Minningarorð
Elíeser Jónsson
1926-2013
fv. flugstjóri
og frkvstj. Flugstöðvarinnar
Útför frá Neskirkju þriðjudaginn
3. desember 2013 kl. 13:00.
Ræðuna er hægt að hlusta á og lesa hér fyrir neðan.
Fuglar.
Án efa tók hann eftir fuglunum sem flugu yfir þeim í Hrútafirði þegar pabbi bar hann á bakinu, er hann var á fjórða ári, inn fjarðarbotninn í þessum vindbarða firði og yfir Holtavörðuheiði. Það tók nú sinn tíma. Mamma var dáin og yngri bræðurnir tveir. Í firðinum krunkaði krummi, mávur gargaði og æðurinn úaði. Á heiðinni vall spóinn og hrossagaukurinn sýndi listflug og hneggjaði með stélfjöðrunum.
Seinna átti drengurinn eftir að sjá málmfugla kljúfa loftin blá með allt öðrum hljóðum, djúpum og drynjandi, og svo átti það fyrir honum sjálfum að liggja að sitja slíka fugla, stýra þeim og stjórna á ferðum um allan heiminn.
Litlir fætur á langri heiði og flugvélar á loftsins vegi fara mishratt en lífið fer á sínum hraða og árin líða og ekkert getur haggað því. En samt getur hugurinn hægt á tímanum eða hraðað honum. Í það minnsta finnst okkur sumir daga líða hægt og aðrir hratt.
Hugsuðurinn Buckminster Fuller gerði eitt sinn nokkur líkön af heiminum til að sýna ferðahraða mannsins á ólíkum tímum við ólíka tækni. Fyrsta líkanið var ógnarstórt enda fór maðurinn fótgangandi eins og þeir feðgar á suðurferð forðum daga. Svo komu hestar og veröldin skrapp saman. Loks bílar og þá flugvélar og heimurinn varð allt í einu smærri en nokkru sinni fyrr. Nú hefur tölvubyltingin fært flesta jarðarbúa inn á eitt torg ef svo má segja.
Elíeser fæddist að Óspaksstaðaseli í Hrútafirði 20. apríl 1926. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð þann 24. nóvember 2013 – sama dag og Matthildur fyrir 2 árum.
„Óspaksstaðir er innsti bær í Hrútafirði sem er enn í byggð. Bærinn er austan Hrútafjarðarár og því í Húnaþingi vestra. Nokkur eyðibýli voru innar t.d. Grænumýrartunga sem brann árið 2003, sem er vestan Hrútafjarðarár og því í Strandasýslu. Enn sunnar var sel frá Óspaksstöðum sem hét Óspaksstaðasel.“ (Wikipedia)
Foreldrar Elíesers voru Björnfríður Sesselja Björnsdóttir og Jón Valgeir Elíesersson. Móðir hans lést úr berklum og yngri bræður hans tveir. Þeir feðgar voru einir eftir og fóru því suður. Fósturforeldrar Elíesers voru Guðlaug Sæmundsdóttir og Eyjólfur Teitsson. Hann kallaði hana mömmu því hún kom í hennar stað en Eyjólf kallaði hann afa enda átti Elíeser föður sinn á lífi. Börn eru svo hrein og bein í hugsun. Jón faðir hans stundaði sjóinn á Suðurnesjum og eignaðist tvo syni. Hálfbræður Elíesers, samfeðra, eru Marinó og Sigurður.
Mamma og afi bjuggu á Hörpugötu 1 í Skerjafirði. Þar var kyrrlátt í kreppunni en svo kom bretinn vorið sem hann fermdist og þá breyttist allt í henni Reykjavík því hermenn voru fleiri en allir íbúar borgarinnar.
Útlendir menn og enskumælandi heilluðu og einnig vélar og tæki. Framkvæmdir við flugvöll hófust og enn er völlurinn á sínum stað. Svo komu þessi undursamlegu tæki sem gátu hafið sig til flugs. Eftir að hann hafði lokið hefðbundnu grunnnámi í Vesturbænum tók við sú vinna sem bauðst. Sem unglingur vann hann við byggingu Reykjavíkurflugvallar. Sem drengur fór hann í flug með Sigga flug sem var með skýrteini númer eitt og ferðin kostaði eina krónu. Teningunum var kastað. Flugið tók huga hans allan.
Elíeser kvæntist Ragnheiði Þorvarðardóttur og eignuðust þau soninn Reyni f. 1950. Þau skildu. Reynir er kvæntur Elísabetu H. Einarsdóttur f. 1951. Börn þeirra eru Brynjar, Ívar Örn og Ragnheiður, tengdabörnin eru þrjú og barnabörnin sex.
Elíeser kvæntist örðu sinni, Matthildi Sigurjónsdóttur 18. ágúst 1956 en hún lést þann 24. nóv. 2011 (f. 29.9.1929). Börn þeirra eru Guðlaug Sóley f. 1957 og Jón Eyjólfur f. 1962. Matthildur átti fyrir tvíburana Jóhönnu Björk Jónsdóttur og Sigurjón Víði Jónsson f. 1954 og gekk Elíeser þeim í föðurstað. Guðlaug býr í Danmörku og er gift Alain Knudsen f. 1953. Þau eiga Christinu, Matthildi, Davíð William, þrjú tengdabörn og eitt barnabarn. Jón er í sambúð með Guðríði Sæmundsdóttur f. 1968 og eiga þau Rakel og Klöru og fyrir átti Guðríður soninn Grétar Inga Steindórsson. Þau eiga tengdadóttur og tvö barnabörn. Jóhanna er gift Magnúsi Rúnari Kjartanssyni f. 1946. Þau eiga börnin Andreu Þórey, Elísu Sóley, Guðrúnu Björk, Helga Ársæl, þrjá tengdasyni og fimm barnabörn. Sigurjón var áður kvæntur Sigrúnu Sigurðardóttur f. 1955 og eiga þau saman synina Jóhann Pétur, Snorra, Birki og Hlyn og eitt barnabarn. Eiginkona Sigurjóns er Guðrún Ásta Árnadóttir f. 1975 og eiga þau Matthildi Dís og Árna Snæ.
Reynir var oft hjá pabba og Möttu í æsku og dvaldi gjarnan í 2-3 vikur í senn.
Elíeser lauk atvinnuflugmannsprófi í Bretlandi 1947 og flaug marga tíma á Tiger Mouth. Hann lærði auðvitað ensku og enska siði en fannst nú einkennilegt fyrst er hann fór á kaffihús og var spurður hvort hann vildi hvítt eða svart kaffi? Sumir notuðu mjólk í kaffið heima. Einu sinni ók hann mjókulbíl og líka hestakerru þegar hann vann við byggingu flugvallarins og gleymdi því aldrei þegar merin varð eitthvað pirruð, sneri sér við og beit hann í rassinn. Aldrei urðu flugmótorarnir svo hrekkjóttir enda þótt þeir gætu bilað. Hann ók leigubíl hjá B.S.R. og Steindóri meðan lítið var að gera í fluginu. Stundum var gott að hafa bæði bíl og flugvél eins og þegar verkfall var í Reykjavík og ekkert bensín að fá á leigubílinn. Þá skaust hann á flugvél til Vestmannaeyja og sótti sér bensín á brúsa. Alltaf kunni hann að bjarga sér.
Elíeser, Matthildur og nokkrir vinir þeirra, stofnuðu Flugstöðina árið 1963 og ráku hana til 2004. Á þessum árum stundaði hann ýmiss konar flug. Má þar nefna kennslu-, leigu-, sjúkra-, list- og loftljósmyndaflug bæði innan lands og utan. Matta fór stundum með honum, t.a.m. til Nepal, Asíu og Afríku. Seinni hluta starfsævinnar sérhæfði Elíeser sig í ljósmyndaflugi með sérútbúna flugvél af gerðinni Rockwell Turbo Commander sem gekk undir nafninu ERR-ið enda skráð TF-ERR.
Hver var Elíeser? Hvernig lýsir fólkið hans honum? Hann var heimsborgari, ætíð flottur og fínn í tauinu, með bindi og í burstuðum skóm. Yfirvaraskeggið jók á sjarmann. Mér finnst hann á myndum minna á breskan sjentilmann eða amerískan leikara. Hann var spontant eins og sagt er, bjartsýnn og duglegur og fanns allt vera hægt.
Margir flugmenn lærðu hjá honum í gegnum tíðina og bera honum vel söguna.
Hann hafði yndi af barnabörnum sínum og fannst gaman að hafa þau hjá sér á hátíðum og endranær.
Honum líkaði að borða góðan mat og vera heima með Möttu sinni. Þau fóru víða saman. Flugu yfir fjarlæg lönd og tóku myndir en hér heima fóru þau líka í ferðir um landið en helst í rigningu því góðviðrisdagarnir fóru í flugið og áhugamálið, listflugið.
Hann var morgunmaður, fór snemma á fætur og snemma að sofa.
Nú er aðventan gengin í garð og á þeim tíma var oft mikið að gera í fluginu. Hann fór margar ferðir um landið eins og jólasveinn á flugi með jólapakka til fólks. Svo sinnti hann Grænlandsflugi og fleiri verkefnum. Á jólum var það heilög stund að hlýða á aftansöng aðfangadags úr Dómkirkjunni í útvarpinu og það brýndi hann fyrir börnunum. Hann ólst upp við trú í Hörpugötunni. Mamma var trúuð kona og kenndi honum margt gott, færði honum áttavita fyrir lífið sem forðaði honum án efa frá brotlendingum og áföllum. Hann lærði ljóð, bænir og vers. Þau voru góð við hann, mamma og afi og svo lagði pabbi honum lið í gengum árin og sérstaklega þegar hann fór í flugnámið til Bretlands.
Hann var þess fullviss að mamma Guðlaug hefði forðað honum frá þeim sjúkdómi sem tók mömmu og bræður hans með góðum og hollum mat svo sem hnoðmör og öðru góðgæti, með handayfirlagningu og bænagörð.
Hann var bóngóður og blíður maður, segir fólkið hans. Hann fór víða í sjúkraflug á árum áður en þá þurfti fólkið sjálft að borga og oft skiluðu greiðslur sér ekki. Hann leit bara á þetta sem þjónustu við lífið og landið.
Þegar gaus í Vestmannaeyjum varð hann með þeim fyrstu er flaug þangað og selflutti fólk og búnað milli lands og Eyja.
Hann lagði sig ætíð allan í flugið og stundaði það af innlifun og brennandi áhuga.
Þau hjónin voru ólík að upplagi en þó sammála í flestu. Honum þótti gott að vera með Möttu og hún eldaði handa honum góðan mat en hann lét hana vita að hann mundi ekki þola fiskbollur úr dós þrjá daga í röð. Tveir væru í lagi en þrír væru skilnaðarsök. Hún gaf honum stundum bollur tvo daga í röð með bros á vör!
Rifjuð var upp saga þegar hann var við vinnu í Afríku en þar var flugvirki sem hafði keypt flugvél sem var inni í skógi. Búið var að stela úr henni sætum og hurðum. Geturðu komið henni í loftið fyrir mig, spurði eigandinn. Elli vildi skoða málið. Mælar voru engir en hann náði að fá loft undir vængi og hefja hana frá jörðu þar sem hann sat við stjórnvölinn á trékassi.
Hann flaug margar ferðir með fisk til Glasgow á sínum tíma og svo ferjaði hann margar vélar milli landa. Verkefnin voru af ýmsu tagi. Einu sinni var hann í ferjuflugi og sætisbakið brotnaði svo hann varð að liggja á bakinu mest alla ferðina. Þetta gekk alveg sagði hann, ég hallaði mér bara aftur eins og ég væri á Sagaclass. Á einni myndinni í sálmaskránni er hann með fallhlíf hangandi á sér en hann sagði nú stundum í kaldhæðni að besti björgunarbúnaðurinn í ferjufluginu væri stór steinn í hvorn vasa því hvað stoðar það manninn að vera einn á floti í öldurótinu úti í miðju ísköldu Atlantshafi?
Elíeser var alla tíð vel á sig kominn. Hann féll úr stiga fyrir 15 árum og lærbrotnaði þegar hann var að ditta að húsinu. Það var eina áfallið. Hann veiktist svo síðar hægt og rólega af alzheimer og svo dofnaði heyrnin. En ætíð var hann sami sjentilmaðurinn og talaði ensku við starfsstúlkurnar í Sunnuhlíð. Hann hafði löngum lagt það í vana sinn að tala vel um fólk og af kurteisi.
Elíeser og Matthildur bjuggu að Hörpugötu 1 í Skerjafirði þar til þau fluttu að Standvegi 26, í Garðabæ árið 2004 en þaðan fóru þau í Sunnuhlíð í Kópavogi fyrir 4 árum. Matta lést fyrir 2 árum og hann var orðinn bundinn við hjólastól án vængja og vélar og gat því ekki tekið flugið og hugurinn var varla heldur til þess fær að flögra um. Hann beið þess eins að fá hvíld.
Nafnið Elíeser er komið úr hebresku og merkir „Guð er hjálp.“
Og nú er hinsta ferðin hafin. Eins og forðum báru eigin fætur hann ekki yfir heiðina. Hann þurfti hjálp. Pabbi bar drenginn sinn. Og nú er hann borinn af Honum sem er hjálpin eina á heiðinni miklu.
Guðlaug fósturmamma orti til hans ljóð er hann var 8 ára og bæn og samdi við það lag sem sungið verður hér á eftir. Það er uggur í brjósti hennar vegna óvissu lífsins en trúin á Guð sem verndar er þar og gefur traust og frið.
Vaggast á bárum
veikir af sárum
í veglausum geim
gleðin er þrotin,
báturinn brotinn,
þeir bjargast ei heim,
út slokknar lífið á leiðunum þeim.
Andar Guðs andi,
lífsins á landi,
lýsir þeim heim,
opnast þá vegir í eilífðar geim.
Heiðin mikla er framundan.
Og fuglar halda áfram að fljúga um loftin blá, hrafn, mávur og æður, spói, þröstur og starri – og vélfuglar rymja, taka á loft og lenda í Skerjafirði. Lífið heldur áfram og í vor mun hrossagaukurinn steypa sér í listflugi yfir angandi mó og lyng og hneggja með stélfjöðrum sínum. Þá hugsum við til Elíesers sem kunni tökin á listflugi vélfugla og minnumst hans með virðingu og þökk.
Guð blessi minningu Elíesers Jónssonar og Guð blessi þig. Amen.
Ég flyt ykkur kveðju frá Tryggva Brynjarssyni, fyrsta langafabarni Elíesers, sem er skiptinemi í Kanada;
frá Alain, tengdasyni Elíesers, Christinu, Matthildi og Davíð, börnum hans og Guðlaugar, sem búa í Damörku;
frá barnabarni Elíesers, Andreu, Elmari og sonum sem búa í Bandaríkjunum;
frá afastrákum, Jóhanni Pétri í Damörku og Snorra í Kanada;
og frá Guðmundi mági Elíesers og Fjólu Sveinbjarnardóttur, svilkonu hans sem búa á Seyðisfirði, með þökk fyrir vináttu og góðar stundir.
Tilkynningar . . . erfi . . . jarðsetning . . . ræðan á vefnum etc.