Einkavæðing kenninga kirkjunnar,
játninga og altarisþjónustu.
Grein eftir Örn Bárð Jónsson sem les

Einn af mörgum erfðakvillum sem fylgja lútherskunni eru, að kjarnanum þ.e. trúnni, kenningunni, játningunum og túlkunum, sé hætt við að skolast til. Starfið getur auðveldlega farið á svig við kjarna kirkjunnar, orðið einskonar „smaksak“ og tilfinningasemi með sjálfmiðlægu mati á flestum málum eða það sem hverjum og einum finnst.
Sem yður þóknast er nafn á frægu leikriti eftir Shakespear.
Til er frægt sjérrí sem ber þetta heiti: As you like it – Sem yður þóknast, frá einum af virðurlegri framleiðendum þess vökva frá héraðinu Jerez de la Frontera á Spáni, en af Jerez er myndað enska orðið sherry. Þessum flöskum raðaði höfundur í hillur í Ríkinu á Ísafirði sem drengur. En þetta var nú útúrdúr hér en ekki dulbúin auglýsing á ferð og ég fullvissa þig um að framleiðandinn Williams & Humbert fjármagnar hvorki sögu né grein!
Grunnurinn, skv. kenningum Þjóðkirkjunnar, er í Ritningunni, játningum kirkjunnar, samþykktum hennar, messuritúali, festu, reglu og litrúrgískri hefð og hegðun. Hættan nú er sú að allt verði þvingað eftir eigin smekk, sýn og duttlungum einstakra presta og þar með verði allt að eintómum smekksatriðum. Það vantar kross með jartengingu sem bendir til himins.
Hvar kemst ég nú í klassíska messu? Og ég meina alvöru messu með trúargleði og trúaralvöru og án leikaraskaps, án þess að presturinn þvælist fyrir sjálfum sér og öllu öðru? Hann/hún hefur auðvitað tækifæri sitt í stólnum.
Sólirnar fimm. Gleymum ekki þeim sem Siðbótin hélt á lofti:
Sola scriptura
Sola fide
Sola gratia
Sola Christus
Sola Deo gloria
Ritningin ein, trúin ein, náðin ein, Kristur einn og Guði einum dýrð.
Þetta er ekki nýtt. Handbók kirkjunnar frá 1981 sem tók við af bókinni frá 1934 markaði skil og við lærðum að messa klassískt en ekki í einhverjum „guðsþjónustustíl“ frjálslyndra presta Þjóðkirkjunnar á miðri síðustu öld með jarðsamband sinnar samtíðar og sumir kannski með þannig himinstengingu að þeir töldu henta bezt að iðka hana á miðilsfundum.
Nú eru nýir tímar og miklar breytingar hafa átt sér stað sem segja má, með nokkurri einföldun, að kristallist í feminismanum eða nýjasta afbrigði hans Wókismanum sem birtist m.a. í því hvernig kynuslanum er mætt og hefðum er sópað undir teppið.
Mantran: „Ég ræð, ég veit, ég má“, tekur yfir. Þessi þrenning mátar hina klassísku. Samþykktir og handbækur, Biblían, sálmar og trúarkenningar, eru settar til hliðar og svo er dansað eftir tíðarandanum, því ég ræð, ég veit, ég er fjáls!
Kynfræðsla
Nú er mikið rætt um hvort kynfræðsla eigi erindi í fermingarstarfi kirkjunnar. Í því sambandi rifja ég upp vígsluheit presta sem er skráð hér neðanmáls en þar segir m.a. um fræðslu æskunnar sem prestur skal framkvæma skv. vígsluheiti sínu. Biskup hvetur vígsluþegann og segir að í köllun hans felist að:
„uppfræða með kostgæfni æskulýðinn og söfnuð þinn allan í heilögum sannindum kristinnar trúar“.
Fræðslunni er sem sagt ætlað að snúast um trúna á Guð í Kristi og hvernig sú trú geti bætt heiminn og gefið einstaklingum von í vonlitlum aðstæðum, en alls ekki um kynlífsfræðslu eða þann iðnað allan, sem ekur um með offorsi og rymjandi áróðursvél Wóksins á fullum snúningi, hugmyndafræði, sem þolir engin gildi, engin mörk og er í raun niðurbrjótandi ófögnuður sem líkja má við vítisvél.
Kirkjudeildir
Þjóðkirkjan er af meiði Mótmælendakirkna. Stóru kirkjudeildirnar, sú kaþólska og sú orthodoxa, eru með stærri kjölfestu, þar er lítið frelsi til að sprikla, nema innan vissra marka, sem gefa afar takmarkað færi á einkavæðingu helgihalds og kirkjulífs almennt talað.
Til að geta messað og prédikað er nauðsynlegt að rannsaka Ritningarnar, biðja og íhuga og svo þarf einnig að horfa út fyrir sjálfan sig og reyna að skynja tákn tímanna, greina falsspámenn.
Kirkjan okkar er í tilvistarvanda og hún losnar ekki við hann með því að elta tízkustrauma hvorki úr fjölmiðlum né félagsgreinum háskólanna.
Og nú sný ég mér að allt öðru en þó liggja þræðir á milli sem tengjast allir kirkjustarfi með einum eða öðrum hætti.
Minningar
Í kaffitímum starfsfólks Biskupsstofu á Laugaveginum í tíð biskupanna Ólafs Skúlasonar og Karls Sigubjörnssonar voru á stundum líflegar umræður um samtímann þegar ég starfaði þar á árunum 1990-99. Oft sköpuðust frjóar umræður um framtíðina er við sátum í makindum og að mestu áhyggju- og andvaralaus með 93% aðild að Þjóðkirkjunni. Tölvur voru komnar á hvert borð og netvæðing að hefjast en samfélagsmiðlarnir þó varla komnir á kopp. Þá sagði ungur prestur sem þar starfaði, eitthvað á þá leið, að við mættum e.t.v. búast við því að aðild að ÞK færi undir 60% á næstu 20-30 árum, því ferðalög til útlanda, fjölgun innflytjenda, meiri aðgangur að fréttum og skoðunum fólks í öðrum heimshlutum, myndi smátt og smátt breyta hugsun fólks. Þetta þótti óþarfa svartsýni og sumum svelgdist jafnvel á kaffinu, meðan aðrir jesúsuðu sig og tóku bakföll og dýfur á víxl í stólum sínum.
Og nú eru liðnir nær fjórir áratugir og komið árið 2025!
Fjöritíu dagar – fjöritíu ár! Tengirðu?
Hefur eitthvað breyzt? Voru þetta bara órár ungs prests á sínum tíma?
Nei. Allt sem hann sagði þá í þessum efnum hefur í raun ræzt með einum eða öðrum hætti!
Þá man ritari þessara þanka ennfremur annan dag þegar við sátum á kaffistofunni og inn komu glaðbeittir menn, tveir reyndir klerkar og einn starfsmaður Biskupsstofu. Þeir höfðu verið í Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, eins og það hét þá, til að ræða fjármál kirkjunnar og framtíðarskipan þeirra mála. „Við erum alveg að ná samningi við Ríkið!“, sögðu þeir sigurreifir og brostu sem sumarsólin blíð. Ungi presturinn, sá sami og hér að framan, spurði um inntak og fékk svar í stuttu máli sem gekk út á það að gefa skyldi Ríkinu eftir nær allar jarðeignir kirkjunnar og fá í staðinn „pottþéttan“ samning með „vísitölutryggingu“ um rekstur embættis biskups og starfsmanna hans, laun biskupa, prófasta og presta o.s.frv.
Ungi presturinn horfði á þrenningu hinna sigurreifu samningamanna – og minnir jafnvel að yfir þeim hafi verið geislabaugar – og spurði:
„Haldið þið virkilega að við verðum betur sett í framtíðinni með samning á pappír en fasteignir og jarðir í veðmálabókum? Ætlið þið að afhenda Ríkinu gullfót kirkjunnar og fá pappírsnifsi í staðinn?“
Þeir svöruðu og sögðu:
„Já, þetta stefnir allt í stórkostlegan tímamótasamning!“
Ungi presturinn maldaði áfram í móinn og sagði:
„Eftir 20 ár verða komin önnur stjórnvöld, aðrir ráðherrar, sem telja sig geta breytt þessu samkomulagi og túlkað það eftir tíðarandanum hverju sinni og telja sig ekki bundna af honum. Pappír kemur aldrei í stað gulltryggðra kostajarða.“
Kannastu við breytingarnar?
Skilurðu hvað hefur gerst?
Við, höfum grafið undan okkur sjálfum!
Við erum oft sem ofur bjartsýnir álfar á hverri tíð, þekkjum ekki söguna, skynjum ekki framtíðina, skiljum ekki samhengið, erum týnd og upptekin af nafla samtímans. Dagskipunin virðist manni stundum vera sú að allir eigi bara að vera í stuði.
Kirkja er vill vera hipp og kúl,
í veröldinni lagin,
verður á endanum bara fúl,
útrunnin einhvern daginn.
„Að fortíð skal hyggja ef frumlegt skal byggja.“
Við verðum að rýna í fortíðina, horfast í augu við mistökin og reyna með þeim hætti að ráða í samtíðina og rúnir framtíðar.
Þjóðkirkjan er í tilvistarvanda.
Ef til vill má, að beyttu breytanda, líkja henni við Ísraelsfólkið í búðunum forðum meðan Móse var á Sínaífjalli. Þau fengu Aron æðstaprest til að samþykkja að smíða gullkálf í stað Drottins, lausnir líðandi stundar í stað eilífðar. Og þau tóku af sér skartið, hálsmen og höfuðdjásn, eyrnalokka og hringa – og allt var brætt. (2. Mós. 32. kafli)
Við þekkjum framhaldið. Ofangreindum kafla lýkur með þessum orðum í 35. versi: „Drottinn sendi plágu yfir þjóðina vegna kálfsins sem hún hafði látið Aron gera.“
Höfum við eitthvað að læra af þessari sögu?
Eitthvað annað en ekkjudóm í anda orða Sigurbjarnar Einarssonar biskups sem ég hef áður vitnað til?
„Ef kirkjan giftist tíðarandanum verður hún ekkja á morgun.“
Þessi orð hins aldna biskups eru gull og eiga erindi við hverja kynslóð. Og þetta gull má bræða og varðveita sem skart visku og vísdóms.
—
Svo má gjarnan rifja hér upp vígsluheit presta sem er svohljóðandi í HANDBÓK ÍSLENSKU KIRKJUNNAR 1981:
Biskup: [ávarpar og spyr vígsluþega]
Þú hefur heyrt áminningar og fyrirheit Drottins og postula hans. Nú brýni ég alvarlega fyrir þér:
að prédika Guðs orð hreint og ómengað, eins og það er að finna í hinum spámannlegu og postullegu ritum og samkvæmt vitniburði vorrar evangelisk-lúthersku kirkju í játningum hennar;
að veita hin heilögu sakramenti eins og Kristur hefur fyrir mælt, með lotningu;
að uppfræða með kostgæfni æskulýðinn og söfnuð þinn allan í heilögum sannindum kristinnar trúar, leiðbeina, hvetja og styrkja með ástúð og alvöru, einslega og opinberlega, vaka yfir sálarheill þeirra,
sem þér er trúað fyrir, styðja lítilmagna og hjálpa bágstöddum.
Ég áminni þig um að rannsaka ritningarnar og íhuga lærdóma trúar vorrar í bæn og auðmýkt og vera sannleikanum trúr í kærleika.
Minnstu þess jafnan, að þér ber að vera öðrum til fyrirmyndar og styrktar í sannri trú og grandvöru líferni, Guði til lofs og dýrðar.
Í umboði heilagrar kirkju spyr ég þig í Jesú nafni: Lofar þú mér af einlægu hjarta að gjöra þetta eftir því sem Guð gefur þér náð til?
Við þessum orðum og spurningunni sagði ég já fyrir 41 ári og hið sama höfum við öll játað sem nú þjónum kirkju vorri sem prestar. Handbókin 1981 er enn í gildi og löggilt sem bindandi bók fyrir allan kennilýð.
Ritari þessa pistils var ungi maðurinn á Biskupsstofu forðum sem spurði ögrandi spurninga þá og gerir enn.
Finnst þér kirkjan vera á réttri leið?
Þú metur það en vonandi ekki bara As you like it eða Sem yður þóknast.
Ég þakka lestur og/eða áheyrn á hljóðupptöku.
Góðar stundir.
You must be logged in to post a comment.