Rupert Shortt í The Spectator á jóladag 25. desember 2025

Þó að sýnin á jólin sé stöðnuð og gölluð, þá dregur dálkahöfundur The Guardian [einn af leiðandi miðlum til vinstri í Bretlandi], Polly Toynbee, saman röksemdir efahyggjumanna á afhjúpandi hátt. Bókin, sem kom út fyrir þremur árum, er yfirgripsmikil. Þar er tekist á við neikvæða gagnrýni sem komið hefur fram árlega í desembermánuði af hálfu bandamanna efans áratugum saman. „Eins og mér milslíkar flest í kristinni trú, þá er táknmyndin af stjörnu, fjárhúsi, jötu, konungum og hirðum, sem heilsa nýju barni, alheimstákn mennskunnar … En restin finnst mér andstyggileg. Hvers vegna að bera á sér tákn barbarískrar pyntingar? Píslarvætti er andstyggileg dyggð, eins og að leggja á sig ævarandi sektarkennd.“
Sannfæring kristninnar er sú að Guð endurskapi mannlegt eðli með varnarlausri ást, frekar en með því að búa til fána á himnum með áletruninni „ÉG ER HÉR, FÍFLIN YKKAR“.
Toynbee setur síðan fram sína eigin hetjulegu goðsagnagerð um „ofstækisfulla frumkristna, sem leyfðu enga villutrú, brutu niður musteri og brenndu forna klassíska texta“. Næstum allar þessar fullyrðingar eru annað hvort byggðar á misskilningi, eru einsýnar eða beinlínis ósannar. Samt sem áður dafna slíkar frásagnir.
Hvernig getur einlægt trúað fólk svarað slíku í samhengi sem viðurkennt er að einkennist af háværum og illa upplýstum gagnrýnendum? Í fyrsta lagi með því að skoða sögulegar og andlegar fullyrðingar. Toynbee gefur heildarsögu kirkjunnar hræðilegan dóm. Lestu skrif raunverulegra sérfræðinga á þessu sviði eins og Tom Holland eða David Bentley Hart eða Lucy Beckett, til samanburðar, og þá færðu séð hvernig túlkun fylgjenda Jesú bætti heiminn. Trúarbrögð fyrir Krist kváðu reglulega á um sjálfsskaða og mannfórnir. Hinir veiku voru fyrirlitnir. Áhersla kristninnar á róttækt jafnrétti allra og stofnun sjúkrahúsa, skóla og annarra góðgerðarstofnana var sannarlega byltingarkennd. Löggjöf sem sett var undir rómverskum keisurum t.d. Þeódósíusi II og Konstantínusi lyfti upp stöðu kvenna. Jafnvel þrælahald – stofnun sem var sameiginleg öllum samfélögum fyrir okkar tíma og náði ákveðnu stigi auðsöfnunar – var lýst sem guðlasti strax á fjórðu öld af hinum áhrifamikla hugsuði Gregoríusi frá Nyssa. Rit hans áttu traustar rætur í Nýja testamentinu.
Upptalningin heldur áfram: þrátt fyrir þrálátar kvartanir um meintan ósamrýmanleika vísinda og trúarbragða er það engin tilviljun að nútímavísindi urðu til meðal kristinna hugsuða. Kópernikus, Kepler, Galileó, Descartes, Newton og Leibnitz voru allir einlægir trúmenn og snillingar.
Til að sýna Toynbee sanngirni þá eru efasemdir hennar dýpri. Henni finnst hin kristna heimssýn sem slík – sérstaklega hugmyndin um friðþægingu – fáránleg. Henni finnst kristnir menn grimmilega fordómafullir og svo virðast þeir einnig upphefja og dýrka sársauka og þjáningu. Ég efast ekki um að sumar túlkanir á krossfestingunni í kjölfar siðaskiptanna séu rangar eða óaðlaðandi. En þar sem engin þeirra er byggð á [á kenningum] fyrstu aldar er ekki hægt að flokka þær undir rétttrúnað. Frásögn Rowan Williams [fv. erkibiskups af Kantaraborg] af Golgata, er í senn hefðbundin og aðlaðandi og endurskilgreinir hlutina á eftirfarandi hátt:
„Sagan um líf og dauða [Jesú] biður okkur að líta á persónu sem stendur í vegi fyrir óbærilegri byrði haturs, ótta, sektarkenndar, ótta og tortryggni, sem steðjar að okkur og segir: „Hvað gerist ef ég horfist í augu við og innbyrði allt þetta í stað þess að miðla því áfram til annarra? Taktu eftir hvað getur gerst í kjölfarið. Treystu. Áhrifin gætu reynst vera meiri en þú hefðir getað gert þér í hugarlund.“
Þetta orðfæri teygir rætur sínar aftur um 1600 ár, til þess veruleika sem talinn er vera kjarninn í hinu mikla drama. Ekki Guð sem slíkur, heldur Guð „af“ Guði. Með öðrum orðum þá skvettist guðdómurinn frá eilífðinni yfir í heim tímans. Á þeim tíma þegar játningarnar voru samdar, voru kristnir sérstaklega þjálfaðir í því hvernig skilgreina mætti það, að hið heilaga hafi streymt inn í heiminn í gegnum Jesú, en skilið Guð eftir óbreyttan. Þegar einn logi er kveiktur af öðrum, logar uppsprettan jafn skært og áður.
Kannski kemur þessi vitund okkur á óvart og kastar okkur aftur inn í jólatímann. Toynbee missir einnig af mikilvægum tengslum milli jóla og páska. Fæðing Jesú hleypir af stokkunum endurskoðun á hugmyndum um Guð sem bæði trúaðir og vantrúaðir deila. Leggjum til hliðar um stund jólasöngvana sem fjalla um snjó og sætt barn. Hugsum frekar um orð [úr Níkeujátningunn frá 325] sem vekja hugann og sveigja: „Guð af Guði, ljós af ljósi, sannan Guð af sönnum Guði, getinn, ekki gjörðan … eða „Guðs kristni í heimi, krjúp við jötu lága.“
Þessa lífgandi hugmynd má orða beint út. Frá kristnu sjónarhorni er ekkert í Guði sem ei gefur eða deilir með öðrum. Guðdómlegt eðli heldur ekki aftur af sér á neinn hátt. Þetta nærir ekki aðeins trúna á „rök“ þrenningartrúarinnar – kenninguna um að líf Guðs sé eilíflega markað kærleiksríku sambandi – heldur gefur einnig í skyn hugmyndina um hæfni sköpunarverksins sjálfs til hins sama.
Trúarbrögðin kennd við Abraham eru sammála um að heimurinn sé gjöf sem endurspegli guðlegt örlæti. Þetta sjónarhorn er styrkt af formála Jóhannesarguðspjalls, þar sem fullyrt er að orð Guðs – guðdómleg skynsemi og viska – upplýsi allt mannkynið.
Þannig að í jólunum er í senn samfella og róttæk breyting í tímans rás. Í trú kristinna er eins og líf Guðs og verk séu rétt undir yfirborði veraldar sem brýst í gegnum skelina sem uppspretta. [Við Íslendingar þekkjum hverina sem rjúfa yfirborðið og streyma fram og verma]. Lykilatriði í kenningum kirkjunnar er að skapari okkar rjúfi ekki í sundur sköpunarverkið til að finna nýja leið til að vera með okkur. Hinn guðlegi kraftur starfar ekki með því að brjótast inn í heiminn, heldur með því að metta hann innan frá. Skýr útgáfa af boðskapnum kemur fram í sálminum ‘Englakór frá himnahöll’ [‘Hark the Herald Angels Sing’: ‘Veiled in flesh the godhead see, hail the incarnate deity . . . Pleased as man with man to dwell.’]
Í grunninn er því sannfæring kristinnar trúar sú, að Guð endurskapi mannlegt eðli með varnarlausri ást, frekar en með því að búa til fána á himni með áletruninni „ÉG ER HÉR, FÍFLIN YKKAR“, eins og bókmenntagagnrýnandinn Terry Eagleton hefur kaldhæðnislega sakað Richard Dawkins og aðra nýtrúleysingja um að krefjast. Í stuttu máli felst hátign Guðs í járyrði hans um að verða sköpun, samþykki sem finnur sitt nauðsynlega rými í vilja Krists um að lifa og deyja lífinu og dauðanum sem honum var úthlutað. Þessi tvö samþykki eru órjúfanlega tengd, þar sem mannlegur vilji verður – í frægri líkingu – að „tungu“ hins guðdómlega vilja.
Aðra gamla myndlíkingu má nota: meistarasmiður, sem horfir á skemmt hljóðfæri, gæti sagt að hann gæti gert við það með lími. En límið muni ekki ná því sem það er fært um að gera nema handverksmaðurinn vinni fyrst með áferð viðarins. Hér liggur fyrir riss af holdgunartrú – og í gegnum hana byltingarkennda trú sem vert er að taka alvarlega, hvort sem maður samþykkir hana í eigin persónu eða ekki.