Regína Fjóla Svavarsdóttir 1929-2013

reginafjolaÖrn Bárður Jónsson

Minningarorð

Regína Fjóla Svavarsdóttir

1929-2013

húsmóðir

Aflagranda 40

Útför (bálför) frá Fossvogskirkju

þriðjudaginn 22. október 2013 kl. 13

Þú getur lesið ræðuna hér fyrir neðan og einnig hlustað á hana.

Ef þú sérð prentvillu/r, stafavíxl eða ambögu/r þætti mér vænt um að fá ábendingu frá þér í athugasemd neðanmáls í þar til gerðum dálki.

 

Friður sé með okkur.

Dagarnir hafa verið bjartir upp á síðkastið. Fegurðin ólýsanleg, haustlitirnir sem fegursta skart og loftið tært. Og allt er þetta ljósinu að þakka. Litir og fegurð, form og fjarvídd eru gjöf ljóssins sem við nemum og njótum. Ljósið er forsenda alls og það vissi höfundur sköpunarsögunnar sem sá fyrir sér fyrsta vek Guðs í veröldinni er hann sagði: „„Verði ljós!“ Og það varð ljós.“

Jesús sagði: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins.“ (Jh 8.12). En hann sagði líka þetta: „Þér eruð ljós heimsins . . . Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum. (Matt 5.14a, 16)

Köllun okkar er að láta ljós okkar skína meðal samferðafólksins, að vera öðrum til stuðnings, að létta náunganum lífið og uppskera gleðina af því að þjóna öðrum. Með því að gefa og þjóna fáum við endurgjald sem birtist í elsku hinna þakklátu.

Það er þakklátt fólk sem kveður Regínu Fjólu í dag, þakklátt fyrir lífið hennar og störfin öll, fyrir elskusemi hennar og þjónustulund, brosið og gleðina. Hún var ljós í heimi ástvina sinna og samferðafólks.

Regína Fjóla fæddist í Reykjavík 29. maí 1929. Hún lést á Landspítalanum 11. október sl.

Foreldrar hennar voru Ársól Klara Guðmundsdóttir f.  26. nóvember 1908, d. 17. desember 2000 og  Svavar Sigfinnsson f. 29. nóvember 1906, d. 29. september 1992 . Þau skildu.

Bróðir Regínu Fjólu er Garðar Svavarsson f. 21. október 1930 kvæntur Aðalheiði Sigurðardóttur f. 21. janúar 1944. Önnur systkini Regínu Fjólu samfeðra voru sjö.

Ársól Klara giftist aftur 1. ágúst, 1944, Lúðvík Kristjánssyni f.  25. nóvember 1894,  d. 27. ágúst 1971.

Dóttir Lúðvíks er Soffía Taylor f. 8. júní 1939.

Regína Fjóla giftist 11. júlí 1949 Alberti Jóhannessyni f. 21. júlí 1925, d. 5. febrúar 2001. Þau skildu.

Hún giftist aftur 17. mars 1973 Hans Ragnari Berndsen f. 31. október 1928. Hann var ekkjumaður þegar þau kynntust en fyrri kona hans var Helga Maggý Ásgerisdóttir Berndsen d. 1970. Dóttir Hans og Helgu er Regína Berndsen f. 28. mars 1958.

Börn Regínu Fjólu og Alberts eru:

Kristjana Albertsdóttir f. 7. Júlí 1949. Börn hennar eru: 1) Bjarni Harðarson  2) Erla Harðardóttir f. 9. ágúst 1966. 3) Hörður Albert Harðarson f. 14. nóvember 1967, 4) Regína Harðardóttir f. 1. mars 1970,  5) Dorothy Jo Lowery f. 2. mars 1978.

Ragnhildur Albertsdóttir f. 24. mars 1951 gift Rúnari Benjamínssyni f. 6. desember 1948. Börn þeirra eru: 1) Þórdís f. 18. desember 1967 2) Lúðvík f. 11. apríl 1973  3) Ragnar f. 23. júní 1982.

Hrönn Albertssdóttir f. 16. júlí 1953. Börn hennar eru: 1) Rakel Sigurðardóttir f. 1. október 1970. 2) Reynir Gíslason f. 22. nóvember 1976. 3) Guðmundur Rúnar Guðmundsson f. 22. september 1980.

Lilja Albertssdóttir f. 16. Júlí 1953. Börn hennar eru: 1) Aníta Gísladóttir f. 29. maí 1973 2) Jóhanna Magnúsdóttir f. 16. mars 1982.

Ásgeir Albertsson f. 19. júlí 1955 kvæntur Jarþrúði Jónsdóttur f. 25. febrúar 1957. Börn þeirra eru: 1) Jón Davíð f. 25. febrúar 1980. 2) Arnar f. 28. júlí 1982.  3) Íris Erna f. 13. mars 1989.

Regína Fjóla sleit barnsskónum í Hafnarfirði þar sem hún ólst upp hjá móður sinni. Þær mæðgur bjuggu um tíma á Patreksfirði. Ung að árum var Regína Fjóla í sveit um tíma að Ketilsstöðum í Holtahreppi. Sem unglingur æfði hún fimleika hjá ÍR. Fyrstu hjúskaparár sín bjó hún með fjölskyldu sinni  í Vesturbæ Reykjavíkur. Hún var þá heimavinnandi húsmóðir. Fjölskyldan flutti til Ólafsvíkur árið 1964. Þar vann hún ýmis störf m.a. í Hraðfrystihúsinu, á Símstöðinni  og í Sundlaug Ólafsvíkur. Hún flutti aftur til Reykjavíkur árið 1972 og hefur búið þar síðan. Eftir komuna til Reykjavíkur vann hún m.a. í Pharmaco, í versluninni Sportval og síðustu starfsárin í félagsmiðstöð eldri borgara í Hvassaleiti.

Regína Fjóla átti marga góða daga um ævina, var heilsuhraust og vel á sig komin fram á efri ár en síðustu 7-8 árin hefur hún glímt við minnissjúkdóm og var farin að lokast inni í sjálfri sér, átti erfitt með mál en þekkti þó sitt nánasta fólk fram undir það síðasta. Hans sinnti henni af fádæma elskusemi alla tíð og einkum síðustu árin þegar hún þurfti stuðning og þjónustu. Læknir sagði um  þátt eiginmannsin í þeim efnum að þjónusta hans hefði verið „ofurmannleg“. Mörg hetjudáðin er unnin víða um land af fólki sem annast ástvini sína sjúka heima og sparar þannig kerfinu milljónatugi á ári hverju. Slíkt fólk ætti að heiðra sérstaklega en um leið að krefja yfirvöld um að veita öllum sem þurfa viðunandi þjónustu. Börnin eru Hans þakklát fyrir elskusemi hans í garð móður þeirra.

Hans og Regína kynntust á balli í Röstinni á Hellissandi en hún bjó þá í Ólafsvík. Það var ást við fyrstu sýn og Hans segir að hún hafi verið fyrirmyndar húsóðir, eiginkona og móðir yndislegra barna og barnabarna sem öll hafi tekið sér vel. Henni þótti einkar vænt um afkomendur sína og var í góðu sambandi við þá alla tíð. Dóttir hennar sem bjó í Ólafsvík segist alltaf hafa getað hring í mömmu og sagst vera á leiðinni í bæinn og þá var allt tilbúið þar á bæ, heitt kaffi á könnunni, bakkelsi og uppbúin rúm handa allri fjölskyldunni. Þegar Regína og Hans bjuggu í Asparfelli bjó sama dóttirin í næstu íbúð og þá var meira að segja hægt að fara á náttfötunum á milli íbúða.

Þau háttu bústað við Gíslholtsvatni í Holtum um tíma og þar var þeirra sælureitur í sveit.

Hans er rafvirki að mennt og vann við þá iðn á Vellinum og í Gufuskálum en lengts af hjá Pósti og síma eða í 39 ár.

Regína var glæsileg kona, grönn og hávaxin, brosið fallegt og birta yfir henni. Hún var hláturmild og opin, hafði góðan húmor og naut þess að segja sögur sem þræddu hárfína slóð milli þess sem mátti og mátti ekki segja.

Hún hafði yndi af útivist og ferðalögum og þau fóru víða, m.a. oft til Spánar og Danmerkur og svo einu sinni alla leið til Ástralíu.

Hún lagði upp úr því við börnin sína að vera heiðarleg, vera góðar manneskjur. Hún fékk þeim öllum verðug hlutverk í uppeldinu, skipti verkum á milli þeirra og kenndi þaim að bera ábyrgð á heimilishaldinu. Hún kenndi þeim bænir og vers og bað með þeim á kvöldin og eftir að bænahaldi lauk máttu þau ekki mæla en ef það kom fyrir þá varða að fara aftur með bænirnar. Stundum láu þau undir sæng með baujuljós og stálust til að lesa eftir bænahaldið. Svona er æskan. Hún kannar þensluþol og girðingar í uppeldinu!

Hún dekraði við yngsta barnið, einkasoninn, segja stelpurnar hennar og brosa og tengdasynirnir voru í miklu uppáhaldi hjá henni. Ásgeir segir mömmu sína aldrei hafað skammað sig eða birst sig við hann. Það segir margt gott um hana og líka hann.

Börnin minnast þess hvað hún las dönsku blöðin af mikilli gleði, réði krossgátur í Morgunblaðinu og svo spiluðu þau Hans, Rommý, fram undir það síðast. Þau fóru í gönguferðir meðan hægt var og nutu samvista til hinstu stundar. Þau voru góðir vinir og elsk að hvort öðru.

Nú skiljast vegir. Regína Fjóla er farin af þessum heimi og hennar bíður nú sú tilvist sem hún var vígð til í heilagri skírn með krossi á enni og brjósti, tákni upprisu og sigurs.

Kveðjur hafa borist frá fjarstöddum ástvinum, frá syni Ragnhildar, Lúðvíki eða Lúlla, konu hans Heiðu og börnum þeirra sem búa í Danmörku;

frá barnabarni Regínu Fjólu og nöfnu, Regínu H. Mathisen og börnum hennar í Noregi;

frá börnum Kristjönu, Bjarna Harðarsyni í Noregi og Erlu Harðardóttur og fjölskyldu hennar sem einni býr í Noregi.

Við stöndum á krossgötum. Regína Fjóla er farin í sína hinstu för og við höldum áfram að lifa í þessum heimi þar sem ljósið skiptir öllu máli.

Megi ljósið lýsa okkur leið um lífsins veg og blessa hana sem nú er horfin inn í ríki hins eilífa ljóss.

Blessuð sé minning Regínu Fjólu Svavarsdóttur og Guð blessi þig.

Amen.

Ein athugasemd við “Regína Fjóla Svavarsdóttir 1929-2013

  1. Mjog falleg og sonn raeda um vinkonu mina Reginu. Eg fann eina malfraedivillu: …var heilsuhraust og vel a sid kominn. Her a ad vera „komin“ thar sem verid er ad tala um kvenmann.
    Kaerar thakkir fyrir ad birta minningarordid a thessari vefsidu. Hulda Emilsdottir

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.