Trump og Pútín,
BBC og Gaza-Rúv
Gyðingahatur og fleira
Þankar eftir Örn Bárð Jónsson sem les.
Nú eru þeir að makka, Pútín og Trump. Þeir vilja ráða för í Evrópu og leysa deiluna milli Rússa og Úkraínumanna án afskipta Evrópusambandsins.

Hvers vegna? Skoðum aðeins hugmyndasöguna.
Hver er gildagrunnur Vesturlanda? Til einföldunar má svara því á stuttan hátt. Hann er gyðing/kristinn.
Gyðingar breyttu heiminum með því að uppgötva eingyðistrú. Þeir höfðu ekki guðagallerí, smáguði sem birtust einkum í náttúruöflunum og voru dintóttir, hrekkjóttir og slægir og bjálfalegir á köflum. Málið var að læra að lúta þeim í auðmýkt og herma eftir dutlungum þeirra.
Eingyðistrúin olli byltingu í heiminum.
-Guð er einn!
-Guð hefur skapað allt!
-Guð er réttlátur!

Þetta kemur svo fram í allskonar lögum og siðareglum sem gyðingar komu sér upp fyrir um 4000 árum. Þar er t.d. að finna reglur um réttlát samskipti fólks á mörgum sviðum, um mannréttindi almennt talað og meira að segja réttindi þræla.
Gyðingar tóku langan tíma í að þróa trú sína og lífssýn. Þeir voru á vissan hátt heiðnir í hegðun þegar litið er til fórnfæringa þeirra gagnvart Guði en slíkt er í grunninn heiðinn siður. Smátt og smátt hverfa fórnirnar og verða aðeins smávægilegar eins og það að fórna smáfugli í musterinu á dögum Jesú. Við þekkjum frásögnina af því er Jesús velti um borðum sölumanna fórnardýra við inngang musterisins í Jerúsalem. Jesú sveið að sjá fólk borga fyrir fórnardýr og þar með að reyna að kaupa sér fyrirgefningu og miskunn Guðs.
Fórnarhugsunin var svo útfærð í nýjum víddum með kenningum Jesú og einkum dauða hans og upprisu. Hann varð fórnin eina og algilda. Honum var fórnað fyrir mannkyn í eitt skipti fyrir öll.
Þar með hófst nýtt tímabil í sögu heimsins. Kristin trú fæðist úr þessum jarðvegi og leggur af tilbeiðslu með fórnum dýra en minnist hinnar einu og algildu fórnar Jesú í heilagri kvöldmáltíð.
Mögnuð er frásögnin í Nýja testamentinu sem kennd er við þorpið Emmaus. Tveir menn yfirgefa Jerúsalem eftir krossfestingu Jesú og spjalla sín á milli um atburði liðinna daga. Maður slæst í för með þeim og spyr hvað þeir séu að ræða. Hann kemst að því og tekur þá í framhaldinu í kennslustund um hjálpræðissöguna, um það hvernig Guð kenndi Ísrealsmönnum í gegnum aldirnar um lífið og tilveruna. Hámark þeirrar leiðsagnar birtist svo í starfi Jesú sem krossfestur var um liðna helgi og þeir þekktu báðir. Þeir koma svo til Emmaus sem var í 60 skeiðrúma fjarlægð frá Jerúsalem eða sem nemur 11 kílómetrum, svona eins og frá Lækjartorgi og í miðbæ Hafnarfjarðar.
Þegar þeir voru komnir til Emmaus settust þeir að snæðingi og þegar ferðalangurinn, sem slegist hafði í för með þeim og túlkað alla hjálpræðissöguna, tók brauðið og braut það, lukust upp augu þeirra og þeir þekktu hinn upprisna Krist – sem hvarf þeim við svo búið.
Þessari frásögn hafa listamenn gert skil í sögunni. Eitt þekktasta verkið er Kristur í Emmaus eftir Caravaggio. Sjá hér:

Vesturlönd hafa allan siðagrunn sinn, skilning á helgi manneskjunnar, réttindum hennar og göfgi, úr gyðing/kristnum kenningum. Heimspekihefð Grikkja má svo líkja við mikilvægt bragðefni í þessari uppskrift. Rökhugsun spekinganna í Aþenu hefur haft áfhrif á kristnar kenningar frá upphafi enda voru hinir fyrstu guðfræðingar mælandi og skrifandi á forngrísku, en frumrit Nýja testamentisins var einmitt ritað á þeirri tungu. Þekkt eru nýplatónsk áhrif innan heimsmyndar kristninnar. Þaðan koma mörg grundvallarhugtök guðfræðinnar og er Logos eða Orðið líklega þeirra þekktast. Þess vegna læra guðfræðingar enn forngrísku til að geta túlkað kenningar Krists.
Og þá kem ég mér loks að efninu sem fyrirsögn þessa greinarkorns birtir.
Bandalagið, sem þeir hafa gert með sér, Donald Trump og Vladimir Putín, er líklega í grunninn byggt á hinum klassíska gildagrunni. Ætla má að báðum ofbjóði tryllt taumleysi Vesturlanda í siðferðisefnum. Og eru þeir nú ekki einir um það álit þó siðleysið ríði nú ekki við einteyming í lífi þeirra sjálfra.
Þá má og nefna að múslimar fyrirlíta Vesturlönd, og ekki síst vegna lauslætist og siðleysis á mörgum sviðum. Þeir ætla sér að tortíma Vesturlöndum.
Evrópskir ráðamenn, meira og minna mengaðir af háskólum Vesturlanda sem hafa verið „heilaþvegnir“ af frjálslyndu bulli með ívafi marxískrar hugmyndafræði og wóki, taka ákvarðanir út frá þessu moði, meðan þeir gleyma hinum klassísku gildum.
Slagorðið sem trompar allt um þessar mundir er EDI: equity, diversity, inclusion eða JFI: jafnstaða, fjölbreytni, ingilding. Þessi mantra veldur því t.d. í mannaráðningum að sjaldan er hæfasti umsækjandi ráðinn í starf, heldur sá, sem tilheyrir minnihluta af einhverju tagi. Hæfni er fórnað á altari minnimáttar-miskunnar.
Eru þeir Trump og Pútín að stefna að sama marki og ráðast því gegn þessu rugli öllu saman? Eða eru þeir bara að skara eld að eigin köku?
Ég veit það ekki, en sendi þessa þanka mína út í himinhvolfið, til umræðu og skoðanaskipta.
Og í gær var svo frétt í Bretlandi um að foreldrar trans barna saki BBC um einhliða áróður í umræðu um kynuslann sem hafi ýtt börnum þeirra í kynskiptingarferli.
Og ekki bara það.
Nú skal halda námskeið fyrir fréttamenn BBC til að vinda ofan af gyðingahatri þeirra og fá þá til að ná jafnvægi svo stöðin verði ekki í framtíðinni einhliða áróðursmaskína Hamas eins og hún hefur verið um all langa hríð.
Í ofanálag er stöðin svo jafnframt harla wók í öllu sínu fréttamati.

Og hvað skyldu ráðamenn á Gaza-Rúv nú vera að hugsa meðan þeir reyna að eyðileggja Júróvísjón með gyðingahatri?
Væri það ekki þarft verk að panta handa þeim námskeið frá Bretlandi?
Ég segi nú bara svona.

You must be logged in to post a comment.