Grein eftir Örn Bárð Jónsson sem les. Tekur 8 mín. í hlustun.

Mynd fengin að láni af Veraldarvefnum
Lýðræðið og lygin
Orðið lýðræði er í hávegum haft. Borgarar heimsins vilja flestir búa við lýðræði þar sem stjórnmálamenn stýra í umboði lýðsins.
Fyrir rúmum tvöþúsund árum rökræddu spekingar í Aþenu um stjórnarfar, um ríkið og mannlega getu og hegðun.
Þeir sáu og skynjuðu að ekkert stjórnkerfi væri fullkomið. Lýðræðinu hættir t.d. til að leita þess sem tryggir samstöðu, óháð því hvort málstaðurinn hverju sinni er sannur eða loginn. Mannlegt eðli veldur því að innan hópa geta þróast galnar hugmyndir sem eiga fátt sameiginlegt með lýðræðinu.
Lýðnum, sem veinar á torgum, er e.t.v. ekki efst í huga hverju sinni að hafa sannleikann í hávegum. Mótmælafundir hafa verð haldnir á mörgum stöðum á Vesturlöndum og víðast hvar undir sömu formerkjum fáfræði, dylgna og jafnvel and-dyggða og hreinnar lygi. Þetta birtist í framferði fólksins sem safnaðist undir fána Hamas-samtakanna, sló bumbur og barði sér á brjóst í trú á að sannleikurinn væri þeirra, viskan öll!
Þetta gerðist um allan hinn vestræna heim. Hópar með sömu stefnu vildu ekki heyra orð um hvert upphafið væri að átökunum á Gaza. Það skipti fólkið engu, því trúin á hina vondu gyðinga var svo sterk í brjósti þeirra, að ekkert gat haggað trú þeirra, byggðri á fordómum og lygum.
Hamas-samtökin hófu átökin 7. október 2023 með því að senda inn í Ísrael, tvöþúsund brjálaða menn, sem drápu 1.219 manns, börn og fullorðna, nauðguðu konum, tóku 251 gísl og héldu þeim í 2 ár.
Hamas-liðar hafa staðið í samningum síðustu vikur um að skila þeim 20 sem enn lifa, en hinum sem liðnum líkum. Og þeir rifust og rífast enn um að fá í skiptum – fyrir þessa alsaklausu, ísraelsku borgara, lífs og liðna – þúsundir hryðjuverkamanna, illmenni, djöfulóð óbermi!
Að taka afstöðu í þessu deilumáli er einfalt. Skoða þarf söguna og taka mark á henni og skoða ávexti þeirra stjórnarhátta sem ríkt hafa innan Ísraels og í nágrannaríkjunum.
Ríkisstjórn Íslands bauð hingað nýverið utanríkisráðherra Hamas, sem virkaði hógvær og gaf engin merki um að hún væri talskona hryðjuverkasamtaka er hefði það á stefnuskrá að drepa alla gyðinga og eyða Ísraelsríki. En hún var nú samt og er fulltrúi ráðandi afla á Gaza og þar með Hamas og stefnu þeirra.
Grísku spekingarnir vissu að lýðnum, öskrandi skrílnum, hættir til að dyggðaskreyta sig og segja með atferli og jafnvel beint með orðum: „Sjáið okkur! Við erum góða fólkið. Við ein þekkjum sannleikann!“ Og þetta gerist oftar en ekki undir fána blekkingar og í anda lyginnar.
Ég hef gluggað í rit grísku heimspekinganna sem uppi voru á 4. og 5. öld fyrir Krists til að reyna að skilja alla þessa firringu í samtíð okkar. Platón og Sókrates eru þar stærstu nöfnin. Þeir komust m.a. að því að fjöldinn leitaði ekki alltaf sannleikans, heldur sóttist hann mjög gjarnan eftir viðurkenningu og staðfestingu á eigin skoðunum til að styrkja eigin villu. Manneðlið er samt við sig.
Lýðurinn vill ekki sjá raunveruleikann, en sækir í samstöðu um eitthvað óljóst, leitar stundum í það sem er lygi og hafnar um leið öllu sem ógnar eigin blekkingu.
Sannleikurinn verður aldrei skilgreindur í skoðanakönnunum. Hann býr nefnilega ekki í mannfólkinu. Sannleikurinn tilheyrir handanverunni, himninum, hinni æðstu veru. Meirihlutinn ákvarðar aldrei sannleikann, sama hversu fjölmennur hann kann að vera hverju sinni.
Átökin á milli hinna stríðandi afla á Gaza eru vonandi afstaðin en Hamas-menn halda áfram sínum hamagangi og nú drepa þeir sitt eigið fólk ef marka má nýjustu fréttir, taka af lífi Palestínumenn sem þeim finnst ekki hafa verið nógu fylgisspakir við vítiskenningar samtakanna. Auðvitað er margt gott fólk og réttsýnt í Palestínu og það er nú margt í hreinni lífshættu vegna heimsku og haturs Hamas.
Og svo hefur komið í ljós að á Gaza eru til matarbirgðir sem duga muni næstu mánuði til að fæða alla þjóðina. Þær voru faldar af Hamas en skuldinni skellt á hina „vondu“ gyðinga.
Og nú spyrja margir:
Hvar er lýðurinn með Hamas-fánana?
Fagnar hann ekki vopnahléi?
Gleðst hann ekki yfir friði?
Nei, Austurvöllur og önnur torg úti í heimi, eru vita mannlaus og hljóð sem kaldur steinn, þrátt fyrir lygna og fagra haustdaga.
Var það kannski aldrei keppikeflið að boða frið?
Gengu mótmælaöskrin bara út á það að hata Ísrael og gyðinga? Hvers vegna dafnar þetta krabbamein í arabaheiminum, vinstrinu og Wókinu?
Mótmælendur er horfnir af torgum og farnir í holur sínar. Rykið sest. Munum þetta allt þegar þeir rísa upp næst og öskra í nafni lýðræðis. Þeirra „sannleikur“ er fátt annað en fáfræði, glapræði, bjálfræði, LYGI!
Fleira og fleira fólki hefur orðið það ljóst að Fréttastofa RÚV hefur rekið einhliða áróður um Gaza undanfarna mánuði.
Það væri verðugt rannsóknarefni að kanna hvernig fréttir voru valdar, hverjar fréttaveiturnar voru og hverjir forgagnsröðuðu og fluttu landsmönnum áróðurinn. Einhliða fréttir eru nefnilega ekki sannleikur, þær eru lygi.
Sannleikurinn um RÚV verður að koma í ljós.
Svo mætti e.t.v. bara loka sjoppunni.
You must be logged in to post a comment.