Minningarorð
Reynar Hannesson
1922-2013
Útför frá Neskirkju
fimmtudaginn 26. september kl. 15.
Viltu lesa ræðuna og/eða hlusta á hana?
Hún er hér fyrir neðan.
Friður Guðs sé með okkur.
Hvernig á maður að lifa?
Hvað skiptir mestu máli?
Þessar spurningar hafa fylgt manninum um aldir og árþúsund. Hvað skiptir mestu? Ungur maður kom til Jesú og spurði þessa sama og hann vissi í raun svarið. Mestu skiptir að elska Guð og náungann eins og sjálfan sig. Forgangsröðunin er rétt í þessum efnum. Guð skiptir mestu svo náunginn og loks maður sjálfur.
Ætli Reynar hafi ekki verið gott dæmi um mann sem lifði í samhljóm við þetta æðsta boðorð lífsins? Hann vann vel úr sínu lífi, rækti samfélagið við Guð í kirkju hans, þjónaði samferðafólki sínu af trúmennsku og ræktaði sjálfan sig með því að vera heiðarlegur og sannur í sínum verkum og efla sjálfan sig með því að rækta vináttuna við Guð og stunda heilbrigt félagsstarf.
Þessi öðlingur hefur nú lokið lífsgöngu sinni. Hann lifði lungann úr liðinni öld og sá gríðarlegar þjóðfélagsbreytingar á sinni ævi. Allt er á hverfanda hveli og við sem höfum lifað síðustu 2-3 áratugina höfum líklega upplifað mestu byltingu mannkynssögunnar, tölvu- og netvæðinguna, sem hefur gert fólki kleift að tengjast með hraða ljóssins um heim allan. Á bernskuárum Reynars óraði engan fyrir breytingum liðinnar aldar og við getum ekki gert okkur í hugarlund hvernig veröldin verður á morgun, hvað þá eftir 10, 50 eða 100 ár. Lífið er ævintýri og mestu skiptir að fara ekki á límingunni vegna breytinganna sem eru í farvatninu heldur lifa hvern dag í samhljómi við hið stóra semhengi sem er Guð. Þannig verður lífið ætíð rétt og heilbrigt.
Reynar fór sé að engu óðslega í rás daganna. Hann var yfirvegaður, fágaður í framkomu, annálað snyrtimenni, sem opnaði dyr fyrir fólki og greiddi götu annarra fremur en sjálfs sín. Hann var eftirsóttur til vinnu og gjarnan falin ábyrð á vandasömum verkum. Hann vann áratugum saman hjá Olíufélaginu h.f. og sá um bensínstöðvar vítt og breytt um landið. Hann sá um að byggja margar slíkar og þurfti að eiga flóknum samskiptum við sveitastjórnarmenn um land allt, verktaka og iðnaðarmenn. Allt gekk það eins og í sögu og hann var vinsæll og vel látinn af öllum. Hann var að breyttu breytanda eins og biskup eða í það minnsta vígslubiskup sem hefur umsjón með kirkjum víða um land!
Reynar fæddist á Vaðstakksheiði í Neshreppi utan Ennis 26. febrúar 1922 of var því 91 árs er hann lést á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni 19. september 2013. Þar leið honum vel og hann naut sín í félagsskap góðs fólks. Sjentilmennskan var honum í blóð borin og gjarnan opnaði hann dyr fyrir konunum í Sóltúni, dró fram stóla handa þeim og sýndi þeim virðingu sem og kynbræðrum sínum.
Foreldrar hanns voru Guðrún Guðbjörnsdóttir f. 24.05.1892, d. 11.04. 1974 og Hannes Elísson f. 19. 04. 1892, d. 25.04. 1984. Þau bjuggu fyrst á Hellissandi og síðar í Reykjavík.
Systkini Reynars eru:
- Helga f. 17.04.1914, d. 19.04.2006,
- Elís f. 04.09.1917, d. 09.10.1954,
- Berta f. 06.06. 1919, d. 10.10.2002,
- Hallveig f. 03.10.1927, d. 24.05.2013 og yngstur er
- Richard f. 09.04.1932 sem einn lifir systkin sín.
Þann 17. júní 1944, daginn sem lýðveldið var stofnaði, kvæntist Reynar, Sigríði Sigfúsdóttur frá Stóru Hvalsá í Bæjarhreppi í Strandasýslu, d. 24.02.1998. Foreldrar hennar voru Sigfús Sigfússon f. 07.08.1887, d. 29.01.1958 og Kristín Guðmundsdóttir f. 08.10.1888, d. 15.02.1963. Sigríður var ein 14 systkina.
Börn Reynars og Sigríðar eru:
1) Gunnar Hannes f. 25. 11.1944, börn hanns eru Pétur Tyrfingur f. 16.06.1969, Gunnar Reynar f. 12.01.1986 og Sigurður Björn f. 19.07.1998. Gunnar er í sambúð með Fjólu Ingþórsdóttur.
2) Sigrún f. 15.01.1947. Maki hennar er Gísli Ellerup, börn þeirra eru Sigríður Anna f. 01.06.1965 og Reynar Ellerup f. 13.04.197
3) Bjarni f. 05.01.1948, hann er kvæntur Jóhönnu Einarsdóttur f. 11.11.1952. Sonur hans er Ragnar Páll f. 09.02.1970. Börn Bjarna og Jóhönnu eru, Einar Hugi f. 16.11.1977, Reynar Kári f. 13.01.1982 og Halldóra Sigríður f. 26. 01.1989;
4) Elís f. 20.01.1958. Hann var kvæntur Steinunn Kristínu Jónsdóttur. Börn þeirra eru, Ástrós f4.9.1962, Jón f. 02.08.1984 og Svana Kristín f. 18.01.1989.
Langafabörn Reynars eru 12.
Þegar Reynar var um fimm ára gamall flutti fjölskyldan á Hellissand og bjó þar til 1941 þegar hún fluttist til Reykjavíkur.
Eins og fyrr sagði vann Reynar lengi hjá Olíufélaginu h.f. eða í 40 ár frá árinu 1953, lengst af sem stöðvarstjóri í Gelgjutanga. Þar hafði hann yfirumsjón með flestum verklegum framkvæmdum fyrirtækisins. Hann var einstaklega vel liðinn af starfsmönnum sínum. Áður en hann hóf störf há Esso ók hann bifreiðum Landleiða, milli Hafnarjarðar og Reykjavíkur. Þar sem annars staðar voru honum falin ábyrgðarstörf eins og t.d. að sjá um uppgjör og fjármál. Svo vel látinn var hann sem bílstjóri að sagan segir að börn ungra mæðra sem ferðuðust með Landleiðum hafi sum verið skírð í höfuðið á Reynari!
Ungur var hann eitt sumar á Siglufirði. Það veiddist lítil síld þetta sumarið og í minningunni var hans helsta verk að gæta stelpnanna í brakkanum eins og menn báru orðið fram þá. Hann var þá 18 ára, ábyrgðarfullur og trúr í sínum verkum.
Hann hafði ekki mörg ár formlegrar skólagöngu að baki en var gæddur góðum gáfum og verkviti og ætíð falin ábyrgð. Ungur var hann t.a.m. farinn að telja fram til skatts fyrir Pétur og Pál og var það allt sjálflært. Hann sótti sér menntun í gegnum námskeið af ýmstu tagi og í lífsins skóla hafði hann án efa háar prófgráður. Reynar sótti t.a.m. bæði verkstjórnarnámskeið og Dale Carnegie námskeið. Þá fór hann nokkrar ferðir til útlanda til að kaupa vörubíla fyrir Esso m.a. Bedford og Man vörubíla. Hann minntist margra góðra verka og framkvæmda eins og þegar hann og starfsmenn Esso lögðu slöngubrú yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi til að dæla olíu yfir ólgangi vatntsflauminn. Verkvit og útsjónarsemi þurfti til og af hvoru tveggja var nóg í hans huga og samstarfsmanna hans.
Hann tók virkan þátt í starfi Oddfellowstúkunnar Þorkels mána í áratugi og var þar yfirmeistari um tíma. Þar eignaðist hann marga góða vini og félaga og stúkubræður hans votta honum virðingu sína með því að standa heiðursvörð og bera kistu hans úr kirkju.
Lengst af bjuggu Reynar og Sigríður í raðhúsi sem þau byggðu að Hvassaleiti 91 og síðast á Hagamel 46. Þau sóttu Grensáskirkju forðum og Neskirkju eftir að þau fluttu í Vesturbæinn.
Reynar var söngelskur og börnin hans hafa öll sungið í kór. Mörg kvöldin í Skorradalnum var sungið við raust og svo lék hann líka á harmóniku. Ég man Reynar vel úr kirkjustarfinu hér og úr Grensáskirkju þar sem ég þjónaði forðum. Ætíð var hann ljúfur í framkomu, glæsilegur og flottur, hógvær og virðulegur.
Hannes, faðir Reynars, sem var húsvörður í Breiðagerðisskóla síðustu starfsár sín, var fyrsti meðhjálpari í Grensássókn sem nú um þessar mundir fagnar 50 ára afmæli sínu.
Þau voru glæsileg hjón, Reynar og Sigríður. Heimilið þeirra þekkt fyrir rausnarskap og snyrtimennsku. Ætíð var kært með þeim hjónum. Hún var mikil hannyrðakona, fær í kjólasaum. Hún lærði kápusaum hjá Andrési Andréssyni, klæðskera.
Hún kom úr hópi 14 systkina sem þurftu að læra að bjarga sér, vera nýtin og útsjónarsöm til þess að komast áfram í hörðum heimi. Allt lék jafnan í höndum hennar.
Sigríður og Reynar komu sér upp sumarhúsi í landi Fitja í Skorradal og áttu þar margar ánægjustundir. Bústaðurinn bar þess merki að þar réðu ríkjum vandvirkur hagleiksmaður og smekkvís húsmóðir.
Sigríður lést 1998. Hin síðari árin sem þau áttu saman fóru þau nokkrar ferðir til heitari landa og nutu sín vel í geislum sólar. Reynar aðlagaðist nýju lífi eftir andlát hennar, sá sjálfur um allt heimilishald, eldaði, skúraðir og þvoði þvotta, tók niður gardínur og hreinsaði þær þegar þess þurfti við og var eins og fiskur í vatni í húsverkunum. Allt lék í höndum hans og hann aðlagaðist ætíð þeim aðstæðum sem hann var í hverju sinni. Börnin voru alltaf í góðu sambandi við pabba og bræðurnir segja að Sigrún systir þeirra hafi sinnt föður þeirra af stakri elsku og trúmennsku hin síðari árin og þakka þeir þá elskusemi alla. Systkinin þakka þjónustu og umhyggju sem hann naut í Sóltúni.
Reynar var glaðsinna og léttur í samskiptum við fólk. Hann komst áfram á eigin verðleikum.
Hann var alla tíð einlægur Sandari og sem slíkur stoltur af uppruna sínum og fannst fólk af Snæfellsnesi yfirleitt standa flestum öðrum framar án þess þó að hann gerði lítið úr fólki úr öðrum sóknum. Foreldrar hans voru heiðarlegt og gott fólk sem lögðu sitt af mörkum til að efla gott mannlíf og gerðu það m.a. með því að styðja og styrkja kirkjustarf í sinni sókn. Þau gáfu Ingjaldshólskirkju ljósprentað eintak af Guðbrandsbiblíu á sínum tíma en sú bók er eins og við vitum einn mesti dýrgripur íslenskrar menningar og bókmenntasögu. Móðir Reynars var trúuð kona og faðir hans einnig og þau bæði kirkjurækið heiðursfólk.
Hvernig á maður að lifa?
Hvað skiptir mestu máli?
Eins og fram kom í upphafsorðum þessara minningarorða skiptir mestu að lifa í takti við innsta eðli tilverunnar, að lifa í samfélgi við Guð, láta gott af sér leið og annast eigið sjálf af kostgæfni. Þannig finnum við hamingjuna. Hún eykst í hlutfalli við það sem menn gefa. Hagfæði himinsins er andhverfa hagfræði heimsins og græðgishugsunar.
Við erum kölluð til að lifa í samfélagi við Guð sem er allt í öllu. Við erum eins og fiskar í guðshafinu hvort sem við viðurkennum það eða ekki. Við komumst aldrei út úr áhrifasvæði skaparans sem elskar allt sem lifir og vill því einungis hið besta. Himinninn er opin vegna þess að Kristur opnaði okkur leið þangað. Góðverk og gott líf duga þó ekki til að komast þangað hversu mörg sem þau annars eru. Himinninn verður ætíð gjöf hins hæsta, kærleiks- og náðargjöf.
Þess vegna er lífið svo undursamlega fagurt og gott – og hvatningin um að lifa vel svo mikilvæg. Að lifa vel og fallega í þjónustu við Guð og menn er þakkarfórn fyrir það sem Guð hefur þegar í Kristi gefið okkur ókeypis.
Við kveðjum heiðursmann með virðingu og þökk. Guð blessi minningu Reynars Hannessonar og Guð blessi þig. Amen.
Ég flyt ykkur kveðju frá Andra Geirssyni, langafabarni Reynars, sem er við nám í Danmörku.
Bálför – kistunni stillt upp í forkirkju og signt yfir, jarðsett verður í Fossvogi.
Erfi í Safnaðarheimilinu.
Postulleg kveðja: Guð vonarinnar fylli ykkur öllum fögnuði og friði í trúnni. Svo að þið séuð auðug að voninni í krafti heilags anda. Amen.
Ritningarlestrar við athöfnina:
Davíðssálmur 90: 1-4, 12
Matteusarguðspjall 5:13-16