Undarlegt er að upplifa hvernig kaupin gerast á eyrinni í aðdraganda kosninga. Annars vegar eru flokkarnir sem setið hafa á Alþingi með tæpa 400 milljónir frá almenningi í sjóðum sínum til að reka áróður fyrir starfi sínu allt árið. Hins vegar eru nýju framboðin auralaus á byrjunareit.
Stöðvar tvær og blað svindla
Þegar boðað hefur verið til kosninga eru allir frambjóðendur umboðslausir, sitjandi þingmenn, ráðherrar og aðrir. Allir eiga að sitja við sama borð. Kosningunum má líkja við maraþonhlaup. En sökum lýðræðishalla og þjónkunar fjölmiðla hafa sumir forskot, þ.e. þeir sem hafa peningana og fjölmiðlana. Þegar framboðin hafa komið fram í Sjónvarpinu síðustu vikur eru núverandi alþingismenn, einkum úr 4-flokknum og nýfæddu viðhengi hans boðið að tala. Svo fá smælingjarnir að tala. Ráðherrar eru teknir í drottningaviðtöl í byrjun þátta og svo gerast spyrlarnir einskonar ölmusugjafar gagnvart aumingjunum.
Á Stöð 2 eru menn svo ósvífnir að tala bara við fulltrúa þeirra framboða sem skv. nýjustu skoðanakönnum má ætla að nái mönnum á þing! Hinir eru ekki virtir viðlits. Þetta sama viðhorf hefur birzt í umfjöllun Fréttablaðsins þar sem flokksbundinn blaðamaður [Leiðréttist hér með að meintur flokksbundinn blaðamaður er ekki flokksbundinn. Beðiðst er velvirðingar á þeim mistökum höfundar] vill ekkert af nýju framboðunum vita nema því sem kennir sig við sjórán.
Fjölmiðlafólk í umfjöllun um kosningarnar er upp til hópa sekt um þjónkun við skrautfugla valdsins og þöggun gagnvart lýðræðinu.
Hafi þessi orð mín einhver áhrif á fjölmiðlafólk á það einkum þrjá kosti: 1. Að hunsa þessa grein, 2. bregðast ókvæða við eða 3. gera bragarbót á dónaskapnum.
Fjölmiðlafólk verður að svara þessari ádrepu en sá böggull fylgir þó skammrifi hvað það sjálft varðar að sama hvert svarið verður þá sannar það sektina.
Ef ekkert gerist og greinarhöfundur verður látinn gjalda skoðana sinna og orða og Lýðræðisvaktin verður áfram hunsuð þá hef ég þetta að segja um fólk sem traðkar á lýðræðinu og opinni umræðu:
Sýnið sómakennd og takið pokann ykkar. Finnið ykkur eitthvað annað að gera.
– – –
Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. apríl 2013.