Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
Herjolf Skogland
1942-2013
Minningarathöfn í Fossvogskapellu
og
jarðsetning duftkers
í Fossvogskirkjugarði
(J-reit) 21. júní 2013 kl. 15
Ræðuna er hægt að lesa og hlusta á með því að smella á slóðina sem birtist við næstu smellu:
https://ornbardur.files.wordpress.com/2013/06/herjolf-skogland.mp3
Ávarp og inngangur.
Fermingin er sterkur siður á Norðurlöndum. Meirihluti barna fermist ár hvert á Íslandi og í Noregi. Við fermingu eru gjarnan flutt þessi orð úr Opinberunarbók Jóhanesar: „Vertu trúr allt til dauða og Guð mun gefa þér lífsins kórónu.“
Ég vitna til þessara orða vegna þess að Herjolf var traustur maður, tryggur og trúr. Það eru góðir eiginleikar og í raun grundvöllur að góðu þjóðfélagi að fólki sé treystandi og að það standi við orð sín. Það gerði Herjolf. Hann var góður maður, duglegur og vandvirkur verkmaður sem stóð sínar lífsins vaktir með sóma og sann.
Ég byggi þessi minningarorð á texta Gunnhildar sem skrifaði fallega minningu um ástkæran eiginmann eftir erfið veikindi sem leiddu hann til dauða. Hann var kvaddur í Udland Kirke í Haugesund 12. apríl s.l. og duftker hans er nú hingað komið og verður jarðsett í gröf dóttur þeirra Gunnhildar og hans, Sólveigar sem lifði aðein 2 daga en var skírð og hlaut nafn.
Herjolf Skogland yfirvélstjóri fæddist í Haugesund í Noregi þann 20. maí 1942, og voru foreldrar hans hjónin Elsa Meyer Skogland og Arne Skogland sem bæði eru nú látin. Systkinin voru 4, Vigleik, Herjolf, Grethe Karin og Ingfrid sem ein lifir systkin sín.
Herjolf fór ungur til náms við Haugesund Maskinistskole og lauk námi í vélaverkfræði árið 1972. Hann þótti alla tíð geysilega fær í sínu fagi, var hugmyndaríkur og laghentur bæði á tré og járn. Það má með sanni segja að hann hafi verið snillingurinn sem gat allt, enda voru margir sem leituðu til hans ef eitthvað þurfti að laga eða betrumbæta. Allt lék í höndum hans enda hafði hann yndi af að safna verkfærum af öllum stærðum og gerðum. Og þeir voru líka margir sem fengu að njóta hæfileika hans og greiðvirkni.
Lengst af starfsæfinni var hann yfirvélstjóri um borð í norskum skipum nema á 12 ára tímabili þar sem hann vann sem verkstæðisformaður hjá Skipaútgerð Ríkisins eða þar til skipaútgerðin var lögð niður árið 1994.
Eiginkonu sinni, Gunnhildi Jónsdóttur frá Ísafirði, kynntist hann um borð í olíutankskipinu Önnu Knutsen sem á þeim tíma ver eitt af stærstu tankskipum í heimi. Þau giftu sig í febrúar árið 1969. Saman sigldu þau hjónin svo um öll heimsins höf þar til elsta dóttirin, Elsa, fæddist. Elsa er gift Ólafi Elíassyni píanókennara og starfar hún sem þjóðfræðingur og grunnskólakennari. Elsa og Ólafur eiga 2 dætur; Guðrúnu og Steinunni Hildi. Síðan eignuðust þau hjónin Gunnhildur og Herjolf aðra dóttur; Huldu sem er stjórnmálafræðingur og er gift Maximilian Conrad sem einnig er stjórnmálafræðingur og eiga þau líka 2 dætur; þær Elínu Snæfríði og Heiðbjörgu Önnu. Þriðja barn þeirra hjóna var Sólveig sem þau misstu aðeins 2 daga gamla og síðastur kom svo sonurinn Árni sem er stjórnmálaheimspekingur og er giftur Mariam Nodia sem er bókmenntafræðingur og þýðandi. Þau eru búsett í Osló og eiga saman einn son; Daniel og seinna í haust eða um það bil þann 15. nóvember mun svo lítill Herjolf Skogland fæðast. Lífið heldur áfram!
Það má með sanni segja að Herjolf Skogland hafi verið hvers manns hugljúfi. Hann var elskaður og dáður af börnum sínum og fjölskyldu. Léttlyndi hans og geðprýði var áberandi þáttur í fari hans, spaugsemin einstök og hann hafði alltaf lag á að fá fólk til að hlæja. Börnin hans bókstaflega elskuðu „norsarabrandarana“ hans eins og þau kölluðu þá og mörg hnyttin tilsvör hans eiga eftir að lifa lengi. Hann var barngóður með afbrigðum og fannst gaman að „passa“ barnabörnin eða fá þau í heimsókn. En hann hafði einn stóran galla eða það fannst sumum. Hann henti aldrei neinu. Ekki einni skrúfu! Ekki einni spýtu. Engu! Ef eitthvað skemmdist eða bilaði varð bara að laga það og gera við, ekki kaupa nýtt, eins og til dæmis gamla uppþvottavélin hennar Ingfrid sem fagmenn voru búnir að dæma úr leik og átti þessvegna að henda. Hún gengur ennþá 10 árum seinna, eftir að hann hafði gert við hana. Og mesta ögrunin fólst í því að lagfæra með einhverjum ráðum það sem aðrir voru búnir að gefast uppá. Hann var vanur að segja; „ef það er eitthvað eitt sem getur bjargað heiminum, þá er það það, að fólk hætti að henda og kaupa nýtt. Að minnka neysluna er það eina sem dugar til að draga úr hinni hrikalegu mengun jarðarinnar.“
Við kveðjum núna í hinsta sinn þennan ljúfa fjölskylduföður, eiginmann, bróður og afa. Megi minningin um hann lifa sem lengst.
Sálmurinn sem við syngjum á eftir og fjölskyldan hefur dálæti á og dæturnar sungu gjarnan í bílnum með foreldrum sínum á leið út í náttúruna heitir Ég kveiki á kertum mínu. Sögð var sagan af tilurð sálmsins í Morgunblaðinu 5. apríl 2007 og hljóðar svo:
„Í bókinni um „Skáldið frá Fagraskógi“ útgefinni 1965, má lesa um þann sérstæða atburð sem lá að baki sálmsins. Það er sr. Pétur Sigurgeirsson biskup, sem þá var sóknarprestur á Akureyri, sem fær skáldið til þess að leysa frá skjóðunni. Hann er í heimsókn hjá skáldinu og varpar fram spurningunni um tilurð sálmsins. Og Davíð segir honum að aðeins einn maður hafi áður spurt sig og það hafi verið Ásgeir Ásgeirsson forseti. Látum nú skáldið tala:
„Ég var þá í Noregi.“ Hann talar hægt og virðulega með áhersluþunga. „Það var á litlu hóteli skammt frá Ósló. Þetta var um páskaleytið. Á föstudaginn langa vorum við, gestir hótelsins, stödd við dögurð að venju. Meðal gestanna var móðir með barn, litla telpu, svo bæklaða, að hún gat ekki gengið. Við matborðið veitti ég því eftirtekt að telpan þrábað móður sína að fara með sér til kirkju. Mér fannst móðirin ekki gefa barninu þann gaum sem það átti skilið og var í þörf fyrir. Ég fann til með telpunni, kenndi í brjósti um hana. Ég gaf mig á tal við konuna og bauðst til að fara með barnið. Hjálp mín var vel þegin. Ég tók telpuna í fang mér og bar hana til kirkjunnar. Guðsþjónustan var látlaus og hátíðleg. Þegar við komum aftur heim á hótelið dró ég mig í hlé – og sálmurinn „Ég kveiki á kertum mínum“ varð til.
Sr. Pétur var frá sér numinn af frásögninni.
En skáldið heldur áfram: „Þeir hafa tekið nokkur erindi inn í sálmabókina. Það var of mikið að taka þau öll. Og mér líkar vel hvernig þeir hafa valið.“
Erindin eru 8 í ritsafni Davíðs Stefánssonar, Að norðan, og bera yfirskriftina: „Á föstudaginn langa.“ Það eru erindin nr. 3, 4, og 5, sem hefur verið sleppt. Þau hljóða svo:
Ég bíð uns birtir yfir
og bjarminn roðar tind.
Hvert barn, hvert ljóð sem lifir,
skal lúta krossins mynd.
Hann var og verður kysstur.
Hann vermir kalda sál.
Þitt líf og kvalir, Kristur
er krossins þögla mál.
Þú ert hinn góði gestur
og guð á meðal vor, –
og sá er bróðir bestur,
sem blessar öll þín spor
og hvorki silfri safnar
né sverð í höndum ber,
en öllu illu hafnar
og aðeins fylgir þér.
Þú einn vilt alla styðja
og öllum sýna tryggð.
Þú einn vilt alla biðja
og öllum kenna dyggð.
Þú einn vilt alla hvíla
og öllum veita lið.
Þú einn vilt öllum skýla
og öllum gefa frið.
Tónskáldum okkar hafa þótt kvæði Davíðs ljóðræn og vel fallin til söngs. Þrjú íslensk tónskáld hafa samið lög við sálminn sem hér er fjallað um: 1) Sigvaldi Kaldalóns, og er það lag í gömlu kirkjusöngsbókinni, 2) Páll Ísólfsson og 3) Guðrún Böðvarsdóttir. [. . . ] Merkileg saga er að baki lags Guðrúnar, og fer hún hér á eftir:
Guðrún Böðvarsdóttir (Dúna Böðvars) var dóttir séra Böðvars Bjarnasonar, prests á Hrafnseyri við Arnarfjörð, og fyrri konu hans, Ragnhildar Teitsdóttur frá Ísafirði. Þegar foreldrar hennar skildu flutti Guðrún með móður sinni til Reykjavíkur. Tvo bræður átti hún, þá Ágúst og Bjarna. Allt var þetta mikið tónlistarfólk og er Bjarni þeirra þekktastur (Bjarni Bö). Þær mæðgur voru mjög samrýndar. Guðrún veiktist af berklum og milli þess sem hún var á Vífilsstöðum dvaldi hún heima hjá móður sinni og dó þar rúmlega þrítug að aldri. Nokkru eftir dauða hennar dreymir móður hennar að Guðrún (Dúna) kemur til hennar og segir: „Mamma, ég var að semja lag.“ Svo syngur hún lagið fyrir mömmu sína. Er konan vaknaði dreif hún sig að píanóinu. Hún spilaði laglínuna nokkrum sinnum til þess að festa sér hana í minni. Að því búnu náði hún í nótnapappír og skrifaði lagið niður. Þetta er hið vinsæla lag: „Ég kveiki á kertum mínum.“ Frásögn þessa heyrði ég fyrir um 60 árum af vörum mágkonu minnar, Bryndísar Böðvarsdóttur, en hún var hálfsystir Guðrúnar Böðvarsdóttur.“ (http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1138672/)
Líf og saga, líf og dauði.
Lífið er stutt og engin trygging er fyrir langlífi. Herjolf hlaut tæplega 71 ár og Sólveig litla aðeins 2 daga.
Nafnið Sólveig er norrænt og hefur upphaflega verið ritað Sal og vísað til salarkynna en síðar tengst sólu. Hvort sem er þá er nafnið fagurt og getur vísað til himinssala og sólar.
Við felum hann Guði og eilífð hans, honum sem skáldið kallaði „sólnanna sól“ og vísaði þar með til Jesú Krists.
Guð varðveiti hann og blessi minningu um góðan og tryggan mann sem lokið hefur drjúgu dagsverki. Guð blessi ykkur, ástvini hans og leiði ykkur á sólarvegum.
Dýrð sé Guði . . .