Svala Björk sem býr á meginlandi Evrópu er fimmtug í dag, 15. desember, dóttir okkar Bjarnfríðar Jóhannsdóttur.
Þegar hún fæddist á Fæðingarheimili Reykjavíkur var Borgin á kafi í snjó um morguninn, veður stillt og allt eins og mynd á jólakorti.
Borgarbúar risu á fætur og fóru á stjá, mörkuðu fótspor í snjóinn og bifreiðar skáru hjólför sín í fegurðina.
Veröldin eins og ævintýraheimur og gjöf lífsins einstök.

Í tilefni af stórafmælinu varð þessi bragur til:
Er þú fæddist fönnin skær,
fegurð glæddi heim,
hrein var borg og sérhver bær,
blessun streymd'um geim.
Góð sem engill, ætíð kær,
elsku Svala mín.
Bliki áfram blíð og skær,
bláu augun þín.
Ætíð gleðin eflist þér,
ávallt ljúf og góð
Guði þökk er gaf þig mér,
gaf mér þetta ljóð.
Til hamingju, elsku Svala mín!
You must be logged in to post a comment.