Örn Bárður Jónsson – and "BARD-art"

The beauty of Life – Social Issues – Justice – Truth // Fegurði lífsins – Þjóðfélagið – Réttlæti – Sannleikur

Greinar og hugvekjur / Articles

Minningarorð / Funeral Speeches

Myndlistin mín / My Art

Myglan í menningunni – æ, æ, æ

Haustþankar eftir Örn Bárð Jónsson sem les.

Hlustun tekur rúmar 7 mínútur.

Mynd af Vefnum

Húsmygla er eitt af meinum samfélags okkar. Hér er þó ekki ætlunin að tala um húsasótt, heldur menningarmein sem getur hrjáð bæði Hringaná og Hölda. Myglufaraldur sækir að menningu okkar.

Menningarmyglan smýgur inn í sálarlíf fólks í gegnum innflutta hugmuyndafræði af ýmsu tagi sem fólk lætur skjóta rótum í græskulausum sálum sínum.

Myglan sú er t.d. greinanleg í mótmælum af ýmsu tagi.

Ein myglutegundin ræðst á gildagrunn okkar og um leið á helstu uppsprettu hennar, kirkjuna. Gömul gildi sem eru mörgþúsund ára gömul eru látin mygla niður. Það þykir svo hipp og kúl að vera ekki þessmegin heldur hinumegin.

Gildi Vesturlanda eru öll, já, ÖLL, komin úr gyðing/kristnum og grísk/fílósófískum uppsprettum sem runnið hafa saman í Hugsanafljótið mikla. Sjá grein mína hér: https://ornbardur.com/2019/01/07/kirkja-og-kristni-i-olgusjo/

Hvaðan koma myglugróin?

Vinstrið ber t.d. með sér margar myglutegundir sem bera nöfn eins og Wók og kynusla af ýmsu tagi. Þá er feminisminn mengaðu af ýmsum gróum, þó sumir veggja hennar og bjálkar hafi enn burðargetu og séu ómyglaðir. Þá er hægrið yzt á væng með aðra myglu sem einnig skekkir gildagrunn og afbakar. En bara til að slökkva hneysklunarkláðann sem kann að sækja að þeim sem dæma og telja mig vera á móti samkynhneigðu fólki, þá hafna ég algjörlega slíkum aðdróttunum og tel mig ekki þurfa að setja fram neinar sértækar sannanir í þeim efnum.

Allskonar

Hluti fólks hefur t.d. ekki hugmynd um hvað Halloween merkir. Popparar keyra jólavertíð frá því á Allra heilagra messu, All Hallows’ Eve, eða All Saints’ Eve, sem er forn kirkjudagur. Eins og nafnið ber með sér snýst hátíðin um að minnast helgra einstaklinga sögunnar eða dýrlinga og ber árlega upp á 31. október. Allrasálnamessa er svo degi síðar 1. nóvember helguð látnum ástvinum okkar, öllum sálum. Í Evrópulöndum og víðar í hinum kristna heimi fer fólk með blóm og kertaljós að gröfum ástvina fyrrnefnda messudaga. Okkar siður er að lýsa upp leiði á jólum. (https://www.visindavefur.is/svar.php?id=7047)

Allraheilagrahátíð hefur verið fordjörfuð og að mestu af bandarísku bulli og gróðabralli sem borist hefur hingað í menningarsnauðan pöpulinn sem hefur takmarkaða þekkingu á sögu en sækir meðvitað og ómeðvitað í myrkur og menningarauðnir.

Og svo nálgast aðventan sem fólk getur ekki lengur beðið eftir heldur þjófstartar henni í nóvember og jafnvel fyrr og þar hjálpa útvarpsstöðvarnar með því að ýta á eftir kagganum. Skrækur poppari gerir grín að jólunum ár hvert á tónleikum og RÚV kaupir upptöku af þeim og sýnir á aðventunni ári síðar. RÚV er í skylduáskrift hjá sveitinni og þar má hæða helga menningu og skrumskæla. Mörgum blöskrar lágkúran sem almenningur kaupir dýrum dómum og fyllir þar með vasa vertíðarpoppara.

Svo sækja poppararnir nú í kirkjur landsins. Það er svo kúl að rokka í kirkjum og sitja innst í kór við altarið með altaristöfluna með Jesú í bakgrunni. Og það er gargað og gólað, guðlastað og sólað í húsi, sem helgað hefur verið Kristi og fagnaðarerindi hans. Kirkjur er helg hús, frátekin fyrir guðsþjónustur, en ekki hvað sem er. Sumir popparar kunna háttvísi og mannasiði, en aðrir vita ekki hvar þeir eru, hvaðan þeir koma eða hvert þeir stefna.

Ef prestar og sóknarnefndir standa ekki í lappirnar í þessum málum þá verða kirkjurnar á endanum tómar. Þær munu grotna niður, nema þær sem verða seldar og breytt í kaffihús, bókasöfn, klifurkastala, gym og glens hús fyrir klæðlitlar gellur og gaura. Horfið til baka til Sovétríkjanna. Þar var kirkjunum breytt t.d. í sundlaugar!

Og nýgræðingurinn í prestastétt, sem kemur úr HÍ eins og hreinn hvítvoðungur, til þjónustu í kirkjunni, lætur sér vel líka í hempum og rykkilíni með regnbogastólu á herðum sér og veit ekki hvað það ok gerir öxlum sem ætlað er að bera ómyglaða sögu og menningu en ekki innantómt nýbylgjurugl með gelleríi og gæjastælum.

Kirkja sem vill vera hipp og kúl,

í veröldinni lagin,

verður á endanum bara fúl,

útrunnin einhvern daginn.

Ung kona sem er í stjórnmálum talaði um að sér líkaði ekki þessi gellustíll, einkum stjórnmálakvenna með sjálfhverfum færslum á samfélagsmiðlum þar sem allir eru alltaf í stuði. Hve oft birtir þú mynd af sjálfri/sjálfum þér á Fésbókinni? Hvers vegna heldurðu að fólk hafi svona mikinn áhuga á þér?

Heldurðu að kirkjan nái betur til almennings með því að hún standi ekki með sjálfri sér og erindi sínu?

Ég veit að það þarf mörg ár og talsverða lífsreynslu til að sjá hlutina í þessu ljósi sem ég hef tjáð hér, en ekki kalla mig karlskrögg með elliglöp vegna þess að mér líki ekki allar breytingar í ærðum heimi. Ég er í fullu fjöri og þó ég hafi slökkt ljósin á skrifstofunni í óeiginlegum skilniningi þegar ég fór á eftirlaun, þá slökkti ég ekki á sjálfum mér, og leyfi mér að dæsa ögn og segja þetta um sumt í samtíðinni:

Æ, æ, æ.

Posted on

Greinar og hugvekjur / Articles
Minningarorð / Funeral Sermons
Myndlist / Art
Prédikanir / Sermons