Ragnheiður Böðvarsdóttir 1921-2013

RagnheidurBodvarsdottirMinningarorð

Ragnheiður Böðvarsdóttir

1921-2013

Útför í Fossvogskapellu

fimmtudaginn 18. apríl 2013 kl. 13

Jarðsett í Gufuneskirkugarði

Ræðuna er hægt að lesa hér fyrir neðan og svo má líka hlusta á hana með þvi að smella á þríhyrninginn.

Ég heimsótti æskuslóðir mínar fyrr í vikunni og þá rifjaðist margt upp. Sumt var þar breytt en þó ekki allt því lífið er í raun eins í grunninn frá degi til dags, frá ári til árs, öld af öld. Lífið snýst um að lifa, að hafa í sig og á, að annast ástvini, að elska Guð og náungann eins og sjálfan sig. Þegar Nóaflóðinu slotaði sem sagt er frá í Biblíunni mælti Drottinn fram þessi orð:

Svo lengi sem jörðin stendur

skal hvorki linna sáningu né uppskeru,

frosti né hita,

sumri né vetri,

degi né nóttu

Lífið heldur áfram og það gengur sinn vana gang.

Líf Ragnheiðar var í föstum skorðum alla tíð. Hún sinnti sínum verkum af alúð og trúmennsku, stundaði sína vinnu, annaðist manninn sinn, börn sín og barnabörn, hélt sambandi við ættingja og vini. Heimur hennar var Reykjavík og lengst af bjó hún á sama stað á Melunum. Þar er gott að búa og starfa. Vinnustaðir hennar voru aldrei fjarri, skólar barnanna handan torgsins og allt í seilingarfjarlægð. Hún var farsæl kona sem lifði góðu lífi og hefur nú lokið sínu dagsverki. Við kveðjum hana með virðingu og þökk.

Ragnheiður fæddist í Reykjavík 17. ágúst 1921.

Hún lést á Landspítalanum Fossvogi 2. apríl 2013 en hafði áður dvalið á Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund um nokkurt skeið.

Foreldrar Rögnu eins og hún var alltaf kölluð voru Böðvar Jónsson, Húnvetningur að ætt og uppruna d. 1954 og Guðrún Skúladóttir Skagfirðingur d. 1965.

Systkini Rögnu voru Jón, Gunnar, Ingibjörg og Sigurbjörg en þau eru öll látin.

Hinn 8. apríl 1950 giftist Ragna Jóhanni L. Sigurðssyni loftskeytamanni f. 20. febrúar 1924 d. 2. september 2009.

Börn Rögnu og Jóhanns eru Birna og Gunnar.

1)Birna f. 23. mars 1954, maki Ásgeir Jónsson f. 30. október 1951. Börn þeirra eru: a)Jóhann Örn f. 24. ágúst 1970 maki Guðný Guðnadóttir f. 17. maí 1970 og eru börn þeirra Aron f. 24. júní 1998, Birna f. 11. júní 2001 og Atli f. 12. maí 2012. b)Ragnheiður f. 6. mars 1978 maki Heiðar Þórhallsson f. 21. júní 1970 og barn þeirra er Viktoría Líf f. 14. janúar 2013 c)Sturla f. 20. júlí 1980.

2)Gunnar f. 14. september 1955 maki Marta Loftsdóttir f. 19 mars 1955. Börn Gunnars eru a)Árni Beck f. 28. febrúar 1978 maki Mie Rasmussen f. 28. apríl 1973 og börn þeirra eru Rósa Sif f. 30. júlí 2009 og Silja Björk f. 9 desember 2011. Mie sendir ykkur kveðju sína og barnanna. b)Guðrún Björg f. 9. nóvember 1980 maki Pétur Ingi Pétursson f. 2. janúar 1974 og börn þeirra eru Ingunn Lind f. 24. febrúar 2006 og Emil f. 2. febrúar 2009. Synir Mörtu og fóstursynir Gunnars eru a)Hörður f. 22. janúar 1981 hans börn eru Högni Alvar f. 25. apríl 2004 og Vigdís Elfur f. 15. júní 2006 b)Finnur f. 1986.

Ragna fæddist að Laugavegi 73, bjó hjá foreldrum sínum á ýmsum stöðum í Reykjavík, en skólagangan var þó yfirleitt í Austurbæjarbarnaskóla. Nokkur sumur var hún í sveit í Mýrdal og unni hún þeim slóðum alla tíð. Ragna hóf ung störf í Reykjavíkurapóteki og síðan í Ingólfsapóteki en lengst af starfaði hún í Vesturbæjarapóteki ásamt því að vinna í Melaskóla.

Hún var hlý manneskja og hjálpleg og vildi allt fyrir aðra gera. Hún var félagslynd og tók þátt í starfi aldraðra að Aflagranda og Árskógum. Hún keyrði bíl fram eftir öllu og safnaði gjarnan vinkonum með sér til að sækja dagskrá á fyrrnefndum stöðum.

Börn hennar segja að hún hafi kennt þeim margt gott og lagt að þeim að vera þau sjálf, vera heiðarleg, sýna hlýju og góðmennsku gagnvart öllum. Segja má að hún hafi kennt þeim að lifa eftir hinni Gullnu reglu Jesú Krists:

Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera.

Ragna var lífsglöð manneskja en alvörugefin undir niðri. Börnin minnast þess hvað hún gat oft verið kát og gamansöm og til í að gantast við þau.

Hún var alltaf til staðar og hagaði sinni vinnu þannig að hún gat verið heima þegar þau kæmu úr skóla því hún vildi ekki að þau kæmu að tómu húsi. Hún reyndist barnabörnunum vel og gætti þeirra oft og langmömmubörnin voru líka hjá henni, einkum það elsta en Jóhann og hún voru um tíma dagforeldrar fyrir drenginn.

Ragna var ræktarsöm við fólk og minningu þeirra sem hún hafði kynnst á lífsleiðinni. Hún fór oft að gröfum formæðra sinna og feðra, velgjörðarmanna og vina og lagði á þær rósir. Oft fór hún í Mýrdalinn þar sem hún hafði verið í sveit og vitjaði þá grafa fólksins sem hún var hjá og þótt alla tíð vænt um. Nýlega spurði hún hvort ekki yrði farið í Mýrdalinn í sumar. Rifjað var upp í mín eyru að orðin gömul hoppaði hún milli þúfna í Mýrdalnum og hljóp við fót og lék sér við ölduna í Reynisfjöru. Hún kom einnig við í Skagafirði og lagði rós á leiði afa síns og ef hún vissi af ferðum barna sinna eða ættingja á þeim slóðum þá bað hún að heilsa norður og átti þá við að skila bæri kveðju í kirkjugarðinn.

Fjölskyldan vill færa Sólveigu þakkir fyrir elskusemi hennar alla tíð við fjölskylduna og ennfremur ræktarsemi systkinabarna Rögnu sem heimsóttu hana oft og allt til hinstu daga.

Lífið er vegferð frá fæðingu til grafar. Af jörðu ertu kominn, að jörðu skaltu aftur verða.

Svo lengi sem jörðin stendur

skal hvorki linna sáningu né uppskeru,

frosti né hita,

sumri né vetri,

degi né nóttu

Og enn fæðist fólk, lifir og deyr í henni Reykjavík. Á Melunum verða skólarnir brátt hljóðir þegar börnin fara í sumarfrí. Þá taka fuglarnir við og syngja þar til börnin koma aftur með sína söngva, hróp og köll að loknu sumri. Borgin iðar af lífi og öll bíðum við sumarsins blíða þegar trén laufgast á ný og jörðin verður iðjagræn og hlý. Lífið rís upp af dauða. Þannig er það í náttúrunni og þannig sér kristin trú fyrir sér nýtt líf í ríki Guðs.

Við felum Ragnheiði Böðvarsdóttur þessu eilífa ríki Guðs og biðjum henni blessunar um eilífð.

Blessuð sé minning hennar og Guð blessi okkur á lífsveginum og gefi okkur öllum gleði og gott líf.

Amen.

– – –

Jarðsett verður í Gufunesi.

Erfisdrykkja á Hotel Natura – (Hótel Loftleiðir)

Beðið með jarðsetningu þar til erfisdrykkju lýkur. Við munum hittast í Gufunesi kl. 15.30.

Minningarorðin verða birt . . .

Takið postullegri kveðjur:

Guð vonarinnar . . .

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.