Rolf Markan 1926-2013

rolfmarkanÖrn Bárður Jónsson

Minninarorð

Rolf Makan

tónlistarmaður

og skapandi verkmaður

1926-2013

Útför frá Fríkirkjunni í Reykjavík

miðvikudaginn 12. júní 2013 kl. 13

Jarðsett í Gufuneskirkjugarði

 

Hvernig verður eitthvað til? Hvernig breytist veröldin? Hver er mesti áhrifavaldurinn?

Í bókinni Markens Gröde – Gróður jarðar – eftir Knut Hamsun er spurt í þessa veru. Bókin hefst á þessum orðum:

„Þessi langi, langi slóði yfir mýrarnar og inn í skógana, hver hefur troðið hann? Maðurinn, hinn mennski maður, sá sem fyrstur kom hér.“

Og neðar á upphafssíðu segir:

„Maðurinn kom gangandi í norður. Hann ber poka, hinn fyrsta poka; í honum er nesti og etthvað af verkfærum. Maðurinn er sterklegur . . . “ (s. 7)

Í samtali mínu við fjölskyld Rolfs þar sem konurnar hófu að segja mér frá honum til að undirbúa þessi minningarorð kom þessi mikla skálssaga mér fljótlega í hug. Ég spurði varfærnislega hvort hann hefði kunnað að meta þessa bók og það stóð heima. Hann hafði dálæti á Gróðri jarðar enda sjálfur þrekinn og sterkur maður sem hafði yndi af að vinna með höndum sínum og breyta umhverfinu, setja sitt listræna mót á sérhvert verk.

Sálmaskráin í heild sinni birtir mynd af manninum sem við kveðjum hér í dag. Þar er hinn vinnandi maður, sá sem hefur yndi af að finna til afls og líkamskrafta. Maður með sterkar hendur. Þar er einnig tónlistarmaðurinn ástríðufulli með næmleik í fingrum og eyrum sem naut þess að spila og vera með öðru fólki sem hafði komist í kynni við tónlistargyðjuna.

Tónlistin setur spor sín á mannlífið og hún hefur breytt veröldinni. Hvernig væri veröldin án tónlistar?

Rolf Markan fæddist í Jessheim í Noregi 13. maí 1926. Hann lést eftir erfið veikindi á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 2. júní 2013.

Foreldrar hans voru Sigurður Markan, fæddur í Ólafsvík 1899, d. 1973, verkstjóri hjá Timburverslun Árna Jónssonar, og Ingrid Markan, fædd Haugestad í Kristjaníu (Ósló) 1900, d. 1993, píanókennari og húsmóðir. Bróðir Rolfs var Björn, fæddur í Reykjavík 1927, lengst af búsettur og starfandi í Kaupmannahöfn, d. 2011.

Eftirlifandi eiginkona Rolfs er Sofie Marie Markan, fædd Andreassen á Siglufirði 3. maí 1925. Sofie starfaði sem ritari, þar af í tvo áratugi á skrifstofu læknafélaganna í Reykjavík.

Börn þeirra eru

Anne Marie Markan, f. 1952,

Ingrid Markan, f. 1954; dóttir hennar og Sigfúsar Grétarssonar er María Huld Markan Sigfúsdóttir, f. 1980, maki hennar Kjartan Sveinsson, f. 1978, þau eiga dótturina Móey, f. 2008;

Inga Huld Markan, f. 1957; synir hennar og eiginmanns hennar,Nicholas Jones, eru Fróði, f. 1992 og Tumi, f. 1995.

Að loknu gagnfræðaprófi úr Ingimarsskóla vann Rolf ýmis störf og kom víða við. Má nefna m.a. grjótnám í Öskjuhlíð á hernámsárunum, vikurfleytingu á Snæfellsjökli, siglingar á ýmsum norskum skipum frá 1943 m.a. á skipinu Akershus. Hann sá á þeim árum eyðileggingu heimsstyrjaldarinnar og tók þátt í að hreinsa upp eftir átökin á strönd Normandí og víðar, kom til Dresden og sá rústir þeirrar hrundu borgar. Hann sá og heyrði í V2 flugskeytunum sem skotið var frá Frakklandi og miðað á Lundúni og þekkti hvissandi hljóðið í þeim sem olli ugg í brjóstum þeirra sem heyrðu og sáu.

Leið hans lá síðar í Oslo tekniske skole árið 1947, og einnig Musikkonservatoriet i Oslo, þar sem hann hóf nám í klarinettleik hjá Alexander Kjelland. Hann sneri heim til Íslands og heitmeyjar sinnar Sofie Marie 1951 og giftu þau sig sama ár. Rolf lauk námi í málmsteypumótun frá Iðnskólanum í Reykjavík 1955 og starfaði hann við fagið í nokkur ár. Samhliða störfum stundaði hann klarinett- og söngnám við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hann var meðal stofnenda og tók þátt í starfi Lúðrasveitar verkalýðsins og Söngsveitarinnar Fílharmóníu.

Hann var af músíkfólki kominn. Þau voru heimsborgarar – kosmópólitan fólk, víðlesið og fróðleiksleitandi. Ungur kynntist hann Ragnari í Smára og listafólki sem var í hópi með honum og heillaðist af andans mönnum og þar voru þau Sigurður Markan, faðir hans og föðursystkini hans, þau María og Einar Markan, ásamt fleira listafólki en sum þeirra sem nefnd voru stofnuðu Tónlistarfélagið ásamt fleirum.

Hann var róttækur í skoðunum, með sterka réttlætiskennd og tilfinningu fyrir því að samhjálp skipti miklu í mannlegu samfélagi.

Hann hafði sterkar taugar til náttúrunnar. Að vinna með höndunum var göfug iðja í hans huga. Mold og grjót voru hans efniviður. Þá var hann einnig sjómaður á sínum yngri árum. Hann hafði sterka tilfinningu fyrir jörðinni og því að maðurinn væri af jörðu kominn. „Því að mold ert þú og til moldar skaltu aftur hverfa“, segir í hinni helgu bók.

Rolf hafði mikinn áhuga á gróðri og ræktun og eftir að hann hóf störf hjá Olíufélaginu hf. um miðjan sjöunda áratuginn tók hann að sér að hanna og ganga frá umhverfi og gróðri við bensínstöðvar félagsins, m.a. við Ártúnshöfða, Stóragerði og Ægisíðu. Á þessum tíma tók hann einnig að sér að skipuleggja og ganga frá lóðum við nýbyggð hús vina og kunningja. Rolf starfaði hjá Olíufélaginu til 1982 og lauk starfsferli sínum hjá Áburðarverksmiðju ríkisins í Gufunesi 1993.

Tónlistin var ástríðan í lífi Rolfs alla tíð og hans helsta hugðarefni eftir að hann settist í helgan stein. Árið 1966 var Rolf og Sofie úthlutað lóð og urðu meðal frumbyggja Stekkjahverfis í Breiðholti. Vann Rolf hörðum höndum við byggingu hússins og frágang lóðar að Geitastekk 7 þar sem þau hjónin bjuggu allt til ársins 2012.

Nú er þessi sístarfandi maður horfinn af þessu jarðlífi og verður lagður til hinstu hvílu í íslenskri mold síðar í dag. Þannig lokast hringurinn á vegferð mannsins um götur og stigu þessa lífs.

Rolf var glaðsinna maður en skapmikill. Hann var góður húmoristi og sem drengur var hann uppátækjasamur og prakkari mikill eins og kom í ljós þegar hann sprengdi jólatréð í loft upp á jólatrésskemmtun barnaskólans. Seinna ók hann upp Bankastræti í prakkaraskap á móti umferðinni.

Hann var fuglavinur enda fuglar tónvísir og listrænir söngvarar og sumir náskyldir klarinettinu. Hann hugsaði alltaf vel um smáfuglana og gaf þeim í gogginn.

Hann var uppfinningamaður í sér og alltaf að leita lausna á hverju máli. Hann hannaði og smíðaði marga hluti ásamt föður sínum t.d. lesgrindur fyrir bókamenn, bréfagrindur og bakka.

Hann fékk heilablóðfall fyrir 20 árum og missti máttinn hægra megin en með staðfestu og seiglu náði hann sér á ný. Hann hæfði sig stöðugt á klarinettið og píanóið og lærði að skrifa upp á nýtt. Viljastyrkurinn var geysimikill.

Lengst af ævinni lék hann predlúdíuna eftir Bach sem var forspil að þessari athöfn. Fléttur Bachs heilluðu hann og fingur hans urðu að glíma við þær og ná tökum á þeim. Hann fékkst innig við að mála myndir. Hann var alltaf að þroska sig. Í honum bjó ungur hugur og stórt hjarta.

Hann hafði alla tíð sterkar taugar til Noregs og söng norska þjóðsönginn á líknardeildinni 17. maí s.l. Þegar hann vildi syngja talaði hann um að „bröla“ í gamansemi sinni en það merkir að baula.

Þau hjónin kynntust ung í Noregi enda bæði af norskum ættum. Hún var þar í húsmæðraskóla og hann tækniskólanum. Þau fóru saman í skíðaferð um áramót ásamt fleirum og þar kviknaði ástin og rómantíkin og þau dönsuðu saman inn í nýárið. Hann var alla tíð mikill sælkeri og eins og við vitum er maturinn leið að hjarta mannsins. Tengdamóðir hans átti t.a.m. frábæra ísuppskrift sem hann stóðst aldrei.

Rolf var ljúfur maður og góður en skaphöfnin stór og voldug. Segja má að hann hafi verið öfgamaður bæði í gleði og reiði. Skapið var kannski eins og tónlist Wagners. Fjölskyldan minnist þess með bros á vör þegar hann tók til garðinum og safnaði greinum og spreki í tunnu og kveikti í. Svo setti hann Wagner á fóninn og stóð svo ber að ofan og söng sterkum rómi úti í garði með allt í botni.

Um tíma hallaði hann sér helst til um of að Díónysíusi, hinum gríska guði vínræktar og áfengis, en hætti svo alveg, sjálfum sér, eiginkonu og dætrum til gleði og ánægju.

Honum þótti afar vænt um fjölskyldu sína og dótturdóttirin, perlan hans, var í miklu uppáhaldi.

Margir ættingjar eiga ekki heimangengt eða búa erlendis. Hjartans kveðjur eru hér fluttar frá Englandi, frá Fróða og Tuma, sonum Ingu Huldar, og eiginmanni hennar, Nicholas Jones; kveðjur frá Tone, bróðurdóttur Rolfs og Helen, mágkonu í Kaupmannahöfn. Mette biður fyrir kveðju frá öllum frændsystkinum Rolfs í Noregi. Einnig er hér kveðja frá Ingu Lovísu í Bergen, hennar manni og dætrum og frá Óla Erni og eiginkonu hans og börnum í Rönne á Borgundarhólmi. Loks er hér flutt kveðja frá Böðvari frænda sem þykir miður að hafa ekki komist í útförina.

Á seinn árum var heyrnin farin að dofna og það er ekki til að gleðja tónlistarmann. Að heyra og nema hljóð er undursamleg gáfa. Hvaðan kemur tónlistin? Hvaðan kemur hljóðið? Spurt var á Vísindavefnum:

„Er það satt að ekkert hljóð heyrist úti í geimnum?“

Og svarið hljóðar svo:

„Já, það er rétt að ekkert hljóð berst um geiminn. Það er vegna þess að þar er tómarúm, það er að segja nær ekkert efni. Hljóð berst hins vegar eingöngu um efni eins og loft, vatn, steinsteypu eða jarðlög, samanber að jarðskjálftabylgjur eru í rauninni hljóð.“

Hvaðan kemur þá tónlistin? spyr ég. Er hún uppfinning mannsins? Eða á hún sér æðri uppruna? Einhveru sinni sem oftar var Jón Múli Árnason að kynna verk á tónleikum Simfóníuhljómsveitar Íslands og sagði eitthvað á þessa leið: Næst verður flutt verk sem á uppruna sinn á himnum en var fært til jarðar af tónskáldinu Mozart.

Tónlistarmenn fanga tóna og verk úr tónheimum þar sem verkin fljúga eins og fuglar. Kannski eru tónlistarmenn fuglafangarar eins og Papagenó vogelfänger í Töfraflautunni?

Rolf fangaði margt um ævina, fljúgandi tóna, gróður jarðar, mold og stein. Hann var skapandi maður til hinstu stundar og gat horft stoltur um öxl á þau verk sem hann hafði unnið af trúmennsku og listfengi. Og fjölskyldan var honum allt.

Bók Hamsuns lýkur með því að maðurinn sem gekk fyrstur um ósnortna náttúru hafði látið til sín taka og sett mark sitt á allt. Þar segir:

„Vex ekkert hér? Hér vex allt, manneskjur, skepnur og gróður. Ísak sáir. Kveldsólin skín á kornið, það hríslast út frá hendi hans í boga og sekkur eins og gullsáldur í moldina. . . . Skógurinn og fjöllin standa og horfa á, allt er hátign og máttur, hér er samhengi og takmark.“ (s. 386)

Já, lífið er eitt stórt samhengi. Samnefnara þess köllum við gjarnan Guð. Hann heldur öllu saman og tengir allt. Til er rúmfræðileg skilgreining á Guði sem er svona:

„Guð er hringur hvers miðja er allstaðar og ystu mörk hvergi.“

„Í honum lifum, hrærumst og erum vér,“

sagði Páll postuli er hann vitnaði í grísku skáldin og rökræddi við spekingana í Aþenu.

Norska sálmaskáldið Peter Dass, samtímamaður séra Hallgríms Péturssonar orti:

Guð er Guð, þótt veröld væri eigi,

verður Guð, þótt allt á jörðu deyi.

Þótt farist heimur

sem hjóm og eimur,

mun heilagt streyma

nýtt líf um geim, Guðs á degi.

Björgin hrynja, hamravirkin svíkja,

himinn, jörð og stjörnur munu víkja,

en upp mun rísa,

og ráð hans prísa,

hans ríki vísa

og ljósið lýsa og ríkja.

(Þýðing: Sigurbjörn Einarsson, Sb 11.2-3)

Eitt stórt samhengi alls sem er og engin leið að komast út úr því. Og skv. kristinni trú er þetta samhengi grundvallað á elsku. Og elskan og sorgin eru systur.

Við kveðjum Rolf Markan með kærleika í hug og hjarta, þakklæti og virðingu. Blessuð sé minning hans og Guð blessi þig. Amen.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.