Fyrri hluti
Þankar um ástand og ábyrgð
eftir Örn Bárð Jónsson
Viltu hlusta? Tekur 15 mínútur.
Árið 2023 fór ég í hópferð til Ísraels. Sú ferð var afar fróðleg og mögnuð á margan hátt. Ég fræddist um margt og upplifði einnig spennuna sem m.a. kom fram í því að vopnaðir hermenn voru víða með alvæpni. Við þekkjum það öll að pólistískar deilur hafa átt sér stað í Ísrael og þróast yfir í átökin á Gaza sem við þekkjum af fjölmiðlum sem flytja urmul frétta þaðan, bæði sannar og lognar.

Ég hef vogað mér að tjá mig um málefnin fyrir botni Miðjarðarhafs og sett spurningarmerki við margt í þeim efnum. Ég trúi t.d. ekki öllu sem sagt er um Gaza eða fólkið sem þar býr og kallað er Palestínumenn.
Það var Jasser Arafat (1929-2004) sem byrjaði að tala um fólkið sem Palestínumenn á 6. og 7. áratugi liðinnar aldar. Um er að ræða araba eins og fólkið flest í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs.
Reyndar fundu Rómverjar upp nafnið Palestína eftir að hafa lagt Ísraelsríki í rúst árið 70 e.Kr., brennt musterið fagra og dregið plóga yfir Jerúsalem og rekið gyðinga burt af svæðinu. Hugtakið Palestínumenn er aftur á móti nýyrði frá síðustu öld.
Stjórnmálamenn reka áróður fyrir ýmsu. Þeir eru gjarnan á vinsældaveiðum og eiga það til að falla í þá freistni að skreyta sig dyggðum. Nú, sumarið 2025, hafa sumir þeirra vaknað upp af svefni og vilja samþykkja hina svonefndu Palestínu sem stjálfstjórnarsvæði og þar á meðal utanríkisráðherra okkar. Og hvernig fórst Palestínumönnu að ráða sér sjálfir eftir að þeim var veitt sjálfstæði? Hefurðu tekið eftir því að ekkert arabaríkjanna í heiminum hyggst viðurkenna Palestínu þegar þetta er ritað?
Hinir svonefndu Palestínumenn hafa keypt þá hugmynd að þeir séu sérstök þjóð. Þeir eru arabar eins og flest annað fólk á þessum slóðum.
Átökin nú sanna að það var fljótræði og fáfræði sem réði för þegar þessu fólki var gefið leyfi til að stofna ríki og halda lýðræðislegar kosningar 20. janúar 1996 en 25. janúar 2006 voru haldnar aðrar kosningar og þær reyndust afdrifaríkar.
Og hver var niðurstaðan? Þau kusu yfir sig hugmyndafræði Hamas-samtakanna sem verða nú varla kennd við kærleika og mannúð. Hamas er nefnilega dauðakölt af meiði islam og þeirra æðsta markmið er að drepa alla gyðinga. Þeir ætla að eyða Ísrealsríki og öllum gyðingum í heiminum. Og fólkið tók upp þeirra málstað eða var neytt til þess og við slíkar aðstæður er ekki auðvelt að vera á móti ofbeldismönnum með sverð á lofti.
Í stofnskrá Hamas ber nokkuð á apókalyptískum hugmyndum en svo eru heims-slita-kenningar nefndar í fræðum og í anda slíkra kenninga er þeirra lokamarkmið að eyða gyðingum og minnir það mjög á lokalausn nazistanna eða „Endlösung der Judenfrage“.
Arfur Hamas
Hamas-samtökin gerðu lítið til að byggja upp innviði samfélagsins. Þeir vörðu skattfé og tekjum ríkisins aðallega í vopnakaup og fengu að auki styrki frá nytsömum sakleysingjum og kjánum á Vesturlöndum og byggðu göng undir Gaza til að geta stundað sína brjálsemi og komist óhindrað undir landamæri og inn í nágrannaríkin, fram og til baka. Þeir hegða sér á engan hátt eins og lýðræðislega kosin stjórn. Göngin eru sögð á við neðanjarðargöng New York borgar. Inngangarnir eru undir sjúkrahúsum, skólum, opinberum byggingum, læknastofum o.þ.h. Þar héldu þeir til, blóðþyrstir og siðvana, sem raun ber vitni. Þeir leynast sem óbreyttir borgarar meðal íbúanna, sem þeim er algjörlega sama um. Þeir nota ekki herbúninga því þeir vilja fara huldu höfði. En þeir nota íbúana miskunnarlaust sem skjöld í stríði og skjóta sínum eldflaugum úr miðjum hópi almennings. Blessað fólkið er margt algerlega heilaþvegið af boðskap Hamas og því dofið og samsekt í öllum þessum hryllingi. Til að ná því að ráðast á Hamas er Ísraelsher neyddur til að fara í gegnum skjöldinn, fólkið, sem Hamas stillir upp sem fallbyssufóðri við munna ganganna, undir sjúkrahúsum, læknastofum, skólum og opinberum byggingum.
Alþjóðastofnanir og ríkjabandalög eins og Evrópusambandið, dældu fé í þessa hýt, að ógleymdum Írönum sem stutt hafa Hamas um árabil. Hvað gengur fólki til innan hins Vestræna heims að styðja við þessa útrýmingaráætlun og eyðingu Ísraels? Hvers vegna styður almenningur á Íslandi áætlun um útrýmingu á öllum gyðingum og Ísraelsríkis?
Margir hafa hjálpað Palestínumönnum og Ísrael lét ekki sitt eftir liggja. Ísraelsríki lét Gaza t.d. í té ókeypis rafmagn og vatn árum saman. Þeir skildu einnig eftir breiður af gróðurhúsum sem íbúarnir á Gaza hefðu getað nýtt sér til atvinnusköpunar og framfærslu. Margt fleira létu þeir þeim í té. Allt fór það í handaskolum hjá Gaza-búum.
Skólarnir kenna börnunum á Gaza margt gagnlegt og líka margt sem við mundum ekki leyfa í okkar skólum. Upp hefur komist að börnum er t.d. kenndur reikningur með dæmi í þessum stíl. Sjö ára börn eru spurð:
„Ef þú hefur drepið tvo ísraelsmenn og drepur svo tvo í viðbót, hvað ertu þá búinn að drepa marga?“
Þegar ég fór yfir á Vesturbakkann sá ég þetta fólk fara fram og aftur í gegnum öryggishlið, þau sömu og ég fór um á ferðum mínum inn á Vesturbakkann og til baka, en þar búa Palestínumenn undir stjórn Muhammad Abbas en á Gaza ræður Hamas ríkjum og þar hafa verið strangari reglur. Seinustu árin hefur Ísrael þó leyft þúsundum Gazabúa að vinna innan landamæra ríkisins. Árið 2021 höfðu 7.000 Gazabúar atvinnuleyfi í Ísrael. Árið 2022 var kvótinn kominn upp í 17.000 og stefnt var að 20.000 leyfum skv. Wikipediu.
Svo kom að því að þessi falski draumur gekk ekki upp hjá aröbunum sem kalla sig Palestínumenn undir stjórn Hamas.
Þeir réðust til atlögu 7. október 2023 og við þekkjum framhaldið. Árásin var hryllileg. Hún var svo taumlaus í tryllingi og ógeði, að slíkt er eiginlega ekki hægt að rifja upp. Og skríllinn, „góða fólkið“ í Palestínu, komst í vímuástand, fann kikkið og sæluna yfir „sigrinum“. Myndirnar þegar lík kvenna frá Ísrael, sem hafði verið nauðgað, voru dregin um götur og torg, eru sem fjarstæðukenndur hryllingur. Þá var líkum afhöfðaðra barna og brenndra engin virðing sýnd. Hegðun Hamas ber vott um brjálæði og efast má um að slíkir brjálæðingar eigi yfir höfuð tilvistarrétt á þessari jörð. Grimmdarverk þeirra eru með því svæsnasta sem þekkist í sögu mannkyns. Og skríllinn æpti í sæluvímu, sá sami og nú þjáist undir grimmd og brjálæði Hamas, öfgamanna sem fólkið sjálft kaus yfir sig!
Hvað er til ráða?
Hvað mundir þú gera ef brjálæðingar sætu um húsið þitt eða hverfi? Mundir þú bara bukka þig og beygja, krjúpa og biðja og bjóða þá velkomna með sveðjur sínar og vélbyssur? Mundir þú kannski reyna að koma þér upp vörnum? Og ef þú kæmir þér upp góðu safni af vopnum, mundir þú þá beita þeim ef á þig væri ráðist? Þú svarar þessu fyrir þig.
Ég þekki sögu gyðinga í Mið-Austurlöndum s.l. fjögur árþúsund ár að einhverju marki. Ég hef lesið fornsögu Ísraels til prófs í háskóla og einnig trúarbragðafræði um öll helstu trúarbrögð heims. Gyðingar eiga rétt á þessu landi. Þeir einir tilheyrðu konungsríki á svæðinu.
Ríki Davíðs konungs er í raun fyrirmynd allra konungsríkja síðari tíma í heiminum. Konungur Ísraels var ekki alráður. Honum var gert að ríkja undir stjórn Guðs með lögmálið og texta gyðinga um réttlæti og miskunn til leiðsagnar. Til viðbótar varð hann og arftakar hans að lifa við gagnrýni spámanna Ísraels. Þeir voru ekki hluti af kerfinu heldur á eigin vegum sem túlkendur réttætis og sannleika. Rödd þeirra var einskona stjórnarandstaða. Þeir voru mótmælendur en þó aðeins sem einstaklingar hverju sinni. Þeir voru áhrifavaldar (reyndar er búið að gengisfella það orð, ef ekki eyðileggja, með vísun í einhverja „nobodies“ sem telja sig vera „sombodies“).
Spámenn Ísraels forðum gátu sett konunginn í klemmu eins og Natan gerði við Davíð er hann leiddi kóng sinn í gildru og lét hann dæma sjálfan sig fyrir eiginn glæp.
Þessi arfur var lagður í rúst af Rómverjum. Gyðingar dreifðust víða um lönd en þó ekki allir. Gyðingar hafa búið á svæðinu í þúsundir ára og voru þar fyrir stofnun Ísraelsríkis árið 1948 og eru enn. Til landsins fluttu svo gyðingar frá öllum heimshornum. Arabar hafa löngum haft horn í síðu þeirra og gert á þá fjölda árása og rétt er að minnast þess að arabaríkin réðust ítrekað á ríki gyðinga fljótlega eftir stofnun þess. Skoðið söguna!
Ísraelsríki er þingbundið lýðræðisríki. Konur búa þar við jafnrétti. Fólk af ólíkum trúarbrögðum býr þar og vinnur saman. Ísraelsríki hefur komið sér upp öflugum her sem hefur þó reynst vera gætinn í vali á skotmörkum og reynt að ná leiðtogum Hamas í þeim átökum sem nú standa yfir. Þegar herinn réðst inn í Íran 2025, voru sérstök skotmörk í miði, en ekki almennir borgarar. Íranir svöruðu, en ekki með því að ráðast á hernaðarmannvirki, heldur almenna borgara í Tel Aviv og víðar. Siðleysi óvina Ísraels í viðbrögðum, afhjúpar lélegan málstað.
Deilurnar á Gaza eru kapítuli út af fyrir sig. Þar á sér stað hryllingur sem oftar en ekki er fylgifiskur átaka og ekki síst styrjalda.
Gyðingar hafa þolað ofsóknir um aldir. Þeir skara framúr flestum vegna dugnaðar og festu. Þeir eiga urmul Nóbelsverðlaunahafa og fjölda öflugra handhafa verðlauna í flestum greinum vísinda.
Vesturlönd hafa siðagrundvöll sinn úr tveimur áttum, frá gyðingum og kristnum, með ívafi úr þriðju átt. Gyðingar hafa lagt okkur til hugmyndir sínar um réttlæti, einkum Boðorðin tíu og Mósebækurnar. Konugdæmi Ísraels er líka fyrirmynd í stjórnmálasögu heimsins.
Kristur kenndi okkur svo með afgerandi hætti að elska náungann. Auðvitað var náungakærleikur í lögmáli gyðinga og finnst einnig innan annarra trúarbragða en Kristur setti kærleikann fram með einstökum hætti, sem fullyrða má að eigi sér hvergi samjöfnuð í veröldinni. Þetta tvennt, gyðingdómur og kristni með grísk-heimspekilegu ívafi er grundvöllur hugmyndafræði Vesturlanda. Í Gamla testamentinu eru ótal textar um samskipti fólks og það er í raun merkilegt að þessar reglur um heilbrigð samskipti hafi orðið til á meðal hirðingja á hrjóstrugum svæðum fyrir botni Miðjarðarhafs sem lifðu án miðstjórnarvalds en trúðu á handanverandi visku, réttlæti og sannleika. Guð var þeirra kóngur.
Svo er það á hverri tíð spurning hvernig fólki tekst að fara eftir kenningunum um réttlæti og kærleika. Þar skulum við bara líta í eigin barm, hvert og eitt, áður en við dæmum aðra. Munum hvað Jesús sagði um flísina og bjálkann!
Svarthvít hugsun eða marglit?
Ég hef reynt að halda því á lofti hér á landi með því að tjá mig í netmiðlum að á deilunni milli fólksins á Gaza og Ísraels séu a.m.k. tvær hliðar. Fyrir það er ég ausinn auri og hroða af fólki sem missir sig gjörsamlega. Ég hef bent á það sem sannað hefur verið að Hamas hefur stolið meirihluta allra hjálpargagna til að selja þau eigin fólki. Þessar aðgerðir Hamas eru ekki bara orðrómur heldur staðfesta virtar stofnanir þessi illvirki þeirra og grimmd gaganvart eigin fólki. Þeir svífast einskis í blindu hatri sínu og hryllingsverkum.
Þá kemur það einnig í ljós að margt fólk hér heima virðist ekki geta lesið sér til skilnings. Það kann að vísu stafrófið og skilur einstök orð, en virðist ekki skilja samhengi máls, rífur setningar í sundur og afbakar allt sem sagt er. Þetta hef ég reynt á netmiðlum. Margir láta stjórnast af tilfinningasemi og meðvirkum kærleika og einnig ber á svonefndum dyggðaskreytingum inn á milli.
Fólk nennir ekki að setja sig inn í mál eða málflutning, en rýkur í að andmæla því sem það hefur ekki skilið.
Fræðimenn halda því fram að samfélagsmiðlarnir hafi þau áhrif á samtíð okkar að við verðum þröngsýnni en áður. Ég hef notað líkinguna um hina stöðugu súld úr Netheimum sem hefur slævt hugsun þorra almennings og herra Algrímur (algorithm) sér svo um að mata okkur á því sem hann reiknar út að við höfum áhuga á. Þannig er okkur ýtt dýpra og dýpra í gröf eigin þröngsýni og villu. Netið í dropatali veldur ekki stórum skaða, en steypiregn, allan sólarhringinn, í mörg ár, heilaþvær okkur að lokum með sérvöldu efni sem Algrímur velur og skammtar. Gættu að hvort þú standir óvart í drullupolli áróðurs og villutrúar!
Hér lýkur fyrri hluta þessara þanka minna.
Ég þakka áheyrnina. Góðar stundir.
You must be logged in to post a comment.