Minningarorð
Paula Andrea Jónsdóttir
húsmóðir og saumakona
1920-2013
Útför (bálför) frá Dómkirkjunni
föstudaginn 11. október 2013 kl. 15
Ræðuna er hægt að lesa hér fyrir neðan og einnig hlusta á hljóðupptöku.
Hvers vegna er ég hér? Hver kom mér hingað?
Oft leiði ég hugann að því undri að vera til, að eiga þetta líf og að vera hér á þessari plánetu sem er sú eina sem þekkt er með vitundarlífi í alheiminum í allri sinni ógnarstærð og vídd. Mér er það ljóst að engu mátti muna að ég hefði ekki orðið til. Sama á við um okkur öll.
En við erum til og höfum hlutverki að gegna í þessu lífi. „Lífið er leiksvið“ sagði skáldið Shakespeare. Hver ákvarðar þetta allt? Einn á stutt líf og annar árafjöld, einn líf í kvöl annar hamingjudaga? Og hver er þá hamingjusmiðurinn? Er það ég? Erum við hvert fyrir sig gæfusmiðir? Og ef ég er minn eigin gæfusmiður, þá spyr ég: Hvaðan kemur mér vitundin um hamingju og gæfu, um hið æðra og betra, um rétt og rangt?
Við lifum og höfðum ekkert um uppruna okkar að segja en verðum að taka ábyrgð á lífi okkar og samferðafólksins, axla hlutverkið og leika. Er það ekki merkilegt hversu margir inna þetta hlutverk vel af hendi sem þeir höfðu ekkert um að segja í upphafi?
Paula vissi að hún hafði hlutverki að gegna. Hún tók upp sinn þráð og hann liggur víða. Kannski velti hún því ekki mikið fyrir sér í dagsins önn en hún gekk að sínum verkum og vann þau af trúmennsku, naut daganna sem barn og fullorðin kona með manni sínum, eignaðist börn og kom þeim vel til manns, náði háum aldri og hélt góðri heilsu alla tíð, lifði merkingarbæru lífi. Hver var hennar hlutur í því og hver hlutur lífsins sjálfs eða eigum við að segja: gjafara lífsins?
Paula Andrea fæddist þann 13. janúar 1920 í Álasundi, Norgegi. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 2. október 2013. Foreldrar hennar voru hjónin Jón Bergþór Jónsson leikfangasmiður og sjómaður, fæddur á Melum, Kjalarneshreppi, Kjós 23. febrúar 1889 d. 22. ágúst 1981 og Elise Sivrine Eriksen Jónsson húsmóðir, fædd í Álasundi 12. júlí 1884 d. 20. maí 1969.
Systkyni Paulu eru Sigurður Jón Jónsson klæðskeri, f.1916 d. 2009.
Kristbjörg Margott Jónsdóttir húsmóðir f. 1918.
Elise Kristine Jónsdóttir húsmóðir, f. 1922 d. 2011.
Jón Jónsson ökukennari og vagnstjóri, f. 1924.
Sammæðra var
Laurence Jóhanna Helgason húsmóðir f. 1908 d. 1993.
Eiginmaður Paulu var Páll Guðnason bankafulltrúi fæddur 22. júní 1920 d. 20. febfrúar 2000. Þau gengu í hjónaband 28. mars 1945 skömmu áður en stríðinu lauk. Foreldrar Páls voru, Guðni Pálsson skipstjóri, fæddur í Götu í Selvogi 29. apríl 1891 d. 9. júní 1967 og Jórunn Þórey Magnúsdóttir húsmóðir, fædd í Reykjavík 16. júlí 1897, d. 23. mars 1981.
Börn Paulu og Páls eru:
Guðni Bergþór Pálsson, arkitekt f. 29. desember 1946, eiginkona Guðríður Tómasdóttir skrifstofumaður f. 1950. Fósturbarn: Dagur Tómas Jónsson f. 1978, Börn: Ragnheiður Andrea Guðnadóttir f. 1995 d. 1995 og tvíburarnir, Andrea Guðrún Guðnadóttir f. 1996, Ragnheiður Elísa Guðnadóttir f. 1996.
Hilmar Pálsson f. 1949 d. 1949.
Páll Hilmar Pálsson f. 1950 d. 1951.
Þór Elís Pálsson f. 23.september 1952 kvikmyndagerðarmaður og kennari, eiginkona Jóhanna Bernharðsdóttir hjúkrunarfræðingur og lektor við HÍ f. 1954. Börn: Harpa Elísa Þórsdóttir f. 1978, Tómas Þórsson f.1986 og Bernharð Þórsson f. 1990.
Lísa Pálsdóttir f. 13. desember 1953, dagskrárgerðarmaður, eiginmaður Björgúlfur Egilsson, tónlistarmaður og málari f. 1957. Börn: Páll Úlfar Júlíusson f. 1973, Helga Dís Björgúlfsdóttir f. 1983 og Egill Björgúlfsson f. 1990.
Rannveig Pálsdóttir, textílkennari og hönnuður f. 18. desember 1958, eiginmaður Juan Carlos Pardo Pardo, félagsliði og stuðningsfulltrúi f. 1957. Börn: Stefán Úlfur Brynjólfsson f. 1979, Valdimar Kristján Pardo f. 1990, Roberto Andrés Pardo f. 1992.
Paula fæddist í Noregi 1920, og fluttist til Íslands 1929 með foreldrum sínum og systkinum. Þá var heimskreppan í algleymingi. Þegar til Íslands kom byggði faðir hennar lítið hús vestur í Skjólum í Reykjavík þar sem fjölskyldan settist að. Er Paula óx úr grasi stundaði hún nám við Hússtjórnarskóla Ísland og nokkru síðar nam hún kjólasaum. Paula kynntist Páli 19 ára gömul og gengu þau í hjónaband 6 árum síðar. Á tímabili rak Paula litla sauamastofu þar sem hún saumaði kjóla samkvæmt nýjustu tísku. Páll og Paula byggðu sína fyrstu íbúð að Bústaðarvegi 55, og síðan var ráðist í húsbyggingu að Hagamel 35 með þremur samstarfsfélaögum Páls í Útvegsbankanum, þar sem hann starfaði lengst af. Þar áttu þau fallegt heimili þar sem Paula hélt myndarlega utan um heimilishaldið og ávallt tók hún fagnandi þeim er báru að garði.
Börnin eiga margar og góðar minningar en þar sem langt er á milli þess elsta og yngsta eru minningarnar ólíkar. Öll muna þau þó að pabbi kom heim í hádegi eins og algengt var þá. Flestir menn hlupu eða hjóluðu heim, örfáir fóru akandi og náðu fréttunum kl. 12.20. Tímarnir hafa breyst en fréttatíminn er enn á sama tíma og ber gömlu þjóðfélagi vitni.
Kjörin voru kröpp hjá öllum almenningi og vörur gjarnan skammtaðar, innflutningur háður leyfum og þá þurfti fólk að læra að bjarga sér og útvega hluti frá útlöndum eftir krókaleiðum og í gegnum kunningsskap. Paula saumaði öll föt á börnin fram eftir öllum aldri þeirra, prjónaði líka og framleiddi nánast allt sem heimilið þarfnaðist. Hún var hagsýn húsmóðir og nýtin. Rifjað var upp að hún safnaði í sjóð af matarpeningunum og keypti skrifborð handa bónda sínum sem elsti sonurinn og vinur hans roguðust með upp í íbúðina á aðfangadagskvöld. Þá varð jólasveinninn mest hissa, lyfti grímunni og í ljós koma að jólasveinninn var í raun ekki til. Undir húfunni og á bak við hvíta skeggið leyndist pabbi.
Lífið var ekki bara dans á rósum því þau misstu tvo drengi í frumbernsku úr heilahimnubólgu. Þegar á reyndi var Paula ætíð sem klettur.
Á heimilinu voru listir í heiðri hafðar. Öll er systkinin með einu eða öðrum hætti tengd listum og handverki en Páli fannst það nú ekki vænlegt til lífsviðurværis á sínum tíma og vildi að fólk lærði til viðskipta eða annarra hagnýtari greina og Paula vildi gjarnan fá að sjá hvíta kolla. En hver og einn verður að fá að spinna sinn þráð eð leika sitt hlutvek.
Páll og Paula ferðuðust oft til útlanda og reyndu að fara á hverju ári eitthvað saman. Börnin voru í pössu heima en vinahjón gjarnan með í för og svo fór Rannsý með þeim í margar ferðir eftir að hún varð ekkja. Þegar heim kom var gjarnan blásið til veislu og jafnvel jarðaber á borðum og annað góðgæti frá útlöndum.
Þau ferðuðust líka mikið innanlands. Á veturna var farið á skíði í Hveradölum, ef fært var, með nesti í stórri Macintosh-dós. Í skíðaferðunum voru oft með í för, Kristbjörg, systir Paulu og maður hennar Páll Jörundsson, skósmiður og fyrverandi skíðakennari og keppandi, og sonur þeirra Gunnar.
Farið var í lautarferðir á sumrin. Gist var í tjaldi í sumarferðum og oft voru Árni og Jytte með í för á rúgbrauðinu sínu sem var sem hótel á hjólum og þar var oft setið og spjallað. Þá voru Bíbí og Leifur oft með í för og börnin muna sérstaklega hversu barngóður hann var og skemmtilegur.
Ætíð var þjóðhátíðardagur Norðmanna haldinn hátíðlegur og mætt í hús þeirra í Heiðmörk 17. maí.
Paula var hógvær og tranaði sér ekki fram. Hún hélt ekki ræður eða sló um sig á mannamótum en hún dansaði vel á sínum yngri árum og átti minningar um það þegar hún sveif um gólfið á Borginni.
Hún stóð ætíð dygg og trú við hlið eiginmannsins. Eftir að Páll dó hélt hún áfram þátttöku í félagslífi og sagði: „Palli hefði aldrei viljað að ég hætti að lifa lífinu.“ Hún ferðast áfram, fór með Hringskonum víða og einnig börnum sínum innanlands og utan.
Hún var listaflink í höndum og matseld var henni ástríða. Heimilið á Hagamelnum var glæsilegt og hún var þar sem drottning í ríki sínu.
Þegar börnin flugu úr hreiðrinu starfaði Paula í mötuneyti Menntaskólans við Hamrahlíð og síðar um tíma við þrif hjá Flugfélaginu SAS á Íslandi. Paula var félagi í Kvenfélagi Hringsins um 40 ára skeið, starfaði þar af mikilli ánægju og naut félasskapar góðra kvenna m.a. tengdamóður Guðna, Ragnheiðar Einarsdóttur, sem var formaður Hringsins um árabil. Paula leit á það sem heiður að starfa í Hringnum og styrkja gott málefni. Hæfileikar hennar í hannyrðum fengu þar að njóta sín vel.
Þræðir hennar liggja víða og áhrifin eru margvísleg en nú hefur hún bitið úr nálinni og sporin verða ekki fleiri. Í spekiriti Prédikarans (1.1, 6-7) í Gt segir á einum stað:
„Mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum,
áður en vondu dagarnir koma
og þau árin nálgast er þú segir um: „Mér líka þau ekki,“
[. . . ] áður en silfurþráðurinn slitnar
og gullskálin brotnar
og skjólan mölvast við lindina
og hjólið brotnar við brunninn
og moldin hverfur aftur til jarðarinnar
þar sem hún áður var og andinn til Guðs sem gaf hann.“
Hér er gefið í skyn og reyndar sagt beinum orðum að lífið haldi áfram, að þráðurinn slitni ekki jafnvel þótt við ljúkum störfum og bítum úr okkar nál, þá heldur lífsþráðurinn áfram, andinn, sem varð til á sínum tíma. Guð hefur ekki bitið úr sinni nál með þig og mig.
Til er myndlíking af lífinu þar sem það er sem myndvefnaður. Guð er að vefa mynd. Hann sér myndina ofan frá en við aðeins rönguna. Við sjáum óskýra mynd, skiljum ekki að sumt virðist ekki ganga upp, skiljum ekki hnútana og lausu endana, þjáningarnar og gáturnar. En Guð horfir á vefnaðinn ofan frá og veit nákvæmlega hvað hann ætlast fyrir. Hann hefur yfirsýn sem við höfum ekki. Hann hefur alla þræði í sinni hendi, líka þráðinn þinn og minn, þráðinn hennar Paulu og þræði þeirra sem horfin eru á undan okkur. Allt er í hendi hans. Fæðing, líf og dauði, tími og eilífð.
Og við höldum áfram að lifa, spinnum okkar þráð áfram, sjálfum okkur og öðrum til heilla, leikum hlutverkið á leiksviði lífsins allt þar til tjaldið fellur.
Við kveðjum Paulu Andreu Jónsdóttur með þökk og felum hana himni Guðs og ríki hans.
Blessuð sé minning hennar og Guð blessi þig. Amen.
Kveðjur:
frá systurdóttur Paulu, Sissel Larsen í Noregi, sem sendir kveðju sína en bróðir hennar er hér við jarðarförina;
einnig frá Philippu Godsalve unnustu Páls Úlfars, en hún komst ekki, en þau eru búsett í London en hann fylgir ömmu sinn hér í dag.
Hér er svo enn ein kveðja sem barst presti í hendur að athöfn lokinni og er hér með komið á framfæri:
Frá eiginmanni Rannveigar, Juan Carlos Pardo Pardo, og sonur þeirra: Stefáni Úlfi Brynjólfssyni, Valdimar Kristjáni Pardo og Roberto Andrés Pardo sem eru í Svíþjóð.
Upplýsingar:
Bálför.
Erfi á Hotel Natura, áður Hótel LL.
Ræðan birt: ornbardur.com
Postulleg kveðja: