Sigurbjörg Sveinsdóttir 1919-2013

sigurbjorg sveinsdottirÖrn Bárður Jónsson

Minningarorð

Sigurbjörg Sveinsdóttir

1919-2013

fv. saumakona.

Útför frá Neskirkju

29. nóvember 2013 kl. 13.

Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.

Ræðuna er hægt að hlusta á og lesa hér fyrir neðan.

Hetjusögur.

Við erum vön því að líta á sagnaarf okkar Íslendinga að hluta til sem hetjusögur, sögur af kven- og karlhetjum. Ungur fékk ég í afmælisgjöf bók frá ömmusystur minni sem ber heitið, Þá riðu hetjur um héruð. Hetjur voru ekki bara til forðum daga. Þær eru enn við lýði. Sigurbjörg kemur mér fyrir sjónir sem hetja, sterk kona sem komst áfram fyrir eigin rammleik, gáfur og getu, kona sem var sjálfstæð og lifði viðburðarríku lífi, skilaði drjúgu lífsstarfi og kvaddi þetta líf með reisn í hárri elli.

Sigurbjörg Sveinsdóttir fæddist í Þorsteinsstaðakoti, Lýtingsstaðahreppi 26. mars 1919. Hún andaðist á hjartadeild Landspítalans við Hringbraut 18. nóvember 2013, á 95. aldursári.

Hún var dóttir hjónanna Sveins Friðrikssonar bónda og Stefönnu Jónatansdóttur.

Systkini hennar voru:

Sólborg, f. 1913 og

Hálfdán, f. 1914,

– og hálfsystkini samfeðra:

Kristín Sigríður, f. 1885,

Jónína, f. 1886,

Anna Valgerður, f. 1887,

Indíana, f. 1891,

Friðrik Sigurður, f. 1893,

Emelía, f. 1894,

Halldóra Petra, f. 1897 og

Páll, f. 1899.

Öll látin.

Sigurbjörg flutti á Sauðárkrók fimm ára gömul. Þar ólst hún upp í miðstöð mikillar sveitar og kynntist menningu Skagfirðinga. Skagafjörður á sér langa og merka sögu. Þar eru fornar hafnir svo sem Kolkuós þar sem fornleifar hafa fundist sem renna stoðum undir sögu og sagnir. Til er margt í fornum textum um höfuðbólið og biskupsstóllinn að Hólum og jörðin geymir án efa enn margt ófundið. Spor fólks á sauðskinnskóm og eftir hófa hesta lágu þar um holt og hæðir. Sigrar fólks og sorgir settu mark sitt á mannlífið eins og nú en flest af hinu forna í þeim efnum er gleymt mönnum en munað í himni Guðs þar sem allt er geymt í gagnaveri alheimsins. Saga fólksins forðum í Skagafirði og saga einnar konu á 20. öld á leið um lífsins veg er líka skráð í skýið mikla sem Guð vakir yfir.

Sigurbjörg hóf sambúð árið 1936 með Páli Ögmundssyni, f. 1914, og eignuðust þau börnin

Hrein Pálsson, f. 1937, d. 2008, sem var giftur Stellu Kristjánsdóttur, börn þeirra eru Sigurður Óttar, Páll Sveinn, Íris Björg og Hreinn Ingi.

Elsu Pálsdóttur, f. 1938, börn hennar eru Jón Heiðar, Sigurbjörg Linda, Kristín Sjöfn, María Rós og Jónbjörn. Sambýlismaður Elsu er Edvard Lövdahl.

Magnús Pálsson, f. 1940, sem er kvæntur Ingunni Vilhjálmsdóttur, börn þeirra eru, Ögmundur Birgir, d. 1969, Vilhjálmur Hólm og Birgir Ögmundur.

Kristínu Björgu Pálsdóttur, f. 1942, gift Guðjóni Guðlaugssyni, börn þeirra eru Guðlaugur og Jón Örn, fyrir átti hún Björgvin Pál og Róbert, d. 2008.

Blessuð sé minning þeirra sem horfin eru.

Sigurbjörg og Páll skildu árið 1943.

Sigurbjörg hóf störf að Hólum í Hjaltadal 1949. Þar vann hún í þjónustunni í Hólaskóla. Flutti síðan til Reykjavíkur og vann um tíma hjá Landspítalanum. Sigurbjörg vann við saumaskap hjá Feldinum þar til hann var lagður niður. Að endingu vann hún hjá Hreini syni sínum í Stimplagerðinni Roða.

Hún var mjög lifandi kona og kom víða við. Hún ferðaðist mikið með Ferðafélagi Íslands og gekk um fjöll og firnindi í góðra vina hópi. Hún tjáði sig með listfengi á margan hátt, skapaði listaverk með hönd og huga úr tiltæku efni á hverjum tíma. Hún var flink í saumaskap og allt lék í höndum hennar. Svo bjó í henni listamaður á öðru sviði því hún lagði fyrir sig leiklist á efri árum og stofnaði ásamt nokkrum eldri borgurum leikhópinn Snúð og Snældu árið 1990 [ártalið 2000 var misritað í æviágrip sem lesið var í athöfninni en rétt er 1990]. Þar lék hún í uppfærslum í nokkur ár en endaði störf sín með breytingum og saumaskap á búningum hjá Snúði og Snældu.

Hún var glaðvær og dugleg kona, sjáflstæð og sjálfri sér nóg alla tíð. Barnabörnin áttu hjá henni skjól og hún var vinur þeirra. Hún söng alla tíð fyrir börnin sín og barnabörn og svo skrifaði hún ófá bréfin til þeirra og ekki skorti hana stílbrögðin enda vel máli farin og ritfær.

Hún bjó árum saman á Otrateigi 8 og þangað þótti afkomendum hennar gott að koma og þar var gjarnan áð eftir sundferðir og góðgerðir þegnar í eldhúskróknum hjá ömmu. Hún bjó síðar á Baldursgötunni og að Snorrabraut 56b en fór svo í þjónustuíbúð að Lönguhlíð 3 og dvaldi þar uns hún var lögð inn á Landspítalann við Hringbraut þar sem hún lést eftir 6 daga dvöl þar. Hún íþyngdi ekki heilbrigðiskerfinu um ævina og sleit hvorki þröskuldum né sængurverum á spítölum. Hún hélt ávallt við heilsu sinni með því að hreyfa sig og lifa heilbrigðu lífi.

Hún lagði að börnum sínum að vinna og vera heiðarleg. Hún kvartaði aldrei yfir örlögum sínum eða kjörum en mætti öllu af dugnaði, bjartsýni og seiglu.

Hún var hetja sem afkomendur líta upp til og þakka fyrir að hafa átt. Ísland á margar hetjur í sögu og samtíð. Landið okkar krefst þess að fólk taki á og leggist á árarnar til að viðhalda lífinu í þessu landi. Aðstæður eru þó mjög ólíkar nú miðað við fornöld. Himinn og haf er á milli lífskjara fólksins forðum og nú. Þrátt fyrir Hrun og skuldavanda heldur lífið áfram og við munum komast upp úr þessum dal eins og þjóðin reis ávallt upp úr dölum á vegferð sinni um mjóa götuslóða fornaldar. Mestu skiptir væntanlega að eiga hið innra með sér trú á landið og fólkið og síðast en ekki síst trú á Guð sem er samhengið og bindingsverkið í tilverunni. Við erum það sem við hugsum. Þess vegna skiptir bjartsýni miklu og sú afstaða að ætíð sé hægt að finna leið út úr sérhverjum vanda.

Þannig geri ég ráð fyrir að Sigurbjörg hafi hugsað og sú bjarta hugsun og veruleikasýn gaf henni í senn góða ævi og langa. Hugurinn ber okku hálfa leið. Máttur huga og sálar skiptir miklu.

Sigurbjörg er hér kvödd af ástvinum sínum og samferðafólki. Sérstakar kveðjur hafa borist frá bræðrunum Sigurði Óttari Hreinssyni í Bandaríkjunum, Páli Hreinssyni í Lúxemborg og Hreini Inga Hreinssyni í Noregi og fjölskyldu þeirra bræðra.

Ein systir Sigurbjargar, Indiana, flutti til Kanada. Hún var 30 árum yngri en Sigurbjörg en þær skrifuðust á í áratugi. Indiana er nú látin en dóttir hennar Borga tók við keflinu og hefur verið í sambandi við Sigurbjörgu undanfarin ár. Kveðja úr Vesturheimi hljóðar svo:

„Borga Jakobsson og ættingjar í Winnipeg og Gimli í Kanada senda innilegar samúðarkveðjur til afkomenda Sigurbjargar. Minningin um hana lifir með okkur.“

Þegar við kveðjum látinn ástvin er eðlilegt að horfa til baka og rifja upp eitt og annað en nú þegar þessari kveðjustund lýkur er tími til að horfa fram á veginn í sama anda og hún gerði. Leyfum okkur að njóta lífsins og leika okkur í dagsins önn með snúðum og snældum í lífsins dölum og hæðum. Lífð er undursamlegt tækifæri. Notum það í gleði og fögnuði eftir því sem það er á okkar valdi.

Göngum á guðsvegum og þá verður leiðin ætíð greið.

Hér skiljast leiðir. Hún er farin veg allrar veraldar eins og séra Hallgrímur, sveitungi hennar, sagði að lægi fyrir okkur öllum að fara. Við erum enn á lífsveginum og skulum feta hann öruggum skrefum í öruggri vissu um að lífið sé í hendi almáttugs Guðs. Hetjusaga Sigurbjargar er skráð í huga hans. Saga mín og þín er það líka. En spurningin er: Verður það einnig hetjusaga?

Blessuð sé minning Sigurbjargar Sveinsdóttur og Guð blessi þig. Amen.

Salmaskra

Lesnir voru textar við athöfnina úr bréfi Páls til Korintumanna um kærleikann I Kor 13 og úr Matteusarguðspjalli, upphaf 5. kafla, Sæluboðin og orðin um salt jarðar og ljós heimsins í Mtt 5.1-10. Fjallræða Jesú hefur verið kölluð Stjórnarskrá guðsríkisins.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.