Þankar um málefni líðandi stundar

Ef við lítum í eigin barm finnum við líklega öll tilvik þar sem við fórum fram úr okkur sjálfum, fórum yfir einhver mörk, sem eigi átti yfir að fara, skapmörk, neyslumörk, skammtamörk í mat, frjárhagsmörk. Það síðast nefnda vísar í það að hafa eytt um efni fram. Kannast þú við einherjar af þessum framúrkeyrslum?
Viltu hlusta í tæpar 6 mínútur?
Eitt er að fara fram úr sér í eigin fjármálum, rekstri heimilisins eða einkafyrirtækis, en það er ekki eðlismunur á því og þegar opinberum starfsmanni með mikla ábyrgð verður á í störfum sínum.
Slíkt er skoðað af þar til bæru yfirvaldi og rannsakað hvort um saknæmt athæfi hafi verið að ræða. Ef svo er ekki þá þarf að skoða verkferla og athuga hvort farið hafi verið yfir siðferðismörk af einhverju tagi eða hvort um sértækar hyglingar hafi verið að ræða.
Lesendum hefur líklega runnið í grun hvert ég er að vísa í þessum pistli.
Ríkið hefur sína verkferla til að taka á ávirðingum í starfi og mér virðist ráðherra ætla að fara fram með ítrustu varkárni og yfirvegun og það er vel. Hún er varkár og vitur að mínu mati. En við hvað á ráðherra að miða?
Vitnað er í almenning og álit fólksins á götunni. Það leiðir huga minn að því hvort lýðræðið yfirhöfuð sé í raun dómbært um nokkurn skapaðan hlut. Lýðræðið er líklega ein mest notaða vandræðalausn mannkyns sem telur sig ekki hafa úr neinu öðru að spila.
LÝÐRÆÐIÐ ER HALLÆRISLAUSN!
Lýðræðið má líka kalla dómstól götunnar. Hann skoðar aldrei málavöxtu til hlýtar, heldur dæmir af tilfinningasemi. Allt árið um kring er dómstóll götunnar veinandi við störf sín og veit allt og dæmir svo án þess að skoða eitt einast mál til hlítar. Dómstóll götunnar hefur aldrei öll rök máls tiltæk. Hann dæmir af tilfinningasemi og sá mælikvarði er álíka tryggur og vindhani á húsþaki.
Freistandi er að hlusta á dómstól götunnar, því það er hann sem kýs fólk í ábyrgðarstöður. En v.þ.a. dómstóll götunnar, er einmitt götunnar fyrirbrigði, sem hefur engar staðreyndir í sínum höndum, nema þær sem fjölmiðlar bera á borð og oft eru litaðar af afstöðu blaðamanns eða umhverfi hans.
Ráðherra á ekki að hlusta á dómstól götunnar, heldur að taka ákvörðum út frá eigin dómgreind og staðreyndum máls, jafnvel þó að um leið sé tekin áhætta um að missa atkvæði í skoðanakönnunum. Stjórnsýslan á að vera ráðherra næg og eigið hjarta sem leitar skilnings á fyrirgefningu, miskunn og náð. Sektir eru svo til af ýmsum gerðum og þær eru ekki allar fjársektir.
Ég veit ekki hvernig ráðherra á að leysa úr þessu máli. Ég hef ekki gögn máls eða staðreyndir – nema úr ótryggum fjölmiðlum, sem eru mjög háðir dómstóli götunnar og spila stundum á þann stól og rugla hann í ríminu. Ég treysti fjölmiðlum aldrei nema eftir að hafa keyrt umfjöllun þeirra fyrst í gegnum minn eigin dómstól vitræns mats. Og það dugar ekki alltaf!
Þetta eru einungis einfaldir þankar eins atkvæðis í dómstóli götunnar, því ég er líka einn af ykkur. Reynum að meta fólk og gjörðir út frá öðru en æstum tilfinningum, hneykslunaráráttu sem sjaldan lítur í eigi barn.
Lögfræði lands okkar, dómstólar og allar hefðir um rétt og rangt eru komnar úr arfi gyðingdóms og kristni.
Ennfremur öll mannréttindi sem einkenna Vesturlönd.
Orð Jesú eru þekkt um allan hinn kristna heim. Eldra fólk í dómstóli götunnar ætti að þekkja þau.
Ég læt orð hans fylgja með þessum þönkum, okkur öllum til íhugunar og innlits í eigin barm:
Jesús sagði:
1 Dæmið ekki svo að þér verðið ekki dæmd. 2 Því að með þeim dómi, sem þér dæmið, munuð þér dæmd verða og með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður mælt verða. 3 Hví sér þú flísina í auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu? 4 Eða hvernig fær þú sagt við bróður þinn: Lát mig draga flísina úr auga þér? Og þó er bjálki í auga þínu. 5 Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.
You must be logged in to post a comment.