Minningarorð
Margrét Laufey Ingimundardóttir
1926-2013
fv. starfsmaður Hreyfils
Útför frá Neskirkju þriðjudaginn 26. nóvember kl. 13.
Ræðuna er hægt að hlusta á hér fyrir neðan og lesa.
Lífið er ferðalag.
Ég byrja reisu mín,
Jesús, í nafni þín,
höndin þín helg mig leiði,
úr hættu allri greiði.
Jesús mér fylgi í friði
með fögru engla liði.
(Sb 493)
Séra Hallgrímur orti margt á lífsleiðinni og þar með þessa ferðabæn.
Lífið er vegferð frá vöggu til grafar. Við ráðum sumu á þeirri ferð en annað er háð tilviljunum og atvikum sem við höfum lítið um að segja.
Við kveðjum hér í dag konu sem lokið hefur för sinni um lífsins veg.
Margrét Laufey fæddist í Hólakoti á Stafnesi 23. nóvember 1926 sem er á Rosmhvalanesi milli Sangerðis og Hafna. Hún andaðist á Dvalaheimilinu Höfða Akranesi 18. nóvember síðastliðin.
Á 17. og 18. öld var Stafnes fjölmennasta verstöð á Suðurnesjum. Nærri Stafnesi er Hvalsnes þar sem séra Hallgrímur þjónaði sinni fyrstu sókn á prestsævi sinni. Þar orti hann margt bæði veraldlegt og andlegt áður en hann fékk veitingu fyrir Saurbæ á Hvalfjarðarströnd þar sem hann þjónaði til æviloka.
Foreldrar hennar voru Jónína Benedikta Eyleifsdóttir f. í Glaumbæ í Miðneshreppi 22. júní 1897, d. 24. mars 1993 og Ingimundur Bernharðsson f. á Stokkseyri 23. júlí 1893 d. 1. desember 1968.
Systkini Margrétar sammæðra voru
Henning Kristinn Kjartansson, f. 3 desember 1919, dáinn 8.apríl 2010 og
Hulda Reynhlíð Jörundsdóttir fædd 1. nóvember 1921 dáinn 1. nóvember 2007.
Alsystkini Margrétar eru
Jórunn Ingimundardóttir f. 9. október 1923 d. 12. janúar 2007,
Sesselja Ingimundardóttir f. 9 .ágúst 1932, og
Bernharð Ingimundarson f. 30 október 1935.
Tvö síðastnefndu lifa hana.
Árið 1952 giftist Margrét Einari Bærings Ólafssyni rafvélavirkja f. 6. október 1930 d. 17. júní 1965. Foreldrar hans voru Ólafur Matthías Samúelsson frá Skjaldarbjarnarvík á Ströndum f. 21. maí 1890, d. 17. ágúst 1960 og Guðmundína Einarsdóttir frá Dynjanda í Grunnavíkurhreppi f. 15. desember 1901, d. 2. ágúst 1987.
Barn Einars og Margrétar er Sigurður Hergeir f. 8. ágúst 1957. Hann var giftur Ingu Sigurðardóttur f. 30. júní 1957. Börn þeirra eru Ævar Þór f. 28. október 1986 og Salka Margrét f.3. september 1992. Sambýliskona Sigurðar er Hrafnhildur Stella Sigurðardóttir f. 18. desember 1956.
Margrét ólst upp í Vestmannaeyjum til 16 ára aldurs. Hún stundaði ýmis störf, var í ráðsmennsku á Kirkjubæjarklaustri og á Bessastöðum í tíð Sveins Björnssonar.
Árið 1947 veiktist hún af berklum. Næstu árin dvaldi hún á Vífilsstöðum og Reykjalundi. Á Vífilstöðum kyntist hún eiginmanni sínum Einari Bærings. Þegar hún náði heilsu um 1952 hóf hún störf á símanum hjá Hreyfli og starfaði þar til ársins 1987 er hún réði sig til starfa hjá Hitaveitu Reykjavíkur og vann þar þangað til hún lét af störfum 1993, þá 67 ára gömul.
Vífilsstaðir voru krossgötur í lífi hennar og margra annarra. Spítalinn stendur á fögrum stað milli gróinna hæða í Garðabæ við samnefnt vatn en staðurinn er kenndur við Vífil sem var annar af tveimur nafngreindum þrælum Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns. Að sögn Landnámabókar fundu þrælarnir Karli og Vífill öndvegissúlur Ingólfs við Arnarhvol í Reykjavík. Samkvæmt Landnámu hlaut Vífill síðar frelsi og setti niður bú sitt að Vífilsstöðum.
Vífisstaðir voru opnaðir á ný nú um helgina til að hjúkra öldruðum en staðurinn hefur verið örlagavaldur í lífi margra Íslendinga um áratuga skeið. Berklar voru mikil ógn á sínum tíma og lögðu marga manneskjuna í valinn. Sumir náðu þó heilsu fyrir hjálp lækna og hjúkrunar og fyrir lækningarmátt eigin líkama og sálar.
Á Vífisstöðum hitti Margrét Einar Bærings Ólafsson. Hann var fæddur í Furufirði á Ströndum en ólst upp á Ísafirði eftir að foreldrar hans brugðu búi og settust þar að eins og margt fólk af Ströndum gerði þegar tækifæri til vinnu jukust á þéttbýlli stöðum. Ég man vel eftir systur Einars, Kristínu, ljósmóður á Ísafirði, myndarlegri konu sem gustaði af, Kristmundi manni hennar og börnum þeirra.
Margrét og Einar gengu í hjónaband 5. júlí 1952. Einar var lærður rafvélavirki en vann sem bifreiðasmiður, var verklaginn og vandvirkur fagmaður. Hann vann um tíma við Andakílsárvirkjun [Sjá leiðréttingu neðanmáls]. Hann lést úr hjartaáfalli 17. júní 1965, á 35. aldursári, öllum harmdauði.
Margrét bjó alla tíð ein eftir að hafa misst Einar og starfaði lengst af á símanum hjá Hreyfli uns hún tók sér hvíld frá vaktavinnu og hóf störf hjá Hitaveitu Reykjavíkur.
Sigurður minnist foreldra sinna af hlýju og þökk. Hann var á 8 ára er faðir hans lést en mamma var honum allt upp frá því og reyndist honum ætíð góð móðir og frábær fyrirmynd, heil og sönn kona.
Eftir að Einar féll frá keypti hún sér íbúði í Fellsmúla í Hreyfilsblokkinni svonefndu. Hún flutti sig síðar um set og keypti íbúð í lyftuhúsi að Eiðismýri 30 en þá voru stigarnir í Fellsmúlanum farnir að reyna á þrekið. Síðustu 4 ár dvaldi hún á Hjúkrunarheimilinu Höfða á Akranesi en þar í bæ bjó Sigurður sonur hennar til skamms tíma en býr nú í Hafnarfirði. Á Höfða naut hún góðrar umhyggju starfsfólks sem þakkað er fyrir og sérstaklega ber að þakka Mundu frænku Einars heitins sem þar starfar.
Margrét Laufey var óbreytt alþýðukona eins og sonurinn orðaði það í mín eyru, var glaðlynd og góð manneskja, sem var vinur vina sinna og hugsaði einkar vel um son sinn alla tíð. Vinkonur hennar er nú fallnar frá og síðust þeirra var Fjóla Sigurðardóttir, æskuvinkona hennar úr Eyjum, sem lést 10 dögum á undan Margréti. Guðlaugi, eftirlifandi eigimanni Fjólu, er hér með þakkaður stuðningur og hjálpsemi við Margréti í gegnum árin. Stella systir Margrétar var henni náin en hún er nýbúin að missa mann sinn, Guðmund og er þeim einnig þakkað allt gott í gegnum tíðina.
Kveðjur hafa borist frá Ingu Jónu og Sævari sem stödd eru erlendis og Ingu Benný sem býr í Svíþjóð ásamt sambýlismanni.
Margrét var reglusöm kona sem kenndi syni sínum góða siði. Hann minnist þess að hafa farið í KFUM sem drengur og lært bænir og vers heima.
Hún hafði yndi af að ferðast og naut þess að taka snúning á dansgólfi þegar tækifæri gafst. Hún fór víða innanlands og margar ferðir til Spánar í sólina.
Hún fór í leikhús með Sigurð þegar hann var drengur og kynnti honum listir og menningu.
Hún trúði á líf eftir dauðann og treysti því að hún og ástvinir hennar væru í hendi almáttugs Guðs.
Hún er kvödd hér í Nesirkju með þökk fyrir allt hið góða sem í henni bjó.
Sem símakona á Hreyfli tryggði hún fólki ferðir á milli staða. Lífið er ferðalag og í einum söngtexta eftir Þorvald heitinn Þorsteinsson, sem er nýulátinn, langt um aldur fram, við lag Megasar, segir í versi um foreldrabasl:
Þá manstu að lífið er leigubíll.
Skáldið Tómas Guðmundsson orti:
Tilvera okkar er undarlegt ferðalag.
Við erum gestir og hótel okkar er jörðin.
Skáldin orða tilvist okkar á margvíslegan hátt og það er nærtæk mynd að líkja lífinu við ferðalag.
Í frægum, dönskum jólasálmi, í þýðingu Matthíasar Jochumssonar, segir:
Fögur er foldin,
heiður er Guðs himinn,
indæl pílagríms ævigöng.
Þarna er enn ein myndin af ferðalagi um lífsins veg. Skáldið heldur áfram með myndlíkingu sína og segir:
Kynslóðir koma,
kynslóðir fara,
allar sömu ævigöng.
Gleymist þó aldrei
eilífa lagið
við pílagrímsins gleðisöng.
Í lokaversinu er horft til jóla:
Fjárhirðum fluttu
fyrst þann söng Guðs englar,
unaðssöng, er aldrei þver:
Friður á foldu,
fagna þú, maður,
frelsari heimsins fæddur er.
Gott er að horfa til frelsarans þegar ástvinur er kvaddur sem treysti forsjón hans og fylgd um lífsins veg.
Við kveðjum góða manneskju og felum hana honum sem fæddist á jólum og lifir að eilífu.
Ég byrja reisu mín,
Jesús, í nafni þín,
höndin þín helg mig leiði,
úr hættu allri greiði.
Jesús mér fylgi í friði
með fögru engla liði.
(Sb 493)
Blessuð sé minning Margrétar Laufeyjar Ingimundardóttur og Guð blessi þig. Amen.
– – –
Einar Bærings var skírður þessu nafni með essi í lok síðara nafns en þannig er hann ekki skráður í legstaðaskrá og því las prestur ekki essið með í ræðunni en því hefur nú verið bætt við nafn hans þar sem hans er getið í ræðunni.
Einnig skal það leiðrétt að hann starfaði í Adakílsárvirkjun en ekki Mjólkárvirkjun eins og upp var gefið.