Árni Kristmundsson 1937-2013

arnikristmundssonMinningarorð

Árni Kristmundsson

bílamálari

1937-2013

Útför frá Kópavogskirkju

fimmdudaginn 15. ágúst 2013 kl 15.

Ræðuna er hægt að lesa

og hlusta á hér fyrir neðan.

 

 

Nærtækasta samræðuefni Íslendinga er líklega veðrið. Veðrið skiptir okkur öll miklu máli því hér eru veðurbreytingar miklar og veður oft válynd og sterk. Þess vegna snýst líf okkar öðrum þræði um að finna skjól eða mynda skjól.

Hvar er skjól að finna í veðrum lífsins? Og hvar er skjól að finna þegar maður verður á endanum einn út í storminum sem hrífur mann í burt? Hvar er skjól að finna?

Þau byggðu sér hús við Skjólbraut og þar bjuggu þau lengst af með góðum nágrönnum í barnmörgu hverfi. Börn leituðu oft til Árna. Hann var barngóður og gaf sig að börnum, ræddi við þau og tók þeim sem jafningjum. Þegar verið var að byggja húsið og þau vildu vera í kringum smiðina var auðveldast að fá þeim verkefni, lána þeim hamar eða kúbein og láta þau finna kröftum sínum viðnám í góðum verkum. Þau komu á öllum aldri og alltaf hafði Árni tíma til að tala við þau. Hann var líka helsti vopnasmipur þeirra. Hjá Árna fengust sverð og bogar, leikföng og dót sem til urðu úr efnivið sem hann átti heima. Stundum sást hann úti við trjábeð og engu líkara en að hann væri að tala við sjálfan sig en svo kom í ljós að handan runnans voru börn á tali við vin sinn.

Svon var Árni.

En hann var líka margt annað.

Árni Kristmundsson fæddist í Reykjavík 11. nóvember 1937. Hann lést 5. ágúst 2013 á Landspítalanum í Fossvogi. Foreldrar hans voru Kristmundur Árnason, f. 1910, d.1990 og Guðfinna Magnúsdóttir, f.1902, d.1974. Bróðir Árna var Sigurður Kristmundsson, f.1931, d. 2002 og uppeldisbróðir hans er Sveinn Valgeir Jónsson, f.1943.

Árni kvæntist Geirlaugu Egilsdóttir 1961 verslunarmanni og húsfreyju, f.1936. Frumburður þeirra, drengur, fæddist andvana. Börnin sem lifðu eru:

  1. Kristmundur Árnason, f.1960, maki Karlotta Pálmadóttir, f.1961. Börn þeirra: Pálmi Kristmundsson, f.1986, Árni Geir Kristmundsson, f.1989, sambýliskona Jóhanna Sofia Karlsdóttir, f.1987, Guðrún Birna Kristmundsdóttir, f.1993.
  2. Sigríður Björg Árnadóttir, f. 1962, maki Guðmundur Árni Jónsson, f.1958, d. 2005, dóttir þeirra Stefanía Ösp Guðmundsdóttir, f.1988 sambýlismaður Einar Sigurðsson, f. 1981.
  3. Egill Örn Árnason, f. 1963. Sonur Jökull Egilsson, f. 1988. Sambýliskona Egils, Inga Margrét Guðmundsdóttir, f. 1966. Börn hennar Guðmundur Björn Sigurgeirsson, f.1988 og Hólmfríður Eva Björnsdóttir, f. 1996.
  4. Guðfinnur Már Árnason, f. 1964, maki Elsa María Hallvarðsdóttir, f. 1964. Börn: Sandra Sif Guðfinnsdóttir, f. 1986 maki Sigurður Ragnar Guðlaugsson, f. 1985, sonur þeirra Arnar Smári Sigurðsson, f. 2012. Smári Guðfinnsson, f. 1988 maki Írunn Viðarsdóttir, f. 1988. Halla Kristín Guðfinnsdóttir, f. 1989.

 

Árni fæddist í Reykjavík og bjó ungur í Skerjafirðinum en flutti svo í Kópavoginn með pabba og mömmu sem voru meðal frumbyggja hér í bæ um miðja síðustu öld.

Árni var mikill húmoristi og skemmtilegur maður að sögn viðmælenda minna. Hann var listrænn í sér og alltaf að dunda eitthvað. Barnabörnin nutu alla tíð vináttu hans og eiga góðar minningar um afa. Verkefnin sem þau unnu með honum voru gefandi og þroskandi og hann hafði einstakt lag á að gera hversdagslega hluti skemmtilega.

Árni og Geirlaug kynntust í Vetrargarðinum sem var vinsæll skemmtistaður hér áður fyrr en Árni hafði alla tíð gaman af að dansa og hlusta á góða tónlist.

Þau lögðu upp í ferð saman og fundu lífi sínu skjól hér í Kópavogi, byggðu hús með foreldrum hans og þar uxu börnin úr grasi. Geirlaug eða Gilla, sem er Siglfirðingur, vann löngum sem verslunardama eða við framreiðslu en var auðvitað í síld á sínum yngri árum eins og Siglfirðinga var siður.

Árni vann ungur við byggingu Mjólkárvirkjunar í Arnarfirði. Síðar vann hann hjá Skeljungi og sigldi á olíuskipinu Kyndli og svo á millilandaskipum. Hann vann í Daníelsslippi sem verkstjóri og vann einnig við verkstjórn við byggingu blokka í Rekjavík hjá bróður sínum. Hann lærði bílamálun og vann lengi við það hér í bæ. Listfengi hans naut sín í þeirri iðn og hann hafði unun af að skreyta bíla og punta. Hann var úrræðagóður fagmaður og hafði alla tíð gaman af handverki. Stundum hurfu sokkabuxurnar hennar Gillu úr skápnum því Árna vantaði hentugt efni til að sía lakk og engar aðra síur í boði. Þegar Kiddi fermdist vantaði borð fyrir veislugesti og Árni var ekki lengi að smíða nokkur slík. Eitt sinn þegar hann málaði stofuna heima hrærði hann málninguna í hrærivél heimilisins.

Margt fallegt hefur hér verið sagt um Árna en hann var þó ekki gallalaus maður. Hann glímdi löngum við sterk veðrabrigði í sálu sinni og þar voru sviptivindar Bakkusar hvað erfiðastir. „Öl er innri maður“, er gjarnan sagt en einnig „öl er annar maður“. Árni varð annar maður með víni og þá urðu stormar stundum svo stríðir að fókið hans var að finna sér annað skól. Það var sárt en það er jafnframt fyrirgefið. Elska hans og gæska á þurrum dögum bætti það allt upp og svo hitt að fyrir aldarfjórðungi eða svo hætti hann alveg að drekka, fór að stunda AA-fundi og Geirlug Al-anon. Þau störfuðu mikið í samtökunu og tóku þátt í að stofna nýja deild hér í Kópavogi. Hann hætti einnig að reykja fyrir 16 árum og það var góður gjörningur. Batnandi mönnum er best að lifa, segir máltækið. Hann var hraustur framan af ævi en bakið bilaði eftir bílslys sem hann lenti í og svo tóku reykingarnar og lakkvinnan toll sinn af lungunum sem voru orðin mjög veikburða. Hann var sjúklingur síðustu árin og lést 75 ára eftir erfiðan lokakafla þar sem verkir hrjáðu hann oft á tíðum. Hann sagði við hana Geirlaugu sína: „Elsku Gilla mín, þú veist ég elska þig en nú get ég ekkert gert. Hvernig get ég launað þér?“

Hann var í þakkarskuld og þau eru mörg sem eru í þakkarskuld við hann og dágóður hópur fylgir honum hér hinsta spölinn. Kveðja er hér flutt frá Guðrúnu Birnu Kristmundsdóttur, afastelpu, sem er á Spáni og frá starfsfólki Bílastjörnunnar Cars. Sigríður eða Sirrý frænka og Hafsteinn maður hennar sem búa í Kanada biðja fyrir kveðju og loks Sveinn Valgeir uppeldisróðir Árna sem býr í Noregi.

Í áranna rás komu börn oft til Árna með dauða fugla eða önnur dýr og hann hjálpaði þeij að koma þeim í góða mold. Allir þurfa sitt skjól og umhyggja barna fyrir dýrum segir margt um þau og um okkur mannfólkið yfirleitt en það að láta sér annt um lífið og annað fólk er einn af mikilvægustu eiginleikum mannsins. Og nú eruð þið hér sem látið ykkur annt um Árna og minningu hans. Oft fengu heimilislausir skjól heima hjá Árna og Gillu, menn sem þau kynntust í gegnum AA. Skjólbraut 7a stóð undir nafni.

Hvar er skjól að finna? Hver geymir okkur þegar hinsti stormurinn gengur yfir? Hver skýlir okkur að lífi loknu?

Árni var trúaður maður. Móðir hans var guðhræddi kona sem kenndi honum bænir og vers. Hann bað Gillu gjarnan að fara með Faðir vor bænina með sér að kvöldi dags og lagði þannig sig og sína í hendur Guðs. Bænin er tjáning vonar. Hún er samtal við hinn hæsta, skapara alls sem er, Guð hins stóra samhengis. Við erum í hendi hans í lífi og dauða. Hann er skjólbraut lífsins, brautin helga og góða sem liggur til eilífs lífs.

Ert þú á skjólbrautinni? Áttu trú á Guð? Treystir þú honum fyrir þér og þínum? Hvert beinir þú huga þínum þegar öll sund lokast?

Er Árni vinur heima? spurðu börnin stundum sem börðu að dyrum á Skjólbraut 7a.

Guð er vinur okkar. Jesús er besta og tærasta mynd vináttu sem mannkyn hefur eignast. Við drepum nú á dyr á skjólbraut eilífðarinnar og vitjum þess vinar sem Guð er í daglegu lífi og felum Árna vináttu hans og elsku. Guð geymi hann og varðveiti. Guð blessi minningu hans og Guð blessi þig. Amen.

 

 

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.