Árni Höskuldsson 1934-2013

Örn Bárður Jónsson

ArniHoskuldssonMinningarorð

Árni Höskuldsson

gullsmiður

1934-2013

Útför frá Neskirkju

föstudaginn 21. júní 2013 ki. 13

Ræðuna er hægt að lesa og hlusta á hér fyrir neðan með því að smella á slóðina sem þar birtist.

https://ornbardur.files.wordpress.com/2013/06/c3a1rni-hc3b6skuldsson.mp3

Ég var barn að aldri þegar Árni Höskuldsson fór frá Ísafirði og man því lítið eftir honum þaðan enda 15 árum yngri og ekki nema 7 ára eða svo þegar hann fór suður. En nafnið var þekkt enda setti hann svip á bæinn með dugnaði sínum, áræðni og uppátækjum. Föður hans Höskuld þekkti ég og kom stundum á verkstæðið hans til að láta hann smíða eitt og annað smálegt fyrir mig. Og einu sinni keypti ég hjá honum smokköngla áður en ég fór minn fyrsta og eina túr inn í Djúp á smokkfiskveiðar með Jóa á horninu, Garðari Einar og fleirum á einni af Dísunum. Þetta var á þeim tíma þegar Höskuldi var meinað að auglýsa smokköngla í útvarpi allra landsmanna, einu útvarspsstöð þess tíma,  vegna strangra siðferðiskrafna og mikilla málfarsmeininga. Yngri systkini Árna þekkti ég betur enda á sama reki og hin elstu þrjú þeirra.

Þegar ég fletti eitt sinn iðnaðarmannatali Ísafjarðar frá því á fyrri hluta liðinnar aldar varð ég undrandi á fjölda iðngreina sem stundaðar voru í bænum. Bærinn óx og dafnaði á fyrstu áratugum liðinnar aldar og þar var iðandi mannlíf og möguleikar miklir. Staðurinn er undurfagur, náttúran stórfengleg og möguleikar til útiveru miklir. Árni var vægast sagt virkur sem barn, tápmikill strákur, sterkbyggður og duglegur. Hann var út um allt, niðrí fjöru, uppi í Hlíð og uppi á fjöllum. Hann lék sér úti alla daga ef hann var ekki að vinna hjá pabba við að steypa rör eða sýsla eitthvað annað.

Hann stundaði sund og fótbolta, var í Herði en algengt var að drengir væri skráðir í Hörð eða Vestra um leið og þeir voru skírðir og fengu nafn. Skíðaíþróttin heillaði hann og þegar hann var 8 ára fór hann dag einn sem oftar inn á Dal og var ekki kominn heim um kvöldmat. Pabbi var farinn að ókyrrast en um síðir koma drengurinn heim. Skýringin var að hann hafði tekið þátt í Fossavatnsgöngunni, eiginlega óvart. Fyrst hann hóf gönguna þá kláraði hann hana auvitað. Þá var farin u.þ.b. 20 km leið. Fossavatnsgangan er elsta skíðamót sem enn er við lýði á Íslandi, en gangan fór fyrst fram árið 1935. Hann gerði lítið úr afrekinu og sagðist ekkert þreyttur en sofnaði að því búnu ofan í kvöldmatinn. Í viðtali við hann í Vestanpóstinum í janúar 1999 (1.tbl. 11. árg. s. 17-26) rekur hann minningar sínar frá æskudögum á Ísafirði. Hann var alltaf að, fór í sendiferðir fyrir fólk, „elskaður af öllum kerlingum í bænum“ eins og Didda systir hans orðaði það, sem fengu hann til að hlaupa í búðir og sækja eitt og annað fyrir sig. Stundum var hann búinn að taka ærlegan toll af brauðinu sem hann sótti í bakaríið enda þurfti vaxandi strákur mikla orku. Hann var alltaf brosandi með sitt rauða hár. Það var bjart í kringum hann Árna. Hann hafði nóg fyrir stafni og dagarnir liðu fljótt. Hann var líklega fyrstur manna á landinu til að smíða sér og nota sjó- eða vatnaskíði en mynd af honum í Vestanpóstinum sýnir hann á fleygiferði á Pollinum. Styrkur hans og þrek var alla tíð mikið. En nú er hann fallinn í valinn eins og henda mun okkur öll í fyllingu tímans.

Við Árni kynntumst fyrir 15 árum eða svo en þá hitti ég hann af og til í Bankastræti þar sem hann drakk kaffi á morgnana í hópi skraffinna. Hann horfði gjarnan á mig eilítið á ská og með bros á vör og vildi gjarnan ræða við mig eilífðarmálin sem voru honum hugleikin í það minnsta þegar hann komst í tæri við prest. Hann lýsti sér sem litlum trúmanni og við glímdum dálítið um trúmál. Áhugavert er jafnan að rökræða við hugsandi fólk. Árni var glettin og ögn stríðinn í þessum samtölum og ég tók auðvitað á móti honum í sama anda og spurði hvernig honum liði að græða á gulli með trúartáknum og selja hringa til kirkjubrúðkaupa. Þá hló Árni og skáskaut á mig augum. Þetta voru skemmtilegar samræður, glettnar og græskulausar. Eftir kaffi rölti hann upp á Bergstaðastræti og settist við sína iðju sem ekki er ný af nálinni því um aldir og árþúsund hafa menn smíðað eitt og annað úr málmum. Á fyrst síðum Biblíunnar segir:

„Fljót rennur frá Eden og vökvar garðinn. Þaðan kvíslast það og verður að fjórum stórám. Hin fyrsta heitir Píson. Hún fellur um allt landið Havíla þar sem gullið fæst.“ (1. Mós 2.10)

Maðurinn hefur alla tíð verið fyrir skraut og skart og tákn hefur hann borið af ýmstu tagi um aldir. Tákn eru merkileg því þau benda út fyrir sig sjálf og á annan veruleika, oftar en ekki æðri veruleika. Krossinn er líklega eitt þekktasta tákn veraldar og á máli viðskipta þykir hann verðmætt lógó eins og sagt er í húsum Mammóns. Eitt hið merkilegasta við krossinn er að hann er í raun aftökutæki sem hefur snúist í vonartákn fyrir upprisu Krists frá dauðum. Upprisa Jesú vekur fólki enn trú og von á að lífið sé í stærra samhengi en við augum blasir í annríki daganna.

Árni Höskuldsson fæddist 31. mars 1934. Hann lést 12. júní 2013.

Foreldrar hans voru Höskuldur Árnason, gullsmiður f. 6. júní 1898 og Anna Jónsdóttir, f. 23. nóvember 1897. Stjúpmóðir Árna, seinni kona Höskuldar, var Auður Guðjónsdóttir, f. 7. apríl 1918, d. 30. maí 2001.

Árni eignaðist soninn Birgi f. 21. október 1957 með Ásu Ketilsdóttu, frá Ísafirði. Hún er fædd f. 11. október 1939 og var því nýorðin 18 ára er drengurinn sá dagsins ljós og Árni 23 ára. Hún flutti suður með drenginn ásamt foreldrum sínum og löng síðar tók þau saman Árni og Ása og gengu í hjónaband enn síðar. Þau unnu saman á verkstæðinu í 22 ár, ólík og ákveðin bæði tvö og hvort með sinn smekk á skarti og skrauti. Árni var fylginn sér, hann var þrjóskur í besta skilningi, segir Birgir sonur hans, maður með úthald og seiglu sem reyndist mörgu fólki vel á lífsleiðinni.

Barnsmóðir Birgis er Unnur Sigríður Einarsdóttir, f. 26. júní 1957. Barn þeirra er Árni Einar, f. 5. febrúar 1975 sem á soninn, Max Leó. Maki Birgis er Margrét Pálmarsdóttir, f. 6. júlí 1955. Barn þeirra, María Anna, f. 30. desember 1999.

Börn Ásu af fyrra hjónabandi eru Sveinn, f. 26. janúar 1962, María, f. 30. desember 1964 og Ragnheiður Sveinsbörn, f. 2. júlí 1966. Börn Ragnheiðar eru Ása Ólafsdóttir, f. 21.júlí 1989, sem á Ásmundur Ólafsson, f. 8. febrúar 1988 að sambýlismanni og Rakel Kristjánsdóttir, f. 27. febrúar 2000.

Systkini Árna,

  1. Arnheiður Elín, f. 21. nóvember 1925, d. 3. maí 1992.
  2. Valdís Hildur Valdimars, f. 17. desember 1930, d. 31. mars 1964, dætur Höskuldar frá því fyrir fyrra hjónaband. Þá koma næst:
  3. Filip Þór, f. 10. september 1931, maki Anna Ingibjörg Hjartardóttir, f. 16. nóvember 1935.
  4. Jóna Valgerður, f. 31. mars 1933, maki Gísli Hildibrandur Guðlaugsson, f. 15. mars 1933, d. 10. júní 1997.
  5. Davíð Arndal, f. 22. desember 1946, maki Sigríður Sörensen, f. 22. maí 1957.
  6. Anna, f. 26. september 1948, maki Egill Smári Egilsson, f. 17. janúar 1947.
  7. Guðjón Halldór, f. 25. janúar 1950.
  8. Gunnhildur Inga, f. 29. ágúst 1951, maki Ólafur Snævar Ögmundsson, f. 18. júní 1944.
  9. Auður Arna, f. 4. september 1956.
  10. Brynhildur Rebekka, f. 29. janúar 1960, maki Marselíus Guðmundsson, f. 23. janúa 1954.

Árni var góður faðir og stjúpi, elskaður af sínum börnum og barnabörnum, greiðvikinn og vildi allt fyrir alla gera. Árni lærði gullsmíði hjá föður sínum á Ísafirði. Hann var strax sem drengur fjölhæfur og flinkur við margskyns smíðar, teiknun og litun. Það lék allt í höndum hans, hvort sem voru nýsmíðar eða viðgerðir. Hann stofnaði Gullsmíðaverkstæði Árna Höskuldssonar fljótlega eftir að hann kom suður og rak það þar til 2009. Hann var einnig mjög fjölhæfur íþróttamaður, afreksmaður og frumkvöðull. Ennfremur tók hann drjúgan þátt í skátastarfi með Skátafélaginu Einherjum, meðal annars í hjálparsveitinni.

Sérstakar kveðjur eru hér fluttar frá börnum Valgerðar, Signý (framb. lint: Signý ekki SiGNý) í Brasilíu og Agli Arnari og fjölskyldu á Englandi með þökk fyrir allt. Þá biður Flosi Jónsson, gullsmiður fyrir góðar kveðjur og þakkir fyrir margar ógleymanlegar stundi, utanferðir og samskipti í gegnum árin.

Nú hefur þessi kraftmikli maður og íþróttagarpur lokið dagsverki sínu. Áratugum saman var Árni mikill hestamaður og átti marga hesta en kærastur var honum gæðingurinn Gustur. Landið skartar sínu fegursta í dag þegar sól stendur hæst við sumarsólhvörf. Þetta er dagur til að skapa og njóta útveru. Fólk er á ferð og flugi og nýtur þess að leika sér. Kylfingar sveifla kólfum og hetstamenn gyrða gæðinga. Lífið er dásamlegt og fagurt en því lýkur hjá okkur ölllum og því vissara að njóta þess meðan dagur er.

Í Davíðssálmum segir:

Hann [Guð ]hefur ekki mætur á styrk hestsins,

hrífst ekki af fráum fótum mannsins.

Drottinn hefur þóknun á þeim sem óttast hann, þeim sem setja von sína á miskunn hans.

Sl 147.10-11

Þannig hugsuðu menn á heitum söndum Palestínu fyrir þremur árþúsundum eða svo þegar þeir létu hugann reika út og ofar hinum daglega striti og rýndu í dýptir og víddir lífsins og spurðu um hinstur rök. Og spyrja má í dag á því herrans ári 2013: Er nóg að vera strerkur, að vera ríkur, að vera menntaður, að vera glæsilegur og stæltur? Er eitthvað annað sem skiptir meira máli en þetta allt sem þó er vissulega vert að búa yfir og njóta? Hvað merkir það að óttast Guð eins og segir í sálminum? Það er að virða hann og hin æðri lögmál lífsins. Sá maður er ríkur og vitur sem hefur auðmýkt að bera andspænis hinum stærri tilvistarspurningum. Í musterinu í Jerúsalem voru Fögrudyr. Hvaða dyr mæta okkur við lífslok og hver er aðgangseyririnn? Þar duga hvorki bíómiðar úr Alþýðuhúsinu á Ísafirði, sem strákarnir keyptu forðum og seldu svo aftu, hvorki gull eða silfur, krónur eða aurar og ekki einu sinni góðverk hversu mörg sem þau kunna annars að vera og átti Árni nú nóg af þeim í sínum sjóði og mörg eru þau sem eiga honum þökk að gjalda.

Eini aðgangseyririnn sem gildur er og aldrei gengisfellur er trú, traust til hins hæsta og sú vitund að maðurinn er allslaus og án innistæðu andspænis honum sem á alla veröldina.

Til er rúmfræðileg skilgreining á Guði sem hljóðar svo: Guð er hringur hvers miðja er allstaðar og ystu mörk hvergi.

Við komumst ekki út úr þessum hring. Guð er og verður um eilífð og við erum innan hans hrings hverju sem við trúum og hvað sem við höldum um lífið og tilveruna.

Við hverfum öll af þessu jarðlífi sem er svo stutt og stopult, örfáar þverhendur og eigum þá sem nú allt undir hinum hæsta Guði.

Við kveðjum Árna Höskuldsson við þær dyr sem skilja að heim látinna og lifenda og biðjum honum blessunar Guðs sem þekkir glímu mannsins við hinstu rök, spurn hans, vangaveltur, efasemdir, bernskubrek og breyskleika allra tíma. Guð er kærleikur, sagði Jóhannes guðspjallamaður og hann getur aldrei gengið í blóra við eigið eðli sem er að elska.

Guð styrki Ásu og börnin þeirra hjóna, systkini Árna og frændgarð, vini og samferðafólk og leiði okkur um lífið í gleði og fögnuði yfir þeirri dásemd að hafa fengið að vera til í þetta eina skipti. Njótum daganna og verum glöð þrátt fyrir sorg og missi því lífið er  þrátt fyrir allt, dásamlegt og undursamlegt!

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Ritningarlestrar:

Postulasagan 3

Jóhannes 14

Upphaf beggja kafla.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.