Arnfríður Felixdóttir 1929-2013

arnfridur felixdottirÖrn Bárður Jónsson

 

Minningarorð

Arnfríður Felixdóttir

1929-2013

húsmóðir og ræstingarkona

Írabakka 20

Útför frá Grafarvogskirkju 13. desember 2013 kl. 13

Ræðuna geturðu hlustað á hér fyrir neðan og lesið, einnig séð sálmaskrá og bréf frá barnabarni/systurdóttur:

Sumrin í Hraunprýði voru yndisleg. Áin niðaði, hrossagaukurinn steypti sér úr háloftunum og hneggjaði með stélfjöðrunum, kettirnir möluðu og hundarnir hvíldu sig í skugganum. Þetta var áður en hálsar og hæðir blánuðu af lúpínu en laxinn stökk í ánni eins og hann hafði gert í mörg þúsund ár og strákarnir sem komu í heiminn upp úr miðri síðustu öld léku sér í mó og mel. Karlinn var á sjó og kom í land með hlutinn sinn en reyndar fór stundum kúfurinn af hlutnum á leiðinni upp í Elliðaárdalinn í leigubíla og eldvatn. Á vetrum var allt með öðrum blæ og erfiðara að komast um fyrir konu með fjóra stráka í heimili og eina stúlku, sem ferðaðist fótgangandi og með strætó til að skúra á kvöldin svo hún ætti fyrir nauðþurftum. Þá var fuglinn farinn til sólarlanda og móinn hljóður en heima voru hundur og köttur og strákarnir og systirin sem alltaf voru eitthvað að bjástra.

Þau kynntust í Þykkvabænum, Fríða og Einar og settust að í Reykjavík.  Hann var fæddur í Borginni en alinn upp í Dölunum. Mikið hefur breyst í borginni frá því þau dróu sig saman, bæði atvinnu- og mannlíf, samgöngur og allt annað. Já, allt hefur breyst – nema manneskjan – hún er og verður eins þótt tækni fleygi fram og símar séu komnir í vasa flestra, símar sem eru í raun tölvur sem eru flóknari og fullkomnari en þær fyrstu sem fylltu heilu herbergin.En hjörtu mannanna slá eins og áður. Ástin er söm og enn grætur fólk ástvini sína. Það hefur ekki breyst í tugþúsund ár. Manneskjan er þannig gerð og hún heldur áfram að skapa og breyta heiminum en á í mesta basli með að breyta sjálfri sér. Enn erum við breiskt fólk og brotið, fólk með vonir og drauma um betra líf og fegurri heim.

Trú, von og kærleikur eru hugtök sem heyra saman. Að trúa á Guð og grunngildin sem henn hefur gefið okkur, vona á betri tíð og elska lífið, heiminn, fólkið og Guð, það er verkefni lífsins.

Arnfríður fæddist 16. júní 1929 á Bala í Þykkvabæ, Rang. Hún lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund við Hringbraut 50, 5. des. 2013.

Foreldrar hennar voru Guðbjörg Guðmundsdóttir húsfreyja í Reykjavík, f. 18. júlí 1908 í Sigluvík V-Landeyjum, Rang., d. 17. feb. 1949, og Felix Helgason verkamaður í Reykjavík, f. 28. sept 1872 á Mel í Þykkvabæ, Rang. d. 5. sept. 1956.

Systkyni Arnfríðar eru: Helgi f. 24 feb. 1933, d. 3.ágúst 2010, Guðmundur f. 3. júlí 1934, d. 1935 og Fjóla f. 5. mars 1945 og lifir hún ein systkin sín.

Arnfríður eða Fríða eins og hún var alltaf kölluð, giftist Einari Baldurssyni sem var f. 17.des. 1917, d. 2. apr. 1995. Foreldrar Einars vonu Baldur Einarsson sjómaður í Reykjavík f. á Ísafirði 11. júní 1891 d. 19. ágúst 1966, og konan hans Guðný Hólm Samúelsdóttir húsmóðir í Reykjavík f. 9. maí 1899 d. 21. ágúst 1931. Seinni kona Baldurs var Hólmfríður Stefanía Ólafsdóttir f. 1890 d. 1965.

 

Synir Fríðu og Einars eru

1. Baldur f. 10. ágúst 1953, kvæntur Steinunni G. Knútsdóttur f. 22. ágúst 1956. Börn þeirra eru a) Guðrún Helga f. 5 mars. 1981, sonur hennar er Daníel Smári f. 25.des. 1999 b) Kjartan f. 15. nóv 1982. Börn Baldurs fyrir hjónaband eru c) Lilja f. 2. júní 1977 og d) Fjóla f. 2. júní 1977.

2. Guðmundur f. 6. ágúst 1955 d. 27. jan. 1974.

3. Samúel f. 1. ágúst 1969, kvæntist Lilju Eggertsdóttur (skilin) dóttir þeirra er Svava Ýr f. 1 ágúst 1996. Sambýliskona hans er Elín Ragnarsdóttir f. 27. júní 1967 dætur þeirra eru Heiða Dís f. 12 des 2002, Ragnheiður Sóley f. 13.maí 2008.

4. Einar f. 17.okt 1971.

 

Einar og Fríða hófu búskap í Reykjavík. Fríða var heimavinnandi meðan strákarnir voru litlir, en vann síðan hin ýmsu verkamannastörf, meðal annars við fiskvinnslu, við heimilishjálp, en lengst af hjá Pósti og síma við ræstingar.

Heima var hún ætíð með eitthvað á prjónunum og af þeim komu kynstrin öll af fatnaði, peysur, sokkar, vettlingar, bolir og buxur. Sjaldan sat hún aðgerðarlaus þessi duglega kona sem ætlaði að klára hvern dag með sóma. Staðfestan var ótrúleg, þrjóskan svo seig, segja strákarnir af gamansemi, að hún hefði getað staðið fyrir framan stein þar til hann hefði orðið að hreyfa sig úr stað. Á heimilinu var einnig yngsta systir hennar, Fjóla sem var aðeins 4 ára er móðir þeirra lést og ól Fríða hana því upp ásamt strákunum sínum. Fjóla var í raun í senn sem dóttir og systir og börnin hennar litu á Fríðu sem ömmu og Einar sem afa. Dætur Fjólu lýsa henni með þessum orðum:

 

„Að koma í heimsókn til ömmu og afa í Hraunprýði var eins og að stíga inn í aðra veröld, maður vissi ekki hvaða ævintýri biðu manns, það var mikið ríkidæmi að eiga þau að. Amma var kannski ekki mikið fyrir að kyssa og knúsa en hún gerði bestu ástarpungana, flatkökurnar og vöfflurnar, að ógleymdu jólahangikjötinu. Hún fór með okkur út að tína kartöflur og rabbarbara og gerði sultu og graut, þannig sýndi hún okkur ást sína og kærleika. Á sunnudögum var svo sannarlega alltaf líf og fjör, fjölskylda, hundarnir Pollý og Kollý, gott með kaffinu, Tinna og Lukku Láka bækur, Andrés Önd í vídeotækinu og yndisleg náttúra. Hafðu þökk fyrir allt, elsku Fríða amma. Þínar Sóley, Guðbjörg og Gyða, dætur Fjólu.“

Sóley biður fyrir kveðju til ykkar allra en hún gat ekki verið viðstödd þessa athöfn þar sem hún er búsett í Damörku. Bréf frá henni mun ég birta á vefnum með ræðunni.

Margar eru minningar ykkar sem kveðjið góða konu.

Húsin Hraunprýði og Fossgil þar sem þau bjuggu áður voru ekki vel einangruð hús og ekki var í þeim hitaveita heldur olíukynding. Þau ofhitnuðu því aldrei og mikill var munurinn að komast í Írabakka 20 þar sem hitaveituvatnið rann og kostaði lítið. Í Hraunprýði varð hún að fara fyrst á fætur og síðust í rúmið og hugsa um að kynda. Hún var eins og konan í ljóði Davíð Stefánssonar hvað kyndinguna varðar:

Ég finn það gegnum svefninn,

að einhver læðist inn

með eldhúslampann sinn,

og veit, að það er konan,

sem kyndir ofninn minn,

sem út með ösku fer

og eld að spónum ber

og yljar upp hjá mér,

læðist út úr stofunni

og lokar á eftir sér.

 

Ljóðið endar á þessum fleygu orðum:

Fáir njóta eldanna,

sem fyrstir kveikja þá.

 

Aldrei kvartaði Fríða yfir kjörum sínum en vann sín verk af dugnaði og seiglu. Hún var föst fyrir og vildi ekki þiggja neina hjálp en standa á eigin fótum og vinna fyrir salti í grautinn. Einar var á sjó lengi vel en vann síðar í byggingarvinnu og við löndun hjá Togaraafgreiðslunni. Hann var duglegur maður og þau voru hvort öðru góð og lífið batnaði bara með árunum. Fríða var bindindismanneskja og Einar nálgaðist þá veröld með árunum, hætti að drekka 1973. Hann var alla tíð ábyrgðarfullur þrátt fyrir óreglu á tímabilum en svo veiktist hann 1975 og heilsu hans hrakaði næstu árin. Hann lést 1995. Einar hafði mikinn áhuga á ættfræði og bóklestri og bar heim bunka af bókum sem hann sótti í Borgarbókasafnið. Rithönd hans var einstaklega fögur og fínleg.

Strákarnir gengu í skóla í Reykjavík, tveir eldri í Austurbæjarskóla og hinir tveir í Breiðholtsskóla. Þeir rifja það upp að oft var fiskur í matinn enda eru þeir hraustir og sterklegir að sjá. En svo kom hamborgaraöldin og þeir vildu fá mömmu til að elda þann tískumat og hún gerði það með tilþrifum og steikti hamborgarana í 15 mínútur á hvorri hlið. Hún var af þeirri kynslóð sem eldaði allt vel og mjög lengi. Kjötið var svo vel eldað að það rann af beinunum. Villikettir og hundar sem ráfuðu inn á yfirráðasvæði Fríðu og Einars fengu alltaf eitthvað og sumir settust að til langframa. Hún bakaði mikið og eftir að frystikystur komu til sögunnar var ein slík keyrð af krafti og fyllt af kjötskrokkum, fiski og  öllu sem vert var að geyma í frosti. Þau ræktuðu kartöflur öll sín ár í dalnum og dugði uppskeran oftast fram á næsta vor. Rabbarbarinn var nýttur og allt sem hægt var að gera sér mat út. Baldur minnist þess að eftir að hann fór að búa kom mamma með fullan poka af sokkum, vettlingum og fleiri flíkum handa fjölskyldunni. Hún reyndist tengdadætrum sínum vel og Steinunn minnist þess sérstaklega hvað hún var henni mikil stoð í veikindum hennar fyrir rúmum 20 árum en þá kom hún reglulega færandi hendi og vann heimilisstörf fyrir fjölskylduna.

Hún hugsaði vel um strákana sína og það var henni mikill missir þegar Guðmundur hvarf 1974. Erfitt var að vita ekki um örlög hans eða hvílustað. Sú óvissa nagaði hana alla tíð og reyndi á. Hvar var drengurinn hennar glæsilegi sem átti framtíðina fyrir sér? Hún þráði svör og saknaði þess að hann hefði ekki fengið kveðjustund eins og við eigum hér í dag og ætti ekki gröf eins og flestir látnir eiga. En minningin um góðan dreng lifir enn með fjölskyldunni.

Fríða elskaði barnabörnin sín og naut þess að hafa þau hjá sér og þau eiga margar góðar minningar um hana. Henni var annt um þau og velferð þeirra. Hún var einstaklega geðgóð og glaðlynd um dagana.

Hún var alla tíð líkamlega sterk en svo fór hugurinn að gefa sig og gleymskan flutti inn. Hún átti það til að hverfa og týnast. Hún gleymdi hvar hún átti heima og svo læsti hún sig úti og eldavélin glóði. Einu sinni týndi hún kaupinu sínu og það var henni mikið áfall. Ekki mátti hún við slíku. Hún vildi komast inn á stofnun og fékk inni á Grund þar sem hún naut góðrar umhyggju sem hér er þakkað fyrir. Fólkið hennar heimsótti hana og sýndi henni elskusemi og rækt þar til yfir lauk.

Og nú er hún horfin af þessu jarðlífi. Fuglinn segir fátt í Elliðaárdalnum á aðventunni, prjónarnir hennar eru þagnaðir en kettir mala enn í Breiðholtinu og hundar gjamma, börn fæðast, vaxa og dafna og leika sér, fara í skóla og læra á lífið, og mömmur og ömmur kunna enn að prjóna enda þótt kínversk vara fáist fyrir lítið í stórmörkuðum. Tæknin breytist og menningin líka. Nú er sjaldnar fiskur og lambalæri í matinn hjá unga fólkinu og allt soðið skemur en áður og svo eru komnar pizzur og pasta, pítur og vefjur, kínverskt og tælenskt.

En mannlífið heldur áfram í sinni leit að hamingjunni. Ástin kviknar, vonin dafnar, leitin að svörum við lífsgátunni stendur enn yfir, fólk fæðist, lifir og deyr í borginni þar sem nú er stærsti skógur landsins og skjól fyrir mófugl árið um kring.

Jólin nálgast og við rifjum upp mestu sögu allra tíma, söguna um að Guð gerðist maður og birtist í reifabarni sem óx og kenndi mannkyninu að elska með nýjum hætti, elska og lifa í sátt. Elska Fríðu til eiginmanns, barna og barnabarna, systur og ástvina, er af stofni hans sem kom á jólum. Þaðan koma okkur fegurstu hugsjónir heimsins um betra líf – og um eilíft líf – gleymum því ekki.

Lífð er í hendi Guðs. Hann fæðir okkur og klæðir með gjöfum jarðar og gæðum. Enn er fiskur í sjónum og lömb í haga og hráefni berst til landsins í brauð og pizzur. Við lifum af þessari jörð og hverfum aftur til jarðar að lífi loknu en svo kemur vonin og trúin á annað líf, líf í himni Guðs. Við felum Fríðu þeirri miklu vídd sem Guð er. Hann geymi hana og drenginn hennar sem hún saknaði alla tíð og eiginmanninn. Megi þau finnast og gleðjast með ástvinum öllum sem áður eru horfnir.

Guð blessi minningu Arnfríðar Felixdóttur og Guð geymi þig og varðveiti á lífsveginum.

Amen.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verðu um aldir alda. Amen.

 

Tilkynningar:

Jarðsett í Gufunesi.

Kistan borin út í bíl.

Erfi í safnaðarheimilinu.

Farið í garðinn um kl. 15

Ræðan birt.

 

Takið postullegri blessun: Guð vonarinnar . . .

Sálmaskrá Arnfríður Felixdóttir

Bréf frá Sóleyju:

Elsku Amma mín.

Þegar ég fékk þær fréttir að þú hefðir kvatt þennan heim, þá var mín fyrsta hugsun þakklæti.  Þess vegna ákvað ég að skrifa þér lítið bréf

Þakklæti fyrir svo ótrúlega margt amma mín, Fyrst og fremst þakklæti fyrir það að nú hefurðu fengið frið og ert ekki lengur að berjast við þennan hræðilega sjúkdóm sem alzheimer er. Sjúkdóm sem í rauninni rændi ömmu okkar frá okkur. Svo þrátt fyrir sorg í hjarta þá gleðst sál mín líka fyrir þína hönd því ég veit að þar sem þú ert núna, þar líður þér vel.

En mitt þakklæti endar ekki hér amma mín. Ég er svo óendanlega þakklát fyrir það að þú gafst mér og systrum mínum yndislegt heimili sem við gátum heimsókt þegar við vorum börn og unglingar. Heimili þar sem maður fékk það frelsi til þess að vera barn og leika sér samkvæmt því, þar sem engar áhyggjur voru, þar sem leikur, hlátur og gleði réðu ríkjum. Heimili þar sem við reglulega hittum frænsystkini okkar  og frændur(aðallega á sunnudögum)  og ekki má gleyma krulluðu Polly, Polly páskaeggi (sem litla frænka mín skírði hana einu sinni eina páskanna )og Kolly, hundunum sem oft fengu að vera með okkur i feluleik uti í garði.

Þetta gamla hús var svo fullt af lífi þegar við vorum þarna öll saman komin, og þú amma varst sú sem gerðir þennan stað að hlýjum stað til að vera maður sjálfur. Þú varst kannski ekki mikið fyrir það að knúsa okkur eða kyssa en þú sýndir okkur systrunum ást þína á annan hátt, sem er engu síðri. Ekki man ég eftir því að hafa nokkurn tímann komið í heimsókn þar sem td ekki voru heimabakaðar flatkökur, vöfflur, og hjónabandssæla á boðstólum og ekki má gleyma frægu ástarpungunum þínum góðu. Og hver man ekki eftir sodastreamsvélinni sem þú stóðst við oft á dag svo krílin þín gætu fengið brunt gos, glært gos og appelsinugult gos. Gos i öllum regnbogans litum. Þú varst alltaf tilbúin að gera allt fyrir okkur og ég þakka þér innilega fyrir það.

Það er ótrúlegt hversu margar góðar minningar og tár streyma fram þegar ég skrifa þér þetta bréf, ég gæti skrifað  til þín endalaust, en einhversstaðar verður maður nú að stoppa. En áður en ég hætti að skrifa þá vil ég bara segja þér ástæðuna fyrir því að ég skrifa þér þetta bréf

 

Ástæðan er sú amma mín að eins og þú veist þá bý ég í Danmörku, og eins leitt og mér þótti að heyra að þú værir búin að kveðja þennan heim , eins leitt þykir mér að hafa ekki getað komið og tekið  hönd þína í mína hönd og kvatt þig almenninlega og gefið þér stórt faðmlag og fengið að þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og systur minar. Og líka til þess að þakka þér innilega fyrir það að hafa verið til staðar fyrir hana mömmu mína þegar hún var lítil stelpa sem misst hafði  báða foreldra sína, þrátt fyrir að þú sjálf værir í sorg. Eftir því sem ég heyri meira um hvernig þitt líf var, því meiri virðingu ber ég fyrir þér. Þú varst kona, haldin miklum styrk, Þú gerðir allt fyrir strákanna þína sama hvað á gekk. Þú misstir son á hræðilegan hátt en þann sársauka og svakalega storm stóðstu af þér, því þú vissir að þú yrðir að vera til staðar fyrir hina syni þína og veita þeim styrk og huggun.

Ég dáist að þér kæra amma og ég elska þig.

megir þú hvíla í friði.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.