Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
Skúli Skúlason
verkfræðingur
1942-2013
Ræðuna er hægt að lesa hér fyrir neðan
og einnig hlusta á hana með því að
smella á þríhyrninginn (Play-takkann)
Lífinu má líkja við leik. Lífið er í vissum skilningi íþrótt og okkur varpað inn á leikvöllinn og þar verðum við að taka þátt í leiknum, eigum lítið sem ekkert val um það af eða á.
Ungur hreifst Skúli af skák og bridge en þær íþróttir voru mikið stundaðar á æskuheimili hans. Íþróttir hugans heilluðu enda var hann góður stærðfræðingur að upplagi. Skákin er margslungið fyrirbrigði og krefst mikillar kunnáttu ætli menn að ná langt í þeirri íþrótt. Hún á sér í vissum skilningi trúarlegar rætur. Í það minnsta þarf trú í þeim leik sem flestum öðrum, trú og von um að ná tökum á leiknum og máta andstæðinginn. Skákin eins og við þekkjum hana hefur trúarlegar skýrskotanir. Það sést á taflmönnunum. Kóngur ber kórónu með krossi og við hlið hans stendur drottningin öfluga. Riddarar geisast um víðan völl en riddarar voru löngum í þjónustu kristinnar trúar á miðöldum. Þá má ekki gleyma biskupunum. Skákin felur ekki í sér trúarkenningar sem slík en hún er nátengd trú og von. Hún er leikin af fólki innan ólíkra trúarbragða og í sumum tilfellum eru embættistákn fjarlægð af hinum kristnu taflmönnum t.d. í löndum múslima. Fleiri íþróttir má tengja trúnni og kem ég að því síðar.
Skúli var trúaður maður. Hann var einlægur og vænn, vandvirkur og heiðarlegur.
Skúli fæddist í Keflavík 31. mars 1942. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Eir 23. maí 2013.
Skúli var sonur hjónanna Skúla Helga Skúlasonar, byggingameistara í Keflavík, f. 5. febrúar 1913 í Miðdal í Laugardal, d. 3. desember 1982 og Ragnheiðar Guðmundu Sigurgísladóttur, f. 10. september 1918 á Akranesi, d. 20. nóvember 1991.
Systkini Skúla eru
Jón Gunnar, f. 28. nóvember 1940,
Baldur, f. 1. nóvember 1943,
Anna, f. 18. júní 1948,
Sigurgísli, f. 13. maí 1950,
Guðrún, f. 14. maí 1951,
Arna, f. 13. maí 1956,
Hrefna Margrét, f. 2. apríl 1959 og
Katrín Freyja, f. 25. mars 1961.
Sonur Skúla og Steinunnar Pétursdóttur f. 13. ágúst 1948 er Kristinn Pétur, verkfræðingur, f. 11. febrúar 1982.
Skúli ólst upp í Keflavík, lauk þar landsprófi, varð stúdent frá Menntaskólanum að Laugarvatni. Hann tók fyrrihlutann í verkfræði við HÍ og hélt svo áfram í Þrándheimi þar sem hann tók próf í byggingaverkfræði. Hann sarfaði hjá gatnamálastjóra Reykjavíkur og vann svo á Verkfræðistofu Guðmundar G. Þórarinssonar. Þá stofnaði hann ásamt fleirum verkfræðistofuna Fjölhönnun og var þar framkvæmdastjóri lengst af. Fyrirtækið starfaði við hefðbundna byggingarverkfræði, áætlanagerð og hönnun, einkum vega og gatna.
Skúli var meðal brautryðjenda í fiskeldi og stofnaði ásamt fleirum fiskeldisfyrirtækið Ísþór í Þorlákshöfn en það ævintýri fór ekki eins og vonir höfðu staðið til og taflið tapaðist. Skúli var ekkert að sýta það en hélt áfram sínum störfum. Hann lét ekki fortíðina binda sig, töpuð skák var liðin skák og alltaf hægt að taka nýja.
Systkini hans rifjuðu það upp hvað hann þótti fljótur til sem barn. Skúli var fyrirferðarmikill og forvitinn. Foreldrum hans þótti víst nóg um og ræddu við lækni. Meðan á viðtalinu stóð var Skúli á kafi ofan í læknistöskunni og læknirinn komst að þeirri niðurstöðu að ekkert væri að strák, hann væri bara forvitinn eins og börn eiga að vera. Skúli gat rifið allt í sundur og sett það saman á ný. Hann hafði áhuga á vélum og tækjum, tækni og vísindum. Aðeins tvö ár er á milli þeirra bræðra Jóns og hans og sögur herma að Skúli hafi lítið þurft að segja fram að skólaaldri því Jón talaði jafnan fyrir þá báða.
Hann ólst upp á góðu heimili. Pabbi var framkvæmdamaður sem byggði hús og mamma sá um hópinn heima. Þau hjónin voru ræktunarfólk og ögruðu veðurfarinu á Suðurnesjum og vantrú fólksins um að ekkert gæti gróið á þeim slóðum. Með iðni, þrautseigju og trú tókst þeim ætlunarverk sitt. Í garðinum þeirra uxu bæði tré og skrautblóm. Og ekki lögðu þau síðri rækt við börnin sín sem öll hafa borið góðan ávöxt. Fjölskyldan er stór sem kveður hann hér í dag en kveðju sína sendir systursonur hans, Brynjólfur sem býr í Stokkhólmi.
Skúli var góður félagi systkina sinna og var þeim öllum mjög kær. Hann varð aldrei fjölskyldumaður, ókvæntur alla tíð, en eignaðist einn son sem var honum afar kær. Skúli sinnti honum gjarnan um helgar meðan hann var yngri. Samskipti þeirra þróuðust og voru alla tíð náin og góð. Verkfræðina áttu þeir sameiginlega, þeir léku golf saman og fóru oft í bíó. Þeir störfuðu saman á verkfræðistofu í tvö sumur og höfðu margvísleg samskipti innan og utan vinnu.
Skúli leigði með mörgum systkina sinna meðan þau voru í námi og þau kynntust honum því vel sem fullorðnum manni og reyndist hann þeim ráðhollur í mörgum málum. Eini skugginn í þeim efnum var að hann var helst til mikið uppá áfengi kominn um tíma en hætti alveg fyrir 15 árum og nýtti sér 12-sporakerfið og sagði gjarnan að það virkaði ekki að neinu gagni án trúar. Hann var leitandi maður sem skoðaði ýmsar hliðar trúar og trúarbragða og týndi aldrei þeirri sýn að til væri eitt stórt samhengi allra hluta. Kannski var það verkfræðiheilinn sem sá samhengi alls, sá lífið eins og eitt stórt byggingarverkefni eða konstrúksjón?
Skúli lék golf um árabil og hafði mikið yndi af þeirri íþrótt. Árið 2007 ákvað hann að hætta störfum sem verkfræðingur til að geta notið meiri tíma í golfi og til ferðalaga. Hann fékk heilablóðfall í tvígang og Alzheimers-sjúkdómurinn leiddi til þess að sá tími varð styttri en til stóð.
Golf er ekki bara trúarleg eða religious íþrótt, hún er beinlínis mjög kristileg. Ég er nú líklega eini prestur landsins sem hef haldið þessu fram bæði í ræðu og riti. Allar reglur í golfi eru settar, samþykktar og varðveittar af Hinum konunglega og forna klúbbi heilags Andrésar í Skortlandi – The Royal and Ancient Golf Club of St. Andrews – og skal engan undra að reglurnar eigi rætur í kristinni trú. Kórónan í þeim efnum er forgjöfin sem er kerfi til að jafna leikinn og hjálpa þeim sem eru meiri klaufar en aðrir. Forgjöfin er ekkert annað en fyrirgefning og ætti auðvitað að bera það nafn – fyrirgefning. Sumir fá meiri fyrigefningu í golfi en aðrir og þannig geta allir verið jafnir í göfugum leik sem hefur margar aðrar tilvísanir í kristna guðfræði sem ekki verða nánar raktar í þessari athöfn.
Síðustu misserin var Skúli á hjúkrunarheimilinu Eir. Alltaf var hann að skipuleggja eitthvað þótt minnið væri stopult og hann jafnvel hættur að þekkja fólk. Hann setti gjarnan stjórnarfund í einhverju félagi ef fólkið hans kom í heimsókn, lagði línur um ný verkefni, gerði fjárhagsáætlannir og hugsaði stórt. Ávallt var hann ljúfur og kurteis, skapgóður og rólegur í fasi.
Góð og kær vinkona hans í um þrjá áratugi er Elín Salka Snædal, hjúkrunarfræðingur, sem sér nú á eftir kærum vini. Þau áttu mörg sameiginleg áhugamál, fóru oft í leikhús og á tónleika.
Skúli lifði almennt talað í sátt og samlyndi við fólk, hann var nákvæmur og passasamur á alla lund og komst vel af í lífinu.
Í máltækinu segir: Kóngur vill sigla en byr hlýtur að ráða. Endataflið varð með öðrum hætti en áætlað var hjá Skúla.
Á vísindavefnum segir um hugtakið endatafl:
Endataflið er líklega það stig skákarinnar sem krefst mestrar rökhugsunar. Oft þarf að reikna langt fram í tímann og telja vandlega gang peðanna og kóngsins; enn flóknara er þegar telja þarf gang riddarans. Köld rökhugsun og reiknikunnátta er mikilvægasta hæfnin fyrir þetta stig.
Skúli tefldi marga skákina um ævina en þegar kom að endataflinu í lífi hans sjálfs var hann orðinn laskaður á minni og atgervið skert.
Endataflið þurfum við öll að tefla og engu skiptir atgevið þegar þar að kemur því við töpum öll lífsskákinni. Taflmenn okkar hníga allir í valinn, peð og hrókar, riddarar og biskupar, drottning og kóngur.
En vonin og trúin reisir þá alla við og stillt er upp nýju tafli fyrir tilstilli hans sem er konungur konunganna og drottinn drottnanna, Christus Victor, sem ber kórónu sigursins.
Víst ertu, Jesús, kóngur klár,
kóngur dýrðar um eilíf ár,
kóngur englanna, kóngur vor,
kóngur almættis tignarstór.
Það er hann og enginn annar sem krýnir okkur að loknum leik í þessu lífi í ljósi orðanna í Opinberunarbók Jóhannesar:
„Vertu trúr allt til dauða og Guð mun gefa þér lífsins kórónu.“
Við kveðjum Skúla Skúlason með virðingu og þökk. Blessuð sé minning hans og Guð blessi þig. Amen.