María Finnbogadóttir 1914-2013

mariafinnbogadottirÖrn Bárður Jónsson

Minningarorð

María Finnbogadóttir

1914-2013

húsmóðir og fv. kaupkona

Útför frá Fossvogskapellu

föstudaginn 20. desember 2013 kl. 15

Jarðsett í Fossvogskirkjugarði.

Ræðuna geturðu hlustað á og lesið hér fyrir neðan.

Friður Guðs sé með ykkur.

Lífið er vegferð og „tilvera okkar er undarlegt ferðalag“, segir í þekktu kvæði. Á ferðalögum eru áningarstaðir og biðstöðvar þar sem fólk safnast saman. Það er sérstök upplifum að vera á biðstöð í útlöndum þar sem fólk biður eftir vagni eða lest. Fólk er hvert með sínu móti. Sumir ferðalangar lesa í bók, aðrir góna í gemsann, einn gengur um og skoðar pallinn, annar situr og virðist sofa, einn stendur við gluggann og horfir út. Hjá sumum má greina gleði sem kemur fram í augnkrókum og gluggum sálar, aðrir eru þungbúnir og áhyggjufullir. Og svo er það fólkið sem stundum er með ferðalöngum, fólkið sem er að kveðja. Við þurfum oft að bíða og nú erum við á krossgötum og erum að kveðja. María er á förum til nýrrar tilveru en við förum til baka út í dimmuna sem jólaljósin rembast við að lýsa upp. En svo kemur að því að við verðum ferðbúin og fólk kemur saman til að kveðja þig og mig. Lífið er krossgötur, lífið er biðstöð.

María fæddist  í Reykjavík 24. apríl 1914. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Seljahlíð 14. desember 2013.

Foreldrar hennar voru Þuríður Guðjónsdóttir f. 28. júní 1888 d. 15. mars 1988 og Finnbogi Sigurðsson f. 21. ágúst 1873 d. 4. mars 1936.

María var elst 5 systkina og þau eru: Sigurður Kristján Finnbogason f. 1920 d. 1946, Guðrún Finnbogadóttir f. 1924,  Guðjón Finnbogason f. 1927,  Pálmi Finnbogason f. 1931.

Árið 1914 var sérstakt og meitlað í sögu Evrópu sem myrkar rúnir væru því það ár 28. júlí hófst heimstyrjöldin fyrri. María vissi nú lítið um það enda rétt orðin 3ja mánaða. En úti í hinum stóra heimi bárust menn á banaspjót og héldu út við þá vondu iðju í 4 ár.

Árið 1918 hófst ekki með neinum gleðitíðindum á Íslandi því frostaveturinn mikli herjaði á fólk fyrstu mánuðina með miklum frosthörkum. Í júlí barst svo spænska veikin til landsins sem felldi fólk unnvörpum. Af 15 þúsund íbúum Reykjavíkur veiktust 10 þúsund eða 2/3. Einna merkast má telja, að hér tókst að einangra stóran hluta landsins (40% íbúa), en það er einsdæmi þegar heil þjóð á í hlut. Árið 1918 var Ísland bændasamfélag en nálægt 60% af 91.633 íbúum landsins bjuggu í dreifbýli og hin 40% í þéttbýliskjörnum. Fyrsta bylgja inflúensunnar barst í júlí 1918, en einkenni veikinnar voru yfirleitt væg. Önnur bylgja inflúensu barst til landsins dagana 19. og 20. október með skipverjum á Botníu og Willemoes. Talið er að 484 Íslendingar hafi látist af veikinni.

En 1918 er líka fagnaðarár í sögu Íslendinga því 1. desember það ár öðluðumst við fullveldi og svo lauk heimsstyrjöldinni.

Ég rek þetta hér til að sýna hvernig heim María fæddist inn í og ólst upp í. Svo kom kreppan árið 1930 og allt gerðist þetta á fyrstu áratugum ævi hennar. Hún lifið af í hörðum heimi og náði háum aldri eins og raun ber vitni. Hún var hraust kona og af sterkum stofnum.

Hún var eins og annað ungt fólk, fór út að skemmta sér í borginni og nágrenni. Hún rifjaði það stundum upp með börnum sínum að farið var fótgangandi á ball í Hafnarfirði og gengið báðar leiðir og þótt ekkert tiltökumál. Ætli það taki ekki svona 3 tíma að ganga hvora leið!

Og eins og vera ber vitjaði ástin hennar í lífinu. María giftist 28. desember 1940, Sigurði Kristjáni Sigurbjörnssyni f. 12. nóvember 1903, d. 27. september 1989.

Þau voru ólík hjón en unnu vel saman. Stundum er það einmitt þannig að ólíkt fólk á best saman. Þau eignuðust 3 börn sem eru:

1) Hákon Sigurðsson f. 20.09.1942, kvæntur Katrínu Hlíf Guðjónsdóttur f. 13. júní 1945. Dóttir þeirra er Margrét Sif Hákonardóttir f. 9.3.1968, börn hennar og Þórs Ómars Jónssonar f. 5. nóvember 1967, eru, Thelma Hlíf Þórsdóttir f. 28. október 1995, og Jón Hákon Þórsson f. 16. október 2001.

2) Björg Sigurðardóttir 12. desember 1943, eiginmaður hennar Huldar Smári Ásmundsson f. 31. mars 1938 d. 9. október 1979 langt um aldur fram. Börn þeirra eru: Sigvarður Ari Huldarsson f. 16. apríl 1965,

Hróðný María Huldarsdóttir f. 12. júní 1966, eiginmaður hennar Sverrir Guðmundsson f. 21. janúar 1967, börn,  Arnór Smári Sverrisson f. 5. september 1996, Arna Björg 20. október 2008,  og yngst barna Bjargar og Huldars Smára er

Eðna Hallfríður Huldarsdóttir f. 1. apríl 1975.

3) Sigríður Sigurðardóttir 30. mars 1950, d. 26. janúar 2012. Eiginmaður hennar Haukur Viggósson f. 14. júní 1951, lifir hana og er kvæntur á ný. Börn þeirra eru:

Finnbogi Már Hauksson f. 11. maí 1971, dóttir hans María Finnbogadóttir f. 7. júlí 2000,

Jóhann Steinar Hauksson f. 3. nóvember 1974 og

Una Ragnheiður Hauksdóttir f. 7. mars 1979,  barn hennar er Haukur Viggó Unuson f. 2. apríl 2013.

Haukur, Finnbogi, María Finnbogadóttir, yngri, Una Ragnheiður og Haukur Viggó, sem eru í Svíþjóð, senda ykkur öllum sínar bestu kveðjur með þessum orðum:  „Hvíldu í friði elsku tengdamamma, amma og langamma.“

María fæddist á Vesturgötunni í Reykjavík en fólkið hennar flutti á Bjargarstíg þegar hún var 2ja ára. Faðir hennar vann við Kolakranann sem var mikið og merkt tæki í atvinnusögu borgarinnar en vinna var stopul svo þau fluttu upp á Akranes þegar María var 12 ára. Hún fermdist þar og gekk í skóla en 16 ára var hún komin aftur til Reykjavíkur. Hún hafði verið í vist um tíma sem var algegnt starf ungra kvenna á þeim árum en svo starfaði hún á saumastofu sem reyndist þessari vandvirku og högu konu góður skóli.

Henni líkaði aldrei vel á Skaganum, fannst samfélagið þar þröngt og skrýtið á köflum sem kom m.a. fram í því að þar höfðu flestir viðurnefni og voru jafnvel einnig uppnefndir.

[Hér er alls ekki verið að halla á Akurnesinga heldur var þetta upplifun unglingsstúlku sem kunni ekki við sig þar. Skagmenn eru besta fólk!]

María vann við veitingarekstur fyrstu hjúskaparárin með eiginmanni sínum. Þau ráku matsölu á Rauðarárstíg á stríðsárunum og þar komu margir til að næra sig. Frá 1955 ráku þau Biðskýlið við Kópavogsbraut 115, sem nú er ein af sjálfsafgreiðslustöðvum Atlantsolíu.

María var fremur feimin og ómannblendin meðan Sigurður gat talað við alla og spjallað. Hún tranaði sér ekki fram en vann sín verk af trúmennsku. Hún hafði jafnan sína skoðun á hlutunum og lét hana í ljósi við eiginmann og börn. Hún studdi börnin sín í öllu góðu, var umburðarlynd og kærleiksrík móðir. Þegar barnabörnin komu eitt af öðru fengu þau hvert fyrir sig óskipta athygli ömmu sinnar sem alltaf var til í að tala við þau um allt milli himins og jarðar, hvort sem það var um mótorhjól eða matreiðslu. Finnbogi Már var mikið hjá henni sem drengur. Hún lifði fyrir fjölskylduna og var sívinnandi.

Þau Sigurður byggðu sér hús í Blönduhlíðinni. Hann var sjómaður fyrstu starfsárin en fótbrotnaði illa á sjó. Brotið greri ekki rétt saman og það varð honum fjötur um fót allar götur síðan. En hann lét það ekki stöðva sig. Hann var alltaf að framkvæma eitthvað. Meðan húsið í Blönduhlíðinni reis voru þau eitt sumar í bústað í Árbænum en bjuggu svo í bílskúr í næsta húsi við það sem þau voru að byggja. Sigurður byggði 11 hús um ævina. Svo koma að því að þau fengu rekstrarleyfi fyrir biðskýlinu í Kópavogi en því fylgdu þær kvaðir að þar væri kaffi- og salernisaðstaða handa bílstórum Strætisvagna Kópavogs. Þau byggðu skýlið árið 1955 og ráku það til 1973. Þau bjuggu í Melgerði 13, Kópavogsbraut 106 og 113 en sjoppan, eins og gjarnan var talað um reksturinn, var á númer 115.

Sigurður sá um reksturinn og hún afgreiddi ásamt honum og öðrum. Þau seldu reksturinn 1973 og leigðu húsnæðið.

Hennar hugur var ætíð hjá börnunum. Hagur þeirra var fyrir öllu. Umhyggjan var henni blóð borin. Hún þekkti fátt annað en að vinna og frídagar voru ekki margir hjá þeim hjónum. Venjan var að loka sjoppunni í 4 daga á ári og einu sinni er þau fóru til Parísar í heimsókn til Bjargar og Huldars sá Konni um sjoppuna um hríð svo þau gætu verið úti ögn lengur og notið lífsins.

Björg segir mömmu hafa verið besta ferðafélaga í útlöndum sem hún þekkti.

Þau systkinin skorti aldrei neitt og bjuggu við öryggi góðra foreldra. María var glaðlynd og ánægð með sitt hlutskipti. Hún var flink í höndunum, saumaði allt á börnin meðan þau voru ung. Konni man hvað honum leiddist að máta fötin sem mamma var að sauma en hún lét hann standa upp á stól meðan hún mátaði á hann, klippti til og kringdi um hálsmálið en þá strukust köld skærin við hálsinn á stráksa og það fannst honum ekki gott. Hún saumaði margt á sjálfa sig. Keypti stundum föt sem pössuðu ekki alveg hennar vaxtarlagi en tók þau upp eins og það heitir og gerði þau úr garði eins og þau væru klæðskerasaumuð á hana. Þannig hafði hún lært að bjarga sér alla tíð.

Dótturdóttir hennar skrifaði upp eftir henni einkunnarorð sem María heitin geymdi á miða í náttborði sínu:

Að endingu standa sig

þeir einir sem vanda sig.

Frá upphafi í því

sem er innan handar

að standa sig.

Þau María og Sigurður fóru að hafa það gott með árunum þegar veltan jókst í sjoppunni en eftir að þau seldu var Sigurður oft í kringum Konna sem rak verslun um tíma í Hafnarfirði. Sigurður vann mikið fyrir börnin sín öll, smíðaði fyrir þau og var sífellt að dytta að einhverju. En þrátt fyrir betri kjör þeirra hjóna vann María ætíð eins og hún hefði hin fyrri kjör. Þannig var nú varfærni hennar og viska. Líklega væri betur komið fyrir okkur sem þjóð ef við hefðum tileinkað okkur hagfræði hennar.

Hún hafði yndi af að ferðast og fór t.a.m. ein til Svíþjóðar á sínum tíma til Sigríðar og kláraði sig vel í því ferðalagi öllu. Síðustu ferðina þangað fór hún 95 ára til að styðja Siggu í veikindum hennar. Alltaf var hún að þjóna, styðja og styrkja sitt fólk. Þegar hún var ung missti hún föður sinn. Þá voru kjörin bág, mamma vann í fiski upp á Skaga 6 daga vikunnar og María fór reglulega uppeftir til að heimsækja hana og vera henni til huggunar og aðstoðar.

Liðin öld var merkileg fyrir margra hluta sakir. María lifði miklar þjóðfélagsbreytingar og tæknibyltingar. Umhverfið breytist en mannfólkið ekki. Sálarlífið er eins og það hefur verið í þúsund ár og miklu lengur. Við gleðjumst og elskum, finnum til, söknum og syrgjum eins og fólk hefur ætíð gert.

Lífið er verkefni. Við höfðum ekkert um það að segja að við urðum til. Við eigum þetta líf aðeins einu sinni og verðum að komast af og klára okkur meðan dagur er. Til að skilja þetta líf og hið stóra samhengi verðum við að gefa okkur tíma til að rýna í rúnir lífsins og leyndardóma þess. Trúin á Guð er mörgum mikilvægur þáttur í þeim efnum. María átti sína trú og hún fór oft í kirkju. Hún sótti t.a.m. Grensáskirkju á árunum sem þau bjuggu í Hvassaleitinu. Þá starfaði ég sem djákni í þeim söfnuði. Seinna seldi ég Konna vörur sem heildsali en kynntist honum svo síðar í Golfklúbbi Kópavogs og Garðbæjar. Í örfá skipti kom ég í biðskýlið fremst á Kársnesinu til að taka bensín og kaupa nammi en vissi ekkert um að ég ætti eftir að tengjast þessu fólki síðar. Svona er nú lífið í biðskýlinu Jörð. Þar er margt fólk á ferð. Einn ætlar þangað en annar stefnir á allt annan stað. Við erum ferðalangar og spurningin er hvort við rötum hinn rétta veg?

Senn koma jól þegar við fögnum merkustu persónu mannkynssögunnar, barninu sem fæddist í Betlehem, óx upp og dafnaði í Nasaret og breytti veröldinni með innsæi sínu og djúpri visku. Kristur hefur markað spor í sögu þessa heims með afgerandi hætti. Þau sem trúa á hann eru stærsti hópur tiltekinnar trúar í heiminum. Kristnin telst fjölmennust allra trúarbragða og hin kristnu lönd eru þau sem allur heimur vill innst inni líkjast því þar eru mannréttindi best tryggð, lífskjörin best og hugsunin opnust. Hyggjum að því þegar við höldum jól. Við getum tekið okkur far hingað og þangað og aðhyllst allskonar hugmyndafræði en sú sem Kristur boðaði og kirkjan heldur á lofti er í innsta kjarna trú á kærleiksríkan Guð, miskunn hans, fyrirgefningu og frið í samskiptum manna. Jesús sagðist vera vegurinn, sannleikurinn og lífið. Í biðskýli lífsins þar sem við horfum á leiðarkortið er víst að með því að velja veginn hans stefnum við í góða átt.

Guð blessi minningu Maríu Finnbogadóttur og blessi þig og okkur öll á krossgötum lífsins nú og síðar.

Gleðileg jól og megi nýtt ár færa okkur gleði og frið og hæfilega velmegun.

Amen.

Tilkynningar:

Jarðsetning . . .

Erfi . . .

Ræðan birt . . .

Postulleg kveðja: Guð vonarinnar . . .

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.