Minningarorð
Magnús Þorgeir Einarsson
fasteignasali
1936-2013
Skúlagötu 10, Reykjavík
Útför frá Hallgrímskirkju
föstudaginn 20. september kl. 13
Jarðsett í Görðum
Ræðuna er hægt að lesa hér fyrir neðan og einnig hlusta á hana.
Í sálmaskránni eru tvær myndir af Magnúsi einum. Mörg ár liðu á milli þeirra tveggja en þau ár eru sem örskotsstund þegar litið er til baka. Strákslegur svipurinn leynir sér ekki, glettnin í augum og brosi. Magnús var flottur maður sem hafði góð áhrif á umhverfi sitt og alla sem honum kynntust.
Margt bar á góma á milli þessara tvegga mynda. Lífið er vegferð, „tilvera okkar er undarlegt ferðalag“, sagði skáldið. Og svo lýkur þessari ferð og við verðum öll kvödd í fyllingu tímans af hópi fólks sem mun sakna okkar og vonandi kveðja okkur þakklátum huga.
Hann lifði og starfaði í borginni, fæddist á Bergstaðatræti 46, bjó um tíma í Sogamýrinni en lengst af bernsku sinnar í Laugarnesinu. Þar var gott að vera strákur í hópi fjörugra félaga og milli tveggja bræðra.
Foreldrar hans voru Einar Kristjánsson og Helga Haraldsdóttir, bæði upprunnin austur í sveit, hann frá Langholtsparti í Flóa en hún frá Hrafnkelsstöðum í Hrunamannahreppi.
Eldir bróðir Magnúsar var Haraldur f. 1934 d. 2013 en yngri er Kristinn f. 1944.
Ástin vitjaði ungra manna úr Laugarnesinu eins og vera ber og þar var Magnús tilbúinn fyrir lífið en ástin hans kom ekki úr hverfinu eða örðum hverfum höfuðborgarinnar. Kærastan kom úr Hafnarfirði, Guðrún Þ. Jóhannsdóttir og þangað fór Magnús um tíma og þau bjuggu þar saman fyrstu hjúskaparárin. Hvað gera menn ekki fyrir ástina? Foreldrar Guðrúnar komu af Suðurnesjum, móðirin úr Garðinum en faðirinn úr Leirunni.
Þegar þau hófu búskap, Maggi og Rúna, var ekki eins auðvelt að skjótast á milli Fjarðarins og höfuðborgarinnar og nú. Landleiðir sáu um flutninga fólks í bláum og hvítum rútum sem snigluðust um hlykjóttan veginn og yfir Kópavogsbrúna þar sem varla var hægt að mæta öðrum bíl. Rútan á leiðinni til Reykjavíkur kleif yfir Kópavogshálsinn áður en gjáin varð til og svo var fríhjólað niður í Fossvog og þaðan silast upp Öskjuhlíðina fram með Fossvogskirkjugarði á mjóum malarvegi og bílstjórinn sífellt að skipta niður og tvíkúpla. Svona voru nú aðstæður þá.
Magnús var alltaf snöggur að snúa sér við. Hann var fljóthuga, viljugur, duglegur og einkar hjálpsamur maður. Einu sinni sem oftar hjálpaði hann börnunum við að standsetja íbúð. Hann mætti galvaskur, tók málningarúlluna í hönd og var búinn að heilan vegg þegar tengdadótturin náði að segja honum að hann hefði málað í vitlausum lit.
Hann sá alltaf hundrað lausnir í hverju máli en þær voru nú kannski ekki allar þaulhugsaðar og prófaðar en oftast rataði hann þó rétta leið. Hann sá jafnan allsstaðar opnar dyr og tækifæri. Hann var gamansamur og hafði yndi af að grínast. Svo var hann ágæt eftirherma og gat brugðið sér í líki margra kunnra manna.
Magnús og Guðrún eignuðust þrjá myndarsyni. Þeir eru:
- Einar Þór Magnússon f. 1964 kvæntur Hönnu Símonardóttur f. 1966. Börn þeirra: Magnús Már f. 1989, Agnes Eir f. 1992, Anton Ari f. 1994, og Patrik Elí f. 1996.
- Elvar Örn Magnússon f. 1968 kvæntur Önnu Maríu Snorradóttur f. 1971. Börn þeirra: Alexandra f. 1995, Rúna Maren f. 2001 og Snorri Hrafn f. 2007.
- Agnar Már Magnússon f. 1974 kvæntur Berglindi Helgu Sigurþórsdóttur f. 1974. Börn þeirra: Gauti Leon f. 2002, Egill Dofri f. 2008 og Lára Kristín f. 2011.
Ungur að árum varð hann fasteignasali. Það starf átti vel við hann. Hann var viljugur, átti gott með að eiga kurteisleg og opin samskipti við fólk, var greiðvikinn og iðinn. Þá var bransinn allt annar en í dag. En þá eins og nú var fólk að höndla með aleigu sína því steinsteypan hefur löngum verið helsti og besti fjárfestingarkostur landans. Hér áður fyrr þurfti fólk að borga út helming íbúðarverðs, 25% við saming og sömu upphæð við lok, en fjármagna hin 50% með lánum. Þá voru bankar allt aðrar stofnanir en nú. Þá birtu þeir ekki auglýsingar með gyllboðum til að laða fólk til lántöku. Þá sneri þetta alveg öfugt. Fólk varð að standa í biðöðum í bönkum og bíða þess að komast inn í herbergi bankastjórans sem var stundum eiginlega ekki nema fyrir reykkafara, svo mikill gat vindlareykurinn verið. Peningar fengust sjaldan að láni nema fyrir klíkuskap enda voru lán eins og happdrættisvinningur því verðbólgan sá um að borga þau. Nú er öldin önnur og við þurfum að þræla fyrir lánunum. Samt vill enginn þessa “good old days“. Já, lífið á Íslandi er oft eins og súrrealístískur farsi.
Magnús þekkti tímana tvennan og aðlagaðist hverjum tíma, var alltaf eins og vel syndur fiskur í sjó. Hann passaði vel upp á sína kúnna, var vinsæll í sínu fagi og margir ættliðir sömu fjölskyldu áttu gjarnan viðskipti við hann. Hann var góður í að sætta sjónarmið og koma á samningum þannig að bæði kaupandi og seljandi gætu vel við unað.
Magnús rifaði upp í blaðaviðtali þegar símar voru ekki til á hverju heimili og hann varð að ferðast um bæinn í strætó eða með leigubíl og stundum skilja eftir skilaboð í næsta húsi við seljanda eða kaupanda um að hafa samband. Þá var oft einn sími í stigagangi fjölbýlishúss sem dugði tugum íbúa. Slíkur sími gat verið á stærð við tölvuprentara en nú er sími í vasa hvers manns og hvergi friður fyrir hringingum. Mikil dásemd er tækni nútímans!
Magnús byrjaði hjá Eignasölunni 1957, keypti hana síðan og rak til 1998. Eftir það vann hann í 3 ár hjá Húsakaupum en tók þá við starfi framkvæmdastjóra Félags fasteignasala og gengdi því í 3 ár. Hann var fyrsti og eini heiðursfélaginn í 30 ára sögu félagsins og segir það margt um þennan góða dreng. Hann settist í helgan stein eins og sagt er með því að sinna konu sinni, börnum og barnabörnum enn betur en áður, ditta að sumarhúsinu og spila golf sem er, ef þið vitið það ekki, kristilegasta íþrótt sem til er því engin önnur íþrótt er með sérstakt og útreiknað kerfi til að fyrirgefa syndir eða klaufaskap. Það er kallað forgjöf en ætti auðvitað að heita fyrirgefning. Góðvild Magnúsar og hjálpsemi lauk aldrei. Hann starfaði í heimsóknarvinnu hjá Rauða krossinum eftir að hann hætti að vinna og svo sótti hann píanótíma.
Já, hann Maggi var alltaf sprelllifandi af áhuga á sínum viðfangsefnum. Kristinn bróðir dáist enn að því hvað Maggi gat leikið sér með honum og yngri strákum. Hann vakti stóra bróður oft að morgni til að taka eina bröndótta. Maggi reis upp við dogg og sagði: Stillið upp! Og svo var skákin tefld til enda.
Hann var alla tíð snöggur til, fljóthuga og opinn. Þegar þau hjónin voru eitt sinn stödd í Budapest sáu þau Clinton forseta á gangi með lífvörðum. Magnús kallaði kumpánlega yfir götuna: „Hey, Bill, ætlar þú ekki að koma aftur til Íslands?“ Og Bill tók strikið yfir götuna til að spjalla við þennan hressa Íslending. Þegar hann barðist við veikindin síðari árin brást það ekki ef vinir hringdu að hann var alltaf fyrr til að sagði: „Sæll. Hvernig hefurðu það?“ Þótt hann væri orðinn lasburða þá varð að halda aftur af honum þegar hann vildi upp á þak sumarhússins til að mála með sonunun. Alltaf var hann til í tuskið. Hugurinn var oftar en ekki á undan eins og þegar þau voru eitt sinn að flýta sér á skíði og Magnús vildi ná fyrstur upp í brekkurnar. Hann var búinn að hlaða öllu á toppgrind bílsins sem var inni í bílskúr og svo var ekið af stað en farangurinn varð eftir því hurðaropið var allt of lágt! Svo rifjuðu strákarnir það upp þegar þau voru í Danmörku og Magnús keyrði greitt til að ná farþegferjunni og lá svo mikið á að hann henti strákunum yfir borðstokkinn. Landfestar voru óbundnar og því eins gott að flýta sér. Allt var rifið út úr bílnum og því hent á dekkið og svo hoppuðu þau hjónin um borð seinust. Þá sagði skipperinn: „Við mættum kannski fá að leggjast að bryggju.“ Ferjan var sem sagt að koma en ekki fara!
Maggi og Rúna gerðu margt skemmtilegt með börnum sínum og barnabörnum. Svo ferðuðust þau víða hin síðari ár, fóru á framandi slóðir, til Tælands og um Karabíska hafið og fóru einar fjórar ferðir utan eftir að hann veiktist. Þau áttu Hreiðrið hér heima í Biskupsstungum og hlut í húsi í Torre Vieja á Spáni. Þau áttu góða ævi saman, viðburðarríka og skemmtilega. Heimili þeirra ber vott um smekkvísi og fágun. Þar er hver hlutur á sínum stað og heildin falleg. Hreiðrið í Biskupstungum var þeim kært og þar þykir fjölkyldunni gott að vera. En heimili þeirra var líka fallegt hreiður hvar sem það var staðsett á hverjum tíma.
Þau bjuggu fyrst í Kópavogi og svo í Hafnarfirði, þá í Fossvogi. Þá byggðu þau sér hús við Breiðvang í Hafnarfirði og bjuggu þar lengst af uns þau fluttu að Skúlagötu 10 árið 1997. Og nú flyst hann enn á ný og mun gista í Garðabæ það sem eftir er. Hann verður jarðsettur í Görðum þaðan sem sést yfir Hafnarfjörð og til Keilis og fjallgarðsins á Reykjanesi. Þar á hann nýtt hreiður sem Guð gætir, verndar og blessar.
Magnús átti góða ævi og hann er kvaddur hér í dag af þakklátu samferðafólki.
Þessi stuttorða en kjarnyrta minningargrein tengdadóttur Magnúsar segir kannski allt sem segja þarf:
„Glaðlyndur, grallari, ljúfmenni, töffari. Rausnarlegur, röskur og framkvæmdaglaður.
Alls ekki smámunasamur. Heiðarlegur, hrifnæmur, hlýr og hjálpsamur. Stemmningsmaður. Matelskur, tónelskur, skarpur og bókhneigður. Virkur, skemmtilegur, sjarmerandi, eftirsóttur, yndislegur og umfram allt, æðrulaus.“
(Berglind Helga Sigurþórsdóttir í Mbl í dag).
Gott er að vera æðrulaus eða óttalaus.
Magnús átti trú á hið stóra samhengi tilverunnar, trúði á fleira en alla jafnan sést. Hann var góður vinur barna sinna og barnabarna, lék við þau, sagði þeim sögur og grínaðist óspart við þau. Hann var alla tíð hvetjandi í uppeldi gagnvart sonum sínum, heiðarlegur maður með ríka réttlætiskennd, lífsglaður og skemmtilegur. Eitt sinn var hann í strætó í Svíþjóð og fannst hálf dauflegt yfir fólkinu í vagninum. Þá hóf hann að syngja um Flickorna í Småland þar til allir voru farnir að syngja með. Hann var músíkalskur, lék á klarinett og þekkti mörg klassísk verk og hafði yndi af tónlist og ekki síst jazztónlist og lék á píanó hin síðar árin sér og sínum til gleði.
Fögur tónlist hljómar yfir honum í Hallgrímskirkju í dag. Hann ver kvaddur með virðingu og þökk.
Ævin er stutt. Hver dagur er dýrmæt gjöf. Grípum daginn og njótum hans.
Blessuð sé minning Magnúar Einarssonar og Guð blessi þig.
Amen.
Ég flyt ykkur sérstakar kveðjur:
frá Símoni og Þuríði, tengdaforeldrum Einars, sem eru á Spáni og senda sínar bestu kveðjur til ástvina og þakka Magnúsi fyrir allt;
frá Birni, Sigríði og fjölskyldu í Svíþjóð sem minnast Magnúsar með hlýju og þökk.
Jarðsett verður í Görðum.
Erfi á Grand Hotel.
Minningarorðin birt.