Minningarorð
Loftur Loftsson
1923-2013
efna- og matvælaverkfræðingur
Kleppsvegi 48
Útför frá Neskirkju 24. október 2013 kl. 13
Jarðsett í Gufunesi
Þú getur lesið ræðuna hér fyrir neðan og einnig hlustað á hana.
Ef þú sérð prentvillu/r, stafavíxl eða ambögu/r þætti mér vænt um að fá ábendingu frá þér í athugasemd neðanmáls í þar til gerðum dálki.
Friður Guðs sé með ykkur.
Hver erum við? Hvað gerist innra með okkur? Hver eru tengsl líkama, sálar og anda?
Við erum meira en það sem heilinn hugsar og gerir. Heilinn er merkilegt líffæri en sagt er að stærstur hluti hans fari í að láta okkur standa upprétt! Það kostar mikið að vera homo erectus. Í okkur eru óræð öfl, kenndir, hvatir og hneigðir. Við erum öll með meðvitund. Svo er líka til undirmeðvitund sem svo er kölluð og þar fer ýmislegt fram sem við skiljum – og skiljum ekki. Við erum ekki alltaf sjálfráð. Innra með okkur gerist margt sem stýrir viðbrögðum, viðhorfum og jafnvel lífsstefnu.
Hver er sinnar gæfu smiður, segir í máltækinu. En er það rétt? Hverju ráðum við og hverju ráða hin innri öfl, huldu öfl í sálinni – og tilverunni?
Við höfðum ekkert um það að segja að við urðum til. Engu mátti muna að við hefðum ekki orðið til. En við fengum vinninginn. Lífið er undursamleg gjöf, verkefni til að vinna úr. En hvernig vinnum við úr lífinu?
Loftur hlaut lífið að gjöf. Hann átti góða foreldra og fæddist inn í góðar félagslegar aðstæður.
Hann fæddist 2. október 1923. Þá var að baki vætusumar ef marka má þessa færslu veðurfræðings frá því í síðasta mánuði þar sem hann fjallaði um nýliðið sumar:
„Um er að ræða eitt allra versta sumar um langt skeið og telst það í sögulegu samhengi vera hið fimmta til sjötta versta frá árinu 1923.“
En hver man votviðrasöm sumur innan um öll hin sólríku?
Loftur fæddist í Fiskhöllinni í Reykjavík og lést á hjúkrunarheimilinu Eir d. 14. október 2013.
Loftur var sonur Lofts Loftssonar, útgerðarmanns f. 15.02.1884 d. 24.11.1960 og Ingveldar Ólafsdóttur frá Þjórsártúni f. 01.09.1901 d. 26.02.1995.
Systkyni Lofts voru Ólafur f. 22.12.1920 d. 03.06.2001,
Loftur f. 30.05.1922 d. 19.04.1923, sem lést tæplega eins árs,
Inga Heiða (Gigga) f. 13.04.1925 d.1993,
(Valgerður) Rósa f. 13.11.1930, og
Júlíus Huxley (Eyjólfur) f. 30.04.1941 d. 16.09.2008.
Loftur átti góða daga sem barn í Reykjavík. Þá var öldin önnur en nú er – og þó. Heimskreppan skall á 1929 og stóð í nokkur ár og hér var fátt um fína drætti í atvinnulífi fyrr en að lokinni Annarri heimsstyrjöldinni og þá opnuðust mörgu fólki dyr til mennta í henni Ameríku. Nú er aftur þröngur efnahagur heimsbyggðar og ekki verður enn séð fyrir endann á því ástandi. En lífið heldur áfram.
Sögur af bernskubrekum fylgdu Lofti enda var hann alla tíð forvitinn og uppátækjasamur, leitandi vísindamaður.
Ein sagan er um að Loftur var að reyna sannfæra Óla stóra bróður sinn um að kettir gætu andað í kafi. Þeir voru á sveitabæ rétt hjá Þjórsártúni. Loftur dýfði heimilskettinum í drykkjarvatn staðarins en lætin í kisa náðu eyrum heimamanna sem björguðu honum. Hin sagan var um annan kött sem Loftur setti á heimatilbúna fallhlíf og henti út um gluggann á Vesturgötunni. Tilraunin tókst þokkalega nema að því leyti að framhjá gekk maður sem síðar stóð við útidirnar með köttinn og fallhlífina á höfði sér.
Loftur naut almennrar skólagöngu í Reykjavík, varð stúdent frá MR 1945. Hann lauk B. Eng. í efnaverkfræði frá McGill háskólanum í Kanada 1952 og MS-prófi í matvælaverkfræði frá MIT í Cambridge í Massachusets 1954. Árið 1955 hóf hann störf hjá Iðnaðarmálastofnun Íslands og vann þar næstu 6 árin en þá varð hann forstöðumaður tæknideildar Sambands ísl. fiskframleiðenda (SÍF 1961-1993) þar sem hann starfaði í yfir 30 ár. Hann lagði mikið að mörkum við þróun fiskverkunar, hannaði fiskverkunarhús og vinnuferla, breytti fiskverkun í landinu og jók verðmæti aflans sem sífellt stækkandi og þróaðri bátafloti bar að landi.
Skömmu eftir heimkomuna frá Ameríku, 1958, kvæntist hann Rannveigu G. Ágústsdóttur frá Ísafirði f. 22.04.1925 d. 02.08.1996, bókmenntafræðingi og framkvæmdastjóra Rithöfundasambands Íslands.
Dóttir hennar og Gunnars G. Schram og stjúpdóttir Lofts er Valgerður Gunnarsdóttir, sjúkraþjálfari og lýðheilsufræðingur f. 26.10.1950 gift Bjarna Daníelssyni f. 27.02.1949 menntuna-og stjórnsýslufræðingi. Börn þeirra eru
Dýrleif Dögg heimspekingur f. 1970,
Finnur söngvari f. 1973,
Daníel tónskáld og stjórnandi f. 1979.
Börn Lofts og Rannveigar eru:
1) Guðríður boðberi og húsmóðir f. 16.08.1959, gift Matthíasi Boga Hjálmtýssyni, húsasmíðameistara f. 25.05.1959, börn þeirra eru
a) Loftur Guðni, bifvélavirkjameistari f. 1980,
b) Margrét, hársnyrtir f. 1984 og
c) Rannveig Sól f. 1997, nemi.
2) Inga Rósa myndlistarmaður og MA í menningar- og menntastjórnun f. 19.03.1962 og
3) Loftur, kerfisfræðingur f.13.02.1965, kvæntur Guðrúnu Bjarnadóttur, tækniteiknara. Börn þeirra eru.
Linda Huld f. 1988, sálfræðingur og
Loftur f. 1994, nemi og
Leó f. 1996, nemi.
Börn Lofts segja föður sinn hafa verið hæglátan mann og hógværan. Hann fór sér aldrei óðslega en var gamansamur, ögn stríðinn og ekki fyrir að láta á sér bera í margmenni eða mikið út á við. Rannveig sá meir um þá hlið samskipta við umheiminn enda sópaði að henni alla tíð. Hann undir sér aftur á móti vel með sjálfum sér og sínum hugðarefnum, var dálítill dellukall og mikið fyrir græjur, tól og tæki.
Þegar hann varð fertugur segja börnin að hann hafi slegið upp einskonar Bítlaballi heima og sett upp appelsínugult tjald í stofunni. Á þeim árum voru boð fullorðinna með öðrum blæ en nú. Þá var gjarnan boðið upp á long-drinks og sígarettur en ekkert matarkyns og engar ídýfur en fólk dansaði heima og naut lífsins.
Loftur var gæfur og góður maður, hæverskur og hófsamur. Hann lærði ungur í Ameríku og varð fyrir margvíslegum áhrifum af dvölinni þar. Hann var alla tíð tæknisinnaður og fékk sér snemma tölvu og var alla tíð óhræddur við nýjunga. Þegar ættfræði varð aðgengileg í tölvum og á netinu sökkti hann sér niður í hana svo dæmi sé tekið.
Hann var alinn upp á efnaheimili á Fjölnisvegi 16 en faðir hans var umsvifamikill útgerðarmaður á sínum tíma, fyrst á Akranesi, svo í Reykjavík og Keflavík. Foreldrar hans fluttu til Ameríku á fullorðinsárum og bjuggu þar með Huxley syni sínum en Loftur eldri kom til baka og lést hér 1960 þá 76 ára en Ingveldur bjó áfram ytra en hún var 17 árum yngri en hann og lést í Ameríku 1995 á 94. aldursári.
Loftur var alla tíð þakklátur fyrir tækifærin sem hann hlaut í lífinu og ekki síst fyrir námið í Ameríku og fannst hann ætíð vera í þakkarskuld við lífið hvað það varðaði. Honum fannst hann þurfa að borga fyrri kynslóðum til baka það sem þær gáfu honum. Já, hvernig væri að menntamenn nútímans hugsuðu eftir sömu nótum og borguðu Íslandi til baka það sem landið og þjóðin gáfu þeim? Ég leyfi mér að biðja læknana erlendis að hugsa ögn um þetta í kreppunni og læknaskortinum hér á Fróni! Peningar eru ekki allt, heiður og sæmd skipta líka miklu.
Í seinustu ferð sinni til Ameríku veiktist hann og þurfti að fara á spítala. Þar fékk hann góða þjónustu og dáðist sjálfur að öllum tækjunum sem hann hafði á sjúkrastofunni en líklega hlaut hann þessa fínu þjónustu vegna þess að hann var með gott kreditkort í veskinu sínu! Svon er nú gæðunum skipt þar í landi en verður vonandi aldrei hér með sama hætti. Ég held að Loftur hefði verið mér sammála um það enda þótt hann hafi verið Sjálfstæðismaður alla tíð en hann kaus þó ýmsa flokka á lífsleiðinni, hugsaði sjálfstætt og lét hartað ráða.
Loftur og Rannveig bjuggu allan sinn búskap á Kleppsvegi 48 en hann var ekki mikið fyrir breytingar og lifði lengst af fyrir líðandi stund, safnaði ekki sjóðum heldur miklu fremur góðum minningum og skemmtilegum dögum. Hann fór oft til Ameríku eftir að Rannveig dó og hitti Huxley en þau höfðu farið einu sinni saman þangað. Loftur naut þess að spila golf þar en hann var um sextugt er hann hóf að leika þá íþrótt. Hann eignaðist góða kunningja í golfinu og fór reglulega upp á völlinn við Korpu og lék þar með öðrum öldungum, m.a. tengdaföður mínum, Jóhanni Hjartarsyni, sem enn er að á 93ja aldursári og fer hringinn enn á tveimur jafnfljótum.
Eftir að Loftur missti Rannveigu trúlofaðist hann Vernu Oktavíu Jónsdóttur og áttu þau saman góða daga þar til hún lést 2011.
Loftur var áhugasamur um það sem börnin voru að fást við hverju sinni og var þeim góður félagi og vinur. Hann var barnakall, segja þau, og náði einkar vel til ungbarna. Þau kunnu vel við sig í fangi afa, sóttu í brosið í augum hans, skeggið, glettinn svipinn og gælurnar. Börnin muna ferðinar upp í sumarbústaðinn við Hólmsá við Gunnarshólma en þar hafði hann mjög gaman af að hanna hitt og þetta, smíða og gróðursetja. Oft fóru þau Loftur og Rannveig í tjaldútilegur með börnin og skoðuðu landið með þeim.
Þeir feðgar og nafnar dunduðu sér lengi vel við að smíða og fljúga flugmódelum um loftin blá. Flugflotinn þeirra varð stundum fyrir skakkaföllum og þá þurfti að laga og líma löngum stundum. Flugáhuginn fylgdi kannski nafninu en
„Nafnið kemur fyrir í Landnámu og Íslendinga sögum. Það kemur einnig fyrir í Sturlungu og í fornbréfum á 15. öld. [. . . ] Notkun nafnsins virðist vera bundin við Ísland.
Uppruni nafnsins er óviss. Það er ef til vill tengt loft og hefur þá upphaflega merkt „hinn fleygi eða upphafni“. Loki Laufeyjarson var kallaður Loftur og hafa þá væntanlega verið hafðar í huga flugferðir hans.“ (Nöfn Íslendinga)
Loftur var svolítið hallur undir Loka og ýmislegt í ásatrúnni en var þó kristinn og í Þjóðkirkjunni án þess að skilgreina þá afstöðu sína sérstaklega. Ef til vill er hinn háfleygi og upphafni Kristur hinn eini sanni Loftur tilverunnar.
Þegar þessum loftæfingum feðganna lauk datt hann í annað áhugamál, golfið, og stundaði það af ástríðu meðan heilsan leyfði. Golf „er skv. guðfræði sem ég hef þróað og sett fram, kristilegasta íþrótt, sem til er og helgast af því að kylfingar leika eftir þrauthugsuðu kerfi sem fyrirgefur klaufaskap. Kerfið er kallað forgjöf en ætti auðvitað að heita fyrigefning. Og því spyr ég kylfinga sem kunna að vera hér í dag: Hvað ert þú með í fyrigefningu?“
Fyrirgefning. Sekt og skuld, rétt og rangt.
Fyrst við höfum öll vitund um rétt og rangt, höfum samvisku – og hjarta sem finnur til – þá er rökrétt að spyrja: Hvaðan koma þær kenndir, sú vitund? Ef við höfum líkama, sál og anda þar sem meðvitund og undirmeðvitund eru stöðugt að verki liggur beint við að spyrja hvort ekki sé til vitund æðri allri mannlegri vitund, YFIRVITUND sem er grunnur allrar tilverunnar, hið innsta, æðsta og dýpsta alls sem er? Trúarbrögðin kalla þessa æðstu vitund, Guð. Á liðinni öld var sagt að trúarbrögðin væru óþörf og Lennon söng Imagine en nú á 21. öld er talað um að við lifum öld trúarbragðanna. Þau eru í það minnsta sprelllifandi og trúin víkur ekki fyrir vísindum eða þekkingu því hvorugt ógnar heilbrigðri trú á hið stóra samhengi. Vísindin eru að stærstum hluta afsprengi hinnar kristnu menningar en ég hef ekki tíma til að fara nánar út í þá sálma hér.
Lífið er gjöf. Lífið er dásamlegt og við erum eina kynslóð mannkynssögunnar sem ekki hefur dáið, svo vitna sé í skáldið Tómas Guðmundsson. Þess vegna skulum við njóta dagsins og vera glöð mitt í söknuði og sorg, glöð yfir því að lífið færði okkur góðan og mætan samferðamann.
Við kveðjum Loft Loftsson með virðingu og þökk. Guð geymi hann og geymi hann einnig okkur á lífsveginum, um alla tíð og tíma.
Amen.
Kveðjur:
frá sonum Lofts yngra, Lofti og Leó sem búa á eynni Jersey í Ermasundi;
frá börnum Valgerðar og Bjarna, Dýrleifu sem býr í BNA og Finni sem býr í Englandi og
frá Olgu Ágústsdóttur mágkonu Lofts og Krisjáni manni hennar sem búa í Kaupangi í Eyjarfirði.
Jarðsett verður í Gufunesi.
Erfi í safnaðarheimilinu og líkfyld að því loknu.
Ræðan birt.