Hallveig Hannesdóttir 1927-2013

hallveighannesdottirÖrn Bárður Jónsson

Minningarorð

Hallveig Hannesdóttir 

1927-2013

Bálför frá Neskirkju

fimmtudaginn 30. maí 2013 kl. 13

Jarðsett verður síðsumars  í Sóllandi.

Ræðuna geturðu lesið hér fyrir neðan og einnig hlustað á hana

með því að smella á þríhyrninginn (Play-takkann):

Í huga mér á ég mynd af hjónum sem sitja á bekk við Ægisíðuna. Þau hafa tekið sér hlé á göngunni og horfa saman út á hafið. Bæði fædd við eða nærri sjó. Þekkja litbrigði sjávar, ilm af þangi og þara. Sagt er að útivist við sjó eða vatn hafi sterkari áhrif á sálarlíf okkar en margt annað sem fyrir augu ber. Hafflöturinn með sinni vídd og litum og svo djúpið sjálft með sínum leyndardómum orkar sterkt á okkur.

Öll erum við fólk á ferð meðfram ægisíðu lífsins sem liggur á mörkum hérveru og handanveru, jarðlífs og eilífðar.

Og nú er annað þessara hjóna horfið af þessu lífi og hitt enn á lífsins strönd og kveður lífsförunaut sinn hér í Neskirkju.

Hún hafði yndi af lestri bóka og Íslendingasögurnar voru í miklu uppáhaldi hjá henni. Landnámsmennirnir komu að ströndum þessa lands og settust hér að, en í þeim mörgum bjó ætíð útrásarþráin, löngunin til fjarlægra landa og ævintýra. Þeim var tamt að horfa út á hafið. Landnámmennirnir voru fólk á strönd, á mærum. Við lifum alla okkar ævi á mærum lífs og dauða og svo kemur kallið og við leggjum úr vör frá ægisíðu lífsins.

Gróa Hallveig hét hún, fædd 3. október 1927 á Vaðstakksheiði í Neshreppi utan Ennis á Snæfellsnesi. Gróa Hallveig var alltaf kölluð Halla eða Hallveig.

Foreldrar hennar voru Guðrún Guðbjörnsdóttir, fædd að Kolbeinsstöðum í Miklaholtshreppi og Hannes Elísson frá Berserkseyri Í Eyrarsveit á Snæfellsnesi. Guðrún og Hannes byrjuðu búskap í Fjarðarhorni, Helgafellssveit, þá að Berserkseyri í Eyrarsveit, Vaðstakksheiði í Neshreppi, síðar að Hellissandi og Ólafsvík, en fluttu síðan til Reykjavíkur 1940 og bjuggu þar til æviloka.

Systkini Hallveigar eru fimm Helga, Elís og Berta sem eru látin. Bræður hennar Rreynar og Richard eru ennþá á lífi.

Hallveig gekk í Miðbæjarskólann. Seinna fór hún í Ingimarsskóla og tók þaðan gagnfræðapróf.

Um tvítugsaldur kynntist Hallveig eiginmanni sínum Magnúsi Guðmundsyni, húsateiknara, frá Þverdal í Aðalvík, Sléttuhreppi Norður Ísafjarðarsýslu. Magnús er fæddur 18. október 1925.

Foreldrar hans voru Jónína Sveinsdóttir, fædd að Fjalli í Sæmundarhlíð í Skagafirði og Guðmundur Snorri Finnbogason, fæddur að Sæbóli í Aðalvík. Guðmundur Snorri og Jónína fluttu að Þverdal í Aðalvík árið 1920 og bjuggu þar til ársins 1945 er þau brugðu búi og fluttu til Reykjavíkur og bjuggu þar til æviloka.

Hallveig og Magnús gengu í hjónaband 1. janúar 1950. Börn þeirra eru:

Guðrún f. 13. júlí 1950, eiginmaður hennar er Halldór Gunnar Halldórsson sem sendir kveðju sína til ykkar en hann er lasinn.

Gylfi f. 24. júlí 1957, eiginkona hans er Elín Soffía Ólafsdóttir og

Gauti f. 24. júlí 1957, eiginkona hans var Hanna Sofie Jörgensen, hún lést árið 2006.

Barnabörn þeirra Hallveigar og Magnúsar eru: Guðrún Eygló Bergþórsdóttir, eiginmaður hennar er Gunnar Wiencke; Magnús Halldórsson, Magnús og Ragnar Gautasynir og Tryggvi og Egill Gylfasynir.

Barnabarnabörn þeirra eru: Viktoría Rut, Matthías Ragnar og Jóakim Enok.

Hallveig og Magnús voru alla tíð samrýmd og samheldin og báru djúpa virðingu fyrir hvort öðru.

Þau byggðu sér hús að Kvisthaga 3 hér steinsnar frá kirkjunni, og bjuggu þar alla tíð. Hallveig gegndi húsmóðurstörfum og vann að auki utan heimilis m.a. á tannlæknastofu og við hin ýmsu skrifstofustörf.

Hún hafði alla tíð yndi af lestri bókmennta og eignuðust þau hjónin mikið af bókum um ævina. Þau fóru á hverjum morgni í Sundlaug Vesturbæjar í áratugi. Þau stunduðu leikhúsferðir og sóttu reglulega tónleika Sinfóníuhljómsveitarinnar, áratugum saman. Þau fóru gjarnan á myndlistarsýningar og hlýddu á kynningar höfunda á verkum sínum.

Þau voru bæði mjög áhugasöm um landgræðslu, skógrækt, blómarækt og útivist almennt. Margar góðar stundir áttu þau í sumarbústað sínum sem þau reistu að Hafravatni í Mosfellsbæ. Tóku þar við gróðursnauðu landi sem í dag er skógi vaxið. Bústaðurinn að Hafravatni var þeirra unaðsreitur að sumri sem vetri.

Á sumrin höfðu þau hjónin gaman af því að ferðast innanlands sem utan.

Frítíma sínum á veturna varði Hallveig gjarnan við prjónaskap.

Hallveig las alla tíð mikið og fylgdist vel með fréttum. Fas hennar var hógvært en glaðlegt.

Í febrúar 2012 greindist Hallveig með krabbamein sem ekki varð við ráðið. Þegar henni var tjáð að um ólæknandi sjúkdóm væri að ræða, tók hún því af æðruleysi. Sagði aðeins að hún vildi halda heimili þeirra hjóna eins lengi og unnt væri.

Fyrir um mánuði síðan var hún lögð inn á Líknadeild Landsspítalans í Kópavogi, þar sem hún lést 24. maí síðastliðinn. Að sögn starfsfólks líknardeildarinnar var hún brosmild og glaðleg þrátt fyrir sjúkdóm sinn. Starfsfólki líknardeildar eru hér færðar þakkir fyrir frábæra umönnun og elskusemi.

Hún var æðrulaus og yfirveguð manneskja sem lét jafnan lítið fyrir sér fara en var glaðlynd og brosmild og naut sín vel í góðra vina hópi. Börnin þeirra muna mömmu og velgjörðir hennar. Heimilið var staður öryggist  og elskusemi. Þau nutu þess að búa á fögru heimili þar sem pabbi hafði smíðað margt og mamma komið öllu fyrir af listrænu innsæi.

Halla fylgdist alla tíð vel með fréttum og var vel heima í mörgum málum. Hún var skyldurækin að eðlisfari, ærleg og sjálfstæð í hugsun og háttum. Hún brýndi það fyrir börnum sínum að vera heiðarleg og segja satt og rétt frá og að setja sig í spor annarra og einkum að skilja aðstæðru bágstaddra og reyna að koma þeim til hjálpar.

Hún var væn kona, virðuleg og falleg manneskja.

Nú er hún horfin af þessu jarðlífi og farin inn í nýja tilveru. Þau sem horfin eru lifa í minningum ástvina og samferðafólks. Kristin trú boðar að til sé hugur sem gleymir engu góðu og varðveitir allt. Hið mikla minni, sem aldrei þarf að stækka eða auka við, heldur utan um allt og alla. Löngu eftir að við verðum öll horfin af þessu jarðlífi og samferðafólk okkar líka og engir hér á þessari jörð sem muna okkur, þá verðum við ekki gleymd því við verðum geymd í hinu stóra, eilífa minni. Og ef við lifum í huga hins mesta, verðum við þá ekki til að eilífu, eins og hann?

Á vegum Evrópusambandsins er unnið að merkri áætlun um kortlagningu mannsheilans með sína hundrað milljarða taugafruma og mögulegar tengingar uppá hundrað þúsund milljarða að tölu. Bandaríkjamenn hafa nýverið tilkynnt um aðra áætlum sem þeir ætla að leggja í umtalsverða fjármuni á sama sviði. Mannsheilinn er flóknasta fyrirbrigði þess heims sem við þekkjum. Mannshugurinn er undursamlegt fyrirbrigði en hann er ekki alvaldur og ekki eilífur. Hann getur gleymt og hrörnað. Hugur Guðs gleymir engu nema því sem við biðjum hann fyrirgefningar á. Hann kýs að gleyma því sem gleyma skal. En hugur Guðs hrörnar aldrei.

Forðum daga kveinuðu íbúar Síonar og fannst þeir vera einir og yfirgefnir.

Í spádómsbók Jesaja stendur skrifað:

En Síon segir: „Drottinn hefur yfirgefið mig,

Guð hefur gleymt mér.“

Og spámaðurinn mælir huggun til þjóðar sinnar fyrir munn Drottins og segir:

„Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu

að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu?

Og þó að þær gætu gleymt

þá gleymi ég þér samt ekki.

Ég hef rist þig í lófa mér,

múra þína hef ég sífellt fyrir augum.“

Í ljósi þessara orð skulum við nú kveðja mæta konu með virðingu og þökk fyrir lífsstarfið og allt það góða sem í henni bjó og birtist ástvinum og samferðafólki í góðvild hennar og elskusemi.

Blessuð sé minning Gróu Hallveigar Hannesdóttur og Guð blessi þig.

Amen.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.