Ólafur A Ólafsson 1931-2013

OlafurAOlafssonÖrn Bárður Jónsson

Minningarorð

Ólafur Alexander Ólafsson

Alli málari

1931-2013

Útför frá Neskirkju

þriðjudaginn 4. júní 2013 kl. 13. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.

Ræðuna er hægt að lesa hér fyrir neðan og einnig hlusta á hana með því að smella á þríhyrninginn (Play-takkann)

Þau eru mörg sem bíða í óþreyju og eftirvæntingu á þessum árstíma, bíða eftir góða veðrinu. Í dag er suddi í Reykjavík og úti á Nesi og því ekkert golfveður. Alli hefði ekki ónáðað ykkur á sólbjörtum sumardegi en í dag er allt í lagi að taka sér hlé og eiga þessa stund innan dyra með góðum vinum og samferðafólki og minnast Alla af virðingu og þökk. Hann er sjálfur fjarri, farinn í ferðina miklu sem bíður okkar allra.

Hann var glaðsinna maður og hefði ekki viljað hafa þessa stund allt of dapra. Fjölskyldan er auðvitað í djúpri sorg og vinir sakna góðs félaga en útför er ekki aðeins sorgarstund heldur einnig þakkarhátíð vegna góðs drengs sem horfinn er.

Hvað ræða Íslendingar oftast þegar þeir hittast? Ætli það sé ekki veðrið? Veður skiptir okkur miklu máli á Íslandi, meira máli en fólk í mörgum öðrum löndum þar sem meira staðviðri er. Ég minnist þess þegar ég kom til Havaii fyrir aldarfjórðungi eða svo. Þar var sól og hlý gola. Leigubílstjórinn sem ók okkur hjónum frá flugvellinum og inn á Waikiki-strönd var frá Chicago. Ég dásamaði veðrið og þá sagið hann: Ég sakna veðráttunnar í Chicago því þar eru árstíðir. Hér er ætíð sumar og ávallt sama veðrið. Ég er orðinn hundleiður á þessu sólskini og sömu golunni alla daga, sagði hann. Mér verður oft hugsað til þessa bílstjóra þegar mér líkar ekki veðrið hér á Fróni.

Alli málari þurfti ætíð í sínu starfi að taka mið af veðri og það gerði Óli múr líka. Ég man þegar ég flutti mig í Nesklúbbinn að ég varð hálfringlaður þegar karlarnir töluðu ýmist um Alla málara eða Óla múr og áttu við sama manninn.

Alli var ætíð glaðlegur, eilítið feiminn, glettinn og ögn stríðinn í viðkynningu. Og nú er hann horfinn þessi skemmtilegi golffélagi og frímúrarabróðir.

Hann naut lífsins til hinstu stundar, ók sínum bíl laugardaginn 25. maí, lék golf með félögum sínum og mætti í sextugs afmæli tengdasonar um kvöldið. Um nóttina fékk hann blóðtappa heima í Árskógum sem leiddi til atvika sem urðu til þess að hann lést á gjörgæsludeildinni í Fossvogi 3 dögum síðar 28. maí.

Ólafur Alexander hét hann. Hann fæddist í Lækjarkoti í Borgarfirði 27. janúar 1931.

Foreldrar hans voru Valgerður Kaprasíusardóttir f. 1904 d. 1942 og Ólafur Magnússon f. 1907 d. 1993.

Alli flutti til Akraness þegar hann var tveggja ára og bjó þar til níu ára aldurs en þá flutti hann með föður sínum til Lambastaða á Seltjarnarnesi en Katrín systir flutti til móðursystur þeirra vegna veikinda móðurinnar. Eftir langa sjúkralegu missti Alli móður sína við ellefu ára aldur og voru það erfiðir tímar fyrir hann og Katrínu þar sem þau voru aðskilin í tvö ár en þau sameinuðust aftur þegar Ólafur faðir þeirra keypti hús á Grettisgötu ásamt móðursystur þeirra.

Berklar voru hræðilegur vágestur á síðustu öld og læknavísindin í stöðugu kapphlaupi við tímann við að finna lækningu og lausnir. Það var erfið reynsla að missa mömmu. Ólafur faðir hans kvæntist öðru sinni, Helgu Guðmundsdóttur f. 1907 d. 1995 sem reyndist systkinunum vel.

Alsystir Alla er fyrrnefnd Katrín f. 1932 og hálfsystur eru Sólveig f. 1946 og María f. 1954.

Alli var myndarlegur maður, hávaxinn og kjálkabreiður, karlmannlegur og stæltur enda vann hann löngum líkamlega vinnu og vann mikið.

Alli hitti ástina sína, hana Möllu, í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll en árið 1952 og ári síðar stóðu þau á stofugólfinu hjá presti sem gaf þau saman. Það var 13. október 1953. María Gísladóttir hét hún og var tæpum 2 mánuðum eldri en hann f. 1. desember 1930 d. 2. janúar 1994. Þau áttu saman gott líf í annríki og lífsgleði og eignuðust 5 myndarleg börn sem eru:

1) Gísli Örvar f. 1953. Kona hans var Margrét Árnadóttir f. 1953 d. 2011. Börn þeirra eru Steinar Freyr f. 1976, Rúnar Bogi f. 1982 og Kristín Ýr f. 1993.

  1. Valgerður Björk f. 1955 gift Reyni Jóhannssyni f. 1953. Börn þeirra eru Dagmar Heiða f. 1978, Daníel Helgi f. 1981 og Íris Björk f. 1989.
  2. Helga Hrönn f. 1958 gift Roger Gustafsson f. 1957 börn þeirra eru Maria Kristina f. 1985, Anna Katarina f. 1987 og Lena Karin Elisabeth f. 1990.
  3. Hulda Sjöfn f.1962 gift Ólafi Sturlu Kristjánssyni f. 1962. Börn þeirra eru Kristján f.1987, Ólafur Alexander f. 1988 og Lilja Ósk f. 1992.
  4. Ólafur Örn f. 1971.

Langafabörnin eru 5.

Alli var barngóður og barnabörnin sóttust eftir því að fá að vera í fangi hans.

Börnin hans muna góða daga í bernsku. Pabbi vann mikið en mamma var alltaf heima. En þrátt fyrir mikla vinnu var farið flestar helgar í útilegu með tjald og búnað. Þau hjónin fóru margar ferðir til útlanda, m.a. í tvær siglingar, aðra um Miðjarðarhafið og hina um Karabíska hafið en myndin flotta í sálmaskránni er einmitt tekin við síðara tækifærið. Þegar ég sá myndina varð mér á orði: Þau eru bara eins og hollívúddstjörnur! Þau fóru oft utan með Edduklúbbnum svonefnda. Þá heimsóttu þau Kanaríeyjar oft hér áður fyrr. Í tvígang vorum við hjónin með honum í Thailandi og lékum golf með skemmtilegu fólki. Í hópnum var dýralæknir sem eitt sinn keppti við annan mann á móti mér og öðrum spilara og hafði ég á orði að leikurinn væri ójafn því dýralæknirinn hefið forskot á okkur hina því hann væri sérfræðingur í dogleg.

Alli var málarameistari og starfaði sem sjálfstæður atvinnurekandi og var oft með nema og marga menn í vinnu. Þegar hann byggði húsið í Sæviðarsundi þá ákvað hann að læra að múra til þess að geta múrað húsið sitt sjálfur og tók meistarapróf í þeirri iðn.

Þegar Malla lést árið 1994 hóf hann störf hjá Byggingardeild Reykjavíkur og starfaði þar þangað til hann varð sjötugur. Hann starfaði lengst af sem Ólafur A. Ólafsson málaremeistari en rak fyrirtækið Einingu með Emil mági sínum og byggðu þeir mörg hús undir því firmanafni.

Alli byrjaði að leika golf 1974 og hafði því fengist við þá skemmtilegu íþrótt í 39 ár er hann lést. María lék einnig golf þegar fram liðu stundir. Hann var alla tíð í Golfklúbbi Ness og fór í golfferðir til útlanda á hverju ári og stundum oft á ári. Hann hefur unnið til margra verðlauna. Hann var í landsliði eldri kylfinga um skeið og var einnig meðlimur í Einherjaklúbbnum fyrir holu í höggi. Á sínum yngri árum spilaði hann badminton. Alli fór á hverjum degi út á golfvöll allt árið um kring ef ekki til að spila golf þá til að hitta vini og spjalla. Hann stundaði einnig líkamsrækt til að halda sér við. Áhugamálin voru fleiri um ævina. Hann stundaði útiveru og laxveiðar og var lífsglaður maður.

Eins og fyrr sagði muna börnin hann sívinnandi enda þurfti að mála mörg hús og múra til að hafa nóg handa stórri fjölskyldu. Hann kunni að njóta lífsins og var jafnan glaður í góðra vina hópi. Þau hjónin héldu margar veislur og áttu góða vini.

Vinur hans úr golfinu, Jón Þorgeir Hallgrímsson, sagði mér að eftir að kona hans fékk blóðtappa 1993 og Alli missti Möllu árið síðar hefðu þeir í vissum skilningi erft hvorn annan. Vinátta þeirra óx og dýpkaði og margar stundirnar áttu þeir saman í golfi úti á Nesi og víða í útlöndum ásamt öðrum félögum sem sakna nú góðs vinar.

Alli var alltaf í góðu sambandi við börnin sín. Hann kom reglulega til þeirra hér heima og heimsótti fjölskylduna sína í Svíþjóð við fermingar og stúdentsútskriftir barnabarnanna. Afastelpa frá Svíþjóð bjó hjá honum í 4 mánuði þega hún var 19 ára og kynntist afa vel. Hann gætti hennar sem sjáaldurs augna sinna og fjölskyldan brosir yfir ábyrgðartilfinningunni sem hann hafði þegar hún fór út að skemmta sér með íslenskum vinum.

Hann lagði börnunum lið þegar þau voru að byggja eða kaupa húsnæði. Málarinn gat alltaf fegrað umhverfið með sinni fagmennsku. Málarar hafa það framyfir marga iðnaðarmenn að þeir koma oft seinastir að byggingunni og gera hana fína áður en fólk flytur inn. Þeir fegra svo sannarlega heiminn. „Ég skal mála allan heiminn, elsku mamma“, söng ung konan, sem bar skyn á mátt málningar og líkingamál skáldskapar.

Alli var fagmaður fram í fingurgóma, eftirsóttur verktaki og vinsæll meistari. Margir lærðu hjá honum í gegnum árin.

Alli var virkur í starfi Frímúrarareglunnar á veturnar en Reglan er vettvangur mannræktar á kristnum grunni. Hann leiddi eldri son sinn og tengdason inn í Regluna og fylgdi þeim eftir þar. Þeir áttu margar góðar stundir í hópi bræðra í Mími og Helgafelli. Frímúrarbræður standa heiðursvörð hér í dag og munu bera kistu hans úr kirkju.

Hér kveður hann fjölmenni og sérstakar kveðjur hafa borist frá fjarstöddum, kveðjur frá Roger, tengdasyni Alla í Svíþjóð og dætrum hans og Helgu Hrannar, þeim Maríu, Önnu og Lenu;

og frá Herði Péturssyni golffélaga og Helgu konu hans sem eru stödd í Danmörku.

Ég nefni það gjarnan þegar ég jarðsyng kylfinga að golf er merkileg íþrótt og trúarleg. Og meira en það. Hún er beinlínis kristilegri en flestar ef ekki allar íþróttir. Ég er nú líklega eini prestur landsins sem hef haldið þessu fram bæði í ræðu og riti. Allar reglur í golfi eru settar, samþykktar og varðveittar af Hinum konunglega og forna klúbbi heilags Andrésar í Skortlandi – The Royal and Ancient Golf Club of St. Andrews – og skal engan undra að reglurnar eigi rætur í kristinni trú. Kórónan í þeim efnum er forgjöfin sem er kerfi til að jafna leikinn og hjálpa þeim sem eru meiri klaufar en aðrir. Forgjöfin er ekkert annað en fyrirgefning og ætti auðvitað að bera það nafn – fyrirgefning. Sumir fá meiri fyrigefningu í golfi en aðrir og þannig geta allir verið jafnir í göfugum leik sem hefur margar aðrar tilvísanir í kristna guðfræði sem ekki verða nánar raktar í þessari athöfn.

Fyrirgefning er merkilegt fyrirbrigði og nauðsynlegt í mannlegu samfélagi. Við getum ekki lifað án fyrirgefninar. Hún er nátengd elskunni sem er kjarni tilverunnar. Guð veit allt og hann man allt nema það sem hann kýs að gleyma. Og hverju skyldi hann svo kjósa að gleyma? Hann gleymir því sem við biðjum hann að fyrirgefa okkur. Mikið yrði nú heimuirnn betri ef við gætum lært þetta af skaparanum, að gleyma því sem fólk biður okkur fyrirgefningar á.

Hver er forgjöfin þín í lífinu, hver er fyrirgefningin? Er hún stór eða lítil? Og hvernig gengur gleymskan mikilvæga?

Í Faðir vor bæninni biðjum við Guð um að fyrirgefa okkur í sama mæli og við fyrirgefum öðrum. Við biðjum einnig um að ríki hans verði á jörðu. Hvað merkir það? Það merkir að við óskum þess og væntum að lífið hér á jörðu verði bærilegra, verði réttlátara, sannara, fegurra. Við erum öll kölluð til þess að stuðla að réttum leikreglum og fegurð á velli lífsins.

Alli hafði yndi af lífinu þrátt fyrir mótlæti og missi. Lífið er dásamlegt. Það er undur að fá að vera til. Njótum dagsins meðan við eigum hann, grípum tækifærið, Carpe Diem, þjónum Guði og lífinu með því að elska hann og náungann eins og okkur sjálf. Í því er lífsgleðin sjálf fólgin, að lifa fyrir aðra.

Nú er suddi í Borginni og ekkert golfveður. Jesús tók líkingu af vindinum er hann sagði:

„Vindurinn blæs þar sem hann vill og þú heyrir þyt hans. Samt veistu ekki hvaðan hann kemur né hvert hann fer. Svo er um þann sem af andanum er fæddur.“ (Jóh 3.8)

Hver erum við? Hvaðan komum við? Hvert förum við? Við vitum það ekki alltaf en eitt megum við vita: Lífið er í hendi Guðs.

Við felum Ólaf Alexander Ólafsson Guði á vald og kveðjum hann með virðingu og þökk. Blessuð sé minning hans og Guð blessi þig.

Amen.

Ritningarlestrar við athöfnina:

Pistill:

1. Korintubréf 13 – óðurinn um kærleikann.

Guðspjall:

Jóhannes 3.1-21 – Því svo elskaði Guð heiminn.

Ein athugasemd við “Ólafur A Ólafsson 1931-2013

  1. Þakka þér fyrir Örn Bárður, þetta er frábær kveðjuræða um Alla vin okkar og þakka þér fyrir kveðju okkar hjóna, maður finnur það kannske meira eftirá hvað Alli var frábær náungi og mikil eftirsjá af honum, hann var ekki eins lokaður og kylfan í hendi hans. Þakka þér aftur, Kærar kveðjur. Hörður Pétursson

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.