Seinni hluti
Viltu hlusta? Tekur 19 mínútur.
Gyðingurinn Jesús Kristur
Eiga prestar að vera saklaus góðmenni og jafnvel skoðanalausir aumingjar? Flutti Jesús eintómar, sykraðar hugvekjur? Gat hann verið hvassyrtur? Í Fjallræðunni er margt sem fólk þekkir. Hvað segirðu um þessi orð Jesú:

Þessi orð eru mér sjálfum viðvörum um að rata réttan veg í lífinu.
Að lifa er dauðans alvara!
Ólæsi
Hópur fólks sem virðist ekki geta lesið sér til gagns hefur afbakað flest sem ég hef sagt á samfélagsmiðlum um málefni Palestínu og Ísraels. Það virðist slegið blindu og skilur ekki færslur mínar, snýr út úr þeim og brenglar í taugaveiklaðri meðvirkni með málstað, sem auðvelt er að leysa upp í frumeindir sínar og afsanna. Ég vil helst trúa á að gott sé í öllum fólki, en um leið undrast ég illskuna í hjörtum sumra landa minna. Ég veit að í okkur öllum býr í senn möguleikinn til að gera hið góða, en jafnframt hið illa. Það kallar Biblían synd en hugtakið á frummálinu, grísku, er hamartia, sem merkir geigun, að missa marks. Þessi geigun, syndin, hrjáir bæði þig og mig, okkur öll! Og ég endurtek:
Að lifa er dauðans alvara!
Hvaða hugmyndafræði?
Svo er það mér mikið umhugsunarefni að í hópi þeirra sem fara með mestu þjósti um mín orð virðast mér margir vera gamlir kommar og vinstrimenn. Grunnt virðist vera á gyðingahatri í hugum þeirra. Kommúnisminn er hruninn og sú helstefna var nú ekki par hrifin af gyðingum. Vinstrið er á vergangi í þessum efnum. Rússar voru ekki heldur hrifnir af gyðingum áður en kommúnisminn tók yfir þar í landi. Árás á gyðinga eða svonefnt pogram, sem felst í því að deyða gyðinga í hópum, er þekkt í sögunni, en næst okkur í nútímanum áttu slíkar ofsóknir gegn gyðingum sér stað í Rússlandi á 19. og 20. öld. Við þekkjum svo meðferð Nazista á gyðingum fyrir miðja síðustu öld.
Já, talandi um Nazista og Þýzkaland.
Stóðu Íslendingar að drápum tugþúsunda?
Í Seinni-heimsstyrjöldinni 1939-1945 tóku þjóðir sig saman um að knésetja nazismann. Þær voru kallaðar Bandamenn og við töldumst til þeirra í skoðunum og pólitík.
Hvað var gert? Herir Bandamanna réðust á Þýzkaland, drápu þar börn, unglinga og fullorðna, hermenn og óbreytta borgara. Flugher Breta sprengdi heilu borgirnar í Þýzkalandi upp í frumeindir sínar. Bandamenn voru Bandaríkjamenn, Bretar, Frakkar og fleiri frjálsar þjóðir. (Sjá nánar hér: https://en.wikipedia.org/wiki/Allies_of_World_War_II)
Manndráp eru ætíð hræðileg og rífa í hjarta allra manna sem eru með óbrenglað tilfinningalíf. Ég gæti sjálfur orðið fórnarlamb átaka og þú líka!
Síðari heimstyrjöldin 1939-1945 átti sér stað áður en ég fæddist, en foreldara mínir lifðu hana og kynslóðin á undan þeim upplifði Fyrri heimstyrjöldina 1914-1918. Hvað gerðu Íslendingar til að hjálpa konum, börnum, ungum og öldruðum, fötluðum og veikum, í Þýzkalandi nazismans, þegar sprengjuregnið, sem við stóðum að sjálf, sem hluti Bandamanna, buldi á borgurum landsins? Íslendingar studdu t.d. Norðmenn með matar- og fatagjöfum sem liðu undir hernámi Nazista. Við misstum 230 manns af völdum styrjaldarinnar, einkum sjómenn sem mönnuðu skip, er skotin vori niður af Þjóðverjum.
Sjötíuþúsund Bretar fórnuðu lífi sínu í stríðinu við Hitler og 2 milljónir Þjóðverja létu lífið í átökunum. Fórnarkostnaðurinn var gífurlegur. Í stríði eru ætíð færðar fórnir og en sú fórn varð til þess að óværan var upprætt.
Eitt er víst, fólkið hér heima á Íslandi gekk ekki um götur og torg með skylti til að mótmæla árásum á Þýzkaland. Fólk var ekki á bömmer yfir örlögum Þýzkalands, eða almennings sem þjáðist undir sprengjuregni. Eftir að stríðinu lauk kom svo í ljós hvernig farið hafði verið með gyðinga. Það er ljót saga og blettur á mannkyni.
Gyðingar voru ekki í stríði þá við einn né neinn, en voru drepnir fyrir það eitt, að vera gyðingar, deyddir skipulega, drepnir í gasklefum, fyrir trú sína á Guð. Gyðingar voru varnarlausir á dögum Helfararinnar, en í dag eru þeir með her og geta varist vitfirrtum öfgamönnum sem vilja útrýma þeim.
Ungi, þýski guðfræðingurinn og lútherski presturinn, doktor Dietrich Bonhoeffer (1906-1945) er þekktur fyrir hugrekki sitt á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. Hann var talinn hafa lagt á ráðin um að koma Hitler fyrir kattarnef eða í það minnsta að gagnrýna nazismann m.a. með því að tala gegn helförinni. Hann byggði rök sín á kristinni trú og guðfræði. Hópur sem hann þekkti til kom fyrir sprengju í handtösku í fundarsal þar sem Hitler var með sínum skósveinum. Hitler slapp naumlega við tilræðið.

Bonhoeffer var handtekinn og fangelsaður í apríl 1943. Hann var hengdur 9. apríl 1945, örfáum dögum fyrir fall Þriðja ríkisins. Hann var 39 ára gamall og kvaddi samfanga, sem hann hafði messað yfir og beðið með og styrkt í óvissu þeirra. Og þeir kvöddu hann með tár á hvörmum því hann hafði stappað í þá stálinu og vökvað vonina í brjóstum þeirra. Hann gekk í gegnum hóp samfanga sinna þegar hann var leiddur til aftöku og mælti sín hinstu orð:
„Þetta eru endalokin – fyrir mér upphaf lífsins!“
Í stríði er fólk nefnilega drepið, mannfall er fylgifiskur vopnaðra átaka þar sem gagnstæðar fylkingar takast á.
Rök hins illa
Að líkja Ísraelsmönnum nú við Þjóðverja á tímum nazismans er alvarlegur dómgreindarbrestur, því ólíku er saman að jafna.
Hins vegar er Hamas sem stýrt hefur Gaza, einmitt á þeim úreltu nazista-buxum, að útrýma eigi gyðingum. Gyðingar voru ekki á bandi óvina Þjóðverja á dögum Seinni heimstyrjaldarinnar. Þeir voru bara tiltekinn hópur íbúa, duglegir, gáfaðir, sumir efnaðir, aðrir fátækir. Þeir voru ekki í tengslum við hryðjuverkasamtök á þeim tíma eins og fólkið á Gaza í dag sem kaus Hamas yfir sig.
Árásir nazista á gyðinga voru ekki á hryðjuverkasamtök heldur hóp fólks með tiltekna trú. Ísrealsmenn eiga í stríði við hryðjuverkasamtökin Hamas sem skýlir sér á bak við almenning í landinu og vill alla gyðinga feiga vegna trúar hinna síðarnefndu. Almennir borgarar láta lífið þar sem Hamas notar þá sem fallbyssufóður og fórnar í senn meðvirkum samborgurum sínum og líka saklausum sem ekki styðja brjálæði þeirra. Þetta eru hinar hryllilegu staðreyndir.
Á Gaza eru stjórnvöld, sem almenningur kaus yfir sig, og þessi brjáluðu stjórnvöld hófu stríð við Ísrael. Á Gaza flækjast allir í þetta stríð við Ísrael og fólkið er rekið áfram af harðri hendi Hamas.
Og skiljanlega fara Ísraelsmenn mikinn gegn óværunni Hamas og það kostar miklar fórnir, því arabarnir nota fólkið sitt á Gaza sem skjöld.
Hamasliðar dýrkar dauðann og það að deyja fyrir málstaðinn er sá allra besti heiður sem þeir telja sig geta hlotnast, því hann gefur mesta sælu og laun á himnum svk. þeirra brjáluðu lífskoðun úr Kóraninum. Þeir trúa því að þeir fái hver fyrir sig, 72 hreinar meyjar á himnum, til að gamna sér með!
Er einhver heil brú í slíkri trú og skilningi á lífinu og tilverunni?
Tilfinningar ýfast upp við að sjá myndir frá Gaza og það vita Hamasliðar. Áróðursstríð er stundað með fölskum fréttum og myndum. Sjúklingar með vöðvarýrnun eru látinir leika „sveltandi“ og deyjandi fólk. Móðir sjúklingsins situr sælleg í góðum holdum við rúm sonarins. Svelta þau? Sumir áhorfendur sjá í gegnum leikmyndir af þessu tagi. En auðvitað er hörmungarástand á Gaza. Ég dreg ekki dul á það. Og blessuð börnin líða í þessum átökum, en ábyrgðin er foreldranna og forystumanna þeirra.
Svo eru það fréttamennirnir mörgu sem þurfa að fylla á hroðafíknina hjá lesendum og áhorfendum á Vesturlöndum og þá er freistandi að búa til sem allra mestan hasar og hrylling. Og þetta gerist á báða bóga. En Rúv sér bara aðra hliðina.
Og við, almenningur, erum eins og vankaðir sauðir, auðtrúa, meðvirk í kærleika og yfirmáta þrungin af harmi yfir þessu öllu. Og ég er þar með í þessum hópi fólks sem finnur til, en er þó með aðra afstöðu en sumir. Engar tvær manneskjur í heiminun hugsa nákvæmlega eins. Gleymdu því aldrei og hugsaðu um það þegar þú slaufar öðrum vegna skoðana þeirra. Þú munt aldrei eignast hóp fólks sem er 100% sammála þér um allt!
Ég hef kynnst fólki í Félaginu Ísland-Palestína og gaf þeim á sínum tíma leyfi til að halda fund í safnaðarsal Neskirkju í kjallara kirkjunnar þegar ég var þar prestur. Ég lagði mig fram um að skilja boðskap þeirra og fór a.m.k. einu sinni á opinn útifund samtakanna. En augu mín hafa opnast fyrir þeim mikla misskilningi sem felst því að tala um Palestínumenn, því hugtakið er yngra en ég sjálfur og fundið upp fyrir nokkrum árum, m.a. til þess að búa til jarðveg fyrir andóf. Ég hafði alltaf efasemdir um þeirra pólitík og hef enn og í ríkari mæli en áður. Auðvitað er almenningur á Gaza venjulegt fólk með drauma og þrár eins og við öll, en þau eru í klóm hættulegrar og djöfullegrar hugmyndafræði og þar með er hluti þeirra orðinn að meðvirkum fórnarlömbum í ömurlegum aðstæðum.
En Palestína er ekki ein í heiminum. Um þessar mundir drepa islamistar kristið fólk í þúsundatali í Nígeríu. Enginn lyftir fingri á Íslandi til að benda á þau morð, engin mótmæli á Austurvelli, engir fánar. „Góða“ fólkið er nefnilega ekki á vakt fyrir neina aðra og lætur sér í léttu rúmi liggja að trúsystkini margra okkar eru myrt fyrir trú sína á Jesú Krist í Nígeríu.
Sökudólgurinn?
Og svo er allt sagt Ísrael að kenna þegar kemur að Gaza.
Þegar tveir deila bera báðir ábyrgð. Ég hef reynt að benda á að á málinu séu a.m.k. tvær hliðar. Fyrir það fæ ég yfir mig skít og óhróður frá fólki sem ég hef annars talið þokkalega heilt á sönsum, en er nú farinn að efast mjög um dómgreind þess og andlegt atgervi, þeirra sem æstust eru og öfgafyllst.
Ísrael er eina ríkið fyri botni Miðjarðarhafs þar sem lýðræði og þingræði ríkir. Almenningur hefur það gott og arabar sem þar búa og starfa, una hag sínum vel. Ísrael á engar náttúruauðlindir. Landið er agnarsmátt, eitt minnsta ríki veraldar, en það er að afli til sem stórveldi.
Ég heimsótti landið í maí 2023 og fræddist um land og þjóð. Ég hlýddi á múslimskan fræðimann tala í einn og hálfan tíma um islam og þar á meðal vandamál sem hann ræddi og snýr að kenningum islam. Það var fróðlegt á að hlýða.
Engan beinan áróður fékk ég frá Ísraelsmönnum, nema þá þann sem býr í þöglum múrum og steinum, gróðri og söndum, brimseltu Dauðhafsins, Massada-virkinu, sýnagógum og kirkjum og Musterishæðinni sjálfri, að ógleymdum Grátmúrnum og sögu og menningu lands, sem hefur fætt af sér merkustu veraldarsýn sem heimurinn á í sínu safni. Grátmúrinn er helgasti staður gyðinga því hann er hluti undirstöðu musterins sem lagt var í rúst af Rómverju árið 70 e.Kr. Þarna liggja rætur gyðingdóms og kristni. Öll okkar helgu gildi eru sprottin úr þessum jarðvegi. Steinarnir hrópa, sagði Jesús og það gera þeir svo sannarlega í Ísrael. Minnjar og markverðir staðir, tala sínu máli.
Við vorum nokkrir karlar saman í hóp og fórum víða til að skoða landið. Ég naut þess heiðurs að messa á bökkum Galíleuvatnsins þar sem Pétur og Andrés, Jakob og Jóhannes, stunduðu veiðar og hittu Jesú. Steinaltarið stóð í vörinni við vatnið þar sem þeir lögðu frá landi og komu til baka með feng sinn. Ég helgaði brauð og vín og við neyttum saman máltíðar, ásamt með hinum upprisna í heilagri nærveru hans í hjörtum okkar!
Við fórum til Betlehem, sem er handan hárra, steyptra veggja og skoðuðum listasafn, sem ber heitið, Banksy’s Walled Off Hotel. Nafnið er orðaleikur sem kallast á við hið fræga Waldorf hótel á Mahattan í New York. Myndlistin þar er margslungin og ögrandi, en safnið er rétt handan steypuveggjanna háu sem skilja á milli íbúa Ísraels og Palestínumanna á Vesturbakka Jórdanar, sem geta þó farið daglega í gegnum öryggishlið til vinnu sinnar í Ísrael.
Ísrael er ótrúlegt ríki og dugnaður gyðinga vekur manni ætíð undrun og aðdáun. Hvers á þetta fólk að gjalda sem hefur barist fyrir lífi sínu um aldir? Þeir eiga þann heilaga rétt að fá að verjast árásum óvinveittra einstaklinga, hreyfinga og þjóða. Við eigum öll þann heilaga rétt að mega verjast ógnandi fólki og bjálsemi heilaþveginna vitleysingja.
Myndir þú verja þig og þitt fólk ef á ykkur yrði ráðist?
Myndir þú taka upp vopn ef ráðist yrði á Ísland?
Eða ætlar þú bara að veina á torgum með skylti í meðvirkum, óraunsæjum kærleika, sem snýst upp í andstæðu sína og hittir þig að lokum fyrir sem bjúgverpill er snýr við, smellur á þér með afli og afhjúpar grunnhyggni þína? Þú ert nefnilega, með stuðningi við andstæðing Ísraels, í raun að styðja útrýmingu gyðinga og þar með stefnu nazista og Hamas!
Þjóðkirkjan lagði áherslu á frið með klukknahringingum í dómkirkjum landsins fimmtudaginn 7. ágúst s.l. Undir þá bæn tók ég, en þó ekki í fávísri eða óraunsærri trú og þaðan af síður meðvirkum kærleika sem kann ekki að setja nein mörk. Fórnarlömb stríðsátaka hvar sem er í heiminum vekja samúð með öllu velmeinandi fólki eða eins og skáldið Tómas Guðmundsson sagði:
Samt dáðist ég enn meir að hinu,
hve hjörtum manna svipar saman
í Súdan og Grímsnesinu.
Ljúka þarf átökunum og skapa fólkinu á Gaza tækifæri til að lifa í sátt og friði við alla nágranna sína, með lýðræði og manngöfgi að leiðarljósi. Það verður ekki gert undir stjórn Hamas. Hvort það verður á Gaza eða handan landamæranna í löndum þar sem þjóðir búa, sem eru skyldari þeim að skilningi á lífinu og tilverunni – það mun framtíðin leiða í ljós.
Guð blessi fólkið á Gaza og í Ísrael og megi hann gefa okkur rétta og sanna mynd af ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs.
Ég þakka þeim sem hafa hlustað.
Góðar stundir!
You must be logged in to post a comment.