Ásmundur Pálsson 1928-2013

asmundurpalssonÖrn Bárður Jónsson

Minningarorð

Ásmundur Pálsson

lögfræðingur og bridds-spilari

1928-2013

Útför (bálför) frá Háteigskirkju

þriðjudaginn 8. október 2013 kl. 13

Jarðsett í Sóllandi

Ræðuna er hægt að lesa og hlýða á hér fyrir neðan.

Hvernig fær maður botn í samhengið í tilverunni? Hvernig hangir allt saman? Um aldir og árþúsund hefur maðurinn rýnt í rúnir tilverunnar og leitað svara við tilvistarspurningum sínum. Hvar er hægt að sjá mynstur, endurtekningar, tengingar, samhengi?

Skáldið sem orti sálmana í Biblíunni spurði slíkra spurninga og undraðist hvað Skaparinn hafði gefið manninum stórt hlutverk í tilverunni. Í 8. Davíðssálmi segir:

Þegar ég horfi á himininn, verk handa  þinna,

tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,

hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,

og mannsins barn að þú vitjir þess?

Þú gerðir hann litlu minni en Guð,

krýndir hann hátign og heiðri,

lést hann ríkja yfir handaverkum þínum,

lagðir allt að fótum hans:

sauðfénað allan og uxa

og auk þess dýr merkurinnar,

fugla himins og fiska hafsins,

allt sem fer hafsins vegu.

Drottinn, Guð vor,

hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina.

Skáldið svarar sjálfu sér með því að lofa nafn Drottins. Hann er hið stóra samhengi alls sem er.

Við lifum nú í heimi þar sem okkur er í vaxandi mæli stjórnað af tölvum eða í það minnsta erum við háð tölvutækninni á margvíslegan máta án þess oft að gera okkur grein fyrir því. Tölvuheimurinn stjórnast af stærðfræði og mynstrum, kerfum og leikfléttum. Reglan í heiminum, kerfin öll, sem við menn þekkjum eru fyrir mörgum sönnun þess að lífið sé ekki óskipulegur óskapnaður heldur úthugsuð heild.

Ásmundur var kerfiskall í þeim jákvæða skilningi að hann skynjaði kerfi og leikfléttur í lífinu og nýtti þá sérgáfu sína við að spila bridds og svo auðvitað til að stunda lögfræði. Hann var næmur við spilaborðið, skynjaði líðan fólks, hegðun og merkjasendingar bæði leyndar og ljósar. Hann var einskonar gúrú í íslenskum briddsheimi, naut þar mikillar virðingar. Hann hafði ætíð mikla unun og gleði af spilamennskunni. Hann gat munað heilu leikina, heilu keppnirnar, lið fyrir lið, sögn fyrir sögn, hönd fyrir hönd. Hæfileikar hans voru ótvíræðir á þessu sviði.

Hann fæddist með „góða hönd“, honum var margt gott gefið í upphafi og spilaði vel úr því á lífsveginum en oft með óvenjulegum og óhefðbundnum hætti. Hann fór sínar eigin leiðir í lífinu og með nokkurri sérvisku eins og tíðkast um menn sem þannig ferðast um veginn.

Ásmundur fæddist á Eiðum í Eiðaþinghá S-Múlasýslu 5. apríl 1928. Hann lést á Landspítalanum 29. september 2013 og hafði þá glímt við veikindi s.l. 5 ár.

Foreldar hans voru, Páll Hermannsson, bóndi og þingmaður frá Eiðum í Eiðaþinghá S-Múl. f. 28. apríl 1880, d. 31. janúar 1958 og Dagbjört Guðjónsdóttir húsfrú frá Saurum í Helgafellssveit, Snæfellsnesi f. 17. mars 1904, d. 24. maí 2005. Páll var 24 árum eldri en Dagbjört og varð sjálfur 78 ára en hún 101 árs og var ekkja í nærri hálfa öld. Stundum var kímt yfir því þegar Ásmundur tæplega áttræður talaði um að skreppa í heimsókn til mömmu.

Systkini Ásmundar eru: Sigríður samfeðra f. 1910, d. 1975. Hermann f. 1931 og Kristín Jóhanna f. 1936, d. 2006.

Fyrri kona Ásmundar var Ingunn Ágústsdóttir f. 1925, d. 1982. Börn þeirra eru

  1. Páll f. 1956,
  2. Dagbjört Thelma f. 1957 og
  3. Sigríður f. 1958.

Barnabörnin eru orðin 9 og langafabörnin 9.

Eftirlifandi eiginkona Ásmundar er Unnur Konráðsdóttir frá Ísafirði, f. 21. febrúar 1930.

Ásmundur gekk í barna- og unglingaskóla á Eiðum og fór þaðan í MA og útskrifaðist sem stúdent 1948, hann lauk síðan lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1958. Hann byrjaði í verkfræði enda góður í stærðfræði en bridds-spilamennskan gerði það að verkum að hann festi ekki hug við verkfræðinámið, spilaði sig eiginlega út úr því. Stærðfræðikunnáttan er án efa grunnurinn að hæfni hans í briddsinu.

Ásmundur vann í upphafi sem lögfræðingur hjá Varnarliðnu á Keflavíkurflugvelli en lengst af hjá Olíufélaginu Skeljungi í Reykjavík í innkaupa- og birgðadeild uns hann lét af störfum 1994.

Ásmundur var landsþekktur briddsspilari og var meðal annars 10 sinnum Íslandsmeistari í tvímenningi oftast með Hjalta Elíassyni og 9 sinnum Íslandsmeistari í sveitakeppni auk þess vann hann til fjölda annarra verðlauna á löngum og farsælum keppnisferli sem spannaði tæp 60 ár. Hann átti fast sæti í landsliði Íslands á árunum frá 1960 til 1980. Hann tók þátt í keppni alveg fram í andlátið. Keppti hann síðast í bikarleik fyrir um það bil tveimur vikum. Makker hans síðustu árin hefur verið Guðmundur Páll Arnarson. Hann var alla tíð eins og alfræðibók um briddsíþróttina og hægt að gúgla upp í honum fram og aftur.

Fjölskylda hans minnist hans með þökk og hlýju. Þau rifjuðu upp hvað hann var ætíð mikið snyrtimenni sem lagði upp úr því að vera vel klæddur og snyrtur í gljáburstuðum skóm. Bindið varð að vera rétt hnýtt og síddin nákvæm, enda vita allir menn með mönnum, að bindi verður að hylja neðstu skyrtutölu og ná niður að belti en ekki niður fyrir. Að öðrum kosti gætu sumir litið á mann eins og lúða.

Ásmundur var keppnismaður og sagði gjarnan: „Þú verður að stefna á fyrsta sæti. Hver man eftir þeim sem lendir í öðru sæti?“ Segir þetta margt um kappið í honum.

Hann gat setið klukkutímum saman í talaði í símann við menn um bridds. Stundum sofnuðu börnin við það að pabbi var í símanum og vöknuðu að morgni og enn var pabbi með svarta, níðþunga Ericson-tólið í hendinni, sem var án efa eins og 10 nútímafarsímar að þyngd. Oft spilaði hann fram á nætur en lét sig ekki vanta á skrifstofuna að morgni eftir að hafa sest að tilbúnum morgunverði við dúkað borð í eldhúsi konu sinnar. Aðspurður hvort hann væri ekki sifjaður eftir 1-2ja tíma svefn:

„Nei nei, ég sef svo hratt.“

Það kom sér oft vel fyrir börnin og barnabörnin að afi vakti um nætur því hann bauðst til að keyra þau út og suður ef þau voru að skemmta sér. Svo þótti honum sjálfum gaman af að skemmta sér og fá sér í tána í góðra vina hópi.

Hann hringdi jafnan eftir leigubíl á BSR að morgni virkra daga þegar hann bjó á Barónstígnum og sagði ávallt það sama:

„Hafið þið bíl?“

„Já“, var svarið og þá bætti hann strax við:

„Barónsstíg 43, Bergþórugötu-megin.“

Hann hafði lengst af engan áhuga á bílum en fékk loks bíladellu á fullorðinsárum og þá var eini bíllinn með viti, Austin Allegro. Unnur fékk hann til að keyra og eitt sinni lét hún hann aka heim af Þingvöllum. Úffa sagðist aldrei hafa verið eins hrædd í bíl á ævinni og krakkarnir bættu við: „Hann varð aldrei góður bílstjóri en slapp lifandi frá því.“

Hann hefði tekið slíkum húmor vel enda góður húmoristi og stríðinn á köflum. Eitt sinn er hann vann suður á Velli og til stóð að fara í frí um tíma bað hann starfsmann um að sjá um að vökva blómin á stigagangi byggingarinnar sem voru mörg og blaðmikil. Maðurinn tók að sér verkið af áhuga og samviskusemi en svo sáu menn eftir nokkra daga að það var allt á floti hjá honum. Þetta voru nefnilega gerviblóm!

Ásmundur hafði það mottó að gera aldrei neitt sem væri leiðinlegt. Hann fór sínar eigin leiðir. Hann var matmaður en kom aldrei nálægt neinu í eldhúsi nema hnífapörum og leirtaui til að matast.

Ásmundur og Unnur ferðuðust mikið enda var hún fararstóri um árabil. Hann vildi gjarnan sitja úti á svölum hótelsins hverju sinni og hugsa og eitt sinn í Grikklandi brann hann dálítið á hnjánum og sagði eftir þá reynslu: „Geturðu ekki farið með mig til norðlægari landa næst?“ Úffa stóð við það og bauð honum næst til Færeyja og Grænlands!

Hann hafði gott samband við börnin sín og barnabörnin voru honum afar kær. Gagnkvæm vinátta var einnig með honum og börnum Unnar og þeirra fólki.

Hann þurfti alla tíð mikla þjónustu, var vanur dekri og umhyggju, fyrst móður sinnar, svo fyrri konu og loks Unnar, sem hann varaði við áður en þau tóku saman og sagði: bridds-ið verður alltaf númer 1, 2 og 3. Unnur samþykkti það enda voru þau bæði ástfangin en gerði sér enga grein fyrir hvað spilamennskan var í raun stór hluti af lífi hans.

Hann spjallaði um allt kvöldið fyrir andlát sitt. Daginn sem hann skyldi við varð íslensk kona, sem hann hafði þjálfað í bridds að hennar beiðni, Hjördís Eyþórsdóttir, heimsmeistari í bridds.

Einhver sagði: Nú fara nördarnir í tölvuleiki en áður fóru þeiri í bridds eða skák. Hvort sem það er rétt eða ekki er án efa gott að hafa tíma, ögn af einrænu, stærðfræðigáfu og skilning á kerfum og samhengi. Svo gera menn ekki annað verra á meðan en þeir tefla eða spila bridds.

Til er máluð mynd af Ásmundi með sterk spil á hendi sem hann náði alslemmu á en ekki hefðu allir náð því marki með sömu spil. Hann er kampakátur á þeirri mynd þar sem hjartakóngurinn kíkir yfir öxl hans.

Hvað höfum við á hendi í lífinu? Hvað var okkur gefið? Kíkir hjartakóngurinn mesti yfir öxl okkar, Guð kærleikans? Já, ég trúi því reyndar.

Steinn Steinnarr orti með sinni rómuðu íróníu og pessimisma:

Að sigra heiminn er eins og að spila á spil

með spekingslegum svip og taka í nefið.

(Og allt með glöðu geði

er gjarna sett að veði).

Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til,

því það er nefnilega vitlaust gefið.

Gjafir okkar eða gáfur eru með mörgu móti og af ýmsum toga. Mestu skiptir þó að spila vel úr því sem á hendi er hverju sinni. Við getum ekki vænst þess að hafa ætíð alslemmuspil á hendi. Heilbrigt þjóðfélag leitast við að leggja þeim eitthvað til sem telja sig hafa fengið vitlaust gefið í upphafi. Þannig verður lífið að samleik þar sem allir eiga að fá að njóta sín og leika að fingrum fram, sér og öðrum til gleði og gamans.

Við kveðjum Ásmund Pálsson með því að biðja honum blessunar í nafni hins þríeina Guðs, föður, sonar og heilags anda. Ætli það sé ekki í það minnsta á við þrjú grönd að hafa þrenninguna með sér í lífsleiknum og að lífi loknu? Við skulum vona það. Þrjú grönd.

Blessuð sé minning Ásmundar og Guð blessi þig. Amen.

Ég flyt ykkur kveðjur:

Tvö barnabörn Unnar, bræðurnir, Tryggvi Eiríksson og Eyjólfur Róbert Eiríksson, komast ekki og biðja fyrir kveðju til hennar og ástvina.

Bálför og því ekki hefðbundin líkfylgd.

Erfi á Hótel Hilton við Suðurlandsbraut.

Ræðan birt á ornbardur.com

Postulleg kveðja: Guð vonarinnar fylli ykkur öllum fögnuði og friði í trúnni. Svo að þið séuð auðug að voninni í krafti heilags anda.

Amen.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.