Örn Bárður Jónsson – and "BARD-art"

The beauty of Life – Social Issues – Justice – Truth // Fegurði lífsins – Þjóðfélagið – Réttlæti – Sannleikur

Greinar og hugvekjur / Articles

Minningarorð / Funeral Speeches

Myndlistin mín / My Art

Viljum við stríð í Evrópu?

Pistill eftir Örn Bárð Jónsson sem les.


Baráttunni við Harmagedón er lýst í
Opinberunarbók Jóhannesar 16.16
en þar mun Guð að lokum sigra hið illa

„Af hverju koma stríð …? spyr höfundur Jakobsbréfsins í Nýja testamentinu.

Af hverju koma stíð?

Nú býr Evrópusambandið sig undir að blanda sér meir í átökin milli Rússlands og Úkraínu. Auðvitað er það einskær yfirgangur í Pútín að vilja hertaka land og knésetja Úkraínumenn.

Sérhver þjóð hefur sjálfsákvörðunarrétt um að vera sjálfstæð og um leið er þjóðum frjálst að mynda bandalag og tengjast böndum vináttu og öryggis við aðrar þjóðir.

Pútín er á öðru máli. Þessi fv. KGB maður, vill kúga Úkraínumenn, sem að vísu eru sagðir spilltir og allt það. Má þá taka spillta þjóð og hirta hana? Hver hefur vald og siðferðislega yfirburði til að hirta aðra þjóð? Ekki Pútín!

Enginn hefur það vald, en hins vegar geta þjóðir komið sér upp lögum og reglum sem gera þeim kleift að verjast ágangi annarra með öllum ráðum og þar með að verjast með vopnum.

En hvað græðir Evrópa á því að fara í stríð við Rússa? Tvær heimsstyrjaldir voru háðar á liðinni öld og við þurfum ekki að endurtaka neitt úr þeim hildarleik. Í stríði tapa allir.

Hvati Pútíns er ekki bara pólitískur heldur einnig af menningar- og trúarlegum toga. Honum og Kýril patríarka í Moskvu ofbýður öfgafullt frjálslyndissprikl Vesturlanda, sem eru sjálfum sér verst og grafa í raun undan eigin tilvist, með því að kasta öllum heilbrigðum gildum og hverfa ofan í eigin brók. Wókið ræður för og Vesturlönd eru orðin klofhuga.

En jafnvel þótt þeim félögum, Pútín og Kýril, gangi gott eitt til í sínum sjálfhverfu og trúarlega upphöfnu hjörtum, þá er þeim ekki gefið hirtingarvald himinsins hér á jörðu. Það hefur Drottinn einn!

Og svo er eitt víst:

Pútín verður ekki við völd að eilífu.

Rússneska kirkjan mun lifa Kýril og alla preláta. Gömlu kommarnir sögðu um kirkjuna í Sóvétinu: „Leyfum kerlingunum að koma saman og biðja. Þær ógna engum.“ En hinar biðjandi babúskur steyptu að lokum Sovétríkjunum. Allt hið illa, sem því spillta stjórnarfari fylgdi, fór beinustu leið til andskotans. En nú spyr ég: Á hvaða leið eru Vesturlönd?

Við getum beðið fyrir friði eins og hinar trúuðu ömmur í Sóvétinu forðum gerðu, beðið fyrir friði í Mið-Austurlöndum og í Úkraínu og beðið um leið fyrir því að islam leggi af einbeittan vilja og áætlun um að tortíma öllum gyðingum og kristnum í heiminum.

Er ekki skynsamlegast að semja um frið í Úkraínu og láta þar við sitja, meðan þeir tóra sem hafa í sér mest brjálæði og eru til ófriðar á meginlandi Evrópu? Hvað græðir Evrópu með því að setja milljarða í vopnaskak? Ekkert!

Evrópusambandið virðist vilja átök. Hvert leiða þau? Það er nú stóra spurningin. Spyrja þarf að leikslokum og muna orðtakið: fíflinu skal á foraðið etja.

Skoðum nánar orð Jakobs, bróður Drottins, eins af „máttarstólpum frumsafnaðarins.“

Auðmjúkum veitist náð

1 Af hverju koma stríð og af hverju sennur meðal ykkar? Af hverju öðru en girndum ykkar sem heyja stríð í limum ykkar? 2 Þið girnist og fáið ekki, þið drepið og öfundið og getið þó ekki öðlast. Þið berjist og stríðið. Þið eigið ekki af því að þið biðjið ekki. 3 Þið biðjið og öðlist ekki af því að þið biðjið illa, þið viljið sóa því í munaði.
4 Þið ótrúu, vitið þið ekki að vinátta við heiminn er fjandskapur gegn Guði? Hver sem því vill vera vinur heimsins, hann gerir sig að óvini Guðs. 5 Eða haldið þið að ritningin fari með hégóma sem segir: „Þráir Guð ekki með afbrýði andann sem hann gaf bústað í okkur?“[ 6 En því meiri er náðin sem hann gefur. Þess vegna segir Ritningin: „Guð stendur í gegn dramblátum en auðmjúkum veitir hann náð.“

Og ekki veitir nú af að hlýða á orð Pál postula í Rómverjabréfinu:

14 Blessið þá er ofsækja ykkur. Blessið en bölvið ekki. 15 Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum. 16 Berið sama hug til allra, verið ekki stórlát, umgangist fúslega lítilmagna. Oftreystið ekki eigin hyggindum. 17 Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna. 18 Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á ykkar valdi. 19 Leitið ekki hefnda sjálf, mín elskuðu, látið reiði Guðs um að refsa eins og ritað er: „Mín er hefndin, ég mun endurgjalda,“ segir Drottinn. 20 En „ef óvin þinn hungrar þá gef honum að eta, ef hann þyrstir þá gef honum að drekka. Með því að gera þetta safnar þú glóðum elds á höfuð honum.“ 21 Lát ekki hið illa sigra þig en sigra þú illt með góðu.

Posted on

Greinar og hugvekjur / Articles
Minningarorð / Funeral Sermons
Myndlist / Art
Prédikanir / Sermons