Minningarorð
Ásgeir Karlsson
geðlæknir
Hofsvallagötu 49
1936-2013
Útför frá Neskirkju
mánudaginn 23. september 2013 kl. 13
Ritningarlestrar við athöfnina:
Op Jóh 21.1-7 Nýr himinn og ný jörð
Matt 5.14-16 Þér eruð ljós heimsins.
Ræðuna er hægt að lesa hér fyrir neðan og einnig hlusta á hana.
Ræðan:
Friður Guð sé með okkur.
„En sjálfur friðarins Guð helgi yður algerlega og andi yðar, sál og líkami varðveitist alheil og vammlaus við komu Drottins vors Jesú Krists. Trúr er sá er yður kallar, hann mun koma þessu til leiðar.“
(I Þess 5.23-24)
Í þessum kveðjuorðum Páls postula til trúsystkina sinna í Þessalóníku í Grikklandi talar hann um þrískiptingu mannsins í anda, sál og líkama. Ég veit ekki hvort sú skipting stenst vísindalegar rannsóknir en mér hefur ætíð fundist hún heillandi. Líkaminn er þekkt stærð og hann þarf næringu og hreyfingu. Sálin er hugtak sem nær utan um vitsmunalífið sem nærist á menntun og menningu, fegurð og jafnvægi. Og svo kemur andinn sem vísar til þess að maðurinn á sér æðri tilvist. Andinn nærist á trú og bæn. Í andanum býr vitund um hið stóra samhengi, um Guð. Andinn er helgidómur, hið innsta þar sem æðri vitund um rétt og rangt á sér bústað. Þetta þrennt gerir manninn heilan, þríeinan eins Guð sem skapaði hann.
Viðfangsefni Ásgeirs um ævina var einkum hið innra líf manneskjunnar, sálin. Ungur heillaðist hann af læknisfræði og svo kom að hinu stóra vali um sérgrein og þá varð geðlæknisfræðin fyrir valinu. Sú grein hæfði honum vel enda var hann yfirvegaður og hæglátur í sinni nálgun, íbygginn og varkár. Hann hummaði gjarnan yfir verkefnum sínum, segir fjölksylda hans, fór sér að engu óðslega og þegar hann kom heim úr vinnu með öllum sínum áreitum og flóknum samskiptum við fólk með ólgandi veðrabrigði í sálarlífinu, fanns honum hvíld að koma heim þar sem börnin ærsluðust og fóru mikinn. Það virkaði beinlínis róandi á hann.
Ásgeir var gæfumaður og sagði einhverju sinni: „Ég er næstum með samviskubit yfir því hvað líf mitt er gott.“ Í máltækinu segir: „Hver er sinnar gæfu smiður.“ Ætli það sé ekki rétt að hluta til eins og það er hugsanlega rétt að „fjórðungi bregði til fósturs“, nema að þar ráði stuðlun höfundar meira máli en vísindalegar mælingar? Hvað um það. Við erum líklega þríein líka hvað þetta varðar, líf okkar mótast af erfðavísum og upplagi, svo kemur til sögunnar eigin vilji og loks allar þær tilviljanir sem verða á vegi okkar. Þetta sem hér hefur verið rætt, hinar gefnu stærðir, tilviljanirnar og úrvinnslan birtast í ýmsum myndum í æviágripum hverrar manneskju.
Ásgeir fæddist 11. júní 1936 á Akureyri. Hann lést á Droplaugarstöðum í Reykjavík 10. september 2013.
Foreldrar hans voru Karl Ásgeirsson, símritari á Akureyri, f. 29. sept. 1897, d. 12. sept. 1987, og Ásta Sigurjónsdóttir, húsmóðir á Akureyri, f. 9. jan. 1897, d. 17. nóv. 1986. Systkini Ásgeirs eru: Ragnar Karlsson, geðlæknir, f. 13. maí 1924, d. 1. mars 2006, og Ásta Karlsdóttir, bankastarfsmaður og húsmóðir, f. 22. des. 1929.
Hann ólst upp „í fjörunni“ en átti góða vini „í brekkunum“. Gott var að alast upp á Akueyri í fögrum firði og bæ með öflugu atvinnulífi og góðu menningar- og mannlífi þar sem tækifæri til menntunar voru meðal þess besta sem landið bauð upp á.
Ásgeir kvæntist 23. júlí 1960 eftirlifandi eiginkonu sinni, Guðrúnu Ingveldi Jónsdóttur, innanhússarkitekt, f. 23. apríl 1936 í Reykjavík.
Börn þeirra eru:
- Karl, lyfjafræðingur, f. 17. mars 1962, eiginkona hans er Monika Gürke, textílhönnuður, f. 28. okt. 1962. Börn þeirra eru Daphne Ósk, f. 16. ágúst 1993, og Kjartan Andreas, f. 12. okt. 1997.
- Jón, verkfræðingur, f. 19. ágúst 1967, eiginkona hans er Anna Birna Jónasdóttir, viðskiptafræðingur, f. 12. maí 1969. Dóttir Jóns af fyrra hjónabandi með Guðrúnu Jóhannesdóttur, framkvæmdastjóra, f. 3. júní 1967, er Ástríður, f. 18. júlí 1991. Synir Jóns og Önnu eru Ásgeir Egill, f. 30. apr. 2001, og Arnar, f. 11. nóv. 2003.
- Kristín Ástríður, mannfræðingur, f. 14. júlí 1972, sambýliskona hennar er Katerina Prochazkova, f. 5.ágúst 1978.
Ásgeir ólst upp á Akureyri til nítján ára aldurs og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1955. Hann lauk læknaprófi frá Háskóla Íslands árið 1962 og sérfræðinámi í geðlækningum árið 1966 í Connecticut. Eftir heimkomu að námsdvöl lokinni bjuggu Ásgeir og Guðrún ásamt börnum sínum í Reykjavík. Gegndi Ásgeir ýmsum læknastöðum uns hann var ráðinn sérfræðingur í geðlækningum við Kleppsspítala árið 1971. Starfaði hann þar til ársins 1977 er hann tók við stöðu á geðdeild Borgarspítala og varð svo yfirlæknir á geðdeild Sjúkrahúss Reykjavíkur frá 1997. Samhliða störfum á sjúkrahúsum rak Ásgeir eigin læknastofu í Reykjavík frá 1970.
Hann var frímúrari frá árinu 1979 og gegndi embættum á þeim vettvangi. Bræður hans kveðja hann hér í dag, standa heiðursvörð og munu bera kistu hans. Hann var í St. Jóhannesarstúkunni Mími. Ásgeir dvaldi seinustu tæplega tvö æviárin á Droplaugarstöðum í Reykjavík og þakkar fjölskyldan frábæra umönnun og hjúkrun sem hann naut þar.
Ásgeir hafði góða nærveru, hann var hógvær maður sem kunni að njóta lífsins og skynjaði á hverri tíð hve lífið er dýrmætt og mikilvægt að grípa daginn hverju sinni.
Hann fór sér að engu óðlega í lífinu, var enginn sportisti en gekk hratt þegar hann hreyfði sig á annað borð. Hann fór reglulega í sund í Vesturbæjarlauginni og synti rólega og gjarnan með fingrunum!
Hann var ætíð til taks, blátt áfram, en ekki mikið út á við, fremur til baka í fjölmenni, en opinn heima fyrir. Hann var rólegi póllinn í lífi fjölskyldunnar, stólpinn sem þau gátu treyst á.
Heimili þeirra hjóna ber vott um smekkvísi og listrænt innsæi. Guðrún varð fyrst íslenskra kvenna til að ganga í Félag húsgagna- og innanhússarkitekta. Ætli það megi segja að Ásgeir hafi líka verið innanhússarkitekt, arkitekt sálarlífsins? Hvað sem því líður þá segja börnin að pabbi hafi látið allt eftir mömmu sem hún vildi framkvæma heima en stundum vildi hann nú fremur fara í gott ferðalag. Þau ferðuðust víða og heimsóttu framandi lönd. Hann hafði gjarnan gaman af að prófa eitthvað nýtt matarkyns og pantaði oftar en ekki skrýtnustu réttina á matseðlinum og ef þeir stóðust ekki væntingar þá hló hann bara og brosti út í eitt. Hans fag heima við var að grilla úti og svo að elda rauðsprettu. Hann hafði mikla ánægju af að njóta góðs matar með skemmtilegu fólki.
Hann elskaði hana Guðrúnu sína og tjáði henni oft og einatt ást sín. Það er góður siður og við karlar mættum án efa flestir æfa þá lífslist meir og betur. Það er víst ekki nóg að segja það bara á brúðkaupsdaginn!
Ásgeir hafði mikinn áhuga á starfi sínu og fór í margar námsferðir um ævina, las mikið og sá um margar vandasamar geðrannsóknir í störfum sínum.
Börnin ólust upp við það að umgangast geðsjúka og sóttu t.a.m. guðsþjónustur á Kleppi þegar þau voru yngri. Þannig lærðu þau að umgangast alla sem jafningja. Það var þeim góður skóli fyrir lífið. Ásgeir þekkti marga og margir þekktu hann sem lækni en stundum vildi fólk ekki kannst við geðlækninn sinn á förnum vegi því það var of viðkvæmt og auðvitað trúaðarmál hverja hann þekkti sem sjúklinga. Hann aðskildi jafnan einkalíf og starf með því að hafa ekki skráðan síma. Þegar hann kom heim var vinnan að baki og við tók fólkið hans, fjörug börn og yndisleg kona með áhuga á fegurð og glæsilegu heimili sem umgjörð um fjölskylduna. Fegurðin hefur góð áhrif á sálarlífið, litir og rétt skipulag, regla og fágun.
Það eru fimm ár á milli barnanna þriggja. Þau brostu og sögðu að svo hefði hundarnir komið næstir, þær Skotta og Kolgríma. Hann var eftirlátssamur við hundana og spillti þeim, segja krakkarnir, læddi bita og bita til þeirra undir matarborðið.
Ásgeir var frímúrari eins og fyrr kom fram en í þeim félagsskap er m.a. leitast við að íhuga og skoða regluna í lífinu og finna jafnvægið sem hún leiðir af sér. Hann naut þess að starfa þar og leita skilnings á hinu stóra samhengi lífsins eftir þeim brautum sem þar eru lagðar á kristnum grunni.
Hann var ekki í golfi eða veiði en var fjölskyldumaður fram í fingurgóma sem naut tónlistar og hverskyns sköpunar mannsandans. Þau sóttu gjarnan sinfóníutónleika og fóru á margar málverkasýningar. „Mamma var áhugamálið hans pabba.“ segja börnin. Er það ekki fagur vitnisburður um föður?
Gildin sem hann leitaðist við að halda í heiðri voru örlæti, stuðningur við börnin, að láta gott af sér leiða, að vera þakklátur fyrir það sem maður hefur þegið og lífið færir manni hverju sinni.
Hann var góður hlustandi og lifði eiginlega í anda þessa að vera með tvö eyru en einn munn. Það er gott að hafa það í huga í samskiptum við annað fólk.
Guðrún minntist á það á fundi okkar að sér hefði þótt þau vera óþroskuð og óreynd þegar þau giftu sig en voru sammála um að yfir þeim hefði verið vernd og blessun. Ætli við séum ekki alltaf óundirbúin fyrir verkefni lífsins? Þroskinn kemur líklega ætíð eftir á. Þannig hefur skaparinn þetta til þess að við höfum eitthvað við að glíma. Hver kynslóð verður víst að læra sína lexíu.
Ásgeir treysti börnum sínum ætíð og gaf þeim frelsi til að þroskast og læra af reynslunni. Hann stundaði „hands off“ uppeldi ef svo má orða það og þau segja að ávallt hafi þau getað leitað ráða hjá pabba. Hann var fordómalaus og hlýr í sinni nálgun í þeim efnum. Þar kippti honum í kyn föður síns.
Erfðir og uppeldi, það sem á vegi manns verður og loks úrvinnslan, ráða líklega miklu um gæfu hvers og eins. Við erum ekki róbótar sem láta stjórnast af einni æðstu veru heldur börn sem njóta frelsis til orðs og æðis. Við höfum frjálsan vilja til að velja og hafna í þessu lífi. Lífið er reyndar líka ákveðið lotterí. Við ráðum því ekki hvað verður á vegi okkar, hvort við fáum þennan sjúkdóminn eða hinn, þó að sumt kunni reyndar að vera áskapað í þeim efnum. Við erum á ferð um lífsins veg og þar mætir okkur eitt og annað sem hefur áhrif á líkama og sál. Svo er það andinn, þetta innsta í lífi hverrar manneskju, hið helgasta, sem er ljós af ljósi, líf af lífi, brot af hinu allra helgasta sem til er, helgidómur hjartans sem er eins og geisli af hinu skærasta ljósi sem á að hjálpa okkur til að rækja hin æðri verkefni þessa lífs. Þar liggur kannski leyndardómurinn mesti sem varðar hamingjuna, að lifa í samhljómi við kjarna tilverunnar sem er ljós og líf og elska. Ætli innviði, strúktúr lífsins sjálfs, sé ekki að finna í hinu innsta, í andanum þar sem hinn guðlegi neisti býr?
Og aftur vísa ég til orða postulans og nú með formála hans og hvatningu:
„Ég hvet ykkur, systkin: Vandið um við iðjulausa, hughreystið ístöðulitla, takið að ykkur óstyrka, verið þolinmóð við alla. Gætið þess að enginn gjaldi neinum illt með illu en keppið ávallt eftir hinu góða, bæði hvert við annað og við alla aðra.
Verið ætíð glöð. Biðjið án afláts. Þakkið alla hluti því að það er vilji Guðs með ykkur í Kristi Jesú.
Slökkvið ekki andann. Fyrirlítið ekki spádómsorð. Prófið allt, haldið því sem gott er. En forðist allt illt í hvaða mynd sem er.
En sjálfur friðarins Guð helgi yður algerlega og andi yðar, sál og líkami varðveitist alheil og vammlaus við komu Drottins vors Jesú Krists. Trúr er sá er yður kallar, hann mun koma þessu til leiðar.“
(I Þess 5.23-24)
Þessi orð postulans gætu þess vegna verið forskrift að lífi geðlæknis á hverjum tíma. Við kveðjum góðan samferðamann sem leitaðist við að lifa góðu lífi og gefandi, samferðafólki sínu til líknar og lífsbótar. Geymi hann nú himinn Guðs, eilíf elska og hið skærasta ljós.
Blessuð sé minning Ásgeirs Karlssonar og Guð blessi þig. Amen.
Jarðsett verður í Gufunesi að loknu erfi hér í safnaðarheimilinu.