Kristinn Traustason 1936-2013

Kristinn TraustasonMinningarorð

Kristinn Traustason

fv. bílamálari og hestamaður

Vallarási 4

Reykjavík

1936-2013

Ræðuna er hægt að lesa og hlusta á hér fyrir neðan með því að smella á þríhyrninginn.

Sumarið er komið sé tekið mið af almanakinu en fyrstu daga þess hafa verið svalir. Nú er ögn hlýrra í dag. Sumardagurinn fyrsti var kaldur, það var frost og ofankoma hér í Reykjavík. En dagurinn boðar betri tíð. Hann boðar yl og fegurð sumarsins sem kemur í fyllingu tímans. Sumardagurinn fyrsti er dagur vonar.

Hestamenn eru í óða önn að undirbúa sumarið. Nú er uppskerutími hjá hestamönnum í þeim skilningi að þjálfun vetrarins skili sér í sumarblíðunni í útreiðartúrum og á hestamannamótum þar sem meinn munu leiða saman hesta sína.

Lífið úti í náttúrunni er unaðslegt hvort sem farið er um landið á hestum, fótgangandi eða jafnvel í bíl. Landið okkar er fagurt og frítt og við erum lánsöm að hafa fæðst hér eða flust hingað. Sumarið er framundan og við skulum njóta þess og fagna lífinu hvern dag sem Guð gefur okkur. Lífið er gjöf sem enginn veit hvernær lýkur. Njótum þess meðan dagur er.

Við komum hér saman til að kveðja Kristinn Traustason.

Kristinn fæddist í Sandgerði 7. ágúst 1936. Foreldrar hans voru Trausti Jónsson,  trésmiður frá Skógi á Rauðasandi (f. 26.6.1907 d. 17.5.1994) og Dagbjörg Jónsdóttir frá Sandgerði (f. 14.12.1906 d. 9.11.1949).

Þau einguðust 10 börn en Dagbjörg átti einn son fyrir, Ásgeir, sem er látinn.

Börn þeirra hjóna eru:

Sigríður Oddný sem lést barn að aldri,

Alda 1935, sem sendir kveðju sína til ykkar,

Kristinn 1936,

Elín Sigríður 1938, látin,

Guðrún 1940,

Hafsteinn 1941,

Sigríður 1943,

Dagbjörg 1944,

Benóný 1947 og

Móeiður 1949.

Þau tvö síðastnefndu, senda kveðju sína, en Dabjörg lést um skömmu eftir fæðingu Móeiðar. Þetta var stór hópur og lífið ekki eintómur dans á rósum. Kristinn var á 14 ári, á fermingaraldri, þegar hann missti móður sína. Það er erfið reynsla að missa móður og þurfa að standa og komast af í stórum systkinahópi og svo úti í lífinu sjálfu sem stundum er grimmt og óvægið. En Kristinn lærði að standa fyrir sínu og varð mikill töffari.

Hann fæddist í Laufási í Sandgðeri en ólst upp í Sæbóli á sama stað en pabbi hans vann við trésmíðar, byggði hús og gerði við hús og svo vann hann í fiski með smíðunum og þegar engin verkefni voru í byggingarvinnu þá annaðist hann dyravörslu og fleira.

Kristinn fór snemma að vinna fyrir sér. Hann var handlaginn og duglegur til allra verka. Hann vann ýmiskonar vekamannavinnu, t.d. við logsuðu á Vellinum og fleira. Hann vann lengi við bílamálun og öðlaðist iðnréttindi í þeirri grein og vann við það meðan hann gat og síðast var hann með aðstöðu heima við þar sem hann gat sprautað bíla og gert þá gljáandi eins og nýja.

Ungur gekk hann að eiga Sæunni Guðrúnu Guðmundsdóttur frá Kvígindisfirði. Þau gengu í hjónaband 26. janúar 1963 en haustið áður hafði þeim fæðst sonur, Ríkharður f, 8.10.1962, sem er kvæntur Margréti Rós Sigurðardóttur og eiga þau Snorra Geir og Sæunni Rós en fyrir átti Ríkharður soninn Trausta Björn. Kristinn og Sæunn skildu árið 1985 en þau höfðu þá búið í Reynilundi 7 í Garðabæ um nokkurt skeið í húsi sem þau byggðu sjálf. Húsið reis á skömmum tíma enda Kristinn hamhleypa til allra verka og fékk til liðs við sig dugnaðar forka, Hafstein bróður sinn og Traust föður þeirra.

Sonur Kristins og Láru Hafdísar Óskarsdóttur er Vigfús Elías f. 21.2.1963, kvæntur Elísabetu Dýrleifi Þórðardóttur og eiga þau, Aldísi Líf, Albert Leif og Guðnýju Hrefnu.

Kristinn var mörg sumur í sveit norður í Vatnsdal á þrem bæjum. Hann var alla tíð duglegur og fljótur til. Hann hafði yndi af skepnum og hestar voru í uppáhaldi hjá honum alla tíð. Hann hafði líka mikinn áhuga á skotveiði. Hann hafði gaman af ferðalögum um landið og átti margar góð bíla á ævinni. Það þótti t.a.m. ekkert tiltökuál að aka norður á Akureyri til að fara á ball og til baka um nóttina til að ná í messann á Vellinum og fá sér morgunmat kl. 6 og mæta svo í vinnu kl. 7. Hafsteinn, litli bróðir, fékk oft að fljóta með en þeir unnu báðir á Vellinum um tíma. Síðar á ævinni átti hann marga góða reiðhesta og fór oft í útreiðartúra. Seinast fór hann í reiðtúr viku fyrir andlát sitt með 3 til reiðar. Hann hafði glímt við krabbamein um nokkurra missera skeið. Lyfjameðferð sem hann gekkst undir fyrir jólin síðustu gáfu honum betri tíð einkum vegna betri verkjastillingar.

Hann kvæntist Guðrúnu Guðmundsóttur frá Þingeyri í Dýrafirði, 1. desember s.l. en þau höfðu þekkst í ein 6 ár og átt saman góðar stundir.  Guðrún reyndist honum vel í veikindum hans og annaðist hann til hinstu stundar.

Kristinn var nú fremur tortrygginn á stofnanir og margt í samfélaginu, m.a. heilbrigðiskerfið en fann þegar á reyndi hvað fólki þar vann góða vinnu og gerði sitt ítrasta til að lina þjáningar og þjóna lífinu. Hér með er þakkað fyrir þjónustu þeirra allra sem reyndust honum vel í veikindum hans.

Kristinn fór sínar eigin leiðir í lífinu og lærði að komast af í hörðum heimi. Hörð lífsbarátta í æsku mótaði hann og hafði áhrif á afstöðu hans til lífsins og samferðafólksins. Segja má að ekki hafi verið mulið undir hann en hann bjargaði sér vel. Hann átti það til að nota áfengi helst til um of framan af ævinni og var það ekki til að bæta samskipti hans við annað fólk en stundum gat hann þó notað það í hófi sjáflum sér til gleði.

Hann var fremur dulur og lokaður en hjálpsamur og góðviljaður þegar honum leið vel.

Nú þjáist hann ekki lengur. Ævinni er lokið. Lífsverkið að baki. Við höfum ekkert um það að segja hvor við fæddumst eða ekki, gátum hvorki valið okkur foreldra né aðstæður framan af ævinni en fullveðja og fullorðin eigum við þó val um margrt í lífinu en þó ekki allt. Enginn ræður sínum næturstað, segir á einum stað og fæstir ráða sinni dauðastund. Lífð hefur sinn gang. Við fæðumst og verðum að læra að takast á við lífið og verkefni þess. Svo verðum við aftur að mold, hverfum til þess uppruna sem er allra manna. Við erum fædd af þessari jörð, tilheyrum henni meðan við lifum og hvílum í henni að lífi loknu. Trúin segir að lífið eigi sér von um annað líf í himni Guðs, að það sem dáið er og kulnað geti vaknað að nýju. Nú eru svalir dagar í sumarbyrjun en þeir munu volgna með hækkandi sól og þá vaknar allt til lífsins á ný. Trén munu laufgast og fuglar skríða úr eggjum. Lífið vaknar og gróðurinn blómstra. Allt er það prédikun um hina kristnu von sem heldur fast í fyrirheitin um upprisu og eilíft líf.

Við felum Kristinn himni Guð og eilífð hans. Guð blessi minningu hans og Guð leiði og blessi ykkur sem honum voru tengd ástúðarböndum.

Dýrð sé Guði . . .

Amen.

Tilkynningar.

Postulleg blessun: Guð vonarinnar . . .

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.