Sigurlaug Elísa Björgvinsdóttir 1934-2013

sigurlaugeliasÖrn Bárður Jónsson

Minningarorð

Sigurlaug Elísa Björgvinsdóttir

hjúkrunarfræðingur

1934-2013

Útför frá Garðakirkju

þriðjudaginn 7. janúar 2014 kl. 15.

Jarðsett í Görðum

Ræðuna er hægt að hlusta á og lesa hér fyrir neðan. Ritningarlestrar eru neðanmáls.

[Einhver innskot eru í ræðunni sem ekki eru í textanum en koma fram á hljóðupptökunni]

Friður Guðs sé með okkur öllum.

Þær eru margar tilviljanirnar í lífinu. Ung stúlka fædd norður í Öxarfirði þar sem hafið er opið til norðurs flyst suður til Reykjavíkur, í Norðurmýri 2ja ára og loks í Kópavog á unglingsárum sem þá var eins og sveit. Fyrir norðan eru það Tjörnesið og Melrakkasléttan sem ramma Öxarfjörð inn en Jökulsá rennur til hafs og hefur í aldanna rás myndað sandeyrarnar miklu. Hér syðra er fögur sýn af Digranesi og Kársnesi út á Faxaflóann og í norðri eru Akrafjallið, Skarðsheiðin, Esjan, Móskarðshnjúkar austar og Skálafell, loks Hengillinn og Vífilsfellið þar í framhaldi og svo hryggurinn á Reykjanesskaganum með Keili sem kórónu, þetta undarlega fjalla sem sýnist svo stórt í fjarlægð en virðist minnka þegar nær dregur. [Innskot] Vogar skerast inn í landið úr Skerjafirði, Fossvogur, Kópavogur, Arnarvogur. Og ekki er útsýnið minna af efstu hæð við Skipalónið í Hafnarfirði. Þaðan sést hingað að Görðum sem eru eins og sveit í borg. Ísland er undurfagurt og það er heillandi að sjá hvernig landið okkar leikur stórt hlutverk í nýrri Hollywoodmynd sem ég sá á dögunum [The Secret Life of Walter Mitty]. Við erum stolt af landinu sem hefur fætt okkur af sér og mótað okkur alla ævina með ýmsum hætti.

Þær eru margar tilviljanirnar í lífinu, sagði ég, en ég veit að Heimir lítur á það sem handleiðslu að þessi unga stúlka flutti í Kópavoginn og varð hans.Hún var 15 ára er hún kom þangað og lauk þar skyldunámi sínu en lærði svo hjúkrun.

Hún er heillandi frásagan af því þegar Jesús sendir lærisveina sína út og felur þeim verkefnið stóra:

„Farið og prédikið: ,Himnaríki er í nánd.’ Læknið sjúka, vekið upp dauða, hreinsið líkþráa, rekið út illa anda.“

Þannig kom Jesús inn í líf fólks forðum og birti guðsríki á jörðu með mætti sínum, líkn og blessun.

Það er göfugt starf að hjúkra og líkna fólki.

Sigurlaug Elísa Björgvinsdóttir (Lísa) var fædd á Gilsbakka í Öxarfirði 21. apríl,1934. Hún lést á Sólvangi í Hafnarfirði 28. desember 2013 eftir langvarandi veikindi.

Foreldrar hennar voru Björgvin Jónsson, f. 24. febrúar 1907 á Hólalandi í Borgarfirði eystra, d. 5. október 1970, farmaður í Reykjavík, síðar verkamaður í Kópavogi, og Sesselja Sigvaldadóttir, f. 28. janúar 1913 á Gilsbakka í Öxarfirði, d. 28. desember 1999.

Systkini Sigurlaugar eru:

Þórarinn, f. 1936, d. 1982,

Sigurður Gils, f. 1943, og

Margrét, f.1948.

Sigurlaug ólst upp í Reykjavík en fluttist í Kópavog þegar hún var 15 ára þar sem hún átti lengst af heima eða frá 1949 til 2000.

Sigurlaug giftist 17. janúar 1959 Kristjáni Heimi Lárussyni, f. 5. febrúar 1935, kranamanni í Kópavogi, síðar hjá Heimi og Lárusi sf. í Garðabæ. Þau bjuggu lengst af á Kársnesi í Kópavogi, síðar í Reykjavík og nú í Hafnarfirði.

Foreldrar Kristjáns Heimis voru: Lárus Salómonsson, lögregluvarðstjóri á Seltjarnarnesi, f. 11. september 1905, d. 24. mars 1987, og Kristín Gísladóttir húsfreyja, f. 18. júní 1908, d. 20. apríl 1983.

Börn Lísu og Heimis eru:

Hörður Már, verkfræðingur, f. 2. maí 1955, kvæntur Söndru Heimisdóttur og eiga þau tvö börn, Margréti Elísu og Kristján Shawn. Þau búa í San Diego, Kaliforníu.

Björgvin Örn, tæknifræðingur, f. 29. maí 1959. Hann er ógiftur og býr í Kópavogi.

Heimir Lárus, véliðntæknifræðingur, f. 17. nóvember 1972 og starfar hjá Amer Sports. Hann er kvæntur Aðalbjörgu Karlsdóttur og eiga þau tvær dætur, Eddu og Ásdísi. Þau búa í München í Þýskalandi.

Lísa lauk námi sem hjúkrunarfræðingur frá Hjúkrunarskóla Íslands 13. apríl 1957. Hún starfaði mikið á næturvöktum næstu árin en var síðan heimavinnandi og aðstoðaði m.a. við rekstur fyrirtækis Heimis. Síðar fór hún aftur til starfa í 18 ár hjá Heilsugæslu Kópavogs, þar af síðustu árin sem skólahjúkrunarkona í Digranesskóla í Kópavogi.

Lísa var jákvæð og æðrulaus kona. Hún vann sín störf hvort sem var heima eða við hjúkrun af alúð og gleði. Heimir var oft fjarri heimilinu vegna starfa sinna og gat verið kominn út á land allt í einu með kranann og kom ekki fyrr en eftir einhverja daga. Aldrei hafði hún áhyggjur af honum en stóð sínar vaktir og vissi að lífið héldi áfram og væri í góðum höndum.

Hún hafði yndi af útiveru og fór víða með Heimi og börnunum, oft í Þórsmörk. Þangað fóru þau 8 ár í röð og oft og tíðum við önnur tækifæri. Þar naut hún þess að ganga um í ægifagurri náttúrunni. Þau voru þar oftast í byrjun júlí þegar birtan er hvað mest.

Meðan hún var ung vann móðir hennar utan heimilis og hún gætti bróður síns löngum stundum og fór með hann víða. Þau bjuggu þá í Norðurmýrinni en fluttu svo í Kópavoginn.

Hún var dugmikil og kröftur stúlka sem gaf strákunum ekkert eftir og þegar hún var orðin fullorðin tók hún oft til hendinni í fyrirtæki Heimis og Lárusar, ók um á pick-up, snaraði sér út og hengdi bómustykki aftan í bílinn á kerru og skutlaðist með bómuna út og suður eftir því hvar þeir bræður voru með kranana. Hún tók virkan þátt í uppbyggingu fyrirtækis bræðranna og lagði sitt af mörkum.

Hún var geðgóð að eðlifari, átti auðvelt með að læra, tók landspróf sem unglingur með góðum árangri og stundaði hjúkrunarnámið af áhuga og gleði. Hún var í íþróttum á sínum yngri árum, lék handbolta með Breiðabliki og stundaði sund af kappi.

Lísa var barngóð og bræðrabörn Heimis, börn Lárusar, litu á hana sem ömmu og Heimi sem afa. Hún hafði góða nærveru, var hlý manneskja eins og sést í svip hennar á myndunum í sálmaskránni.

Barnabörnin voru henni náin . . .  [Innskot úr bréfi sonardóttur sem ekki er í textanum en er á hljóðupptökunni]

Sem skólahjúkka var hún þekkt af öllum börnunum sem mörg kölluðu hans ömmu Lísu.

Margir fullorðnir leituðu til hennar í gegnum tíðna til að fá hjúkrun og aðstoð.

Heimilið var gestkvæmt og þegar þau bjuggu á Kársnesbrautinni var alltaf nóg að gera enda bjuggu skyldmenni þeirra hjóna beggja við sömu götu, foreldrar Heimis í næsta húsi og foreldrar Lísu einnig nærri. Hjá fólki beggja var mikill gestagangur enda var móðir Lísu ein 12 systkina og svo var einnig ein fóstursysir í hópnum. Móðir Heimis kom úr hópi 13 systkina, 11 bræðra og 2ja systra.

Lísa þurfti alltaf að hafa fólk í kringum sig. Þannig leið henni best. Hún var gestrisin og fólki þótti gott að koma til henna. Hún var elskuð og virt af öllum.

Hún tók tengdadætrum sínum vel og tengdist þeim vináttuböndum, kenndi þeim margt og var þeim góð fyrirmynd á margan hátt eins og strákunum líka sem hún innrætti að vera duglegir, læra og læra, klára skóla og standa sig í lífinu.

Hún var einkar hrekklaus manneskja, sannsögul og hreinskiptin. Á milli þeirra hjóna var í senn djúp ást og virðing.

En svo koma að því að þessi kona sem sífellt var að þjóna og hjúkra öðrum þurfti sjálf umönnunar við. Hún var með Alzheimer-sjúkdóm sem greindist fyrir 13 árum. Hún var í tvö og hálft ár á Sólvangi og naut þar góðrar umönnunar en áður var hún í umsjá Heimis sem sinnti henni af mikilli alúð og elsku. Hjúkrunarfólk og starfsfólk á Sólvagni hafði oft orð á því hversu blíð hún væri og góður sjúklingur. Hún þekkti sitt nánasta fólk þrátt fyrir erfiðan sjúkdóm en skammtímaminnið var stopult og hvarf að mestu undir lokin. Hún spurði stundum um foreldra sína eins og þau væru enn á lífi. Hún gladdist þegar fólk kom í heimsókn og þakkar Heimir sérstaklega mági sínum Sigurður Gils fyrir stuðninginn og heimsóknirnar allar. Ennfremur vill Heimir þakka bróðurdóttur sinni, Söndru Lárusdóttur, sérstaklega fyrir umhyggju hennar í veikindum Lísu.

Ég flyt ykkur hlýja kveðju að norðan frá Margréti Bjartmarsdóttur og Sveini Egilssyni á Sandhólum með þakklæti fyrir allt.

Sumarbústaður þeirra hjóna fyrir austan fjall, við Hvítá undir Hestfjalli, var þeirra sælureitur. Þar eins og í Kópavoginum nutu þau útsýnis til fjalla og yfir gróið landið.

Þau áttu saman góða daga en ævikvöldið varð þó með örðum hætti en ætlað var. Tilviljanir eru margar í lífinu og handleiðsla einnig. Heimir var alla tíð viss um að hún hefði orðið til fyrir hann og send suður til að ganga með honum lífsveginn. Hann heldur því fram að engin kona hefði getað búið með honum nema Lísa.

Tilviljanir eru margar í lífinu, handleiðsla einnig og svo vitum við aldrei hvernig lífið leikur okkur. Erfðir og upplag skiptir miklu og úrvinnslan sömuleiðis. En eitt er víst líkaminn endist ekki að eilífu. Við föllum öll eins og blómin og grösin og hverfum aftur til moldarinnar, til landsins sem ól okkur og nærði.

Og nú er Lísa farin þennan veg allrar veraldar og komin á leiðarenda sem bíður okkar allra.

Tengdamóðir hennar, Kristín Gísladóttir, orti ljóð dag einn í sorg sinni eftir að hafa misst nýfæddan dreng. Ljóiðið ber yfirskriftina Síðasta kveðjan:

Þú kvaddir svo broshýr, svo bjartur og fríður

og brosið var einlægt og svipurinn blíður.

Nú síðustu kveðjuna hef ég í huga

en helþunga sorgin nær ástvini buga.

En tíminn hann líður og læknar öll sárin

þó langt sé að bíða og mörg falli tárin

þá Guð er til hjálpar er hjartanu blæðir

og huggar og líknar, og sárin hann græðir.

Gott er að mega treysta hjálp Guðs sem birtist í Jesú Kristi, jólabarninu, sem óx úr grasi og læknaði og líknaði samferðafólki sínu. Hann lifir upprisinn eftir að hafa lagt dauðann að velli, síðasta og versta óvin mannsins. Við erum fólkið hans og tilheyrum honum í lífi og dauða. Lærum að meta það sem jólin færa okkur, jesúbarnið og hinn starfandi Kristur á jarðvistardögum sínum.

Við þökkum hér í dag fyrir allt sem Sigurlaug Elísa Björgvinsdóttir var í lífi sínu og störfum, þökkum framlag hennar til lífsins og þjóðfélagsins.

Blessuð sé minning hennar og Guð blessi þig.

Amen.

Dýrð sé Guði . . .

Tilkynna:

Líkfylgd og jarðsetningu

Erfi . .

Ræðan birt . .

Postulleg blessun: Guð vonarinnar . . .

Ritningarlestrar:

1. Korintubréf 13

1 Þótt ég talaði tungum manna og engla,
en hefði ekki kærleika,
væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.
2 Og þótt ég hefði spádómsgáfu
og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking,
og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað,
en hefði ekki kærleika,
væri ég ekki neitt.
[. . . ]
4 Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður.
Kærleikurinn öfundar ekki.
Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.
5 Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin,
hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.
6 Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum.
7 Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.

           [. . . ]

8 Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.
13 En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt,
en þeirra er kærleikurinn mestur.

Jóhannes 6

37Allt sem faðirinn gefur mér, mun koma til mín, og þann sem kemur til mín, mun ég alls eigi brott reka. 38Ég er stiginn niður af himni, ekki til að gjöra vilja minn, heldur vilja þess, er sendi mig. 39En sá er vilji þess, sem sendi mig, að ég glati engu af öllu því, sem hann hefur gefið mér, heldur reisi það upp á efsta degi. 40Því sá er vilji föður míns, að hver sem sér soninn og trúir á hann, hafi eilíft líf, og ég mun reisa hann upp á efsta degi.“

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.