Ingrid Sigfússon 1909-2013

ingridÖrn Bárður Jónsson

Minningarorð

Ingrid Sigfússon

húsmóðir og kaupkona

í Vestmannaeyjum

Útför frá Fossvogskapellu

fimmtudaginn 19. desember kl. 13

Jarðsett verður í Vestmannaeyjum að bálför lokinni.

Ritningarlestrar:

I Kor. 13 Ljóð Páls postula um kærleikann.

Matt 5.1-16 Sæluboðin, salt og ljós.

Þú getur hlustað á ræðuna og lesið hér fyrir neðan.

Friður Guðs sé með ykkur.

Ég fór í göngutúr í gærkvöld. Það marraði í snjónum á stígnum sem liggur um hraunið meðfram lygnum vogi. Tugir álfta voru þar í samræðum þegar ég fór út og þegar ég kom til baka kúrðu þær með höfuð undir væng. Tunglið var fullt og lýsti skærar en allar jólaskreytingarnar. Landið okkar er undursamlegt, ótrúlega fagurt og hver árstíð hefur sína töfra. Ísland er eldfjallaeyja og suður af landinu er Heimaey eins og smækkuð mynd af fastalandinu. Eldfjöllin hafa verið ógnandi fyrir þessa þjóð í rás sögunnar en svo hafa vísindin sýnt fram á að án eldsumbrota á yfirborði jarðar og í sjó væri ekkert líf á þessari jörð. Við erum börn þessa heims, mynduð af eldi í iðrum jarðar, af vatni og súrefni. Við erum af þessari jörð og hverfum aftur til jarðar. Undursamleg hringrás, hrífandi heimur og mögnuð menning.

Og mitt í þessu undri öllu leitar manneskjan merkingar og svara á gátum lífsins. Í leitinni að samhengi segir manneskjan sögur, sögur af sér og heiminum. Skáldskapurinn er grunnur alls, hæfileikinn til að sjá út fyrir rammann, að ferðast um heim og geim og hverfa á vit ævintýra og goðsagna. Sögur tengja okkur hvert öðru, þær skemmta, þær upplýsa og þær geyma leyndardóma um leið. Allar sögur eru í raun fjölskyldusögur, sögur af okkur sjálfum og fólkinu okkar, sögur af þjóð, sögur af heiminum sem er bústaður einnar stórrar fjölskyldi, mannkynsins alls. Íslendingar eru sögufólk og sögurnar okkar gömlu eru einstakar. Og enn segjum við sögur.

Í dag rifjum við upp sögu konu sem kvatt hefur þessa jarðvist. Nei, ekki þessa jarðvist heldur hið mennska líf. Hún mun áfram gista þessa jörð en með öðrum hætti en áður. Tilvist hennar hefur breyst. Nú lifir hún í huga ykkar, ástvina hennar, lifir í minningum ykkar og sögum.

Ég fékk í hendur afar góðan texta um hana og fólkið hennar, umhverfið þar sem hún lifði og dó og ég mun flytja hér brot úr þessari sögu einstakrar konu. En fyrst þetta.

Ingrid Sigfússon sem við kveðjum hér í dag lifði tímana tvenna og þurfti að glíma við margt um dagana. Hún varð, ung að aldri, að aðlagast nýju landi og fólki, komast af í mun harðara umhverfi en hún átti að venjast í sínu heimalandi, glíma við erfitt tungumál og svo varð hún fyrir sárum missi er eiginmaðurinn féll frá og hún stóð eftir ein með börnin. Þetta voru erfiðir dagar og víst þykir manni það óréttlátt þegar börn missa foreldri og fara á mis við það sem öllum þykir sjálfsagt. En svo er á hitt að líta að ekkert í þessu lífi er í sjálfsagt. Við höfum engin loforð fyrir langlífi eða ævi án áfalla. Síðar á ævinni missti hún Þorstein son sinn í blóma lífsins. Það var sár missir fjölskyldu og vina.

Þetta líf er hættuspil og þess vegna er andartakið ætíð dýrmætt og hver dagur sem gersemi.

Ingrid vare fínlega og fallega kona sem var sterk í sínum nettleika. Ef til vill má líkja henni við puntstráið í sögunni um stráið og eikina. Þau uxu bæði upp í gleði daganna meðan sólin skein. Eikin þótti tilkomumikil en stráið átti engan samjöfnuð við þá miklu krónu sem eikin bar. En svo kom stormurinn ægilegi. Eikin brast og brotnaði en puntstráið svignaði í veðurofsanum og reis svo upp aftur þegar veðrinu slotaði og lifði áfram bæði bjarta og dimma daga.

Ingrid var sönn móðir, segja börnin hennar, sem dáðu hana alla tíð fyrir kærleika hennar og þrautseigju.

Hér koma textabrot eftir Helga Bernódusson sem unnin var í samvinnu við Herstein:

Hún var fædd 8. ágúst 1909 í Maribo á Lálandi í Danmörku. Faðir hennar var íslenskur, Guðmann Vigfús Einarsson (1878-1972), lengst af kaupmaður, en hann átti danska konu, (Hildi) Valborgu, fædda Pedersen (1882-1985). Hún var auk húsmóðurstarfa lærður ljósmyndari. Guðmann Vigfús var af Héraði, en fór utan aðeins 15 ára gamall. Tvö systkina hans fóru vestur um haf, en bróðir hans, Karl Einarsson lögfræðingur (1872-1970), kom mjög við sögu í Vestmannaeyjum, var bæjarfógeti 1910-1924. Mestan hluta þess tíma var Karl jafnframt alþingismaður Vestmanneyinga og lét að sér kveða.

Ingrid átti fimm systkini. Óvenjulegt er að fjögur af sex börnum Guðmanns Vigfúsar og Valborgar, sem öll eru fædd í Danmörku og alin þar upp, fluttust til Íslands og bjuggu þar.

Elst barnanna var Irene Bundgaard, f. 1904, önnur Edel Einarsson hjúkrunarfræðingur, f. 1907, en hún var gift Ágústi Einarssyni kaupfélagsstjóra (föður Einars utanríkisráðherra) og bjó í Eyjum um og eftir 1960; meðal barna þeirra var Atli „danski“; laglegur söngvari með hljómsveitum í Eyjum á sinni tíð og margir muna eftir. Ingrid var þriðja í röðinni, en fjórða systkinið var Bjarni, f. 1911 („Bjarni í Brynjúlfsbúð“), fimmta (Oda) Hildur Árnason, f. 1913, húsfreyja á Vestur-Sámsstöðum í Fljótshlíð, gift Sigurði Árnasyni bónda þar; frá þeim er margt manna. Yngst var Ingibjörg Erud, f. 1917, myndlistarmaður í Danmörku.

Fjölskyldan bjó fyrst í Maribo þar sem flest barnanna fæddust. Í nokkur ár voru þau herragarðseigendur í Louisenlund á eyjunni Endelave í Kattegat en eftir það fluttist fjölskyldan til Bramminge á Suðvestur-Jótlandi þar sem þau hjón ráku nýlenduvöruverslun og þar var Guðmann Vigfús einnig byggingarverktaki. Þau bjuggu lengst af við góð efni.

Ingrid lærði ljósmyndun í Danmörku og starfaði við þá iðn á ljósmyndastofu þar til hún giftist Brynjólfi Sigfússyni. Ingrid og systur hennar komu til Íslands 1930 til að heimsækja ættland föður þeirra og vera á Alþingishátíðinni á Þingvöllum. Þar voru þær í fylgd Karls, föðurbróður síns. Þar voru líka Brynjólfur og kórfélagar hans, en Karl og Brynjólfur þekktust vel eftir löng kynni í Eyjum. Á Þingvöllum hófust kynni þeirra Brynjólfs og Ingrid, þau felldu hug saman og giftu sig í Bramminge, heimabæ Ingrid, 11. júní 1933. Þeim bárust mörg heillaskeyti frá Vestmannaeyjum (sem eru öll varðveitt).

Það voru mikil viðbrigði fyrir Ingrid að flytjast frá Danmörku og setjast að í Vestmannaeyum; það vantaði ýmislegt, en bagalegastur var vatnsskorturinn. Hann lagaðist ekki fyrr en eftir að Ingrid flutti brott. Ingrid studdi mann sinn í tónlistinni og söng m.a. í Vestmannakórnum undir hans stjórn.

Þau Brynjólfur eignuðust fjögur börn á árunum 1936-1947; hið yngsta var aðeins þriggja ára þegar Brynjólfur dó í febrúar 1951.

[. . . ]

Aðalsteinn er elstur, fæddur 1936. Hann er málari að iðn, en var við verslunarstörf lengi. Aðalsteinn erfði tónlistargáfur föður síns og margir muna hann sem bassaleikara í hljómsveit Guðjóns Pálssonar. Hann var áður giftur Grétu Stefánsdóttur frá Siglufirði. Hann fluttist til Danmerkur um 1970, stundar hljóðfæraleik, á danska konu og börn þar. Aðalsteinn komst ekki hingað í dag og ég flyt hér kveðju hans.

Bryndís, fædd 1941. Hún var sem ung stúlka á símanum í Eyjum og í Útvegsbankanum en fluttist til Reykjavíkur og vann lengi í banka þar. Bryndís er ekkja, á tvö börn. Maður hennar var Ísak Örn Hringsson bankagjaldkeri.

Hersteinn er fæddur 1945. Hann nam fyrst safnafræði í Flórens á Ítalíu, en síðar forvörslu handrita í Bretlandi og vinnur nú hjá Stofnun Árna Magnússonar í Reykjavík. Kona hans er Agnes Aðalgeirsdóttir ferðafræðingur; þau eiga einn son.

Þorsteinn var yngstur, fæddur 1947. Hann lést fyrir aldur fram, 52 ára gamall, árið 2000. Þorsteinn var viðskiptafræðingur að mennt, kvæntur Sigríði Ingibjörgu Magnúsdóttur flugfreyju; þau eignuðust tvö börn.

Aðalsteinn vann lengst í Brynjólfsbúð en Bryndís var þar líka um tíma, og Hersteinn og Þorsteinn gripu í afgreiðslustörf þegar tími gafst til.

[. . . ]

Brynjúlfsbúð, − já með ú-i, − er mörgum Vestmanneyingum í fersku minni. Einkum þeim sem uxu úr grasi um miðja síðustu öld og eru nú komnir yfir miðjan aldur. Margir þeirra lifa að hálfu í fortíðinni fyrir gos og tala og skrifa um veröldina eins og hún var þá. Eldgosið í janúar 1973 markar mikil skil í sögu Vestmannaeyja; frá þeim tímapunkti breyttist allt. Hið gamla samfélag var tætt í sundur og hús, vegir, tún og mannvirki eyðilögðust eða eru horfin undir storkið hraun.

Brynjúlfsbúð stóð við þau gatnamót sem ótvírætt voru miðpunktur kaupstaðarins, mót Kirkjuvegar og Vestmannabrautar, líflegustu krossgötur bæjarins. Þar var Samkomuhúsið, með svalir fyrir ofan aðaldyr þar sem tignir gestir ávörpuðu bæjarbúa á hátíðarstundum, Bankinn, með bæjarskrifstofurnar á 2. hæð, Pósthúsið og svo í næsta nágrenni Einar Guttormsson læknir með stofu sína, Skóbúðin, Apótekið, Vogsa-bakarí, Bókabúðin o.fl. Ekki langt undan Hressingarskálinn og Einar rakari.

[. . . ]

Þegar Brynjólfur lést í febrúarlok 1951 eftir ströng og löng veikindi tók Ingrid, ekkja hans, alfarið við rekstrinum og stóð fyrir honum alveg fram til 1966 með aðstoð bróður síns, Bjarna. Þá fluttist hún og börn hennar til Reykjavíkur en Kristinn Jónsson, síldarspekúlant frá Eskifirði, með fullar hendur fjár, keypti húsið með ráði vinar síns, Guðna B. Guðnasonar kaupfélagsstjóra. Kristinn var bróðir Alla ríka og hálfbróðir Óla Ísfelds í Samkomuhúsinu. Kaupfélag Vestmannaeyja leigði verslunarplássið og rak búðina áfram. Bjarni Bjarnason, sem lengst af var rakari, varð verslunarstjóri og stóð við skenkinn fram að gosi. Íbúðin á efri hæðum var leigð út. Þar bjuggu ýmsir fram að gosi, t.d. var þar í tvö ár Ingvald Andersen frá Siglufirði, áður á Hótel H.B., en síðar fékk þar inni Sigurður Karlsson, þúsundþjalasmiður; hann rak um tíma Hótel Berg.

[. . . ]

Hér kemur ein lítil saga úr Brynjúlfsbúð:

Jóhanna Jensdóttir, Hanný í Steinholti, síðar í Gvendarhúsi, var stæðileg röskleikakona. Hún afgreiddi í Brynjúlfsbúð, en annaðist síðar þrif. Eitt sinn var Hanný búin að skúra yfir hluta búðarinnar en Bjarni vildi komast inn á kontór. „Ekki stíga í bleytuna“ sagði Hanný höstug, en rétti svo fram hendurnar. Stökk þá Bjarni upp í fang hennar en Hanný bar hann í bóndabeygju á kontórinn. Atvikið, sem lifir í sögum enn í dag, lýsir þeim báðum vel.

[. . . ]

Vestmannaeyjar hafa alið margan tónlistarmanninn. Á fyrri hluta síðustu aldar var Brynjólfur Sigfússon ótvíræður forustumaður í tónlistarlífi Eyjanna, á sama hátt og Oddgeir Kristjánsson var það undir og eftir miðbik aldarinnar. Lög Brynjólfs eru mörg og sum vel þekkt, þar á meðal „þjóðsöngur“ Vestmannaeyja, Sumarmorgunn á Heimaey, við texta Sigurbjörns Sveinssonar („Yndislega eyjan mín …“). Tónlistargáfan lá í ættinni. Sigfús, faðir hans, var organisti kirkjunnar, svo og föðurafi hans, Árni Einarsson. Sr. Brynjólfur á Ofanleiti, móðurafi hans, var líka annálaður hljóðfæraleikari, lék m.a. á fiðlu. Þess má jafnframt geta að Pétur Jónsson óperusöngvari (Árnason), einn sá allra besti, og Brynjólfur Sigfússon voru bræðrasynir.

Segja má að ævi Brynjólfs sé tvískipt: hann er kaupmaður og þannig sér hann fyrir sér, raunar með mjög góðum árangri. Hann verður ágætlega stæður á sinnar tíðar mælikvarða, rekur verslun sína „Brynjúlfsbúð“ í nærri fjóra áratugi, byggir yfir sig og búðina myndarlegt hús þar sem hann býr, nokkru betur en almennt gerðist.

Á hinn bóginn er Brynjólfur tónlistarmaður af lífi og sál. Hæfileikar hans í tónlistinni komu snemma fram. Hann lærir organleik og verður kirkjuorganisti í Landakirkju áratugum saman, en jafnframt því stofnar hann til söngkóra, æfir þá og stjórnar af krafti og metnaði og með góðum árangri. Hann verður forustumaður í tónlistarlífi Vestmannaeyja, skapar um sig áhugahóp sem vinnur saman, ferðast saman og nýtur tónlistar. Samhliða þessum umsvifum semur Brynjólfur tónlist sem sum hver mun lifa um langan aldur.

Brynjólfur Sigfússon var fæddur 1. mars 1885, elsti sonur hjónanna Sigfúsar Árnasonar og Jónínu Brynjólfsdóttur, sem bjuggu á Vestri-Löndum. Hann var skírður í höfuð móðurafa síns, séra Brynjólfs Jónssonar á Ofanleiti. Eftir barnaskólanám og framhaldsskólanám hjá einkakennurum varð hann, aðeins 16 ára að aldri, verslunarmaður og síðar bókhaldari í Bryde-versluninni, Garðsverslun. Þar var Brynjólfur til 1913. Samhliða verslunarstörfunum stundaði Brynjólfur tónlistarnám og orgelspil af kappi, lærði bæði af sjálfum sér og hjá föður sínum. Um tíma er hann í læri hjá Brynjólfi Þorlákssyni dómorganista í Reykjavík.

[. . . ]

Best þekkti kór hans er Vestmannakór, hann er stofnaður sennilega um 1925. Brynjólfur stóð fyrir líflegu starfi kórsins og ferðalögum, t.d. 1941 og 1944. En heilsu Brynjólfs var á þessum tíma tekið að hraka, og þurfti hann t.d. 1946 að fara utan til að leita sér lækninga. Hann kom heim án þess að fá bata, og þraukaði áfram uns hann lést í febrúar 1951.

Brynjólfi var ýmislegt fleira til lista lagt en tónlistin. Hann var íþróttamaður góður, á skautum og í sundi. Dagnýju Þorsteinsdóttur frá Laufási er í barnsminni þegar hann skautaði á Vatnsdalstjörninni, dansaði og fór um á öðrum fæti. Árni símritari segir í nýrri bók að Brynjólfur hafi verið „allgóður“ lundaveiðimaður (í Elliðaey); hann hafi verið „nokkuð skapstór“ en „fljótur til sátta“ og sem kaupmaður „réttsýnn og ábyggilegur“. Fyrst og síðast var hann góður Eyjamaður, vinur vina sinna og traustur félagi.

Útför Brynjólfs fór fram á vegum bæjarstjórnar Vestmannaeyja í þakklætisskyni fyrir framlag hans til menningarlífs í bænum.

[. . . ]

Ingrid Sigfússon, ekkja Brynjólfs Sigfússonar, lést í Reykjavík 8. des. sl. í hárri elli, á 105. aldursári. Hún hafði setið í ekkjudómi í 62 ár.

Hér lýkur þessum langa og góða texta. Stiklað var á mikilli sögu merkra hjóna.

Og hér erum við saman komin til að minnast konu sem lifði margt af því sem hér var rakið. Hún er eftirminnileg þeim er hana þekktu. Börn hennar og tengdadóttir og barnabarn sem til mín komu til að undirbúa þessa kveðjustund sögðu frá því sem þeim fannst hafa einkennt persónu hennar fremur öðru. Þau nefndu móðurhlutverkið sem hún rækti svo vel og af mikill elskusemi. Hún var sönn móðir og amma. Hún hafði gaman af að ferðast en dagarnir til ferðalaga voru nú ekki margir því lífið var vinna og eftir að Brynjólfur dó jókst ábyrðg hennar til muna. Hún var ekki nema 42ja ára er hann lést eftir heilsuleysi sem stóð í nokkur ár. Ferðin sem hún fór til Íslands sem ung kona varð örlagaferð því hún kynntist þá manninum sem hún átti eftir að giftast. Hún lærði að meta hann meir og meir og ástin varð dýpri og innilegri með árunum sem liðu í Eyjum. Meðan hans naut við var hann öllum stundum í búðinni yfir daginn og þegar hún hafði eldað sinn góða hádegismat sló hún í ofninn svo að hljóðið barst niður í búð. Þannig kallaði hún á hann í matinn. Á kvöldin tók svo við tónlistarstarfið.

Ingrid var ætíð fín og flott, segja þau, vel til fara og snyrtileg. Heimili þeirra hjóna var glæsilegt og fá heimili í Vestmannaeyjum sem stóðust samanburð. Þar var hver hlutur á sínum stað og öllu haganlega fyrir komið af lístrænni smekkvísi. Hún bauð gestum jafnan upp á te og brauð sem þótti sérstakt í verstöðinni miklu þar sem víðast hvar var drukkið kaffi og sumstaðar úr þykkum föntum.

Ingrid var „lágvaxin, lekker, lady“ eins og það var orðað í mín eyru. Hún var snillingur í að búa til mat, segir fjölskyldan.

Hún var sterk í sínum fínleika eins og fyrr var sagt, hafði ákveðnar skoðanir, var föst fyrir og lét ekki haggast þegar hún hafði tekið ákvörðun. Hún var nagli innst inni, segja þau, sem hélt ótrauð áfram og gafst aldrei upp. Hún kunni líka að njóta lífsins og þegar árin færðust yfir hana naut hún þess að fara í búðir, út að borða og svo fannst henni gott að fá sér ögn af líkjör í fallegt glas.

Hún var vitur kona og vissi að hverju stefndi með Brynjólf á sínum tíma og sagði við börnin að þau skyldu nota tímann vel með föður sínum. Aðalsteinn var orðinn stálpaður en þó ekki nema 15 ára þegar Brynjólfur féll frá. Bryndís var 10 ár, Hersteinn á sjötta ári og Þorsteinn á fjórða ári. Það er erfið reynsla fyrir börn að missa foreldri í bernsku og Þorsteinn heitinn var sá eini sem átti fáar ef nokkrar minningar um föður sinn. Hann saknaði þess oft og spurði Herstein gjarnan um pabba, einkum þegar brjóstbirta mýkti sálina. Svona getur lífið nú verið grimmt á köflum og óréttlátt. En hvað getum við sagt við því? Dauðinn spyr ekki um fjölskylduaðstæður, kjör fólks, gæfu eða gjörvileika.

Ingrid virkjaði börnin, kenndi þeim að vinna heima, skipta með sér verkum, bera ábyrgð og hjálpast að. Þau lærðu öll að bjarga sér og komust vel til manns.

Þegar börnin máttu ekki heyra eitthvað sem hún þurfti að ræða við vinkonur sínar þá talaði hún dönsku og auðvitað alltaf þegar dönsku vinkonurnar í Eyjum komu í heimsókn. En þau voru nú orðin sleip í dönskunni og nutu þess að hlusta á vinkonurnar segja frá ýmsu sem gerðist í bæjarlífinu.

Hún hafði góðan húmor og var fyndin í tilsvörum og sagði vel frá.

Ingrid seldi verslunina árið 1966 og futti upp á fastalandið og settist að við Kleppsveg í Reykjavík. Hún starfaði árum saman hjá Halla Þórarins sem var þekktur kaupmaður í borginni, afgreiddi í sjoppunni hans í Lækjargötu og síðan á Suðurlandsbraut.

Hún hafði alla tíð auga fyrir hinum fíngerða og svo fim var hún í höndum að hún prjónaði föt á barbie-dúkkur barnabarnanna og notaði tannstöngla sem prjóna. Hún var afar flink í hannyrðum og oft greip hún í verkefni dótturinnar sem hún var með í handavinnu í skóla og hjálpaði til við að klára og auðvitað fékk Bryndís oftar en ekki 10 í einkunn!

Nú hefur hún lagt frá sér prjónana og ekki koma fleiri listaverk úr hennar höndum. Hún hefur skilað drjúgu dagsverki og verið sér og sínum til sóma á alla lund. Örfáir einstaklingar af hennar kynslóð ná svo háum aldri sem hún gerði. Það er þakkarefni að verða gamall ef heilsan er góð. Hver dagur er gjöf lífsins og til þess fallinn að njóta hans. Við lifum dagana bæði súra og sæta, lærum að sætta okkur við það sem á dagana drífur.

Við höfum ekkert val í aðstæðum lífsins nema það að halda áfram og þrauka, taka mótlætinu sem verkefni. Mér verður hugsað til hins merka manns, Nelsons Mandela, sem minnst er um allan heim um þessar mundir. Hefði hann orðið sá risi sem hann varð ef hann hefði lifað eintóma sæludaga? Mótlætið herðir en getur að vísu líka brotið niður. Kristur bjó fylgjendur sína undir mótlæti og sagði:

„Þetta hef ég talað við yður svo að þér eigið frið í mér. Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“ (Jóh 16.33)

Við erum í sigurliði heimsins. Tilheyrum hinum upprisna sigurvegara. Vorum merkt honum á enni og brjóst í heilagri skírn með tákni upprisunnar. Það sem virtist vera ósigur á Golgata snerist í sigur. Þjáningunni lauk og við tók dýrð himinsins. Allt var það í elsku gert.

„Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf. Guð.“

Jólin boða þetta, að barnið sem fæddist í Betlehem var lausnari heimsins sem kenndi mönnum að elska lífið með nýjum hætti. Postuli hans sagði:

„Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.“

Í trausti til lausnarans og kærleika hans segir trúin – og rýfur þar með hringrás þeirra örlaga sem manninum eru ásköpuð – „af jörðu skaltu aftur upp rísa.“

Við kveðjum hana í dag sem trúði á kærleika Guðs og leitaðist við að lifa í anda hans. Guð blessi minningu Ingrid Sigfússon og geymi hana í himni sínum ásamt þeim sem horfin eru á undan okkur. Saga hennar er að baki en þó ekki alveg því hún  lifir með ykkur. Og svo heldur okkar saga áfram að gerast og á jólum rifjum við upp „mestu sögu allra tíma.“

Guð styrki okkur öll á lífsveginum geymi og gefi okkur gleðileg jól og góða daga í trú, von og kærleika.

Amen.

Ýmsar tilkynningar.

Postulleg kveðja.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.