Þann 1. maí, síðdegis, fór ég á hjólinu um Vesturbæinn, Þingholtin og Skuggahverfið. Á bakaleiðinni eftir heimsókn á gjörgæslu LHS við Hringbraut kom ég við á gatnamótunum við Hljómskálann og teiknaði mynd af Hljómskálanum og styttunni sem er í Hallargarðinum handan við gatnamótin. Sólin hafði lækkað mjög á lofti enda síðdegi og hitastigið undir frostmarki en litirnir voru tærir, himinninn blár og skær. Bjarkirnar eru enn króknaðar og fölar en þær munu vakna við vorsins yl.
Landið okkar er undurfagurt.
Og svo kemur sumarið í fyllingu sinni. Sumardagurinn fyrst er að baki en þá var fjúk og frost en svo mjakast sólin hærra og hærra og þá vaknar allt til lífsins á ný.
Fröken Reykjavík
Hver gengur þarna eftir Austurstræti
og ilmar eins og vorsins blóm,
með djarfan svip og ögn af yfirlæti
á ótrúlega rauðum skóm?
Ó, það er stúlka engum öðrum lík
það er hún fröken Reykjavík,
sem gengur þarna eftir Austurstræti
á ótrúlega rauðum skóm.
Og því er eins og hafi vaxið vorsins blóm
á stræti.
Hver situr þar með glóð í gullnum lokkum
í grasinu á Arnarhól,
svo ung og djörf í ekta nælonsokkum
en ofurlítið flegnum kjól?
Ó, það er stúlka engum öðrum lík
það er hún fröken Reykjavík
sem situr þarna ung í ekta sokkum
en ofurlítið flegnum kjól.
Á meðan skín hin bjarta heita sumarsól
af lokkum.
Hver svífur þarna suður Tjarnarbakka
til samfundar við ungan mann,
sem bíður einn á brúnum sumarjakka
hjá björkunum við Hljómskálann?
Ó, það er stúlka engum öðrum lík,
það er hún fröken Reykjavík
sem svífur þarna suður Tjarnarbakka
til samfundar við ungan mann,
sem bíður einn hjá björkunum við Hljómskálann
Hljómskálann.