
Við setjum gjarnan borða utan um gjafir og bindum á slaufu. Slíkt gleður augað. Þannig slaufa er nafnorð.
En svo er það sögnin að slaufa sem er einnig til í samsettu orðunum slaufunarmenning, slaufunarárátta, á ensku cancel culture sem stundum leiðir nánast til aftöku persónu þó hún haldi samt lífi.
Á samfélagsmiðlum verða margir fyrir því að þeim er slaufað vegna skoðana sinna og tjáningar. Sjálfur hef ég ítrekað orðið fyrir því.
Hvað merkir að slaufa einhverjum? Í því felst yfirlýsing um andstöðu við skoðanir og fyrirlitning getur einnig verið þar á ferð.
Við höfum líklega öll slaufað einhverjum og jafnvel tekið aftur til baka og snúist hugur.
Hvað ber að varast í tengslum við slaufun?
Mestu skiptir að skilja á milli persónu og skoðana, greina að manneskju og meiningar.
Ung kona í stjórnmálum, Hlédís Maren Guðmundsdóttir, tjáði sig um að kynsystur hennar á vinstri væng stjórnmála væru mjög gjarnar á að slaufa öðrum, hverra skoðanir þeim líkar ekki. Upplifun mín rímar við þessa lýsingu hennar og þá er ég með í huga bæði karla og konur. Auðvitað hrjáir þetta ekki bara vinstrafólk heldur er þetta hegðun sem hrjáir okkur öll í einhverjum mæli. En samt held ég að hugmyndafræði vinstrisins geti haft hér einhver áhrif og þá er það líklega vegna skorts á skilningi á grundvelli vestrænnar menningar.
“Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, birti … eins konar uppgjörspistil við slaufunaræðið sem gekk yfir Ísland fyrir nokkrum árum – það hafi ekki verið í lagi.
[…]
Að sögn Helga Hrafns gerist þetta stundum í mannlegu samfélagi, að „krítískur massi af snarbrjáluðu fólki“ nái einhvern veginn yfirhöndinni. Og að það komist tímabundið í tísku að vera fullkomlega ógeðslegur við annað fólk.” (visir.is 23.12.2025)
Merkileg greining á sjúku samfélagi.
Og hvað er þá til ráða?
Skoðum snöggvast það sem skiptir hvað mestu í lífinu. Hvað segir maðurinn sem breytt hefur heiminum til góðs, meir nokkur annar?
Í Markúsarguðspjalli 12.28-34 er fjallað um æðsta boðorðið. Skoðum það.
28 Þá kom til Jesú fræðimaður einn. Hann hafði hlýtt á orðaskipti þeirra og fann að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: „Hvert er æðst allra boðorða?“
29 Jesús svaraði: „Æðst er þetta: Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. 30 Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. 31 Annað er þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ekkert boðorð annað er þessum meira.“
32 Fræðimaðurinn sagði þá við Jesú: „Rétt er það, meistari, satt sagðir þú. Einn er Guð og enginn er Guð annar en hann. 33 Og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og elska náungann eins og sjálfan sig, það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira.“
34 Jesús sá að hann svaraði viturlega og sagði við hann: „Þú ert ekki fjarri Guðs ríki.“
Og enginn þorði framar að spyrja hann.
Að elska skiptir mestu, elska Guð og náungann. Hljómar vel og virkar einfalt – en er það svo í raun?
Fyrst þurfum við að gera okkur grein fyrir því að manneskjan er eitt og skoðanir hennar annað. Við eigum beinlínis að elska náungann en við þurfum ekki endilega að elska skoðanir hans. Þetta er gríðarlega mikilvægt.
Í fótboltanum má fara í boltann en ekki manninn, í mannlífinu í skoðanirnar en ekki manneskjuna. Einhver sem er annarrar skoðunar en ég, á rétt á virðingu sem manneskja, því tilvist okkar allra er söm, við erum öll manneskjur, karlar og konur.
Fólk sem Slaufar með stórum staf lætur sér ekki nægja að sparka í boltann heldur vill það jafnframt leyfa sér að sparka í manneskjuna. Og það er ekki til siðs í lífsleiknum, segir dómarinn á leikvanginum stærsta og mesta.
Getum við verið sammála um að gott væri að æfa sig í að halda þessu aðskildu, persónu og skoðunum?
Gæti það bætt menninguna ef við létum okkur nægja að sparka bara í boltann en létum það vera að dæma manneskju sem er á annarri skoðun sem óalandi og óferjandi?
Tjáum okkur skýrt um skoðanir, skrifum greinar, tölum við fólk, rífumst og rökræðum, en virðum hvert annað vegna þessa að við erum öll manneskjur, breyskar og syndugar. Og nú fara sumir lesendur kannski í baklás þegar presturinn minnist á syndina. Sumt fólk er þannig að það virðist hulið einhverskonar goretexvörn sem gerir það ófært um að ræða allt af viti sem kemur úr ranni kristinnar trúar. Orðið synd í Nýja testamentinu merkir nefnilega geigun. Maður þenur bogastreng, miðar, sleppir örinni, en missir marks, knattspyrnukappinn tekur vítaspyrnu en brennir af. Þannig erum við. Við erum gjörn á að missa marks. Syndin er að fara ekki eftir leikreglum lífsins, hafa kærleikann ekki í fyrirrúmi, gleyma að elska náungann og fara þannig á svig við sannleikann sjálfan og það með strórum staf – „S“.
Munum leikreglurnar. Sparka í boltann og reyna að skora en láta það vera að sparka í manninn.
Slaufum skoðunum en ekki manneskjum.
You must be logged in to post a comment.