Minningarorð
Eyvindur Garðar Friðgeirsson
1929-2013
verkamaður
Grandavegi 39b, Reykjavík.
Útför frá Neskirkju 6. desember 2013 kl.13.
Saga – saga einstaklings, saga þjóðar, saga heims.
Við lifum og nærumst af sögum. Íslendingar vita það mæta vel sem söguþjóð. Sögur heimsins falla flestar inn í eitt og sama sniðmátið. Jafnvel stutt saga eða brandari þarf að fylgja þessu sniðmáti til að virka vel. Nú er runninn upp sá tími sem markar undirbúning jóla þegar „merkasta saga allra tíma“ verður rifjuð upp af stórum hluta mannskyns, sagan af því er Guð gerðist maður í Jesú Kristi. Sú saga markar skil í sögu heimsins. Tímatal okkar er miðað við þann atburð.
Biblían er merkileg bók, í senn torskilin og auðskilin en kannski oftar en ekki misskilin. Sú bók fellur að sniðmáti hinnar fullkomnu sögu eins og vera ber. Sniðmátið er þríþætt. Hver góð saga hefst á góðum og björtum nótum, svo tekur við flækjustig, atburður sem breytir hinu góða og loks lokastigið þegar lausnin er fundin. Þessi þrískipting birtist t.a.m. í fornum riddarasögum þar sem hetjan leggur upp í för í leitinni að gralinu góða, svo hefst bardaginn, svikin, prettirnir, mótlætið, blekkingarnar, gáturnar og þrautirnar og loks kemur svo uppskeran mikla þegar gralið finnst og sögunni lýkur með sigri. Segja má með nokkurri einföldun að allar kvikmyndir heimsins hvort sem þær eru framleiddar í Hollywood, Bollywood eða öðrum kvikmyndaverum heimsins, falli að þessu formi. Taktu eftir næstu mynd sem þú horfir á. Hún byrjar án efa á kyrrlátum nótum svo gerist eitthvað óvænt sem kallar aðalsöguhetjuna til starfa og svo lýkur myndinni með því að verkefnið vinnst og sigur næst. Biblían hefur þessa þrjá þætti í sér. Þeir heita sköpun, fall og endurlausn. Í bók bókanna er gengið út frá því að lífið og heimurinn eigi sér höfund sem skapað hefur allt og manninn í sinni mynd. En maðurinn víkur af réttri leið og flækjustigið hefst. Jólin boða síðan að lausnarinn er sendur og hann leysir gátuna og leiðir alla fram til sigurs.
Ég fékk í hendur söguna hennar Guðrúnar Friðgeirsdóttur, Norðanstúlka, þar sem hún greinir frá bernsku sinni og bróður síns sem við kveðjum hér í dag. Sagan er merkileg heimild um lífsbaráttu fólks á liðinni öld, lífsbaráttu móður með börnin sín tvö í þjóðfélagi mismununar, fárra tækifæra og lítilla efna. Sagan hafði djúp áhrif á mig. Og þessi saga fellur að sama sniðmáti og fyrr var nefnt, hún hefst reyndar á flækjustiginu, þegar faðir Guðrúnar og Eyvindar var fallinn frá og Guðrún ekki nema 4 ára og mundi því ekki góðu dagana þar á undan. Sagan greinir frá lífsbaráttu lítillar fjölskyldu, þroska ungrar stúlku og leitinnni að skilningi á gátum lífsins. En sögunni lýkur svo við ráslínu nýrra tíma. „Ég hafði lítið séð af Reykjavík eða umhverfi bæjarins. Ég hugsaði ekki um það, nú var ég að fara norður í Menntaskólann á Akureyri og ég hlakkaði til. Þar biði mín allt annað líf.“ (s.152).
Fæðing og bernska, glíman við lífið og loks uppskera þroskans.
Eyvindur Garðar Friðgeirsson fæddist í Wynyard, Saskatchewan, Kanada, 21. febrúar 1929. Hann andaðist á heimili sínu, Grandavegi 39b í Reykjavík, 25. nóvember 2013.
Foreldrar hans voru hjónin Iðunn Jónsdóttir verkakona, f. 28. janúar 1903, d. 7. maí 1957, og Friðgeir Laxdal Friðriksson rafvirki og sjómaður, f. 1. janúar 1899, d. 13. september 1934, en þau ólust bæði upp á Snæfellsnesi.
Systir Eyvindar er Guðrún, f. 1. júní 1930.
Fleiri systkini átti Eyvindur ekki. Hann var einhleypur og barnlaus.
Mágur Eyvindar er Stefán Briem.
Börn þeirra eru Axel, vísindamaður, doktor í lífefnafræði, sem sendir kveðju sína til ykkar en hann býr í Ástralíu, Bodil, yfirmaður á skrifstofu Náttúrugripasafns ríkisins í Kaupmannahöfn, Snorri, tölvunarfræðingur í Svíþjóð og Kjartan, verkfræðingur sem býr hér á landi.
Á fyrsta ári fluttist Eyvindur með foreldrum sínum frá Kanada heim til Íslands. Fimm ára gamall missti hann föður sinn og ólst síðan upp hjá móður sinni einni, en var þó í fóstri í fáein ár að Stóru-Laugum í Reykjadal hjá góðu fólki. Þá kom hann aftur til móður sinnar og systur á Húsavík og gekk þar í barnaskóla frá 10 ára aldri.
Faðir hans, Friðgeir, var góðum gáfum gæddur, hávaxinn og hraustur með áhuga á íþróttum. En lífið varð honum um megn. Konan var ein eftir með börnin og barðist áfram með þau en lést á besta aldri árið 1957, 54 ára.
Hún hafði flutt með börnin frá Siglufirði til Húasvíkur þegar Friðgeri féll frá og þau settust að í húsinu Hlíðskjálf. Fólkið sem þar bjó var þeim einkar gott, Vilhjálmur Guðmundsson og Ólöf barnsmóðir hans, en Óli var sonur þeirra. Áður var Vilhjálmur kvæntur Helgu tvíburasystur Ólafar og átti með hanni Maríu en Helga lést ung.
Úr Hlíðskjálf áttu systkinin margar minningar og af fólkinu í bænum en þar bjó einnig föðurbróðir þeirra, séra Friðrik A. Friðriksson ásamt fjölsyldu sinni sem reyndist þeim vel en hann var alla tíð önnum kafinn prestur, kórstjóri og menningarfrömuður, hæfileikaríkur og vinsæll maður.
Haustið 1943 fór Eyvindur til dvalar hjá föðursystur sinni í Reykjavík. Hún vildi styðja hann þar til náms, en illu heilli veiktist hann og tvö önnur börn á heimilinu af berklum þennan vetur. Eftir það dvaldist Eyvindur á berklahæli á Vífilsstöðum og síðar á Reykjalundi næstu árin þar sem hann sinnti ýmsum störfum og stundaði nám. Hann náði góðri heilsu á ný og bjó með móður sinni í Reykjavík en eftir að hún lést bjó hann einn. Hann stundaði ýmis verkamannastörf, lengst af byggingarvinnu, en einnig bifreiðaviðgerðir. Hann var handlaginn og eftirsóttur til vinnu.
Hann var vandaður maður sem ekki mátti vamm sitt vita, heiðarlegur og áreiðanlegur í öllu hvar sem hann fór. Hann vildi öllum vel, var gjafmildur og góðviljaður, alltaf tilbúinn að rétta fram hjálparhönd þeim sem hann var samferða og þurftu einhverja aðstoð. Börnunum í fjölskyldunni var hann sífellt að gefa gjafir. Hann naut þess að færa þeim eitthvað sem hann vissi að myndi gleðja þau. Og gjafir hans voru ekki skornar við nögl. Hann var glaðlyndur og ræðinn, vel að sér um margt, enda víðlesinn og stálminnugur. Hann kunni vel að segja frá atvikum og fréttum. Í veikindum sínum sem unglingur fór hann á mis við margt en aldrei var að heyra neinn kvörtunartón frá honum, segir systir hans. Hann naut alla tíð útivistar og ferðalaga og fór oft með fjölskyldu Guðrúnar í gönguferðir eða ökuferðir með nesti til fallegra staða. Þau systkinin gátu endalaust rifjað upp löngu liðna atburði á Húsavík og minni hans í þeim efnum var óbrigðult.
Eyvindur var ræðinn og miðlaði af fróðleik sínum við vini og vandamenn en ekki verður sagt að hann hafi hleypt fólki mjög nálægt sér.
Hann var söngelskur, hafði góða rödd. Á aðfangadag söng hann gjarnan með fjölskyldunni og dansaði kringum jólatréð.
Í íslensku máltæki segir: Hver er sinnar gæfu smiður en í orðum bandarísks metsöluhöfunar segir að enginn sé „self made“ – enginn eigin smiður. Það er að vísu munur á þessum tveim fulluyrðingum en báðar hafa líklega nokkuð til síns máls. Hvert og eitt okkar ræður miklu um vegferðina hverju sinni en svo er það hitt að á vegi okkar verður fólk og atburðir sem lífið leggur fyrir okkur eins og spurningar á prófi og svar okkar ræður hvað verður. Maður hittir mann, karl og kona mætast eða mætast ekki og lífið tekur nýja stefnu. Þess vegna er enginn eigin smiður að öllu leyti því enginn er eyland.
Guðrún veltir því líklega fyrir sér hvers vegna hennar líf varð eins og það er og líf Eyvindar varð með öðru móti. Það er líklega vegna þessa að breyturnar voru ólíkar og úrvinnslan líka, svörin á prófunum með ýmsu móti og engin leið til að skera úr um einkunnir vegna þess að við hverri spurningu eru svarmöguleikar fleiri en einn og fleiri en tveir.
Eyvindur vildi ætíð fara sínar eigin leiðir, bjarga sér sjálfur og hafa hlutina eftir sínu höfði. Hann átti sína íbúð og reyndar aðra í næstu blokk sem hann leigði út en gjarnan á allt of lágu verði svo að ekki varð hann auðugur af þeim viðskiptum en lagði þannig öðrum lið. Hann lánaði fólki oft fé, studdi fátæka, hjálpaði systur sinni og mági að byggja og lagði það ekki í vana sinn að leggja illt orð til annarra. Hann lifði fyrir daginn og mætti hverju verki æðrulaus og ef hann gat ekki gert eitthvað í dag þá mátti skoða það seinna. Hann var vel máli farinn og hafði gott vald á íslensku.
Stefin þrjú í hinni helgu bók eru sköpun, fall og endurlausn. Saga okkar er sú sama. Við fæddumst og lifðum sakleysi bernskunnar. Þá tók við flækjustigið með öllum sínum breytum og svarmöguleikum. En hvað þá með lokastigið? Náum við sigrinum sem einkennir sérhverja góða sögu? Nei, reyndar ekki. Við náum því ekki í eigin mætti. Til þess er mátturinn of lítill, getan of takmörkuð, mennskan od breysk, brotalömin of djúpstæð. En eins og hjá Páli postula þá fullkomast mátturinn í veikleika. (2. Kor 12.9) Það merkir að við fáum styrk í veikleika okkar og sá styrkur kemur frá honum sem dó á krossi og gekk þjáningarleiðina alveg til enda, inn í dýpstu myrkur og kvöl. Hann var reistur upp til sigurs og merkið hans blasir hér við og var sett á enni og brjóst þess sem við hér kveðjum er hann var skírður 2. júní 1929 í Humbolt, Saskatchewan í Kanada af föðurbróður sínum séra Friðrik A. Friðrikssyni sem þá þjónað þar vestra. Skírnarvottorðið geymdi hann ætíð en það er skrautritað af frænda hans sem var margt til lista lagt. Sigur Krists er lagður í hug og hjarta hvers hvítvoðungs sem skírður er og sá sigur fylgir sérhverjum kristnum manni allar götur síðan og allt til enda, innsigli sigursins. Lokasigurinn var gefinn okkur flestum í frumbernsku og hann fylgir okkur til hinsta dags. Þannig rætist gangur sögunnar góðu frá fæðingu, í gegnum lífið og í upprisu hins efsta dags. Sköpun, fall og endurlausn. Fæðing, lífsglíma og upprisa.
Hvernig höfum við lifað? Þurfum við að lifa eftir einhverri stífri forskrift til að öðlast sigurinn? Nei, við þurfum aðeins að leggja traust okkar á sigurvegarann, vera í sigurliði hans sem forðum lagði dauðann að velli á Golgata. Prófgráður, góðverk, íþróttasigrar, frami eða velgengni af hvaða tagi sem er skiptir þar engu máli því í þessum efnum er ekkert vildarpunktakerfi í gangi heldur aðeins miskunn og náð hans sem öllu ræður. Við njótum sigra hans og elsku. Þess vegna er svo undursamlegt að lifa og njóta daganna því sigurinn er þegar unninn, líka þegar allt virðist dimmt og dökkt.
Eyvindur var trúaður maður eins og faðir hans. Sigurinn í lífi Eyvindar – en nafn hans merkir kappi – var unninn af Kristi löngu áður en hann varð til eða við. Þetta er samhengið sem við lifum í, samhengi sigurs og upprisu. Upprisan er ætíð að verki í lífi okkar. Hún birtist líklega skýrast í voninni sem hjálpar okkur að horfa fram á veginn í trú og vissu um að allt muni fara vel. Þannig er hin þrískipta saga rituð í hjörtu okkar, sagan sem byrjar vel, leiðir okkur um þroskastigu lífsins og endar með sigri. Til hamingju með lífið!
Til hamingju með að hafa átt þennan góða mann að sem Eyvindur Garðar Friðgeirsson var. Guð blessi minningu hans og Guð blessi okkur sem enn erum á lífsveginum, erum enn í miðkaflanum á sviði sögunnar góðu. Sigurinn er í höfn!
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.
Amen.
Ég flyt ykkur sérstakar kveðjur frá Svanhildi Guðmundsdóttur, gamalli vinkonu Eyvindar og Gunnhildi Vigdísi dóttur hennar og fjölskyldu.
Tilkynningar:
Jarðsett í Fossvogi
Erfidrykkja
Birting ræðunnar