Guðmundur H Jónatansson 1944-2013

gudmhjonatanssonÖrn Bárður Jónsson

 

Minningarorð

Guðmundur Halldór Jónatansson

1944-2013

fv. starfsmaður Sjóvá

Útför (bálför) í kyrrþey gerð frá Fossvogskapellu

fimmtudaginn 10. okbóber 2013 kl. 11

Ræðuna geturðu lesið hér fyrir neðan og einnig hlustað á hana.

Hvar er öryggi að finna í þessu lífi? Þannig er  oft spurt. Lífið er óvissuferð. Við vitum ekki hvert næsta skref leiðir okkur. Við vitum hvorki hvað næsta stund ber í skaut sér, dagur eða komandi dagar. Við lifum í stöðugri óvissu um allt sem verður. Við eigum bara andartakið. Fortíðin er horfin og betra að láta hana ekki fjötra sig en veiða úr henni góðar minningar og fagrar. Þannig verður fortíðin okkur til gleði. Um leið er gott að vinna úr því sem miður fór og nota það einnig sem aflgjafa til heilla en láta ekki óuppgerða hluti verða sem blýsökkur á fótum sér. En hvernig tryggir maður sig í lífinu? Tryggingarfélögin selja okkur líftryggingar en þær koma okkur ekki að notum, aðeins þeim sem eftir lifa. Franski heimspekingurinn og trúmaðurinn Blaise Pascal reiknaði það út að tryggara væri að trúa en ekki. Hann veðjaði á Guð í lífi og í dauða.

Trúin hefur fylgt mannkyninu í gegnum allra aldir og vísindum og tækni mun aldrei takast að útrými heilbrigðri trú vegna þess að í manninum býr vitund um hið æðra og stóra samhengi lífsins sem er Guð. Okkur mun aldrei takast að sanna trúna því þá verður hún ekki lengur til. Trúin er eins og ástin, hún kemur og hefur áhrif á okkur en verður hvorki vísindalega mæld né sönnuð.

Guðmundur Halldór fæddist í Reykjavík 7. apríl 1944. Foreldrar hans eru Lea Kristjánsdóttir sem lifir son sinn 93 ára og Jónatan Guðmundsson sem er látinn. Syskinin Guðmundar eru: Sigríður, Örlygur og Ragnar.

Guðmundur lauk stúdentsprófi frá stærðfræðideild MR 15. júní 1964. Hann var alla tíð iðinn námsmaður og geymdi t.a.m. einkunnarspjöld sín frá 14 ára aldri. Segir það margt um hirðusemi hans við minningar og minjar. Hann lauk námi í viðskiptafræði frá HÍ 1970.

Guðmundur kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni Sigríði Guðmundsdóttur 21. maí 1966. Þau eignuðust 2 drengi: Ómar f. 7. október 1966 og Helga f. 2. mars 1971. Upp úr hjónabandinu raknaði og þau Sigríður skildu lögskilnaði og Guðmundur fór að heiman og einhverjum misserum síðar tók hann saman við Pálínu Kristinsdóttur og bjuggu þau saman í nokkur ár og eignuðst Söndru Margréti 4. desember 1981.

Fyrstu störfin sín vann Guðmundur í Ellingsen hjá föður sínum en sem unglingur var hann einnig í byggingarvinnu. Um 19 ára aldur fór hann að vinna hjá Almennum tryggingum sem svo runnu inn í Sjóvá-Almennar sem síðar stytti nafnið í Sjóvá. Hann vann þar allar götur síðan þar til hann fór á eftirlaun. Hann átti góða vinnufélaga í Sjóvá og einnig nokkra nána vini.

Guðmundur var rólegur að eðlisfari og traustur vinur. Hann var heiðarlegur í samskiptum, hreinn og beinn.

Hann tók aftur saman við fyrri konu sína og gengur þau í sitt síðara hjónaband 5. desember 1986.

Þau áttu saman góð ár og gefandi, ræktuðu garðinn sinn, eins og sagt er.

Guðmundur hafði alla tíð gott samband við börnin sín og þau bönd styrktust við drengina eftir að hann flutti aftur til þeirra.

Sandra hitti hann reglulega og þegar hún stundaði nám í Verslunarskólanum sem er nærri skrifstofum Sjóvár, hittust þau vikulega og svo unnu þau saman í ein 2 ár en hún er bókari og býr nú í Noregi með manni sínum Júlíusi Valdimar Finnbogasyni f. 5. mars 1975 og eiga þau eina dóttur, Ellen Hebu f. 24. ágúst 2011. Eldri bróðir Söndru er Eyjólfur Már Thoroddsen.

Ómar var giftur Ingu Birgisdóttur. Þeirra börn eru: Helena Sól, Aþena Örk og Garbíel Máni. Hann er í sambúð með Guðrúnu Kristínu Sveinbjörnsdóttur.

Helgi var í sambúð með Katrínu Rós Gýmisdóttur. Dóttir þeirra er Hekla María. Helgi er kvæntur Þórönnu Kolbrúnu Jónatansdóttur.

Guðmundur naut vel daganna eftir að hann hætti hjá Sjóvá og fór á eftirlaun en hann var yfirbókari þar síðustu starfsárin. Hann hafði gaman af að hitta fyrrum vinnufélaga.

Árið 2004 keyptu þau hjónin sumarbústað í landi Stóra-Áss í Hálsasveit í Borgarfirði. Þar nutu þau margra góðra stunda. Mummi lék við hvern sinn fingur og vann mörg handtökin til að fegra og laga bústaðinn. Nákvæmni hans og snyrtimennska var einstök og segja strákarnir að grindverkið við bústaðinn beri því glöggt vitni en þar er hver nagli nákvæmlega staðsettur og mynstrið óaðfinnanlegt. Sælureiturinn blómstraði og gaf mikla gleði þeim sem þar dvöldu hverju sinni.

Guðmundur var alla tíð vel á sig kominn. Hann lék badminton með vinum sínum í 40 ár og jafnlengi vann við tryggingar. Hann var reglumaður, reykti ekki en kunni að neyta áfengis í hófi.

Hann var rólyndur að eðlisfari, fastura fyrir og ákveðinn, traustur og heiðarlegur maður. Hann var hjálpsamur og gjarnan gaf hann sig í að redda einhverju fyrir aðra. Hann lét t.a.m. um sig muna í húsfélaginu hvort sem hann var í stjórn eða ekki, var vinur vina sina.

Börnin og barnabörnin voru honum kær og hann saknaði þess að hafa ekki Söndru sem býr í Noregi nær sér, en hún og Júlíus komu þó reglulega til Íslands og áttu góða daga í faðmi fjölskyldunnar hér heima. Hún og maður hennar segjas bara eiga um hann góðar minningar og heiðarleiki hans og mannkostir hafi snortið þau djúpt. Hans verður sárt saknað af öllum sem að honum stóðu.

Sigríður segir að hann hafi staðið við hlið sér sem klettur eftir að þau tóku saman aftur og þau hafi átt góða daga til hinstu stundar. Guðmundur var að ditta að bústaðnum ný í  haust og hrasaði í brattri hlíð sem liggur niður að ánni. Hann slasaðist illa og var lagður inn á spítala. Þar varð hann aftur fyrir slysi er hann hrasaði sem leiddi hann til dauða.

Árin hefðu getaða orðið fleiri og sælustundirnar í sveit og borg en enginn veit sinn næturstað, segir í máltækinu. Við vitum aldrei hvað næsti dagur ber í skaut sér eða hvort við vöknum að morgni. Þannig er lífið. Það er óvissuferð.

Þess vegna eru þessi orð lesin yfir hverju barni við skírn: Drottinn varðveiti inngöngu þína og útgöngu héðan í frá og að eilífu. Sama hugsun kemur fyrir í íslenskri bæn sem við þekkjum öll:

Vertu Guð faðir, faðir minn,

í frelsarans Jesú nafni.

Hönd þín leiði mig út og inn

svo allri synd ég hafni.

Megi Guð nú leiða okkur öll sem ætíð fyrr og leiða ástvin ykkar á þeirri för sem nú er hafin í öðrum heimi. Megi frelsarinn góður taka á móti honum þar og leiða sem áður.

Guð blessi minningu Guðmundar Halldórs Jónatanssonar og Guð blessi þig.

Amen.

Bálför, ekki líkfylgd. Signt yfir í kapellunni.

Erfi í Safnaðarheimili Neskirkju við Hagatorg.

Jarðsett verður í Sóllandi.

Ræðan birt.

Takið postullegri kveðju:

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.