Eiríkur Guðmundsson
1923-2013
Útför frá Neskirkju 23. ágúst kl 13 00.
Jarðsett í Gufunesi.
Erfi í Sunnusal Hótels Sögu
Ræðuna er hægt að lesa hér fyrir neðan og einnig hlusta á upptökuna.
Friður Guðs sé með ykkur.
Í aðventusálmi eftir Sigurbjörn Einarsson, biskup, kemur Guðs sonur í þennan heim á skipi. Skipið er sterkt tákn í kristninni. Við erum hér saman komin í kirkjuskipi sem á ensku heitir nave en samstofna er orðið navy.
Hér leggur skip að landi,
sem langt af öllum ber,
en mest ber frá um farminn,
sem fluttur með því er.
Þar kemur sæll af sævi
Guðs son með dýran auð:
Síns föður náð og frelsi,
hans frið og lífsins brauð.
Hann braust í gegnum brimið
við bjargarlausa strönd
að seðja, líkna, lækna
og leysa dauðans bönd.
Sinn auð hann fús vill færa
þeim fátæku á jörð,
og endurgjaldið eina
er ást og þakkargjörð. (Sb 559)
Guðspjallstextinn sem ég las um Jesú í bátnum með lærisveinunum þegar hann kyrrði vind og sjó er táknmynd um vernd Guðs. Kirkjan er skipið. Kristin kirkja er um borð og þar er Frelsarinn við stjórnvölinn sem stýrir sínu fari heilu heim. Við vorum munstruð á þetta mikla skip í heilagri skírn.
Eiríkur kom til Íslands sem reifabarn, 3ja mánaða gamall í örmum góðrar konu sem tók að sér að koma honum heilum heim til fósturforeldra eftir að móðir hans lést í kjölfar fæðingar hans.
Eiríkur fæddist í Hull á Englandi 29. mars 1923.
Foreldrar hans voru hjónin Guðmundur Ebenesersson skipstjóri í Hull og Grimsby f. 1886 d. 1940 og Jane Ellen Hall Godmund f. 1893 d. 1923.
Guðmundur og Jene Ellen áttu fyrir tvö börn er Eiríkur fæddist, þau Arthur Godmund f. 1919 og Muriel Godmund Woodhouse f. 1921 sem eru bæði látin. Guðmundur sá um eldri börnin tvö með hjálp tengdaforeldra sinna en Eiríki var komið í örugga höfn hjá Salvöru systur hans f. 1898 d. 1983 og manni hennar Jóni Finnboga Kjartanssyni f. 1893 d. 1972, sem ættleiddu hann.
Guðmundur kvæntist á ný og eignaðist tvö börn, Agnesi Godmund Blindells f. 1927 og John Godmund, sem dó ungur. Agnes lifir nú ein systkinanna.
Uppeldissystkini Eiríks voru Kjartan Jónsson f. 1925 d. 1990 og Guðfinna Jónsdóttir f. 1927 d. 2013, bæði látin.
Eiríkur naut einstakrar umhyggju og elsku foreldra sinna. Kærleikur þeirra til drengsins sem kom yfir hafið var heill og tær. Alla tíð minntist hann þeirra með djúpri þökk og virðingu. Þeir feðgar, Jón og hann, voru einkar nánir og vinátta þeirra og gagnkvæm virðing djúp og sterk. Salvör var heimavinnandi og hugsaði vel um drenginn og systkinin en Jón var forstjóri, rak um árabil sælgætisverksmiðjuna Víking sem var stórt fyrirtæki með tugi manns í vinnu. Hann kom víða við í rekstri og var jafnframt í hjarta sínu bóndi, hafði kýr í fjósi hér inn við Suðurlandsbraut og átti jarðir í Borgarfirði. Eiríkur vann lengst af starfsævi sinnar í Víkingi með Jóni og var þar vinsæll starfsfélagi, samviskusamur og duglegur.
Eiríkur var gæfumaður og eignaðist frábæran lífsförunaut. Þann 30. nóvember 1946 kvæntist Eiríkur Rakel Sveinbjörnsdóttur frá Stykkishólmi f. 19. ágúst 1925. Foreldrar hennar voru Albína Guðmundsdóttir húsfreyja í Stykkishólmi f. 1898 d. 1953 og Sveinbjörn Bjarnason formaður í Stykkishólmi f. 1890 d. 1929. Bæði misstu foreldri í bernsku, hann móður sína á fyrstu mánuðum ævi sinnar en hún 4 ára er faðir hennar drukknaði.
Þau voru glæsileg hjón, Rakel og Eiríkur, hún ljós yfirlitum, há og tíguleg, hann dökkur á brún og brá eins og suðrænn sjéntilmaður.
Eiríkur og Rakel eignuðust þrjá myndarlega og trausta syni:
Elstur er Guðmundur Eiríksson, f. 1946, fyrri eiginkona hans er Guðfinna Jóhannsdóttir f. 1948. Börn Guðmundar og Guðfinnu eru:
a) Eiríkur f. 1969, maki Inga Sigursveinsdóttir f. 1969. Börn þeirra eru Birta, Guðmundur og Anton Ernir.
b) Björg Ýr f. 1972, maki Óskar Jensson f. 1974. Börn þeirra eru Bjarmi Fannar og Markús Orri.
c) Rakel Ýr f. 1972, maki Páll Líndal f. 1967. Þeirra barn er Andrea Líf. Börn Páls eru Eydís Arna Líndal og Arnar Geir.
Seinni eiginkona Guðmundar er Jóna Sigríður Jónsdóttir f. 1943. Börn Jónu Sigríðar eru Stefán Úlfarsson f. 1965 maki Ping Wang f.1972, dóttir þeirra er Árný Wang. Þrándur Úlfarsson f.1967, maki Lotten Lidién f. 1971, sonur þeirra er Emil. Gaukur Úlfarsson f. 1973, dóttir hans er Hekla.
Næstur er Jón Eiríksson f. 1948, kvæntur Þórunni Þórisdóttur f. 1951. Börn þeirra eru:
a) Eiríkur Dór f. 1975. Maki Elín Louise Knudsen f. 1976. Dóttir þeirra er Elísabet Unnur. Sonur Elínar er Kristófer Thomasson.
b) Unnur Erla f. 1979. Maki Gunnar S Jónsson f 1972. Börn þeirra eru Thelma og Þórunn Erla. Sonur Gunnars er Hlynur Gunnarsson.
c) Rakel Jónsdóttir nemi f. 1987.
Yngstur bræðranna var Sveinbjörn Breiðfjörð Eiríksson nemi f. 1963 dáinn 14. maí 1986. Það var þeim hjónum og fjölskyldunni allri mikið áfall að missa efnilegan son rétt tæplega 23ja ára. Allar götur frá því hann dó hafa munir hans verið geymdir og hafðir í sérstöku herbergi til að viðhalda minningu um elskulegan son. Fjölskyldan hefur geymt minningu hans og varðveitt en hann sjálfur gist himinn Guðs.
Eiríkur ólst upp í Reykjavík, til heimilis að Grettisgötu 8. Að loknu grunnskólanámi við Austurbæjarskóla og síðar Héraðsskólann á Laugarvatni lauk hann námi frá Samvinnuskólanum Bifröst árið 1943. Eiríkur starfaði sem sölumaður og framkvæmdastjóri lengst af með fósturföður sínum í Sælgætisgerðinni Víkingi en síðar við eigin rekstur á Lakkrísgerðinni Krumma. Síðustu ár starfsævi sinnar starfaði hann hjá Íslandsbanka.
Á yngri árum æfði Eiríkur kanttspyrnu með Val, spilaði badminton og bridge með góðum félögum til margra ára. Þeir hittust til skiptis vikulega yfir vetrartímann á heimili hvers annars og konurnar sáu um veitingar. Þetta voru veislukvöld og svo var konunum boðið a.m.k. einu sinni á ári til veglegs kvöldverðar á fínum stað og sjóðnum eytt sem safnað hafði verið í. Bridge-félagarnir voru alltaf eins og litlir strákar þegar þeir hittust, segir fólkið hans Eiríks og vinátta þeirra fölskvalaus. Eitt sinn sátur þeir um vetrarkvöld í Hegranesinu og spiluðu. Snjó kyngdi niður og allt varð ófært. Þeir létu það ekki á sig fá og spiluðu til morguns.
Um tíma átti Eiríkur bát sem hann réri á sér til skemmtunar. Rennt var fyrir fisk og skotinn sjófugl. Þetta var engin stórútgerð en gaf góðan arð af gleði og ánægju. Hans aðal áhugamál var hestamennska og var hann liðtækur félagi í Hestamannafélaginu Fáki, þar sem hann sat í stjórn um tíma. Árshátíð Fáks var jafnan tilhlökunnarefni og þar var dansað og gert að gamni sínu af hjartans list.
Eiríkur var glaðsinna maður. Ég sá hann aldrei nema brosandi. Oft komu þau hjón í Neskirkju og alltaf jafn glæsileg saman og augljóst að samband þeirra var kærleiksríkt og fallegt. Eiríkur hafði góða lund. Hann var eins og ljós í hverjum hópi, hress og glaður. Hann var sáttfús og friðsamur og komst afar vel af í samskiptum við samferðafólk sitt. Jón faðir hans var einstakur maður og samband þeirra náið eins og fyrr var getið. Þeir höfðu ólíkt skap en áttu skap saman. Eiríkur var oft fenginn til þess í fjölskyldunni að tala á milli fólks og sætta sjónarmið. Hann var háttvís og fágaður í allri umgengni, sjentilmaður á enska vísu.
Hann var alla tíð afar stoltur af enskum uppruna sínum, þótti vænt um fólkið sitt þar og heimsótti það oft eftir að hann varð fullorðinn. Hann reyndi að fara ekki sjaldnar en á fjögurra ára fresti og svo komu ættingjar hans hingað. Þau hjónin fóru gjarnan og voru ytra í nokkrar vikur og strákarnir eldri fóru með þeim í eftirminnilega ferð 1962 og heimsóttu allt frændfólkið. Eiríkur var alltaf með hugann við England og fylgdist vel með ýmsum málum þar í landi. Hann spurði ferðalanga sem þaðan komu gjarnan um verðlag og vildi vita hvað ýmis neysluvarningur kostaði til að sjá þróun verðlags. Hann vissi alltaf hvað ölkollan kostaði í Englandi en var þó algjör hófmaður í drykkju öls og víns og kunni að nota hvort tveggja eins og vera ber.
Eiríkur fór margar ferðir til útlanda á vegum fyrirtækisins forðum daga, stundum með Jóni og oft einn. Jón hvatti hann oft til að taka sér frí og fara til Englands. Þegar Eiríkur var að búa sig til sinnar fyrstu farasr til Englands 12 árar sagði Jón faðir hans: „Þú kemur aftur fóstri, er það ekki?“ „Jú, ég kem aftur“ svaraði Eiríkur.
Þegar Eiríkur var drengur á Grettisgötunni kom frændfólk hans í heimsókn oftar en einu sinni og æskufélagar Eiríks mundu alla tíð Englendingana og fannst mikið til koma en af þeim lærðu þeir sín fyrstu orð af enskri tungu. Á stríðárunum kynnstist Eiríkur Englendingum í hernámsliðinu og eignaðist góða vini í þeirra hópi. Hann lagði sig eftir að læra ensku og ná tökum á henni en hann kom auðvitað mállaus sem kornabarn til Íslands.
Líf hans var alla tíð í föstum skorðum. Vinnan var honum mikils virði og svo þótti þeim hjónum gott að fara til útlanda í frí af og til og seinni árin fóru þau að heimsækja Mallorka og fleiri sólríka staði. Rakel rak Parísarbúðina með vinkonu sinni um árabil í Austurstræti og afgreiddi þar til sjötugs enda féll henni vel að sinna konum í leit að fallegum flíkum.
Háttvísi Eiríks var einstök og hann gekk aldrei svo upp að húsi að hann hleypti ekki konum á undan sér. Þegar mágkona hans og bróðri komu hingað og Eiríkur opnaði bílhurð fyrir henni gaf hún manni sínum auga og tiltal um að hann gæti nú ýmislegt lært af bróður sínum. Eiríkur og Rakel bjuggu um árabil í Garðastræti 39 í næsta húsi við Ólaf Thors, forsætisráðherra. Eitt sinn þegar enska systir hans var að kynnar bróður sinn ytra sagði hún: „This is my brother Eric, he lives at number 8“!
Rakel og Eiríkur áttu góð ár í Garðastræti og svo á Arnarnesinu. Þau hafa búið á Reynimel 64 s.l. 20 ár. Þar leið þeim vel. Eiríkur hafði lengst af góða heilsu en síðustu árin var farið að halla undan fæti. Í fyrra var hann í 6 vikur á Grund og naut góðs atlætis þar. Sumarið var sólríkt og hann sat löngum úti og drakk í sig geisla sólar. Sama gerði hann heima á Reynimel, sat á svölunum og horfði yfir hverfið. Minnið var farið gefa sig undir það síðasta en hann mundi hið gamla. Hann veifaði fólki af svölunum sem heilsaði honum hvort sem hann mundi fólkið eða ekki. Alltaf var brosið jafn hlýtt og nærveran góð.
Eiríkur var barngóður og elskaði barnabörn sín. Hann fylgdist grannt með þeim og spurði gjanan frétta af þeim og vildi vita um áhugamál þeirra. Þau skrifa fallega um hann í dag og augljóst er að á milli hans og þeirra allra var djúp virðing og elska.
Nú er Eiríkur aftur lagður upp í ferð og aftur með skipi. Kista hans hvílir hér í kirkjuskipinu og ferðinni er heitið heim. Forðum var hann borinn um borð af kærleikshöndum föður og lagður í faðm kærleiksríkrar konu sem gætti hans uns föðursystir og hennar maður tóku á móti honum í kærleiksarma sína. Elska Guðs birtist gjarnan í elskuríku fólki. Og nú er hann kvaddur og lagður í hendur Guðs af elskuríkri eiginkonu, sonum, tengdadætrum, barnabörnum og ástvinum. Hann er kvaddur með djúpri viriðingu og þökk.
Eiríkur andaðist á Landsspítalanum við Hringbraut 12. ágúst 2013. Fyrr á árinu hafði hann haldið sínu fólki veglega veislu á Hótel Holti í tilefni af níræðisafmæli sínu. Minningarnar um það kvöld eru geymdar í fallegri bók með fjölda mynda. Minningarnar eru margar og góðar af samskiptum okkar allra við Eirík.
Eiríkur er lagður af stað heim, til þeirrar víddar sem fólkið hans horfna gistir, mamma sem hann naut svo stutt, Sveinbjörn sem hann saknaði alla tíð, pabbi og fósturforeldrarnir, systkini og vinir. Himinninn geymir þau öll og himinninn bíður okkar allra með opinn faðm.
Hér leggur skip að landi,
sem langt af öllum ber,
en mest ber frá um farminn,
sem fluttur með því er.
Frelsarinn kom á himinsfleyi sínu og hann stýrir kirkju sinni til hafnar og verndar fólkið sitt í lífi og í dauða og um eilífð alla.
Guð blessi miningu Eiríks Guðmundssonar og Guð blessi þig. Amen.
– – –
Ritningarlestrar:
I Kor 13
Kærleikurinn mestur
1Þótt ég talaði tungum manna og engla
en hefði ekki kærleika
væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.
2Og þótt ég hefði spádómsgáfu
og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking
og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú að færa mætti fjöll úr stað
en hefði ekki kærleika,
væri ég ekki neitt.
3Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum
og þótt ég framseldi líkama minn til þess að verða brenndur
en hefði ekki kærleika,
væri ég engu bættari.
4Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki.
Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.
5Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin,
hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.
6Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum.
7Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.
8Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.
Matt 8.23-27
Í stormi
23Nú fór Jesús í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. 24Þá gerði svo mikið veður á vatninu að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. 25Þeir fara til, vekja hann og segja: „Drottinn, bjarga okkur, við förumst.“
26Hann sagði við þá: „Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir?“ Síðan reis hann upp, hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn.
27Mennirnir undruðust og sögðu: „Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum.“