Ég var að ferma í kirkjunni minni á kosningavori 2013 þar sem fjölmenni var til staðar í hverri messu. Nær allir gengu til altaris og tóku þátt í hinni einföldu og táknrænu máltíð sem altarisgangan er. Í kirkjunni eru allir við sama himinsborð. Þessi hugsun um jafnræði er gömul og hefur fylgt kristninni frá fyrstu tíð enda þótt mannfólkið hafi streizt við í aldanna rás hvað varðar umbætur og mannréttindi. En hugsjónirnar um betri heim eru þar allar til staðar. Hugsjónirnar skortir ekkert en mannfólkið margt. Í upphafsorðum frumvarps að nýrri stjórnarskrá segir:
„Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð.“
Stjórnmálin snúast um mannlífið, um kjör fólks og aðstæður. Hugsjónirnar skortir ekki en framkvæmdir mistakast oft og efndir fara gjarnan forgörðum. Sporin hræða, spor hinna þreyttu og þrasgjörnu, sem setið hafa í löggjafarsamkundunni á liðnum árum og áratugum og sett þjóðinni leikreglur.
Hvernig væri nú að skipta algjörlega um fólk á þingi, skipta út gömlu flokkunum með sína skuggasögu? Síðasta þing færði okku heim sanninn um að óeining var þar ríkjandi, flokkadrættir miklir og sérhagsmunagæsla sumra þingmanna á háu stigi. Þingmaður nokkur afhjúpaði veru sína á þingi og sagðist hafa haft það sem helsta verkefni í 4 ár að fella stjórnina. Og nú spyr ég: Var hann kosinn á þing fyrir land og þjóð eða til skæruhernaðar? Til hvers annars eru þingmenna en að gæta hagsmuna heildarinnar? Vilt þú sérhyggna þingmenn? Viltu fólk sem skarar eld að eigin köku? Viltu fólk sem vill viðhalda lénsveldi á Íslandi þ.e. viðhalda forréttindum hinna fáu á kostnað fjöldans? Eða viltu hér réttlátt og sanngjarnt þjóðfélag sem lifir og leikur sér sem ein fjölskylda í gleði og hamingju? Hvað ætlar þú að velja í vor?
– – –
Mynd: Sigurður Árni Þórðarson.