Minningarorð
Methusalem Þórisson
1946-2013
húmanisti
Útför (bálför) frá Fríkirkjunni í Reykjavík föstudaginn 28. júní 2013 kl. 13
Ræðuna er hægt að lesa og hlusta á hér fyrir neðan. Semlltu á slóðina sem birtist fyrst og þá fer hljóðupptakan í gang.
Orð úr einni af þekktustu ræðum liðinnar aldar, eru löngu orðin fleyg, orðin: I have a dream – Ég á mér draum. Mannréttindafrömuðurinn Martin Luther King jr. barðist fyrir réttindum blökkumanna vestra og var deyddur fyrir skoðanir sínar.
Þau eru mörg, sem betur fer, í heiminum í dag, sem þrá betra samfélag, mennskari heim og sjá í gengum skrumið og skjallið sem er að æra okkur daglega. Margir telja að átakalínur í stjórnmálum víða um heim og einnig hér á landi liggi á milli þeirra sem vilja fátt annað en meiri hagvöxt sem ýtir undir græðgi og hinna sem vilja taka tillit til lifandi fólks og lífríkis jarðar. Við eigum aðeins eina jörð og verðum að komast af sem eitt mannnkyn og stuðla að jöfnun lífsgæða og meiri mennsku – að jörðin verði bærilegri bústaður og mennskari en nú er.
Methusalem var húmanisti. Hann trúði á betri heim og vildi berjast fyrir betri heimi. Barátta hans var einörð en húman, hún studdist við visku en ekki vopn, samtal en ekki yfirgang, kærleika en ekki bólgna krafta. Aðfeðir hans voru ekki nýjar af nálinni. Í grunninn eru þær sammannlegar og ættu að vera verkfæri okkar allra. Ég las áðan upphaf Fjallræðu Jesú sem nefnd hefur verið stjórnarskrá Guðsríkisins. Hann segir þau sæl sem eru fátæk í anda eða laus við stærilæti. Fjallræðan upphefur hógværð og miskunnsemi, lofar friðflytjendum vegsauka og minnir þau á að baráttan fyrir betri heimi kostar andstöðu og jafnvel ofsóknir. Merkilegt að orðið friðflytjendur í Fjallræðunni vísar til þeirra sem framkvæma friðinn, eru frið-gerendur. Loks lofar Jesús syrgjendum huggun og það er gott að heyra á þessum degi þegar fjölskylda og vinir kveðja látinn ástvin. Jesús talaði ennfremur í ræðunni um þau sem eru hjartahrein. Ég held að nota mætti það góða orð um hann Dúa, hann lýsti af góðvild, svipurinn var hreinn, brosið feimnislegt en fallegt, augun björt, hjartað gott og hreint.
Methusalem Þórisson fæddist í Reykjavík 17. ágúst 1946. Hann lést á heimili sínu í Reykjavík 14. júní 2013.
Methusalem var sonur hjónanna Þóris Guðmundssonar, f. 9. maí 1919, d. 31. maí 2004, og Arnfríðar Snorradóttur, f. 26. febrúar 1925. Systkini hans eru
Oddný, f. 1948, maki Ragnar Karlsson,
Snorri, f. 1949, maki Erla Friðriksdóttir,
Soffía, f. 1953, maki Baldur Dagbjartsson, og
Ragna Björg, f. 1957, maki Gylfi G. Kristinsson.
Hann var sprottinn úr góðum jarðvegi sem gaf honum skilyrði til að bera góðan ávöxt í lífinu.
Dætur Methusalems með fyrri eiginkonu, Halldóru Jónsdóttur, eru:
Fríða, f. 16. október 1966, sonur hennar er Jesse Þórir Vine, (frb. Djessí Þórir Væn) f. 8. janúar 2003, þau eru búsett á Nýja-Sjálandi.
Jóhanna, f. 26. apríl 1970, maður hennar er Paul Weil, f. 3. febrúar 1971, dóttir þeirra er Lola Salvör Weil, f. 12. febrúar 2007. Dóttir Jóhönnu af fyrra hjónabandi er India Salvör Menuez, (frb. Menjúes) f. 8. maí 1993. Þau búa í New York.
Methusalem kvæntist Eldu Thorisson Faurelien (frb. Forlíen) árið 2006. Sonur hennar er Þórir Guðmundur Faurelien og gekk Methusalem honum í föðurstað. Þau kynntust á Haítí þar sem Dúi vann að mannúðarmálum. Elda er kennari og þau störfuðu saman hér á landi í fyrirtæki sínu, Café Haítí. Í texta sem mér barst frá Haítí er hans minnst af djúpri virðingu og þökk fyrir elskusemi alla og fórnfýsi.
Methusalem útskrifaðist með samvinnuskólapróf og síðar sem stúdent frá Samvinnuskólanum á Bifröst. Í Samvinnuskólanum var hann einn af stofnendum hljómsveitarinnar Straumar þar sem hann spilaði á bassa. Hljómsveitarmeðlimir héldu áfram að spila saman eftir Samvinnuskólann. Systkinin minnast þess þegar Dúi kom heim í helgarfríum af Bifröst, heillaður af Bítlunum og öðrum frægum hljómsveitum þess tíma. Á fóninum snerust nýjustu plöturnar og Dúi dansaði um stofuna á morgnana í náttfötunum. Hann var alla tíð einlægur, ljúfur og lífsglaður maður.
Methusalem hóf störf sem verslunarstjóri hjá Silla og Valda 1966. Hann flutti ásamt fjölskyldu til Berlínar 1971 og dvaldi þar í tvö ár við ýmis störf. Við heimkomuna hóf hann störf sem skrifstofustjóri hjá Bátalóni í Hafnarfirði. Síðar varð hann framkvæmdastjóri Umbúðamiðstöðvarinnar um skeið. Árið 1995 stofnaði hann ásamt Júlíusi Valdimarssyni ráðgjafarfyrirtækið Lausnir ehf. Methusalem var virkur félagi í Húmanistahreyfingunni á Íslandi frá upphafi en hún barst hingað til lands 1979 og starfaði þá undir heitinu Samhygð. Hann var einn af stofnendum Flokks mannsins 1984 en nafni flokksins var breytt árið 1995 og heitir nú Húmanistaflokkurinn. Methusalem var alla tíð einn af forsvarsmönnum flokksins og tók þátt í öllum framboðum á vegum hans, nú síðast í nýliðnum alþingiskosningum þar sem hann skipaði fyrsta sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Methusalem tók einnig þátt í alþjóðlegu starfi Húmanistahreyfingarinnar og stuðlaði m.a. að stofnun Húmanistaflokksins í Bretlandi. Þá starfaði hann einnig að verkefnum Húmanistahreyfingarinnar bæði í Síle og á Haítí.
Dúi sigldi alla tíð beitivind þ.e. ögn upp í vindinn. Þannig fann hann kröftum sínum viðnám í baráttunnni fyrir mennskari heimi. „Þegar siglt er skáhallt á móti vindi er talað um að sigla beitivind, beita upp í vindinn, bíta eða flaska. Þá er bóman eða ráin höfð eins samsíða bátnum og hægt er. Ef beitt er of stíft upp í vindinn fer vindurinn úr seglunum og þau blakta (þau kelur).“
Dúi fór sínar leiðir í lífinu og var ekki eins og fjöldinn. Hann átti fagrar hugsjónir um lífið og tilveruna, safnaði ekki auði en þráði fegurri heim. Hann var skilningsríkur og bar virðingu fyrir öðru fólki. Á kaffihúsinu hitt hann marga og var alltaf til í að spjalla og ræða um sín hjartans mál. Hann talaði mörg tungumál og hafði yndi af að æfa sig með gestunum á Café Haítí. Hann studdi marga á lífsleiðinni sem áttu undir högg að sækja og var sannur vinur vina sinna.
Hann bjó að góðu uppeldi og mótun í bernsku. Þegar hann var 5 ára fór hann fyrst í sveit og dvaldi að Bustarfelli í Vopnafirði en þaðan átti hann ættir að rekja í báðar ættir. Eitt sumarið þegar hann kom til baka úr sveitinni og hafði bara umgengist fullorðið fólk í eitt og hálft ár, orðinn forframaður og stór að honum fannst, leit hann yfir systkinahópinn sem stóð í tröppunum og sagði: Mikið eru systkini mín smávaxin!
Hann bjó yfir ríkri frásagnargáfu, sagði skemmitlega frá. Hann var mannglöggur, brosmildur og hlýr í viðkynningu. Hann var glaðsinna barn og skapgerðin góða óx með honum og þroskaðist.
Dæturnar segja að hann hafi jafnan af nærfærni og visku leitast við að fá þær til að horfa út fyrir boxið, eins og það er kallað, að sjá heiminn með öðrum augum en gengur og gerist. Hann var á réttum aldri þegar 68-kynslóðin var upp á sitt besta og hreifst af hugsjónum hippanna og kom oft í Glaumbæ hér við hlið Fríkirkjunnar.
Hann var sí og æ að hugsa um „að styrkja trúna á sjálfan sig og lífið“, vakinn og sofinn yfir því að bæta sig til að geta bætt heiminn.
Hann var víðlesinn og hafði gaman að lesa fyrir börnin. Hann las mikið fyrir Þóri Guðmund og kenndi honum margt. Fjölskyldu Dúa er minnisstætt jólaboð þegar drengurinn var 6 ára og hafði dvalið hér aðeins nokkra mánuði að hann gat sungið mörg jólalög á íslensku sem Dúi hafði kennt honum. Systkini Dúa segja að þegar veislur voru haldnar var alltaf vonast til að Dúi gæti mætt því hann gat spjallað við alla og haldið uppi samræðum, spilað á gítar og stjórnað söng.
Dúi var samkvæmur sjálfum sér og boðaði það sem hann trúði á.
Nú kann einhverjum að þykja það á skjön við hans lífsskoðanir að hér tali yfir honum prestur. Ég var sjálfur ögn hissa þegar ég var kvaddur á heimili hans um nótt eftir að hann varð bráðkvaddur. Þegar ég spurði fólkið hans hvort það vildi að ég hefði bæn yfir honum var því tekið sem sjálfsögðum hlut og þegar ég loks spurði varfærnislega hvort þau teldu það óviðeigandi að ég signdi yfir hann kváðu þau nei við. Hann var skírður sem barn og fermdur sem unglingur. Dúi var ekki óvinur kirkju og kristni enda þótt hann helgaði sig húmanisma og útför hans fer fram í kirkju. Húmanismi er ekki ein kenning í einu fljóti. Ár kvíslast út úr fljóti og lækir renna úr ám. Sumir húmanistar hafna æðri tilveru meðan aðrir gera það ekki.
Dúi trúði í Ljósið og í dag felum við hann Ljósinu. Verkin hans lifa og góðvildin grær áfram í hjörtum þeirra sem hann snart með elsku sinni.
Í 5.kafla 1. Mósebókar er sagt frá Metúsala:
„Enok var sextíu og fimm ára er hann gat Metúsala. [. . . ] Metúsala var hundrað áttatíu og sjö ára er hann gat Lamek. Eftir fæðingu Lameks lifði Metúsala í sjö hundruð áttatíu og tvö ár og gat syni og dætur. Ævidagar Metúsala urðu níu hundruð sextíu og níu ár. Þá dó hann.“
Dúi lifði allt of stutt, hann lifði mun skemur en hinn langlífi nafni hans en hugsjónir Dúa eru gamlar og þær munu líklega lifa lengur en Metúsala sonur Enoks. Hugsjónir um betir heim munu lifa meðan maðurinn byggir þessa jörð.
Seinni liðurinn í nafni hans, salem, merkir friðsamur, heill. Hann bar nafn sitt með rentu og reisn og við kveðjum Methusalem með virðingu og þökk fyrir líf hans og störf. Blessuð sé minning Methusalems Þórissonar.
Ég á mér draum, sagði ræðumaður forðum daga. Átt þú þér draum um betri heim? Já, þú átt þér án efa draum um betra líf, manneskjulegri heim. Láttu drauminn rætast, fylgdu hjarta þínu og visku aldanna, gróðursettu tré elsku og virðingar, andmæltu órétti og lygi og stattu vörð um réttlæti og sannleika og gróðurstarf þitt Amen.
Kveðjur:
Systurdætur Dúa senda kveðjur sínar og eigimanna sinna: Íris og Ólafur, Sonja og Kristján en Íris kvaddi hann í gær við kistulagningu en gat ekki verið hér í dag og Sonja er búsett í Svíþjóð.
Föðurbróðir Dúa, Sigurjón og Guðrún frá Ytri-Hlíð senda kveðju sína.
Erfidrykkja í Iðnó.
Ræðan á vefnum.
Sálmaskráin er hér: Sálmaskrá Methusalem