka og vann þar til ársloka 1997.

Ebba og Gunnar voru elsk að hvort öðru, ólík en vel samrýmd. Hún hafði yndi af stríðni hans og gamansemi og saknaði beggja eiginleika mjög eftir að hann féll frá.

Hún var mikil móðir og amma, gjafmild og gestrisin. Þau hjónin áttu það sameiginlegt að vera hamhleypur til verka, fara vel með það sem þau áttu, láta hlutina endast og kaupa ekkert sem þau gátu ekki staðgreitt. Þau voru rausnarleg við öll tækifæri og aðstoðuðu börnin sín á margan hátt af elskusemi og örlæti.

Ebba var fljóthuga og hraðmælt, með ríka málkennd og hæfileika til að nema tungumál, stálminnug og fróðleiksfús alla tíð. „Hún er svo fljótur, hún Ebba“, sagði tengdamóðir hennar um hana, hún „Solveig Charlotte Bjarnason födt Andersen“, eins og hún kynnti sig gjarnan. Ebbar var fljót að flestu og sagt er að jafnvel eldavélarnar sem hún kom nálægt hafi með einhverjum undarlegum hætti orðið öflugri en aðrar þegar hún snerti þær.

Hún hafði sterkar taugar til Hrútafjarðar enda fædd á Borðeyri en móðir hennar var frá Tannstaðabakka og fólkið þar var henni ætíð kært. Hún var þar í sveit eitt sumar sem var henni mjög minnisstætt. Þar kynntist hún ömmu og afa sem hún var mjög elsk að. Þegar þau Gunnar óku með börnin sín um Hrúfafjörð var farið yfir öll minnisatriði: Hvað heita börnin á Bakka? Hvað heita börnin í Eyjanesi?

Hún átti alla tíð Lexíkon og fletti upp í þeim viskubrunni alla ævina. Þær bækur voru henni það sem okkur er Gúglið nú á tímum. Ef börnin spurðu um eitthvað svarði hún gjarnan: Flettu því upp!

Hún hélt mikið upp á gáfur og setti gjarnan sama-sem-merki milli þess að vera fróður og góður. Hún var líka viss um að gáfufólk nyti lífsins öðrum fremur og sagði stundum: „Intelligent folk keder sig aldrig.“ Ég er nú ekki alveg viss um að þessi formúla gangi upp en Ebba reiknaði samt dæmið með þessum hætti!

Hún var ættfróð og minnug á fólk og málefni, las bækur um ættfræði og grúskaði dálítið í þeim efnum.

Þau hjónin voru alla tíð iðin við að ferðast og fara með börnin og síðar barnabörnin í bíltrúr. Eftir að Gunnar dó fóru barnabörnin að bjóða ömmu í bíltúr til að skoða fugla við tjarnirnar á Álftanesi og Seltjarnarnesi. Sama gerði Hanna með henni. Ebba sá t.a.m. með unga fólkinu brandönd í fyrra á Bakkatjörn. Þau Gunnar fóru gjarnan forðum daga inn á Skipeyri til að fylgjast með varpinu á vorin og höfðu alla tíð mikla ánægju af að fylgjast með fuglum. Svalirnar þeirra á Engjaveginum voru oft þéttsetnar af smáfuglum sem sátu þar veislur í boði húsráðenda. Hún hélt uppá máríuerluna og lóuna og sagði þær svo „dömulegar og fínlegar“ en öðru gegndi um álit hennar á mávinum!

Barnabörnin sóttu það fast að fá að heimsækja afa og ömmu í tíma og ótíma. Þar var alltaf góðar kökur að fá, athygli og fróðleik. Gummskakan klikkaði aldrei né falski hérinn eða fiskibollurnar.

Hún hafði yndi af tónlist og hlustaði mikið á hljómdiska, keypti sér oft nýjan disk til að hlusta á og njóta. Hún safnaði pipar og salt staukum en efnin í þeim eru ómissandi í matargerð og minna líka á það að lífið er bland af ýmsu, sætu og súru, sterku og mildu.

Hún elskaði Ísafjörð og allt fyrir vestan og þau hjónin mættu á samkomur Ísfirðinga hér syðra, árlega messu í Neskirkju og sólkveðjuhátíð í Hveragerði.

Hún fór með Gunnari að hitta sína félaga úr vélskólanum á Hotel Nordica ásamt mökum og hélt áfram að hitta hópinn eftir að Gunnar féll frá. Sýnir það ræktarsemi hennar við minningu hans og sameiginlega vini.

Hún lék á sviði á sínum yngri árum á Ísafirði og hafði mikla ánægju af leiklist. Hún lék á píanó og kenndi fyrir vestan og hvatti börnin til tónlistarnáms.

Handavinna lék í höndum hennar, hún bróderaði dúk eftir dúk og sá til þess að börnin og margir aðrir eignuðust handverk eftir hana. Jólin voru fjölskylduhátíð og börnin hennar Hönnu flugu vestur til að vera hjá afa og ömmu og öllum eru minnisstæð jólin 1982 þegar öll fjölskyldan var saman.

Sigurður Axel býr nú í Svíþjóð og hefur búið í Skandinavíu frá 1996. Hann er sjómaður og átti ekki heimangengt en sendir kveðju sína og Rakelar dóttur sinnar en hinar dæturnar eru hér í dag. Þau þakka mömmu og ömmu fyrir allt og allt. Einnig ber ég ykkur kveðju Gunnars Karls, systursonar Ebbu, sem staddur er á Grænlandi.

Ebba var trúuð kona. Hún trúði á annað líf. Hún hefði gjarnan viljað að Gunnar vitjaði sín oftar í draumum en þegar hann birtist henni fannst henni hann oftar en ekki vera að stríða sér. Það kætti hana. Hún var alla tíð ástfangin af Gunnari, lífs sem liðnum.

Hún var sjálf með góðan húmor og átti auðvelt með að koma orðum að hlutunum. Hún sagði undir það síðasta þegar heilsan var farin að bila: „Allt fyrir ofan háls er í lagi en hitt er ónýtt!“ Lýsir það vel kaldhæðni hennar og hispursleysi. En undir niðri sló viðkvæmt hjarta sem fann til með öllu sem andardrátt hefur. Hún var væn kona og eftirminnileg. Það gustaði af henni Ebbu og nú er sá andgustur horfinn en eftir lifa minningar um góða konu, eiginkonu, móður, tengdamóður og ömmu, samferðakonu og vin vina.

Við kveðjum Ebbu Dahlmann með virðingu og þökk fyrir allt það sem prýddi hana. Hún er horfin inn í birtu himinsins á þeim árstíma þegar birtan bara vex og vex og vekur að lokum upp allt sem nú er í vetrardvala.

Blessuð sé minning hennar og Guð blessi okkur sem enn erum á lífsveginum og bíðum þess að mæta skapadægri okkar. Megi þau skil verða okkur góð í fyllingu tímans og þeim sem þá kveðja sem væri það þessi þakkarhátíð sem við nú höldum í minningu mætrar konu.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Tilkynnar um erfidrykkju, signingu yfir kistu, líkfylgd og greftrunarstað og ræðuna á vefnum.

Takið postullegri kveðju:

Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni. Svo að þér séuð auðug að voninni í krafti heilags anda. Amen.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.