Minningarorð
Jón Dahlmann
bifvélavirki
1938-2013
Útför frá Neskirkju
þriðjudaginn 14. janúar 2014 kl. 13
Jarðsett í Gufunesi
Ritningarlestrar:
2. Korintubréf 1.3-5
Jóhannesarguðspjall 14.1-6
Ræðuna geturðu hlustað á og lesið hér fyrir neðan.
Friður Guð sé með okkur.
Tryggð og vinátta eru dýrar dyggðir. Að lifa í góðu og gefandi félagi við samferðafólkið er list sem vert er að þjálfa með sér á lífsleiðinni. Í vináttunni finnur maðurinn sjálfan sig því hann speglar tilvist sína í bestu vinum sínum. Þannig verða vinir eins og keðja þar sem hver hlekkur treystir annan.
Jón Dahlmann var vinur vina sinna, tryggur í afstöðu til sinna nánustu, einnig samferðamanna sinna og ekki síst þeirra sem hann vann hjá og fyrir.
Í Síraksbók 6:14 segir: „Traustur vinur er örugg vörn, finnir þú slíkan áttu fjársjóð fundinn.“
Kristin trú er ekki byggð á formúlum, kenningarkerfum, boðum og bönnum heldur á vináttu. Hún er byggð á vináttu Guðs og manns.
Jón Dahlmann fæddist á Ísafirði 30. desember 1938 þegar dimmasti dagurinn var að baki en veturinn er dimmur á Ísafirði því þar sést ekki til sólar í 3 mánuði vegna fjallanna. Þau skýla fyrir veðri og vindum en safna jafnframt í sig snjó sem getur ógnað lífi fólks eins og nú á dögunum þegar svæðum var lokað vegna snjóflóðahættu. Ísafjörður er í hugum okkar sem þar ólumst upp mikill ævintýraheimur.
Foreldrar Jóns voru hjónin Sigurður Dahlmann símstöðvarstjóri á Ísafirði f. á Seyðisfirði 31. mars 1899, d. 19. nóvember 1955, og Guðlaug Dahlmann, símamær og húsmóðir, f. á Tannstaðabakka í Hrútafirði 7. ágúst 1907, d. 24. júní 1993.
Jón var næstyngstur fjögurra barna þeirra hjóna sem eru:
Ebba Dahlmann f. 18. september 1932, maki Gunnar Kristjánsson f. 21. september 1930, d. 4. ágúst 2006.
Jóhanna Dahlmann f. 18. október 1933, maki Guðmundur Agnar Ásgeirsson f. 29. ágúst 1927, d. 16. nóvember 2006.
Svanborg Dahlmann f. 19. nóvember 1943, d. 18. maí 2001, maki Örn Arnþórsson f. 5. febrúar 1945.
Jón, eða Onni eins og hann var jafnan kallaður, ólst upp á góðu heimili, naut öryggis og elsku. Hann vann sem sendill á pósthúsinu hjá pabba þegar hann var drengur en pósthúsið var í myndarlegri byggingu í hjarta bæjarins og símstöðin einnig. Þar vann fjöldi manns. Á pósthúsinu var tekið á móti bréfum og bögglum, póstburðarmenn fóru um bæinn í einkennisbúningum og báru út bréf en á símstöðinni var hópur ungra kvenna sem sátu við skiptiborðin og tengdu fólk handvirkt saman. Sem sendill í verslun föður míns kom ég oft þangað sem drengur með pantanir símameyja, ávexti og nammi, og heyrði kliðinn í þeim og smellina þegar þær tengdu snúrurnar í réttar innstungur í skiptiborðinu og svöruðu kliðmjúkt: Miðstöð, góðan dag.
Inni í Skógi var sumarhús fjölskyldunnar, Dalbær og þar var dvalið á sumrin við árnið, fuglasöng og berjatínslu á haustin.
Onni ólst upp á Ísafirði og flutti 17 ára gamall með móður sinni og tveimur systrum til Reykjavíkur eftir fráfall föður síns. Hann var við nám á Ísafirði og í Héraðsskólanum á Núpi, og var síðan í stuttan tíma við nám í Menntaskólanum í Reykjavík. Hann starfaði í nokkur ár hjá Landssímanum og síðan hjá Dagblaðinu Vísi. Jón nam bifvélavirkjun á árunum 1964 – 1969 hjá gömlum skólafélögum og vinum frá Ísafirði þeim Jens P. Clausen og Kristjáni F. Tryggvasyni. Hann starfaði sem bifvélavirki hjá Saab – umboðinu, Sveini Björnssyni hf. árin 1969 – 1975. Árið 1975 hóf Jón störf sem sölumaður hjá Velti hf. og starfaði þar fram til 1988 er það fyrirtæki hætti starfsemi. Frá árinu 1988 og fram til starfsloka 2005 var hann sölumaður hjá Brimborg hf.
Hann var góður fagmaður og Saab var í hans augum æðstur allra bíla en svo öðlaðist Volvo álíka sæmd og löngu síðar gat hann jafnvel mælt með Daihatsu og Ford. Tryggðin gerði það að verkum að hann var ekki fljótur til að taka hvaða tegund sem var inn í sæmdarklúbbinn en þegar hann kynntist öðrum tegundum þá komust þeir í gegn, í það minnsta sumir. Allt lék í höndum hans eins og skáldsins sem „Úr furutré . . . fugla skar og líka úr smiðjumó.“
Hinn 10. mars 1983 kvæntist Jón eftirlifandi eiginkonu sinni Dagnýju Kristjánsdóttur f. 28. janúar 1942. Foreldrar hennar voru Kristján Bjarnason f. 11. desember 1898, d. 26. desember 1977, og Solveig Bjarnason f. 13. mars 1902, d. 4. maí 1987, hann úr Arnarfirði og hún frá Noregi. Dagný átti fyrir soninn Davíð Kristján Anderson f. 25. ágúst 1971 sem Onni gekk í föðurstað og börn Davíðs urðu barnabörn hans: Birgir Arnar f. 8. febrúar 1992, Margrjet f. 30. júlí 1996 og Embla Nótt f. 25. júlí 1997.
Fæðingarstaður móður Jóns, Tannstaðabakki í Hrútafirði, varð hans höfuðstaður. Þar var hann í sveit sem drengur og þar bjó frændfólk hans og hafði búið í marga ættliði. Staður sem slær út sjálfan Ísafjörð hvað aðdráttarafl áhrærir hlýtur að hafa mikla töfra. Jón hélt tryggð við Tannstaðabakka alla tíð og fólkið sitt þar.
Jón var gamansamur og glettinn. Hann talaði jafnan svo hratt að það þurfti sérstaka þjálfun til að skilja hann þegar mest gekk á. Við þekkjum það flest hvernig eyrað venst smátt og smátt erlendu tungumáli sem í fyrstunni rennur allt saman en svo greinast orð frá orði. Oft sagði hann brandara og hló mikið sjálfur. Hann var fróður um margt, las mikið, einkum sögulegan texta og þá helst um styrjaldir. Hann hlustaði mikið á hljóðbækur síðustu árin og drakk í sig þjóðlegan fróðleik og menningu. Dagný las einnig mikið fyrir hann í veikindunum og var honum mikil stoð en hann fékk heilablóðfall fyrir 8 árum og lamaðist vinstra megin. Hann gat gengið með hækjum á tímabili en varð síðan að nota hjólastól. Hann átti í margskonar veikindum á seinustu árunum fyrir aldamót en reif sig ætíð upp með krafti og staðfestu. Á liðnu ári fjaraði smátt og smátt undan honum og hann dró sig meir og meir inn í skel sína. Hann fékk hjartaáfall í nóvember s.l. og lagði ríkt á við sína nánustu að hann vildi ekki láta lífga sig við ef hann fengi fleiri áföll. Hann var í þrjú og hálft ár í Mörkinni og naut þar góðrar þjónustu. Dagný og Davíð sinntu honum vel ásamt barnabörnunum og svo sýndu vinir hans honum mikla tryggð og komu og spiluðu brids við hann reglulega.
[innskot sem er á hljóðupptökunni]
„Í marga áratugi var Onni búinn að spila brids reglubundið einu sinni í viku yfir vetrarmánuðina við þá frændur sína, Atla og Einar, og vinina Arilíus og Halldór. Fyrir kom að ég [Örn mágur Arnþórsson] bættist í hópinn ef forföll urðu. Þessi hópur hélt sínu striki allt fram í miðjan desember sl. og mætti vikulega í spilamennskuna, og það fór síðan eftir ástandi Onna hversu lengi var spilað hverju sinni. Þessi spilakvöld gáfu honum mikið og hann lagði mikið á sig til að geta hitt þessa vini sína.“ (ÖA Mbl 14.1.14)
Onni hafði sterkar skoðanir á þjóðmálum, var félagslega sinnaðu, sannur krati í sér og alveg til í að taka rispur um þjóðfélagsmál ef menn vildu stíga inn á völlinn. Hann var glettinn og stríðinn en græskulaus, hjartahlýr og skemmtilegur.
Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Mörk 30. desember síðastliðinn á 75 ára afmælisdegi sínum. Segja má að það hafi verið grand finale.
Hann er hér kvaddur af hópi ættingja og vina. Ebba systir hefði svo gjarnan viljað vera hér í dag en er sjálf að glíma við veikindi og bað fyrir hlýjar kveðjur til ykkar. Hún saknar elskulegs bróður og biður honum og ykkur öllum blessunar. Hún bað mig að nefna sérstraklega bridsfélagana sem reyndust honum vel í veikindum hans, elsku Dagnýjar, Davíðs og fjölskyldu og þess hversu húsbóndahollur Jón var og traustur maður í hvívetna.
Tveir æskuvina hans og skólafélagar á Ísafirði, Guðbjörn Charlesson og Garðar Einarsson biðja fyrir kveðju hingað í dag og þakka vináttu góðs félaga. Bjössi kom til hans og fleiri æskuvinir í veikindum hans og gladdi það Onna mjög að finna vináttu þeirra og tryggð.
Nú er Jón horfinn af þessu jarðlífi eftir að hafa lokið góðu dagsverki.
Dæmisaga Jesú um talenturnar er merkileg og lifir enn og varpar ljósi á lífið og verkefni þess. Sagan er um þrjá þjóna sem hver um sig unnu eftir því sem þeir töldu best. Tveir þeirra gerðu það sem húsbóndanum var að skapi og fengu báðir þennan vitnistburð:
„Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.“ (Matt 25.23)
Öll fáum við talentur til ávöxtunar í lífinu. Hvað við gerum með hæfileika okkar segir líklega mikið til um hamingju okkar og velgengni. Köllun sérhvers manns, karls og konu, er að lifa í sátt við Guð og menn, vinna sín verk af alúð og eftir bestu getu hverju sinni. Lífsafstaða sem byggir á þeim grunni gefur arð hið innra, eykur hag samferðafólksins og er Guði til dýrðar þegar best lætur. Megi okkur öllum auðnast að lifa þannig og hverfa inn í himinn Guðs og fögnuð í fyllingu tímans, æðrulaus í trausti til fyrirheita Guðs í Kristi.
Trúmennska og traust munu ætíð skipta máli í mannlífinu. Gott er að rifja upp orðin sem flutt hafa verið um aldir yfir hverju fermingarbarni: „Vertu trúr allt til dauða og Guð mun gefa þér lífsins kórónu.“
Við kveðjum Jón Dahlmann með virðingu og þökk. Blessuð sé minning hans og Guð blessi þig. Amen.
Tilkynna fyrirkomulag líkfylgdar sem verðu að erfi loknu.
Jarðsett í Gufunesi.
Ræðan birt á vefnum.
Takið postullegri kveðju: Guð vonarinnar . . .