Grein á Krossmessu að hausti eftir Örn Bárð Jónsson
Í morgun, 14. september, áður en ég hélt til messu hafði ég sett inn færslu á Facebook þar sem ég undraðist að frétt um fjöldagöngu fólks í London væri komin niður á 5. hæð í kjallara netsins en á 1. hæðinni væri komin grein um nazistann Göring sem var réttilega dæmdur og drepinn fyrir sínar misgjörðir.
Ég gagnrýndi þetta og taldi að RÚV væri sofandi og meira en það. Einhver benti á að tölva raðaði fréttum eftir aldri og því færu fréttir gærdagsins niður. En mér finnst nú að menn eigi ekki að lúta vilja vélmenna sem færa stórfrétt niður á plan smáfréttar og koma henni fyrir á 5. hæð neðanjarðar. Það finnst mér ekki rök fyrir því að leysa fréttamenn undan því að meta gildi frétta og halda þeim við, teljist þær til tíðinda og jafnvel hreinna heimsfrétta.
Þá vildu menn halda fast við fréttamat og teljara fréttamanna um að fjöldinn hefði verið um 100 þúsund manns. Augljóst er af myndum að dæma að fjöldinn var margfaldur það.
En látum það nú vera. Fréttirnar snerust ekki um menn, ekki um fjölda þeirra, heldur málefnið.
Þessi færsla mín, sem var sem eitt agnarlítið net í sjó, dró að sér bæði skepnur lofts og jarðar, því í það flæktist „fugl og fiskur“. Voru þar m.a. komnir einstaklingar úr „varðsveitum vinstrisins“ sem dæma hundruð þúsunda Breta sem fasista, almenning sem gekk um götur Lundúna og mótmælti gjörsamlega óþolandi stefnu stjórnvalda þar í landi um áraraðir, stefnu sem snýr að innflytjendum.
Innflytjendamál
Það er auðvitað kristilegt og göfugt að taka vel á móti flóttamönnum, en þeim er þá ætlað að aðlagast nýjum heimkynnum, nýjum siðum. Það gera margir sem betur fer, en einn hópur sker sig úr og heldur fast, frekar fast við sínar hefðir og í jafnvel hégiljur. Það eru múslimarnir.
Fylgjendur islam eru upp til hópa hið besta fólk, en þegar þeir búa um sig í gettóum þar sem sharia lög eru látin gilda, og klerkaveldi ríkja, þá kann það ekki góðri lukku að stýra.
Til eru hófsamir múslimar og öfgamúslimar.
Bretum ofbýður fjöldi múslima, einkum þeirra sem ekki aðlagast.
Ef okkur er boðið í heimsókn til fólks þá komum við á forsendum gestgjafa og förum að siðum þeirra og venjum.
Krossmessa
Í dag, 14. september, er svonefnd Krossmessa að hausti, að fornum sið og var stofnað til hennar til að minnast þess að kross Krists mun hafa fundist og hann reistur að nýju á Golgata í Jerúsalem á 4. öld en þá höfðu kristnir loksins fengið viðurkenningu í Rómaveldi og ofsóknum var hætt gegn þeim. Segir það mikið um kristna kirkju að hún þoldi ofsóknir illfygla og gerir enn víða um heim. Kristnir eru drepnir og enginn mótmælir hér á landi, enginn gengur með krossfánann okkar, þeim til stuðnings, meðan fáni Hamas er í uppáhaldi margra.
Krossinn er merkilegt tákn sem í upphafi var aftökutæki, hið hræðilegasta á jörðu. Hættulegir glæpamenn innan Rómaveldis voru krossfestir. Sá dauðdagi var og er einn sá hræðilegasti sem menn hafa af illgirni sinni fundið upp.
Hinn krossfesti var afklæddur og negldur nakinn á kross. Dauðinn vann sitt verk og eftir hræðilegar þjáningar dó hinn þjáði eftir nokkrar klukkustundir. Þá tóku illfyglin við sér og byrjuðu á að gæða sér á augum hins látna. Krossar voru reistir við fjölfarna vegi, almenningi til áminningar.
Augu Krists sluppu við illfyglin en hann hafði þó heyrt hróp þeirra mennsku er þeir hæddu hann.

Mynd af Wikipediu
Vinir hans tóku lík hans niður af krossinum, svo hans biðu ekki þau örlög, sem flestir krossfestir þurftu að þola, að verða illfyglum að bráð.
Þetta hræðilega tákn, krossinn, hefur breyzt eftir krossfestingu Krists. Hann sem var Guð á jörðu var krossfestur af jarðneskum heimskingjum. Mundu að orðið er myndað af heimur. Hinn heimski er fullur af heimsins vizku. Þegar fólk missir sjónar af himninum og sér bara hið jarðneska, sér það lítið. Heimsmyndin verður skökk. Á endanum snýr syndarinn sér að eigin miðju og verður klofhuga (nýyrði mitt) eins og sannast á samtímanum.
Þeir sem flæktu fætur sína í færslu minni fyrr í dag og féllu á höfuðið, á sjálfri Krossmessu að hausti, afhjúpuðu sumir það sem alltof margir falla í þegar skipzt er á skoðunum. Þeir fara í manninn sem heitir á fræðimáli ad hominem. Slíkt er í raun bannað í alvöru samræðum, en hendir fólk oft þegar rök skynseminnar þrýtur.
Er ég var sestur á kirkjubekkinn rétt áður en messan hófst, tók ég upp símann og eyddi færslunni.
Þetta varð ég að gera eftir að menn höfðu ruðst fram eins og um einhvern vígvöll væri að ræða. Þeir geystust fram með offorsi og margir með ad hominem aðferðinni. Þeir fóru í manninn en ekki boltann, í mig en ekki inntak færslunnar.
Ég hafði vakið athygli á að nú finndist mörgum Bretum nóg komið af máttleysi stjórnvalda í innflytjendamálum.
Ég var kallaður illum nöfnum, sem í reynd afhjúpuðu þá sjálfa, sem fóru með hvað mestu þjósti um mína færslu og persónu.
Þetta er ekki fyrsta færslan sem ég hef eytt vegna ofbeldisfullra og stjórnlausra manna sem kunna ekki mannasiði. Sumir þeirra eru búnir að koma sér upp einhverjum prívat „sharíalögum“ sem þeir einir ráða og beita.
Einhliða heimur eða tvíhliða?
Bæti því hér inn til fróðleiks að innan islam er ekkert jarðneskt svið til, bara himneskt og því ræður Allah öllu á jörðu.
En Gyðingdómur og kristni skilja á milli skapara og sköpunar.
Yfir öllu er skaparinn en sköpunin er ekki Guð og í henni eru ekki goðmögn eins og í heiðinni hugsun. Af því leiðir að veröldin er jarðnesk eða sekúlar. Þessi gyðing/kristna hugsun er forsenda allra vísinda! Lesandinn athugi það!
Kristnin sér veröldina tvíhliða, himin og jörð.
Innan islam er ekkert sekúlert, ekkert veraldlegt og þess vegna eru til klerkastjórnir sem ráða í nafni Allah og á grundvelli Kóransins. Veraldarsýn þeirra er einhliða.
Guðleysi kommúnismans er einnig einhliða eins og islam, en með öfugum formerkjum. Þar er enginn Guð, hvorki Allah né Guð kristninnar, bara maðurinn með sinn nafla í efnisheiminum. Engin andleg vídd er til. Veröldin telst bara vera hið sekúlera – veraldlega!
Kommúnistar eru því, að þessu leyti, andlega skyldari islam en kristni.
Lesum okkur til um Krist
Við ættum öll að lesa meir um Krist, mesta hugsuð mannkynssögunnar, lesa orð hans um kærleikann og líka þau orð sem hann lét falla og sumum líkaði ekki, því hann kunni mælskulist, kunni sína rhetorík, og talaði gjarnan í hýperbólum, eða í yfirdrifnum stíl. Sagan um bjálkann og flísina í auga er ein slík hýperbóla.
Rómverjarnir sem þá réðu ríkjum, trúðu bara á eigin nafla, eins og kommúnistar gera líka flestir. Að vísu áttu Rómverjar til guðagallerí með duttlungafullum verum, hálfmennskum og hálfguðlegum, sem ekki voru á vetur setjandi hvað varðar geðslag eða guðfræði.
Allir sem ekki trúa á neitt sér æðra, trúa í raun á sjálfa sig, á eigin nafla.
Þannig þenkjandi menn tóku merkustu persónu mannkynssögunnar, tóku Jesú og krossfestu hann í alfaraleið, nakinn og alsnauðan. Í hefð kirkjunnar er hann sveipaður klæði um lendar sér en líklega var hann allsnakinn. Hann var nýddur af valdinu og skrílnum á eins niðurlægjandi hátt og unnt var að sýna nokkrum manni.

málað af höfundi greinarinnar á pappakassa
Vafasöm öfl
Valdið vill ekki að því sé ögrað eða það leiðrétt og valdið á ætíð sinn fylgispaka skríl sem eltir í blindni og trú á ofbeldi og skítkast, skríl sem beitir ad hominem spörkum í kálfa og sköflunga þeirra sem þeir eru ósammála og hata.
Á hvaða vegferð er heimurinn sem hatar kirkju og kristni, hataði Charlie Kirk v.þ.a. hann vildi minna á grunngildi Vesturlanda, kristna trú og fjölskyldulíf. Taktu eftir eftirnafni hans sem vísar í kirkjuna og er komið úr norrænu og fornensku, kirk/kirkja. Hann talaði gegn kynuslanum sem er sálarmein samtímans sem erfitt er að koma fyrir innan alvöru vísinda. Áróður, um að börn viti ekki hvort þau séu karlkyns eða kvenkyns, er hernaður gegn sálarlífi barna og sjálfsmynd, glæpur gegn bernskunni. Þau geta pælt í slíkum fabúlum þegar þau verða eldri og á eigin forsendum en ekki undir þrýstingi öfgatrúarfólks sem fær að vaða inn í skóla með hugmyndir sem engin raunveruleg vísindi staðfesta.
Kirk talaði m.a. í hýperbólum, yddaði málflutning sinn, talaði í skýrum andstæðum, en var tilbúinn að rökræða við alla, líka harða andstæðinga, og reyndi að forðast að niðurlægja þá. Hann hélt fram klassískum kristnum gildum sem ÖLL Vesturlönd hafa hingað til byggt á sínar hugmyndir um mannlíf og mannréttindi. Auðvitað varð honum einhverju sinni á í messunni eins og okkur öllum, en á heildina litið telja milljónir að hann hafi verið heilsteyptur maður og talsmaður hefðbundinna, hollra gilda.
Marxismi, feminismi og einhliða veraldarhyggja ráðast gegn hinu hefðbundna. Þar fer styrjöldin fram sem mestu skiptir fyrir framtíð heimsins. Sigrar Kristur eða heimskan, guð heimsins, heimskunnar, einhliða veraldarhyggjunnar?
Víða um lönd hefur fólks stigið fram og beitt sér af hörku gegn þeim sem ekki eru tilbúnir að samsinna tveimur úreltum hugmyndaheimum, fasisma og/eða marxisma. Báðar þessar helstefnur leiddu af sér hörmungar yfir heiminn og gera enn.
Ég tala gegn því sem ógnar kristnum gildum og kristinni trú. Heimurinn hefur aldrei átt betri kenningar en þær sem Kristur og fylgjendur hans boðuðu og mun aldrei eignast.
Kristnu fólki hefur lengst af tekist að nýta það bezta frá hægri og vinstri og stærstan hluta þeirra tel ég vera á miðjunni í pólitík.
Ég set pólitískar stefnur gjarnan á klukkuskífu til að einfalda tjáningu mína.
Klukkan 6 er miðjan.
Skynsamt fólk er margt á bilinu á milli klukkan 5 og 7 í pólitískum skoðunum.
Ef fólk er búið að koma sér fyrir klukkan 9 vinstra megin eða 3 hægra megin, þá eru skoðanirnar orðnar all nokkuð yddaðar.
Ef við förum svo lengra með vinstrið og hægrið og setjum þær stefnum á skífuna, vinstrið kl. 11 að kvöldi en hægrið kl. 1 að nóttu, þá er nú stutt í að vinstrið og fasið sameinist á miðnætti og fallist í faðma þegar klukkan slær 12!

Að hætta að spyrna móti broddunum
Að endingu er hér frásögn Postulasögunnar í NT af breyttum aðstæðum Sáls, sem var á móti kristnum og ofsótti þá. Hann var á leið til Damaskus til þess að handtaka kristið fólk, en varð þá fyrir reynslu, sem sneri honum til kristinnar trúar og gerði Sál að Páli postula. Sál talar hér til Agrippa konungs, sem hafði hneppt hann í varðhald. Hann ver sig eins og fyrir dómi og segir frá því að hann hafi verið í þeim erindagjörðum að handtaka kristið fólk að skipun æðstu presta gyðinga í Jerúsalem. Heyrum varnarræðu Sáls:
12 Þá er ég var á leið til Damaskus slíkra erinda með vald og umboð frá æðstu prestunum 13 sá ég, konungur, á veginum um miðjan dag ljós af himni sólu bjartara leiftra um mig og þá sem mér voru samferða. 14 Við féllum allir til jarðar og ég heyrði rödd er sagði við mig á hebresku: Sál, Sál, hví ofsækir þú mig? Erfitt verður þér að spyrna móti broddunum. 15 En ég sagði: Hver ert þú, herra? Og Drottinn sagði: Ég er Jesús sem þú ofsækir. 16 Rís nú upp og statt á fætur. Ég birtist þér til þess að þú þjónir mér og segir frá því að þú hefur séð mig bæði nú og síðar er ég mun birtast þér. 17 Ég mun senda þig til Gyðinga og heiðingja og vernda þig fyrir þeim. 18 Þú átt að opna augu þeirra og snúa þeim frá myrkri til ljóss, frá valdi Satans til Guðs, til þess að þeir trúi á mig og öðlist fyrirgefningu syndanna og arf með þeim sem helgaðir eru.
19 Fyrir því gerðist ég, Agrippa konungur, eigi óhlýðinn hinni himnesku vitrun 20 heldur boðaði ég fyrst þeim í Damaskus og í Jerúsalem, síðan um alla Júdeubyggð og heiðingjunum að taka sinnaskiptum og snúa sér til Guðs og sýna það í verki. 21 Sakir þessa gripu Gyðingar mig í helgidóminum og reyndu að ráða mér bana. 22 En Guð hefur hjálpað mér og því stend ég allt til þessa dags og vitna bæði fyrir háum og lágum. Mæli ég ekki annað en það sem bæði spámennirnir og Móse hafa sagt að verða mundi, 23 að Kristur ætti að líða og fyrstur rísa upp frá dauðum og boða bæði Gyðingum og heiðingjunum ljósið.“

Og enn spyrna menn mót broddunum og þola ekki hina heilnæmu kenningu Krists, sem vill beina þeim á réttan veg. Þeir munu allir þurfa að horfast í augu við eigin villu í fyllingu tímans er þeir sjá að veröldin er tvíhliða, himinn og jörð, hið heilaga og hið sekúlera.
Í Fyrra Korintubréfi 1:18 segir Páll:
18 Því að orð krossins er heimska þeim er stefna í glötun en okkur sem hólpin verðum er það kraftur Guðs. 19 Ritað er:
Ég mun eyða speki spekinganna
og hyggindi hyggindamannanna mun ég að engu gera.
Flettu upp á Fyrra Korintubréfi í NT og lestu allan 1. kaflann og helzt allt bréfið!
Að endingu vil ég ekki láta hjá líða að geta þess að ég þekki kommúnista, vinstrimenn og krata og ennfremur hægri menn nálægt miðju og lengra frá henni. Innan allra þessara stefna þekki ég gott fólk og ætla alls ekki að dæma allt litróf stjórnmálanna, fólkið til hægri og vinsti, fyrir skoðanir sínar, en ég er ekki sammála hverju sem er. Sumt í kenningum stjórnmálanna kallast á við kristna trú og gildi, en ekkert kemur, að mínu mati, í staðinn fyrir einlæga og heilsteypta trú, sem hefur náð til hjartans og mótar manneskjuna. Eitt er að þekkja hið góða í kristninni, en hitt er svo að leyfa því aldrei að skjóta rótum í sálinni.

stækkuð og sett í stafrænt samhengi
Bendi svo á nýlega grein mína í 2 hlutum undir heitinu: „Hvað ógnar Vesturlöndum“ en þar fræði ég m.a. um islam út frá trúarbragðafræði, sögu og samtíð.
Ég þakka þeim er lásu og/eða hlýddu á.
Góðar stundir!
You must be logged in to post a comment.