Minningarorð
Sveinbjörg Guðmundsdóttir
1931-2013
frá Ísafirði
Útför frá Kópavogskirkju
mánudaginn 1. júlí kl.13
Hljóðupptaka. Smelltu á nafnið: Sveinbjörg Guðmundsdóttir_Take_1
Gleðin er mikilvægur þáttur í lífi okkar mannfólksins. Við erum ekki aðeins efni, sinar og bein, við erum líka sál og andi. Og andinn hefur áhrif á efnið, gleðin breytir lífinu. Einar Benediktsson orti:
Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Sveinbjörg var brosmild og glaðleg kona þrátt fyrir að lífið væri ekki eintómur dans á rósum. Hún þekkti mótlæti og missi.
Afstaða okkar til lífsins skiptir miklu máli og gleði og gamansemi eru eins og sólargeislar í mannlífinu.
Ég þekkti til móðurfjölskyldu hennar. Þórdís móðir hennar, Viggó og börn þeirra voru nágrannar mínir í bernsku, gott og glaðlegt fólk með góðan húmor og bjarta sýn á tilveruna. Það er Guðs gjöf að eiga gleði í sálu og sinni. Postulinn Páll sagði:
„Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd.“ (Fil 4.4-5)
Við erum hvött til þess að vera glöð, jafnvel þegar við grátum og syrgjum látinn ástvin. Við getum verið glöð vegna þess að við eigum svo margt að þakka fyrir.
Sveinbjörg fæddist 8. júli 1931 á Bjargi á Ísafirði.
Móðir hennar var Þórdís Einarsdóttir fædd 5. janúar 1912 á Hafrafelli í Skutulsfirði. Dáin 16. júlí 1989.
Faðir hennar var Guðmundur Franklín Gíslason skipstjóri hjá Ríkisskip fæddur á Öskubrekku í Ketildalahreppi, V-Barð. 5 mars 1899, dáin 23 mars 1956.
Hún hét Þórunn Sveinbjörg Álfhildur, en notaði bara Sveinbjargar nafnið og ætíð kölluð Sveina. Hún var alin upp hjá afasystur sinni Þórunni Jensdóttur og Sveinbirni Helgasyni íshússtjóra og áttu þau lengst af heima í Fjarðarstræti á Ísafirði.
Þórdís móðir Sveinbjargar giftist Viggó Guðjónssyni netagerðarmanni og áttu þau heima í Hrannargötu á Ísafirði. Það var því stutt fyrir Sveinbjörgu að hlaupa yfir því þetta var í næstu götu.
Hálfsystkini Sveinbjargar sammæðra eru:
Guðjón Lúðvík f.1938 og á hann tvö börn og fjögur barnabörn;
Guðmundur Sigurður f.1943 kvæntur Öldu Garðarsdóttur og eiga þau fjögur börn og fjögur barnabörn;
Guðrún Sigurborg f.1948 gift Jóhanni Ólafssyni og eiga þau tvær dætur og eitt barnabarn og
Sælaug Vigdís f.1953 gift Viðari Magnússyni og eiga þau fimm börn og þrjú barnabörn.
Hálfsystkini Sveinbjargar samfeðra eru:
Steinunn f.1930, Karl Franklín f.1934 d.1994, Rafn Ingi f.1935 d.1976, Ragnheiður f.1937, Ari f.1939, Trausti Örn Austfjörð f. 1940 , Hulda f. 1944 og Árný Elsa f.1940.
Sveinbjörg var tvígift.
Fyrri maður hennar var Kristmundur Sverrir Kristmundsson f.1928 d.1971.
Synir þeirra eru.
a) Sveinbjörn Þór Kristmundsson f.1951 d. 2003. Sambýliskona hans var Steinunn Hilmarsdóttir sem einnig er látin. Hún átti tvö börn og gekk Sveinbjörn Rósu Krístínu Stefánsdóttur í föður stað. Hún er gift Ragnari Hilmarssyni og eiga þau 2 börn, Viktor Alex og Birtu Steinunni.
b) Þorleifur Kjartan Kristmundsson f.1952 kvæntur Svanhildi Ólafsdóttur og eiga þau einn son Kristmund Sverri.
Seinni maður Sveinbjargar var Gunnar Guðni Sigurðsson f. 1. janúar 1928 d.17. des.2007 frá Holtaseli á Mýrum, A-Skaft (sonur hjónanna Sigurðar Sigurðssonar f.1883 d.1966 og Önnu Þorleifsdóttur f.1885 d.1981).
Börn þeirra eru.
1) Einar Páll f.1955 kvæntur Önnu Guðnýju Björnsdóttur og eiga þau fimm börn
a) Gunnar Frey,
b) Guðnýju Björk gift Runólfi Gunnlaugi Fleckenstein,
c) Þórdísi Evu,
d) Einar Pál,
e) Daníel Helga.
2) Sigurður Arnar f.1959 sambýliskona Jóna Vala Valsdóttir og eiga þau einn son Gunnar Guðna.
Fósturdóttir Sigurðar er Guðrún Stella og á hún tvíburana Arnar og Brynjar.
Sigurðu Arnar var giftur Láru Jónsdóttur þau skildu og eiga þau eina dóttir Þórunni Björgu og hún á einn son Jón Björgvin
3) Anna Þórdís f.1963 sambýlismaður Birgir Axelsson og eiga þau einn son, Þórhall, sambýliskona hans er Ágústa Sólveig Sigurðardóttir. Þau eiga soninn Birgi Óla.
Sveinbjörg flutti ung til Reykjavíkur. Hún stundaði ýmis störf svo sem í fiskvinnslu, þjónustu og síðast í verslun.
Gunnar og Sveinbjörg bjuggu lengst af í Kópavogi síðast í Hamraborg 18.
Hún er kvödd hér í dag í hinni fögru Kópavogskirkju sem stendur á bjargi og vísar þar með til hússins sem hún fæddist í á Ísafirði.
Fólkið hennar á um hana góðar minningar.
Hún var miðjan í lífi barna sinna sem voru í sambandi við hana alla tíð enda gott til hennar að leita um allt milli himins og jarðar. Hún var fróð um margt og þau flettu oft upp í henni, eins og sagt er, um ættfræði og fleira. Hún var góð og hjálpsöm kona sem hugsaði vel um fólk sem varð á vegi hennar og ekki síst um þau sem áttu um sárt að binda. Skaphöfn hennar hjálpaði henni í gegnum erfiðleika lífsins, dugnaðurinn og krafturinn. Hún var seig og hörð af sér, ákveðin og fylgin sér ef svo bar undir. Hún var hamingjusöm kona sem hafði yndi af að gleðjast með góðum vinum, hafði gaman af að dansa og fá sér ögn af brjósbirtu á góðum stundum. Hún átti ætíð von og trú í hjarta sér, var umhyggjusöm og stolt af sínu fólki, börnum sínu og barnabörnum. Hún var yndisleg móðir, segja börnin, mikil húsmóðir og góð amma sem fylgdist jafnan með barnabörnunum og gladdist yfir þroska þeirra og sigrum. Þeim þótti gott að koma til ömmu sem var húsmóðir af gamla skólanum og bakaði fyrir þau og eldaði góðan mat. Fyrir jólin bakaði hún a.m.k. 20 sortir, segja börnin hennar með bros á vör.
Barnabörnin sakna ömmu og þakka fyrir lífið hennar. Þau munu sakna hennar.
Börnin báðu mig að skila góðum þökkum til Þuríðar Júlíusdóttur, vinkonu hennar í áratugi, fyrir alla elskusemi og stuðning og til allra sem reyndust henni vel á lífsleiðinni. Þau eru einnig þakklát fyrir þjónustu fólksins á Landspítalanum í Fossvogi fyrir þeirra góða viðmót og hjúkrun.
Sveinu vantaði aðeins nokkra daga upp á að verða 82 ára. Það telst gott að ná áttræðisaldri en þegar fólk er komið yfir miðjan aldur fer það að renna upp fyrir flestum hvað lífið er í raun stutt. Í Davíðssálmum er talað um að ævin sé aðeins „örfáar þverhendur“. Ef við tökum málband sem er metri að lengt og gefum okkur að við gætum hugsanlega náð 100 árum og setjum svo fingurinn á málbandið þar sem aldur okkar er í sentimetrum þá sjáum við hvað lífð er stutt. Ofan á bætist að ekkert okkar veit hvort nýr dagur rennur upp í lífinu. Ég veit ekki hvort ég lifi daginn eða vakna í fyrramálið. Svona er lífið nú mikil óvissuferð og því er það þeim mun meira þakkarefni að geta kvatt fólk sem náð hefur góðum aldri. Við eigum að fagna hverju afmæli því þar með höfum við bætt einu ári við í safnið og getum þar með mælt af málbandinu. Þess vegna heitir það afmæli á íslensku.
Njótum dagsins og daganna sem við fáum að lifa því lífið er gjöf Guðs.
Jesaja spámaður ritaði á 6. öld f. Krist og sagði um fólkið sem hafði verið herleitt en þráði að komast heim:
„Hinir endurkeyptu Drottins snúa aftur og koma fagnandi til Síonar. Eilíf gleði fer fyrir þeim, fögnuður og gleði fylgir þeim, en sorg og sút leggja á flótta.“
Megi gleðin sem einkenndi Sveinu fylgja okkur á lífsleiðinni og létta okkur gönguna til himinsins heim.
Guð blessi minningu Sveinbjargar Guðmundsdóttur og Guð blessi þig.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.