Lovísa Einarsdóttir 1943-2013

lovisaeinarsdottirMinningarorð
Lovísa Einarsdóttir
fv. íþróttakennari
1943-2013

Útför frá Vídalínskirkju
föstudaginn 12. apríl 2013 kl. 15
Jarðsett í Görðum

Þú getur lesið ræðuna hér fyrir neðan
og einnig hlustað.

Í Garðabæ eru þúsundir kvenna á öllum aldri saman komnar. Eiginkona mín, dóttir og tengdamóðir eru mættar og dótturdóttir í kerru. Margar kynslóðir taka þátt. Lovísa er á pallinum þar sem hún ávarpar hópinn og lætur konurnar gera æfingar. Svo leggja þær í hann. Hópurinn liðast af stað í rauðum treyjum og hreyfist eins og bylgja á sæ, eins og aldan forðum daga við Ívarssel í Vesturbænum þar sem hún ólst upp.

Kvennhlaupið er hafið.

Ævintýrið orðið að veruleika.

Lífið er hlaup eins og séra Hallgrímur orðar það:

Svo hleypur æskan unga
óvissa dauðans leið
sem aldur og ellin þunga,
allt rennur sama skeið.
Innsigli engir fengu
upp á lífsstunda bið,
en þann kost undir gengu
allir að skilja við.

Lífið er hlaup og það endar í einu og sama markinu hvað okkur öll vaðrar, markhliðinu sem enginn vill í raun fara í gegnum. En við verðum. Við komumst ekki hjá því að fara þessa leið.

Lovísa hefur lokið sínu lífshlaupi.

Í Húsfreyjunni, tímariti Kvenfélagasambandi Íslands birtist viðtal við hana fyrir 5 árum (3. tbl. 59. árg. 2008). Þar segir hún frá uppvexti sínum hjá mömmu, afa og ömmu og fleira frændfólki í Ívarsseli vestast í Vesturbænum. Þar var fjaran og sjórinn. Þar breyttist umhverfið eftir sjávarföllum. Hægt var að fara út í Örfirisey á fjörunni og horfa á sama stað sem eyland eftir aðfallið.

Lovísa fæddist í Reykjavík 18. ágúst 1943. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 31.mars 2013

Foreldrar hennar voru Einar Jóhannsson (f. 27.3. 1921, d. 10.7. 1984) og Áslaug Einarsdóttir, (f. 3.2. 1920, d. 16.3. 1984). Samfeðra systkini Lovísu eru:

Elísabeth, f. 14.11. 1949,
Einar, f. 20.8. 1951,
Margrét, f. 26.4. 1953,
Konráð, f. 7. 2. 1955 og
Kristinn, f. 15.2. 1956.

Lovísa giftist árið 1964 Óskari Hafsteini Karlssyni framkvæmdastjóra, f. 15.2. 1935. Þau skildu árið 1987.

Börn þeirra
Áslaug, f. 22.12. 1965, tannlæknir, maki Ingólfur Einarsson læknir, f. 28.10. 1968. Synir þeirra: Óskar, f. 3. 9. 1997 og Davíð Einar, f. 2.5. 1999,

Dóra Sif, f. 12.10.1969 sjúkraþjálfari, maki Helge Lavergren, f. 3.12. 1970. Synir þeirra: Karl Ívar, f. 25. 4. 2004 og Magnús Örn, f. 10.1. 2007,

Ívar Helgi, f. 17.9. 1971, d. 17.8. 1991.

Eftirlifandi eiginmaður Lovísu er dr. Ingimar Jónsson, f. 19. 12 1937.

Lovísa var íþróttakennari og sjúkraliði að mennt. Hún kenndi kvennaleikfimi í Garðabæ í mörg ár, m.a. á vegum UMF. Stjörnunnar. Hún stjórnaði leikfimihópum kvenna um langt skeið og fór með þá á mörg alþjóðamót. Um árabil var hún leiðbeinandi í heilsurækt aldraða á Hrafnistu í Hafnarfirði. Árið 1989 stofnaði hún til heilsuræktar kvenna sem gengist höfðu undir aðgerð vegna brjóstakrabbameins. Var hún brautryðjandi á því sviði hérlendis. Síðustu árin starfaði hún sem leiðbeinandi í heilsurækt og samskiptafulltrúi á Hrafnistu í Hafnarfirði og á hjúkrunarheimili Hrafnistu við Boðaþing.

Lovísa var formaður Fimleikasambands Íslands árin 1981-1985. Hún átti sæti í stjórn Íþróttasambands Íslands 1986-1996 og starfaði í mörgum nefndum á vegum þess. Hún var einn helsti frumkvöðull Kvennahlaups ÍSÍ árið 1990 og sat í undirbúningsnefnd þess í mörg ár. Hún átti sæti í bæjarstjórn Garðabæjar árin 1998-2002 (varabæjarfulltrúi 2002-2006) og starfaði í mörgum nefndum á vegum bæjarins, m.a. í menningarmálanefnd og stjórn Hjúkrunarheimilisins Holtsbúð í Garðabæ. Hún var virk í starfi Kvenfélags Garðabæjar og Norræna félagsins í Garðabæ.

Lovísa ritaði margar greinar um íþróttir og málefni aldraðra í dagblöð og tímarit.

Hún hlaut margar viðurkenningar fyrir störf að félags-og íþróttamálum. Hún var sæmd fálkaorðunni og svo veitti Alþjóðaólympíunefndin henni sérstaka viðurkenningu. Hún hlaut gullmerki ÍSÍ og Samhjálpar kvenna og var kjörin heiðursfélagi ÍSÍ.

Lovísa var kona með mikla útgeislun. Hún hafði bjartan svip og fallegt bros, var glaðleg í hegðun og háttum og hafði yndi af félagslífi. Ættingjar og vinir hennar rifja upp glaðværð hennar, áhugan sem hún hafði á fólki. Hún var hrein og bein í samskiptum sínum við fólk og í henni var enginn hringlandi, heyrði ég sagt um hana. Hún hafði mikinn metnað í starfi og þegar hún þjálfaði hópa þá lagði hún sig alla í það. Eitt sinn var hún með fimleikahóp í keppni í Svíþjóð og þegar kom að hópnum hennar að sýna var farið að rigna sem hellt væri úr fötu, pallurinn allur í pollum og aðstæður orðnar ókræsilegar. Þá sagði Lovísa við stelpurnar: Allt fyrir Ísland! Og þær tóku áskorun leiðtogans og veltu sér upp úr regnvotum pallinum og kláruðu sínar æfingar með sóma. Hún hafði leiðtogahæfileika og gat blásið fólki hugrekki í brjóst.

Dætur hennar voru í fimleikum og hún fylgdi þeim vel eftir í þeim efnum og hvatti þær til dáða.

Þær minnast mömmu fyrir léttleika hennar og metnað, fagmennsku og vandvirkni í störfum. Hún gladdi marga og var gestrisin. Þær sakna mömmu og barnabörnin einnig, sakna þeirra stunda sem hefðu getað orðið en urðu ekki og verða ekki úr þessu.

Íþróttir, einkum fimleikar, voru hennar helsta áhugamál. Hún var minna fyrir kappleiki. Hún byrjaði seint í golfi en sú íþrótt náði tökum á henni að lokum og hún naut þess að leika golf hin síðari árin.

Lovísa kom víða við og hún átti mörg áhugamál, var fjölhæf og íhugul. Hún orti t.a.m. ljóð og nú fáum við að heyra tvö þeirra. Saga Jónsdóttir leikkona les:

Vetrargjöf

Spúandi fannfergið
spókar sig valdsmannslega
hvítfætt.
Varpað á veg út
vorlitu korni.
Flykkist skæðadrífan
í sólgula saðninguna.

Heiðgul sáðbreiðan
heimti herskara
vængjaðra lítilmagna.
Tifuðu ótt og títt
í tunglgulu dalverpi.
Styggð.
Hurfu með hörgulum hraða ljóssins.
Græn-gular lævísar glyrnur
drápu tittlinga.

Spor á vatni

Ósnortin snjóbreiðan
hylur botnfrosið vatnið
sem ég geng á.

Marrið við hvert spor
andmælir
heillandi kyrrðinni.

Lít til baka
visnir brúskar á stangli
marka skil á láði og legi.

Í þíðunni munu spor mín
bráðna, – hverfa.
Sökkva til botns
í vaknandi lífríkið.

Ríkið sem svaf undir
drifhvítri sæng
og mynstruð var
marrandi fótsporm mínu.

Eins og ljóðin bera með sér bjó í Lovísu í senn alvara og gleði, dýpt og lífsleikni. Lovísa var hrókur alls fagnaðar á fundum þeirra félaga sem hún starfaði í og ef árshátíð var haldin var hún gjarnan í hlutverki skemmitkraftar og gerði að gamni sínu með góðum vinkonum. Lovísa var mjög söngelsk, og tók oft lagið með vinkonum sínum. Einnig var hún mikill leikhús- og listunnandi og fór oft í leikhús og á listsýningar.

Hún hélt vel utan um hópana sína eins og t.d. konurnar sem höfðu fengið brjóstakrabbamein og fundu nýjan lífskraft í leikfimi með Lovísu. Hún eignaðist margar vinkonur í sínu starfi. Kvennahlaupið er kapítuli út af fyrir sig en þar átti Lovísa stóran þátt. Kvennahlaupið jók hróður Garðabæjar og er viðburður sem í senn eflir og gleður konur og þau öll sem unna dugnaði kvenna, áræðni þeirra og krafti.

Lovísa ólst upp hjá móður sinni, ömmu og afa í Ívarsseli en þar bjó stórfjölskyldan. Hún sagðist hafa mótast mjög af hinum eldri. Mamma vann í mjólkurbúðinni á horni Ránargötu og Ægisgötu og afi stundaði róðra, veiddi rauðmaga og grásleppu og þurrkaði hausa í skúr norðan við húsið sem nú er geymt í Árbæjarsafni. Amma ræktaði matjurtir, kartöflur, kál, rabarbara og auðvitað blóm til að skreyta heimilið og gefa lífinu lit. En svo var hún líka hjá föðurfólki sínu á Vatnsleysuströndinni, hjá Lovísu föðurömmu og fólkinu hennar á Brunnastöðum. Hún mótaðist líka af því fólki enda þótt hún kynntist ekki hálfsystkinum sínum í föðurætt fyrr en hún var komin fast að tvítugu. Þann systkinahóp þekki ég af góðu einu frá bernskudögum mínum á Ísafirði þar sem Einar var skipstjóri, hár og myndarlegur maður. Kona hans var Elisabeth Jóhannson, kölluð Bettý (f. 27.apríl 1916 d. 19.september 1998). Þau gengu í hjónaband 1946 en Einar sigldi oft til Englands og í Grimsby var fiskkaupmaður sem hann átti viðskipti við. Dóttir hans ung og fögur vann á skrifstofunni og Einar futti hana með sér til Íslands eins og víkingarnir gerðu forðum frá Bretlandseyjum. Þegar ég löngu eftir að ég flutti að vestan kynntist Lovísu og komst að því hver faðir hennar var sá ég strax skyldleika hennar við sytskini hennar að vestan. Þau báru alla tíð mikla virðingu fyrir Lovísu og höfðu góð samskipti við hana eftir að þau uxu úr grasi og uppgötvuðu þessa borsmildu og kröftugu stóru-systur. Söm var afstaða Einars og Bettyar til dótturinnar og umhyggjan þeirra óx með árunum.

Lovísa rifjaði það upp í fyrrnefndu blaðaviðtali að hafa sofnað á kvöldin sem barn í Ívarsseli við sog öldunnar.

Og enn leikur aldan sér við ströndina þar sem Ívarssel stóð. Nú er allt breytt við þá strönd en aldan er söm við sig.

Lífið heldur áfram og við sem hér kveðjum erum enn þáttakendur í lífshlaupinu. Markið er framundan. Hvernig ætlum við að mæta í markið? Kirkjan minnir gjarnan á skírnina og skírnarkjólinn. Hann er að vísu ekki sniðinn sem íþróttaflík en hann minnir á að við vorum íklædd Kristi í heilagri skírn, umvafin elsku hans. Skírnin er sá búningur sem dugar líklega best þegar við förum um markhliðið og ljúkum síðustu metrunum í lífshlaupinu. Hann er búningur fyrir þá íþrótt lífsins sem fólgin er í hinu tvöfalda kærleiksboðorði Jesú Krists um að elska Guð og náungann eins og sjálfa/n sig.

Lífshlaupið er í senn kvennahlaup og karla, hlaup allra, sem njóta þeirrar hamingju að hafa fæðst og fengið tækifæri að lifa. En lífið er verkefni og stundum erfitt. Við erum leidd um marga stigu í þessu lífi og margt kemur okkur á óvart, bæði atvik og svo líka samferðafólkið. Flestir reynast okkur vel meðan aðrir bregðast. En einn er sá sem engum bregst og það er Kristur, hverjum þetta hús er helgað. Hér hljómar boðskapur hans um huggum og styrk í mótlæti og þjáningum lífsins.

Lífið tekur enda og ég minni á brot úr ljóði Lovísu þar sem hún segir:

Í þíðunni munu spor mín
bráðna, – hverfa.
Sökkva til botns
í vaknandi lífríkið.

Lovísa hafði sína sýn á samhengi lífsins og hringrás.

Megi líf hennar sem nú hverfu í djúpið, í öldu aldanna, vekja nýja von og trú í „vaknandi lífríki“ sálna okkar allra og gefa huggun, styrk, líkn og lækningu meina og sára.

Við þökkum Guði fyrir góða konu sem hér er kvödd og biðjum henni allrar blessunar. Megi Guð blessa fólkið hennar og okkur öll í lífshlaupinu mikla. Guð gefi að við keppumst eftir því að komast í mark með góða samvisku í farteskinu og góð verk að baki.

Hlaupið stendur enn yfir og við erum dropar í þeirri öldu sem hreyfist og bylgjast um lífsveginn. Lífið er stutt en lífið er magnað. Njótum þess meðan dagur er.
Guð blessi minningu Lovísu Einarsdóttur og Guð blessi þig.

Amen.

– – –

Kveðja frá Elisabetu systur Lovísu og Ágústi manni hennar sem eru stödd í Svíþjóð.
Lára Betty, Skafti og börn sem eru við nám í Þrándheimi biðja fyrir kveðju til frænku og fjölskyldu.
Kveðja frá Dagnýju (Ellingsen) og Garðari (Sigurgeirssyni) sem búa á Spáni.
Kveðja frá Jenfrid H. Wheeler sem býr í Bandaríkjunum.
Kveðju sendir Agnes Tanja Þorsteinsdóttir sem er við söngnám í Vín.
Einnig Arnór Ingimar Þorsteinsson og fjölskylda í Bandaríkjunum.
Heiða Dögg Arsenault (frb. arsenáld) og fjölskylda í Noregi biður fyrir kveðju og einnig Jóhann Heiðar Sigtryggsson og fjölskyldur hans á Akureyri, Saga Árnadóttir, Margrét Stefánsdóttir og fjölskylda og Kristín Svava Stefánsdóttir og fjölskylda.

Jarðsett verður í Görðum. Kistan verður borin út og þar gefst öllum tækifæri til að signa yfir, heilsa ættingjum og votta þeim samúð.
Minningarorðin verða birt á vefsíðu minni . . .

Takið postullegri blessun:
Guð vonarinnar fylli ykkur öllum fögnuði og friði í trúnni svo að þið séuð auðug að voninni í krafti heilags anda.
Amen.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.