Stefán Halldórsson 1959-2013

Örn Bárður Jónsson

stefanhalldorssonMinningarorð

Stefán Halldórsson

1959-2013

fv. slökkviliðs-, handbolta- og kryddgerðarmaður

Einarsnesi 36, Rvk.

Útför (bálför) frá Garfarvogskirkju

mánudaginn 21. okt. 2013 kl. 13

Jarðsett verður í Fossvogsgarði að lokinni bálför í leiði föður hans.

Þú getur lesið ræðuna hér fyrir neðan og einnig hlustað á hana.

Ef þú sérð prentvillur, stafavíxl eða ambögur þætti mér vænt um að fá ábendingu frá þér í athugasemd neðanmáls í þar til gerðum dálki.

 

Friður Guðs sé með ykkur.

Stefán hafði sterka nærveru í hvaða hópi sem var. Gleðin í andliti hans, stríðnislegur svipurinn, löngunin til að hefja samtal og tjá sig um hitt og þetta var svo sterk að hann setti svip sinn á umhverfið hvar sem hann kom. Hann var sannkallað krydd í tilverunni. Hann var fjömikill strákur sem varð landsliðsmaður í handbolta á sínum yngri árum, kröftugur slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður um árabil og loks kryddframleiðandi í Skerjafirðinum. Hann átti trú í hjarta sér og vildi sjá hið góða sigra í hverjum aðstæðum, var frímúrari sem leitaði svara við spurningum lífsins á grundvelli kristinnar trúar og er hér kvaddur í dag af stúkurbræðrum, ástvinum og fjölda fólks.

Til hvers er þetta líf? Er allt búið þegar stritið er að baki, sjúkdómar og dauðastríð? Til hvers er þetta líf? Ég veit ekki hversu margir velta þessu fyrir sér af alvöru í annríki daganna.

„Tilvera okkar er undarlegt ferðalag. Við erum gestir og hótel okkar er jörðin.“ Svo kvað Reykjavíkurskáldið, Tómas Guðmundsson. Við erum gestir. Og ef svo er þá má spyrja: Hvaðan komum við þá? Hvaðan er þetta líf? Það er í það minnsta mjög flókið fyrirbrigði og margslungið. Þróun lífsins á jörðinni er undur og þáttur elds í iðrum jarðar, sem brýst upp á yfirborðið, er stór. Við búum á plánetu sem er sú eina í alheimi sem við þekkjum og hýsir líf, vitundarlíf. Hvaðan kemur þessi vitund? Er hún bara orðin til úr efnasúpu, kryddlegnum steinefnum í bullandi hver? Eða er vitundin komin inn í þennan heim úr handanverunni, úr þeirri vídd sem er að baki öllu lífi, vídd sem var til áður en miklihvellur átti sér stað, áður en allt varð til, vídd sem hefur ætíð verið til og mun ætíð verða?

Guð er Guð, þótt veröld væri eigi,
verður Guð, þótt allt á jörðu deyi.
Þótt farist heimur
sem hjóm og eimur,
mun heilagt streyma
nýtt líf um geim, Guðs á degi.

(Sb 11.2 – Peter Dass í þýðingu Sigurbjörns Einarssonar)

Þannig sér skáldið fyrir sér hina eilífu vídd. Við spurningum þeim sem hér er varpað fram eru til svör í trúararfi okkar, hvort sem okkur líkar þau eða ekki.

Guð hefur skapað þenna heim. Hann sagði: „„Verði ljós.“ Og það varð ljós.“ (1. Mós 1.3)

Það tók vísindamenn þúsundir ára að komast að sömu niðurstöðu og höfund 1. Mósebókar en til þess þurftur þeir tækniundrið Hubble-sjónaukann, geimferðir og geimvísindi til að uppgötva miklahvell. Það varð ljós!

Lífið er ekki tilviljun enda þótt tilurð þess sé flókin og hafi tekið milljónir ára. Þolinmæði Guð er önnur en okkar:

„Því að þúsund ár eru í þínum augum

sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn,

já, eins og næturvaka.“

Við erum „Guðs ættar“, segir postulinn (Post 17.9) og vitund okkar er frá honum komin, vitund okkar um rétt og rangt, um kærleika og ást, um misbresti okkar, um fyrirgefningu Guðs, um hinsta dóm, upprisu og eilíft líf.

Við erum í hendi Guðs í lífi og dauða.

Stefán var oft með fólki á mærum lífs og dauða. Hann tók á móti 13 börnum í sjúkrabíl  og án þess að gera úr því sérstakar fréttir í fjölmiðlum. Þetta var bara starfið hans. Hann var fljótur að hugsa og snar í snúningum, vel á sig kominn, fitt og flottur, en svo tóku sjúkdómar að gera vart við sig. Hann fór ekki alltaf vel með sig og þegar verulega hafði hallað undan fæti hjá honum þá bara skálaði hann fyrir lífinu og leyfði sér að vera kærulaus og fannst hann hafa engu að tapa. Hann sofnaði inn í eilífðina laugardagskvöldið 12. október s.l. farinn að kröftum eftir glímu við sykursýki og svo uppgötvaðist í honum sjaldgæfur sjúkdómur fyrr á þessu ári sem kallaður er poems.

Stefán Halldórsson fæddist í Reykjavík 16. mars 1959 og var ekki nema 54 ára er hann lést. Hann lifði hratt og fór oft mikinn.

Foreldrar hans eru Halldór Runólfsson fæddur 1939 og dáinn 1988, og Björg Stefánsdóttir (fædd 1939), sem kveður elskulegan son sinn. Stefán á eina systur, Jóhönnu Sigríði (fædd 1961). Sambýliskona Stefáns er Hjördís Andrésdóttir (fædd 1966) og eiga þau einn son, Davíð Funa, 8 ára (fæddur 2005). Börn Hjördísar og fóstubörn Stefáns eru Íris Andrea Guðmundsdóttir (fædd 1990) og Tumi Guðmundsson (fæddur 1994). Stefán var áður kvæntur Halldóru Gröndal og á með henni eina dóttur Maríu Kristínu, og var einnig kvæntur Dagnýju Þórisdóttur og á með henni eina dóttur Önnu Jónu. Stefán starfaði stærstan hluta ævi sinnar sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og seinustu ár ævi sinnar framleiddu hann og Hjördís kryddblöndur og ráku sitt eigið fyrirtæki.

Kryddævintýrið kom þannig til að hann hafði útbúið sér blöndu sem varð til á löngum tíma og hann geymdi jafnan í dúnki. Hann kryddaður með blöndunni þegar hann grillaði heima og í slökkviliðinu. Nágrannar og vinir komu oft og fengu slatta til að elda með heima og svo fór að lokum að þau Hjördís fóru að markaðssetja kryddið, fyrst í hinni heimsfrægu Melabúð og svo í Fjarðarkaupum og þá var ævintýrið orðið að veruleika.

Stefán var einn af stofnfélögum HK í Kópavogi og lék með félaginu um langt skeið. Hann þjálfaði handboltamenn um tím í Vestmannaeyjum og lék sjálfur 64 landsleiki í handbolta. Að loknu grunnskólaprófi langaði hann í íþróttakennaraskólann en sá draumur rættist ekki. Hann var sölumaður hjá Björgvini Schram, heildverslun í mörg ár og seldi íþróttaskó sem hann gjörþekkti og hafði hlaupið í um árabil. Reyndar seldi hann ekki þá skó heldur nýja! Hann vann um tíma hjá Kristjáni Siggeirssyni h.f. Hann ók leigubíl í ein 22 ár á frívöktum sínum í slökkviliðinu en eina frívaktina var honum boðið á „blind date“ af vinum sínum sem hittust í Skerjafirðinum í morgunkaffi í klúbbnum Sæmundi en þar komu saman nokkur hjón og einhleyp kona og 2ja barna móðir, kaupkonan í hverfinu. Svo mætti þessi flotti gæi. Allar konurnar í boðinu sem hann hitti kynntu sig og sögðust heita Hjördís og svo bættist ein við í lokin og hún hét líka Hjördís! Þá fór handboltakappinn að skilja leikinn og eftir það varð ekki aftur snúið. Hann flutti inn í Skerjaver og þau ráku búðina saman sem breyttist í kryddverið mikla þar sem aldrei mátti blanda kryddi eða pakka nema geðslagið væri rétt.

Hann var frumburður móður sinnar og hún segist hafa veitt honum allt sem hún gat og stöðu hans skyldi fylgja. Föðurmissirinn var honum erfiður en þeir voru nánir, Halldór og hann. Stefán var góð sál, einlægur og góðviljaður. Mamma hans rifjaði það upp er hann kom heim úr grunnskóla eftir að hafa séð þar krassandi mynd um skaðsemi reykinga: „Mamma, þú ert kolsvört að innan“, sagði hann. Hann reykti ekki sjálfur en tók vel í nefið og má furðu sæta að hann skyldi getað blandað kryddið góða með svo pakkaðar nasir. Eða var það kannski einmitt þess vegna?

Hann reyndist börnum Hjördísar afar vel og veitti þeim allt sem hann gat og kunni. „Hann hefði gengið út fyrir sólkerfið fyrir þau“ sagði Hjördís við mig. Svo kom Davíð Funi og varð þeirra sólargeisli. Guð blessi framtíð hans og fjölskyldunnar allrar.

Kæra fjölskylda og vinir, haldið vel utan um drenginn og styrkið hann til góðra verka.

Stefán var alinn upp í trú og æðruleysi. Þau Hjördís voru ólík bæði hvað varðar trú og pólitík en hann var blár og hún rauð, hann átti trú en hún var efins. Hann var æðrulaus í veikindum sínum og alltaf að halda andlitinu gagnvart móður sinni sem hann vildi ekki að sæi að hann væri mikið veikur. Hann veiktist í febrúar 2008 og hefur gengið í gegnum mjög erfitt ferli allar götur síðan. Hann valdi sína meðferð í þeim efnum, sem ekki hugnaðist öllum öðrum, en hann fékk að ráða. Hann horfði mikið á sjónvarp og Hjördís segir að „starfsfólk sandkassans við Austurvöll“ eins og hún orðaði það, hafi misst einn dyggasta áhorfanda og hlustanda á umræður Alþingis. Stefán mátti helst aldrei missa af fréttum. Hann fylgdist vel með og setti sig inn í mörg mál og vissi margt um alla sem sátu á Alþingi á hverjum tíma. Hann var jafnan hrókur alls fagnaðar hvar sem hann kom og svo hélt hann mikið upp á Sálina og því eru hér í dag flutt góð lög úr þeirri sveit í flutningi nafna hans Hilmarssonar. Sálin hefur jafnan boðskap að flytja um lífið og tilveruna og á það án efa stóran hlut í vinsældum hljómsveitarinnar. Hún snertir í manni sálina.

Stefán var veiðimaður af lífi og sál. Vatnsdalsá var í uppáhaldi hjá honum og hann náði að fara með félögum sínum í veiði fyrir 2 vikum. Það var ótrúlegt afrek sem tókst með dyggri aðstoð vina hans sem reyndust honum vel til hinstu stundar og eru þeim hér með færðar þakkir fyrir vináttuna og alla hjálpina. Hann lék golf í GR og hafði yndi af því en golf er skv. guðfræði sem ég hef þróað og sett fram, kristilegasta íþrótt sem til er og helgast af því að kylfingar leika eftir þrauthugsuðu kerfi sem fyrirgefur klaufaskap. Kerfið er kallað forgjöf en ætti auðvitað að heita fyrigefning. Og því spyr ég kylfinga sem kunna að vera hér í dag: Hvað ert þú með í fyrigefningu?

Og svo spyr ég okkur öll: Hvað fáum við stóra fyrirgefningu í þessu lífi?

Trúin segir: mjög stóra!

Trúin segir kærleikann umbera allt.

Guð er miskunnsamur eins og segir í einum Davíðssálma (103.3-4):

„Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar,

læknar öll þín mein,

leysir líf þitt frá gröfinni,

krýnir þig náð og miskunn.“

Við eigum upprisu í vændum, upprisu úr sjúkdómum og böli, upprisu frá dauðum. Upprisan er líka að verki meðan við lifum og í hvert sinn sem fólk færl nýja von og trú, nær sér af veikindum, sorg og missi, er upprisan að verki.

Lífið er í þessu samhengi, segir trúin. Við erum ekki bara frumusúpa komin úr heitum hverum fyrir áhrif eldsumbrota í iðrum jarðar. „Við erum smíð Guðs, sköpuð í Kristi Jesú til góðra verka sem hann hefur áður fyrirbúið til þess að við skyldum leggja stund á þau.“ (Ef 2.10)

Þetta er samhengi lífs okkar og í þeirri trú og í því samhengi kveðjum við látinn samferðamann, Stefán Halldórsson.

Guð blessi minningu hans og góður Guð leiði Hjördísi og Davíð Funa, börnin þeirra beggja frá því áður, móður hans og ástvini alla.

Hann er farinn í sitt hinsta útkall, hann sem var krydd í tilveru okkar, eftirminnilegur félagi og góður drengur.

Guð geymi hann og Guð geymi þig.

Amen.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.