Anna María Helgadóttir 1927-2013

Örn Bárður Jónsson

AnnaMHelgadottirMinningarorð

Anna María Helgadóttir

húsmóðir og fv. bæjarfulltrúi

frá Ísafirði

19378-2013

Útför (bálför) í kyrrþey frá Kapellunni

í Kirkjugarði Hafnarfjarðar

þriðjudaginn 15. október 2013 kl. 13

Jarðsett verður þar að lokinni bálför.

Ræðuna er hægt að lesa og hlusta á hér fyrir neðan.

„Að vera eða ekki vera, þar liggur efinn“, sagði prinsinn Hamlet í samnefndu skáldverki Shakespears. Við hljótum öll að velta fyrir okkur tilvistarspurningum nema við fljótum sofandi að feigðarósi. Hvers vegna er ég hér? Til hvers er þetta líf? Við búum á einu plánetu alheimsins sem við vitum að hýsir vitundarlíf. En til hvers er þessi vitund, þetta líf? Er það tilgangslaust? Hvar endar þetta líf, hvert stefnum við? Í ljóði Gyrðis Elíassonar, Lífið er völundarhús, er saga um manneskju, sem komin er að mærum:

Þú ferð inn um dyr

og þá koma aðrar

dyr rétt á eftir, þú

ferð í gegnum þær

og enn koma nýjar

dyr, og næst eru

tvíbreiðar dyr, og

þú ferð enn lengra

þar til loks eru ekki

fleiri dyr framundan.

Þá snýrðu þér við,

með bakið að

gráum veggnum,

og allar þær dyr

sem þú fórst um

áður eru læstar

(Lífið er völundarhús, úr bókinni Hér vex engin sítrónuviður, Uppheimar 2012, s. 30)

Við komumst ekki til baka. Fortíðin er að baki, við eigum daginn og svo komum við að hinum miklu mærum í fyllingu tímans. Og ég spyr: Hvað er handan hins gráa veggjar?

Efinn er fylgifiskur mannsins, glíman við tilvistina fylgir okkur eins og skuggi og við verðum að velta um steinum og leita svara við spurningum lífsins.

Anna var leitandi kona og hún ræddi við mig um efann og henni létti þegar hún heyrði að það væri í lagi að efast, að trúin væri ekki eins og alltof stórt kjötstykki sem maður yrði að meðtaka í einum munnbita. Túin er leit, hún ver vegferð, hún er fólgin í því að spyrja og leita svara, hlusta og meðtaka, velta fyrir sér rökum og skoða þau í ljósi tilfinninga, hugsunar og veruleika. Trúin er ekki eins og hlutur heldur er hún dýnamískur veruleiki sem á sér stað á milli efans og vissunnar, milli himins og jarðar, milli hérveru og handanveru, milli Guðs og manns. Hún er samtal eins og þegar vinkonur sitja við eldhúsborðið og ræða lífið og tilverunar yfir kaffibolla og lagköku og lífið blómstrar af því að samtalið og það að deila reynslunni skapar nýjar víddir og veitir gleði. Og þess vegna hittast þær aftur og aftur vegna þess að trúin nærist í samfélagi við aðra, í samfélagi við Guð og fólk. Og efinn vefst um allt og alla. Hann er drifkraftur leitar og forvitni um þetta líf og tilvist, heim og geim.

Og hér erum við og kveðjum merka konu sem glímdi við margar spurningar. Ein þeirra var: Hvers vegna dó pabbi frá mér þegar ég var enn í frumbernsku? Hvernig hefði lífið orðið ef hann hefði lifað? En dyrnar að baki eru allar læstar og við komumst ekki um þær en við getum haldið áfram að lifa og pæla. Við eigum bara daginn. Fortíðin er farin og framtíðin ókomin. Við erum fólk á ferð eins og hún Anna var á ferð um þetta líf með sínar tilfinngar og spurnir. Hún reyndi margt og nú nýlega þá djúpu sorg að missa son sinn, góðan mann og greindan. Og okkur finnst að svona eigi röðin ekki að vera. En við ráðum henni ekki og Guð ekki heldur, eða hann vill ekki ráða henni, vegna þess að hann leyfir lífinu að fara sínu fram á þessu leiksviði þar sem maðurinn verður að læra að glíma og þroskast við það að mæta hinu óvænta. Hann gaf manningum frjálsan vilja og vildi ekki hafa hann sem brúðu í spotta eða vélmenni í geisla fjarstýringar. Og þess vegna erum við eins og við erum og þess vegna er lífið eins og það er.

Lífið í þessum heimi óvissunnar er þroskaferli þar sem við lærum að umgangast annað fólk af varfærni en líka með festu. Börn læra empatíu eða samhyggð á fyrstu mánuðum og misserum lífs síns. Þau læra að finna til með öðrum, finna til samkenndar. Anna hafði ríka samhyggð og lífsreynsla hennar hjá fátækri móður styrkti hana í þeirri trú að fólk yrði að standa saman til að bæta lífsskilyrði hvers annars. Hún var jafnaðarmanneskja og hennar fólk var það flest og setti mark sitt á bæjarlífið á Ísafirði og átti sér um leið draum um betra Íslands í anda lýðræðishugsunar og samstöðu.

Hún kom víða við. Var húsmóðir og sjómannskona sem stóð sína vakt með sóma, vann við að gæta barna annarra og svo við að gæta sjóða samferðafólksins og loks kom hún að bæjarstjórn á Ísafirði og barðist þar fyrir góðum málum. Hún vann það sem þurfti að gera heima og lét sig t.a.m. ekki muna um að flísaleggja á baðinu í kringum vaskinn meðan Arthur var á sjó.

Anna María fæddist 15. september 1927. Hún hélt góðri heilsu alla tíð. Hún átti góða daga og náði góðum aldri og lést að loknu góðu dagsverki þegar hún hafði ekið um borg og bæ og sinnt erindum sínum og tekið þátt í félagslífi í Boðaþingi með fólki á sínu reki. Hún kvaddi í fullu fjöri, eins og sagt er.

Foreldrar Önnu voru: Margrét Rebekka Híramsdóttir, fædd á Búðum í Sléttuhreppi 14. maí 1899, d. 11. janúar 1992, og unnusti hennar, Sakarías Helgi Guðmundsson, fæddur í Aðalvík 24. maí 1900, drukknaði 19. október 1929 í róðri á Gissuri hvíta. N.k. laugardag verða liðin 84 ár frá því að hann dó sem hún þráði að kynnast alla tíð. Anna átti einn albróður, Helga Gunnar Helgason, f. 12. mars 1930 en hann lést úr berklum 2. maí 1931 á Höfðaströnd. Hún vissi ekki um þenna bróður sinn fyrr en löngu síðar því móðir þeirra lokaði dyrum að þeim sársauka og sorg. Sammæðra systkini Önnu eru, Sigríður K. Magnúsdóttir f. 1932, sem ein lifir systur sína og Birgir Magnússon 1934-2009 og Ólína Rut Magnúsdóttir 1936-2004. Faðir þeirra var Magnús Ásgeirsson frá Kleifum í Seyðisfirði við Djúp. Birgir bróðir Önnu bar í raun nafn hins látna albróður henna og hét fullu nafni: Helgi Gunnar Birgir Magnússon.

Anna ólst upp á Ísafirði hjá móður sinni og stjúpa. Þau bjuggu í Aðalstræti, í Tangagötu og í húsinu Þóroddsstöðum við Silfurgötu. Ísafjörður var öflugur bær á sínum tíma og meira að segja í kreppunni, á bernskuárum Önnu, voru þar þó nokkrar framkvæmdir og samvinnubátarnir komu og bættu atvinnulífið í bænum. En lífið í þá daga var annað en nú enda þótt enn finnist fátækt fólk á Íslandi. Í barnsminnið brenndist upplifun af því að vera send á bæjarskrifstofurnar af mömmu til að sækja styrk. Þá hét Anna því að hún mundi fara aftur á þessa sömu skrifstofu, ekki til að sækja styrk, heldur til að ráða þar sjálf. Hún stóð við það seinna með því að fara í bæjarmálin og taka þátt í pólitík.

Hún var góðum gáfum gædd, bókhneigð en hafði ekki tækifæri til að mennta sig eins og hana langaði til. Hún þurfti að leggja fjölskyldunni lið sem barn og unglingur og þegar Hannibal, þá skólastjóri, vildi hvetja hana til að fara í Gagnfræðaskólann sagðist hún ekki geta það því hún þyrfti að vinna.

Þau voru jafnaldrar Arthur Gestsson og hún og þau lögðu upp í ferð saman. Hann var fæddur 12. janúar 1927 og lést 6. september 2009. Arthur var sjómaður lengi vel og þau fluttu suður 1991.

Börn þeirra eru: Helgi Már f. 19. febrúar 1951, d. 14. júní 2013, Elín Alma, f. 21. febrúar 1956 og Erlingur, f. 20. febrúar 1961. Fæðingardagar þeirra þriggja bera því vott að þau eru sjómannsbörn sem urðu til í kringum lokadaginn og fæddust í byrjun vetrarvertíðar!

Anna var næm á fólk og líðan þess. Hún átti auðvelt með að setja sig í spor annarra og tengjast því. Hún kynntist vel öllu fólki sem hún leitaði þjónustu hjá eins og t.d. hárgreiðslukonunni. Anna var vönd að virðingu sinni. Hún var hláturmild og húmorísk, svipurinn var glettinn, augun skörp og brosið ögn tvírætt. Hún var bindindismanneskja sem hafði allan vara á sér varðandi vín og vissi að öl var og er böl í mörgum ranni. Hún var fagurkeri og hafði yndi af að klæða sig upp á og var nýbúin að fata sig upp fyrir veturinn en átti bara eftir að fá sér nýja skó. Þeirra varð ekki þörf því vegur hennar endaði fyrr en hún eða aðrir væntu. Hún var félagslynd og tók virkan þátt í félagslífi fyrir Vestan, var formaður Vezlunarmannafélagsins um tíma og varaformaður og síðar formaður Slysavarnarfélagsins og kom þar á svonefndu Línuhappdrætti árið 1972 að norskri fyrirmynd.

Hún var réttsýn manneskja, sannur jafnaðarmaður, ísfirskur eðalkrati, bæjarfulltrúi um tíma, formaður bæjarráðs og átti sæti í barnaverndarnefnd og var einu sinni á lista til alþingiskosninga og auðvitað fyrir Alþýðuflokkinn. Í seinni tíð fannst henni pólitíkin vera orðin hálgert pjátur og eftirsókn eftir vindi.

Hún hafði gaman af að ferðast innan lands og utan og fara í bíltúr hér heima til að skoða sig um. Hún naut sín í sól og hita og kannski var í henni suðrænt blóð eins og mýtan segir um marga Vestfirðinga. Augun dökku, hárið svart og nefið vísuðu í suðurátt. Elín Alma minnist þess er þær voru í útlöndum 1978 að mamma hennar pantaði sér oftar en ekki salatrétti en þá var landinn nú almennt ekki farinn að eta grasið grænt. Hún var líka leitandi manneskja og prófaði ýmislegt nýstárlegt og því til sannindamerkis sótti hún námskeið í kringum 1980 í að útbúa makróbíótískt fæði.

Ég ætla nú ekki að gleyma fjölskyldunni hennar. Börn Helga Más heitins og eftirlifandi konu hans, Sigríðar Árnadóttur, eru Gunnar Arthúr og Elín Þóra en fyrir átti Helgi fyrir 3 dætur: Önnu Maríu Helgadóttur og Rebekku og Söru Andrínudætur. Elín Alma á Agnesi Gísladóttur og býr með Rafni Ingimundarsyni en þær Anna og Agnes voru einkar nánar. Hún var elsk að öllum sínum barnabörnum en þær voru nánast eins og mæðgur. Erlingur á Arnar og Kristinn með Ingibjörgu Arthúrsson.

Hún átti sinn þátt í að tryggja kylfingum aðstöðu í Tungudal og fannst að svæðið ætti að vera opið almenningi til útvistar. Hún var alla tíð óhrædd að tjá sig um hvað sem var og gat rætt við hvern sem var um allt. Henni fannst alla tíð vænt um Ísafjörð en þótti nú fjöllin samt þrengja að sér og fann til frelsis er hún kom hingað suður í víðáttuna.

Hún lagði upp úr því við börnin að þau stæðu sig í lífinu, væru heiðarleg, duglega og sönn.

Hún naut menningar af ýmsu tagi, las alla tíð kynstrin öll af bóku sem hún sótti oftar en ekki á bóksöfn. Sem barn og unglingur stóð hún í biðröð í bókasafninu heima á Ísafirði til að ná í skýrteini númer eitt. Hún bar heim stafla að bókum og svo hafði hún komið sér upp þeirri skilgreingum á menningu að hún væri fólgin í því sem gleddi sig: „List er það sem gerir mig glaða“, sagi hún.

Hún sá ætíð um peningamálin heima og svo sneri hún öllu við þegar henni var farið að leiðast uppröðun húsgagna og stokkaði allt upp til að fá tilbreytingu og nýjan svip löngu áður en nokkur maður á Íslandi þekkti hugtakið Fengsui.

Hún lærði á bíl á 7. áratugnum. Arthur hvatti hana til að taka próf og aka bíl og þegar þau fluttu suður og hann sótti vinnu á heimilisbílnum keypti hún sér bíl til að komast sinna erinda um borgina. Það var Mazda og hún tók 3 aukatíma hjá ökukennara til að fríska upp á kunnáttuna.

Elín Alma og Anna voru nánar mæðgur og töluðu saman daglega í a.m.k. 44 ár ef frá er talin bernska Elínar. Barnabörnin voru henni afar kær og Sigríður tendadóttir segir hana hafa verið einstaka konu sem heiður var að fá að kynnast. Þær urðu trúnaðarvinkonur og töluðu mikið saman um dagana.

Og nú er hún horfin, þessi eftirminnilega kona með sinn skarpa og greindarlega svip, spyrjandi augu og leitandi huga.

Ég heyrði ykkur sem ég hitti í gær segja: „Hún var í senn viðkvæm og sterk.“ Í því sambandi verður mér hugsað til inngangs ræðunnar þar sem ég talaði um trúna og það sem gerist á milli heimanna, milli trúar og efa, milli fólks. Á milli hins viðkvæma og sterka verður til eitthvað göfugt. Anna þráði að trúa og eignast vissu. Hún var að breyttu breytanda eins og Tómas postuli sem kallaður er efasemdamaðurinn í hópi lærisveina Jesú. Hann þurfti sannanir – og hann fékk þær þegar Jesús mætti honum upprisinn og sagði:

„Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar og kom með hönd þína og legg í síðu mína og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður. Tómas svaraði: „Drottinn minn og Guð minn!“ Jesús segir við hann: „Þú trúir af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir sem hafa ekki séð og trúa þó.“ (Jh 20.27-29)

Í mörgum tilfellum í lífinu fáum við engar sannanir en við fáum að heyra vitnisburð þeirra sem sáu. Vitnisburður NT er að stærstum hluta til vitnisburður sjónarvotta. Við sáum ekki hinn upprisna en við höfum heyrt um hann. Við verðum að búa áfram í landi efans, á milli spurnar og vissu. Þannig er lífið, það er leit sem gefur skilning þegar ljósið kviknar á milli tveggja póla.

Guð leiði okkur í þeirri leit sem mestu skiptir og opni okkur dyr þar sem grár veggurinn mætir okkur við lífslok. Steininum var velt frá grafarmunnanum forðum og leiðin opnaðist út. Enn eigum við von um að Guð sprengi klöpp og gráan vegg og leiði okkur út í ljósið – og heim!

Guð blessi minning Önnu Maríu Helgadóttur og Guð blessi þig.

Amen.

Ein athugasemd við “Anna María Helgadóttir 1927-2013

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.