Þórður Sævar Jónsson 1934-2013

Þórður S JónssonÖrn Bárður Jónsson

Minningarorð

Þórður Sævar Jónsson

f.24.8.1934, d. 18.7.2013

Útför frá Neskirkju 2. ágúst 2013 kl. 13

Ræðuna er hægt að lesa hér fyrir neðan.

Einnig er hægt að hlusta á ræðuna með því að smella á þríhyrninginn – Play-takkann.

Sálmaskráin er  neðanmáls sem pdf-skjal.

Friður Guðs sé með ykkur.

„Og ég sá borgina helgu . . . “

Þórður var borgarbarn, fæddur í miðborginni og alinn þar upp. Hann hafði alla tíð fingur á púlsi þjóðfélagsins og lærði ungur að svamla í hafi mannlífsins og varð vel syndur í þeim efnum. Hann kom víða við og var allstaðar aufúsugestur, vinsæll, elskulegur og góður drengur.

Ég kynntist honum ekki fyrr en á kvöldi ævi hans. Grunaði reyndar ekki að hann ætti jafnt skammt eftir og raun ber vitni.

Hann var flottur kallinn þegar við vorum saman á Vestfjörðum í aðdraganda alþingiskosninganna í vor. Svarti bíllinn stífbónaður. Þórður ók aldrei inn í Reykjavík þegar hann kom utan af landi án þess að þvo bílinn fyrst. En aftur vestur í okkar sögu! Vagnstjórinn sjálfur var í svörtum leðurfrakka og búinn að koma fyrir festingum fyrir fánastöng á varadekkinu sem hangir á afturhurðinni. Þar blakti við hún fáni Lýðræðisvaktarinnar, merki þeirra hugsjóna, sem fela í sér drauminn um nýtt þjóðfélag, sanngjarnara og réttlátara þjóðfélag, drauminn um borgina helgu.

Borgin helga er í gyðinglegum og kristnum litteratúr myndhverfing um hina jarðnesku Jerúsalemborg sem allir stefndu til en líka um hina himnesku borg. Borgin helga er ítrasta von um æðstu fegurð mannlífsins þar sem „réttlæti og friður kyssast“ eins og sagt er á einum stað í hinni helgu bók. Borgin helga er myndhverfing um nýtt og betra þjóðfélag.

Kristin trú er upphaflega borgarfyrirbrigði en ekki sveita. Hún er hreyfing fólks í borgarsamfélagi, þéttbýli, hreyfing um ný viðmið, nýjar reglur, elskulegra samfélag, hreyfing um samhljóm við hið stóra samhengi lífsins, hreyfing sem vill slá í takti við alheimshjartað sjálft.

Heimurinn er ekki bara kaldur steinn í jökulköldum, dimmum geimi, þar sem stjörnur æða um á ógnarhraða og hverfa að lokum inn í svarthol eyðingarinnar. Nei heimurinn hefur að kjarna elsku. Þegar Jóhannes guðspjallamaður tjáði sig um Guð notað hann eitt sinn aðeins þrjú orð um eðli hans og sagði: Guð er kærleikur. Þar með er innsta eðli heimsins elska. Um leið fær heimurinn inntak og gildi og það er á grundvelli þess að við kunnum að elska og kunnum að vona og þrá betri heim, bjartari og fegurri.

Þórður Sævar Jónsson fæddist í Hafnarstræti 17 í Reykjavík 24. ágúst 1934 og ólst upp í Þingholtsstræti 1 þar sem nú er veitingarstaðurinn Carúsó. Foreldrar hans voru Margrét Sæmundsdóttir f. 19.8.1910, d. 25.12.1985, frá Eyjarhólum í Mýrdal, og Jón Þórðarson kaupmaður í Reykjavík f. 3.4.1907, d. 25.12.1973. Þórður var mörg sumur í Vík hjá ömmi og afa og lærði þar t.a.m. ungur á bíl.

Systir Þórðar er Þóra Jónsdóttir f. 12.5.1947, maki Björn G. Björnsson f. 26.5.1944. Synir þeirra: Björn Þór f. 30.10.1981 og Ívar f. 24.10.1990. Fóstursonur þeirra er Steingrímur Jón f.12.4.1967, sonur Þórðar.

Þórður kvæntist Bergljótu Aðalsteinsdóttur f. 4.6.1934 – d. 14.8.1965. Þau skildu. Börn þeirra: 1) Jón Sævar Þórðarson f. 29.2.1956, maki Elfa Björt Gylfadóttir f. 20.5.1963. Synir þeirra: Þórður Sævar f. 5.9.1989 og Gauti Páll f. 16.6.1999. Dóttir Jóns með Ingunni Einarsdóttur er Bergljót f. 7.11.1980, búsett í Hollandi. Hún er kölluð Bella og sendir kveðju sína til ykkar og þakkar vináttu afa. Maki Bergljótar er Amid Ayoub f. 1.12.1979, börn þeirra: Liam f. 27.12.2006 og Emma f. 27.4.2012. 2) Guðný Arndís Þórðardóttir f.12.7.1958, d. 29.5.1973 sem lést í bílslysi á 15. ári, öllum harmdauði og sárt saknað alla tíð.

Þórður kvæntist Arngunni Jónsdóttur f.13.7.1942, d. 10.6.1994. Þau skildu. Börn þeirra: 1) Margrét f. 7.4.1966, maki Friðrik Þór Halldórsson f. 13.4.1961. Dætur þeirra: Þóra Margrét f. 19.9.1993 og Katrín Erla f. 27.9.1999. 2) Steingrímur Jón f. 12.4.1967, maki Lind Einarsdóttir f. 23.7.1969. Dætur þeirra: Perla f. 29.4.1997 og Harpa f. 12.3.1999.

Þórður kvæntist Láru Thorarensen f. 2.2.1952. Sonur Láru er Jakob Hinriksson f. 4.3.1972, maki Pricilla Kelly f. 28.11.1980. Sonur þeirra: óskírður f. 12.6.2013. Dóttir Pricillu er: Gabriely Victoria f. 8.3.2002.

Fjölskylda Þórðar er honum þakklát fyrir allt og honum er jafnframt fyrirgefið allt sem sýnir elsku þeirra og gleði yfir að hafa átt hann að á lífsgöngunni með sínum kostum og göllum. Við erum öll gallagripir og komumst ekki af án fyrirgefningar og elsku samferðafólksins. Fjölskyldan hjálpaðist að. Í afrísku máltæki segir að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Börnin hans Þóðar fengu gott atlæti ættarþorpsins og hafa komst vel af í hörðum heimi. Þeir göntuðust stundum með það Björn Björnsson mágur hans og Þórður að þeir ættu börn saman og stundum var talað um Litla foreldrafélagið.

Þórður gekk í Miðbæjarskólann og Verslunarskólann og stundaði verslunarstörf um hríð en fór snemma á sjóinn, fyrst á togara en sigldi síðan á millilandaskipum Eimskipafélagsins um árabil. Á þeim árum reyndi hann margt og minnisstæður var honum túrinn þegar þeir urðu að berja hnausþykka ísinguna af rá og reiða til að skipinu hvolfdi ekki í aftakaveðri á Nýfundnalandsmiðum. Hann kom oft á Laugaveg 11 til að hitta bóhema og annað bráðskemmtilegt fólk sem kunni að krydda mannlífið.

Seinna vann hann við virkjanir á hálendi Íslands einkum við akstur.

Þórður og Lára bjuggu fyrst á Laugabakka í Miðfirði en fluttust á Hvammstanga þar sem þau ráku söluskála í tíu ár. Þaðan fluttu þau til Flateyrar ári eftir snjóflóðið og ráku þar veitingahúsið Vagninn í mörg ár. Þar var löngum samastaður Flateyringa á erfiðum tímum. Þau höfðu búið á Flateyri í 17 ár þegar Þórður lést. Seinustu árin reri hann með Óla popp á Sjávarperlunni að eltast við skötusel. Þórður stóð keikur við borðstokkinn og dró ísköld netin úr sjó, berhentur. Hann var uppáfinningasamur og sá tækifæri í öllum aðstæðum eins og til að mynda þegar honum datt í hug að rækta krókódíla á Laugabakka.

Þórður var kallaður Dúddó sem drengur og Doddi fyrir vestan og með nafnbótinni Vagnstjóri. Á Vagninum var fjölskrúðugt mannlíf. Þar var sungið og spilað af hjartans list og Doddi lét gjarnan renna ómælt í glös og bolla og allt skrifað hjá þeim sem vildu borga seinna – eða ekki. Ætíð var viðmót þeirra Þórðar og Láru elskulegt og opið og af þeim sökum laðaðist að þeim fólk hvar sem þau störfuðu. Ef honum fannst Lára ekki vera sér nægjanlega sammála sagði hann stundum: Lára mín, þú ert svo miklu yngri en ég og ég gæti nú bara verið pabbi þinn! Hjá þeim var alltaf opið hús og alltaf nóg handa öllum. Þetta fékk ég að reyna á eigin skinni er ég gisti hjá þeim í vor.

Þórður var víðförull um dagana og fór m.a. til Kína ásamt Árna Jónssyni eins og fram kemur í kvikmynd Lýðs Árnasonar læknis um þá frægðarför, en Þórði bregður fyrir í fleiri myndum hans. Hann sigldi út um höfin blá í sautján ár, segir í söngtexta. Þórður fór víða og oft til Hamborgar sem flesta farmenn dreymdi um að heimsækja. Eitt sinn tók hann  Þóru systur með sér 15 ára og sýndi henni Strassann og allt. Þau fóru líka til að hlusta á fjöruga stráka spila á búllu sem voru við það að hefja sína sigurför um heiminn og kenndu sig við bjöllutegund og takt og nefndu sig The Beatles. Tíu ára fékk elsti sonurinn að fara með pabba til New York, Boston og Gloucester. Hann sá Empire State bygginguna og fyrstu hæðir tveggja nýrra bygginga sem síðar áttu eftir að hrynja í árás og verða sögulegt kennileiti, Tvíburaturnarnir. Afi í Þingholtsstræti kenndi drengnum að hlusta á skipafréttir og skoða síðan á sjókorti út frá tölum um lengdar- og breiddargráðu hvar skip pabba væri statt á hverjum tíma.

Fólkið hans segir að alltaf þegar Þórður kom í heimsókn var allaf eins og hann væri að koma úr siglingu, líka þegar hann kom í bæinn að norðan eða frá Flateyri. Hundurinn hennar Margrétar grét alltaf af gleði þegar Þórður birtist og páfagaukur Bjössa og Þóru er enn að leita að honum. Margir hundar nutu góðs atlætis hjá Þórði og Láru á Flateyrir og líka margt gott fólk.

Þórður þekkti störfin bæði á sjó og landi. Hann þekkti klæki kvótakerfisins og vissi hvernig það mismunar fólki, gerir suma ríka en marga fátæka. Hann sem var í Heimdalli sem strákur og fylgdi Sjálfstæðisflokknum að málum lærði á efri árum að hugsa sjálfstætt og láta hjartað ráða. Hann sá fyrir sér nýja leið. Skerjafjarðarskáldið Kristján Hreinsson orti ljóð sem ber yfirskriftina, Leið:

Við fylgjum þeim sem rata rétta leið

og reynum síst af bölsýni að fyllast;

ef lífsins tröð er greiðfær, bein og breið

í birtu dagsins enginn þarf að villast.

En fólk sem ekki þekkir neina þraut

og þykist vera sátt á lífsins göngu

það getur ekki metið beina braut

og borið hana saman við þær röngu.

Af reynslu sumra víst það gæti virst

sem verði allir áttunum að týna,

því rétta leiðin hún er farin fyrst

af fólkinu sem þorir kjark að sýna.

Hann hafði vakandi áhuga á þjóðmálum alla tíð og tók þátt í stjórnmálastarfi. Þórður var víðsýnn og umburðarlyndur. Hann skipaði heiðurssæti á lista Lýðræðisvaktarinnar í Norðvestur- kjördæmi í síðustu Alþingiskosningum.

Og nú er hann horfinn, þessi öðlingur sem átti hug og harta allra sem honum kynntust. Ég flyt ykkur kveðjur fjarstaddra ættingja og vina:

Þórgunnur Jónsdóttir biður fyrir góðar kveðjur til fjölskyldu Þórðar.

Kveðja frá Valdísi Thorarensen og Miriam á Akureyri.

Gógó, Pétur og Gróa Björnsdóttir biðja fyrir kveðjur, einnig Eiríkur Finnur og Gulla sem öll stödd á Flateyri um þessar mundir. Þau ætla að taka eina góða Doddablöndu á Flateyri í kvöld.

Þórðar verður sárt saknað. Missir eiginkonu hans, barna og systur, frændfólks og vina er mikill. Lífið tekur enda hjá okkur öllum. Þórður er farinn í sína hinstu ferð og við erum eftir og eigum fyrir höndum að berja blágræna ísingu spillingar af rá og reiða þjóðarskútunnar. Við höfum verk að vinna í anda draumsins um hina helgu borg. Baráttunni fyrir sanngjarnara og réttlátara samfélagi lýkur ekki fyrr en við lok tímans þegar þessi heimur hverfur og ný og betri tilvera fæðist úr huga almættisins.

Þórður lést á Líknardeild Landspítalans í Kópavogi 18. júlí. s.l. í faðmi fjölskyldunnar. Það var heilög stund sem ég átti með honum og þeim þar. Hann var með litla meðvitund en heyrði þó og skyldi flest að ég tel. Ég ræddi við hann um kosningabaráttuna, um fánann okkar og hugsjónir, rifjaði upp skemmtilegar sögur og sagðist mundu stíga upp á kassann aftur í fyllingu tímans.

(STÍGA Á KASSANN)

Ég flutti honum fyrirheit frelsarans um blessun og eilíft líf og fór með bænir ásamt fjölskyldunni. Það lengdist á milli andartaka og loks opnaði hann augun og sagði veikum rómi: Bless – og gaf upp andann, þakklátur og glaður yfir því að hafa átt lífið og allt sitt góða fólk til stuðnings í verkefnum daganna.

Þórður hafði yndi af trjárækt og gróðri. Pappi hans stundaði trjárækt við Rauðavatn langt á undan sinni samtíð og Þórði varð ljóst með honum að vonin breytir heiminum og sá sem vill sjá nýtt land á morgun gróðursetur tré í dag. Garður þeirra Láru við Hrannargötu á Flateyri ber grænum fingrum hans og Láru fagurt vitni. Ég kom þangað í vor en þá voru enn skaflar í garðinum en greinilegt að þar biðu blóm og fræ eftir vorgeislum blíðum.

Og aftur vitna ég í Skerjafjarðarskáldið:

Við Fögruhlíð er vorið vafið ljóma,

í viðjum moldar leynist undrakraftur

því undir snjó er falin breiða blóma

sem bíður þess að fá að vakna aftur.

Þessi mynd minnir á vonina um nýtt líf, um framhald í borginni helgu þar sem nýtt líf fæðsit í Hafnarstræti eilífðar og dafnar í Þingholtum þeim sem draga nafn sitt af þingi sannleika og réttlætis, friðar og elsku.

Blessuð sé minning Þórðar Sævar Jónssonar og Guð blessi þig. Amen.

 

Sálmaskráin:

 

ÞSJ innsidur ÞSJ utsidur

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.