Hvort heilahvelanna er ráðandi í hugsun þinni?
eftir Örn Bárð Jónsson
Viltu lesa eða hlusta? Tekur 7 mínútur.

Breski fræðimaðurinn Iain McGilchrist (f. 1953) hefur vakið mikla athygli víða um heim og flytur fyrirlestra og mætir í mörg viðtöl við aðra fræðimenn og þáttastjórnendur sem m.a. er unnt að nálgast á YouTube.
Hann útskýrir á skiljanlegan hátt niðurstöður áralangra rannsókna á mannsheilanum. Hann er menntaður geðlæknir, heimspekingur og taugalíffræðingur. Ég hef lesið tvær bóka hans:
The Master and his Emissary, The Divided Brain and the Making of the Western World.
og
The Matter with Things. Our Brains, Our Delusions, and the Unmaking of the World.
Í stuttu máli þá fjallar fyrri bókin um heilahvelin tvö, það vinstra og hægra.
Vinstra hvelið stýrir hægri hönd okkar og hefur í þróunarsögu mannsins kennt honum að grípa gæsina, hremma bráðina, hrifsa. Þar liggja frumstæðar hvatir og sjálfsbjargarviðleitni. Þar er tungumálið einnig til húsa, en líka reiðin. Vinstra hvelið sér hlutina í annað hvort svörtu eða hvítu. Þar eru engin blæbrigði, bara vissa um annaðhvort. Auðvitað nota allir bæði hvelin, en vísindamenn eru margir mjög vinstrahvels í sínum störfum.
Hægra hvelið sér samhengið, litina, margar hliðar máls og margt fleira. Raungreinar hugsa mjög á brautum vinstrahvels en menning, listir og sköpunargáfa reiða sig meir á hið hægra. Þetta er auðvitað einföldun sem er aðeins til að flækja ekki málin í stuttum pistli.
Vinstra hvelið er húsbóndinn, en hið hægra er þjónn hans og því ber fyrri bókin heitið The Master and his Emissary – Meistarinn og fulltrúi hans.
Vinstrahvelið telur sig vita allt en veit mjög fátt, en hið hægra telur sig vita fátt, en veit í raun margfalt á við hitt.
Þetta er einföld útskýring mín á meginniðurstöðum þessa merka vísindamanns, sem rannsakað hefur fólk um árabil sem orðið hefur fyrir heilaskaða. Með því að skoða hvað fellur burt úr skynjun hins skaddaða, hafa vísindamenn fundið leið til að kortleggja svæði heilans og hverju þau stýra hvert og eitt.

McGilchrist segir t.d. að fólk innan vestrænna þjóðfélaga sé í vaxandi mæli farið að hugsa á brautum vinstra heilahvels. Skautun vex og útskúfun þeirra sem eru ekki bara annaðhvort svartir eða hvítir í hugsun. Þeir þola illa blæbrigði.
Þetta er athyglisverð túlkun á þróun samfélagsins og kann að skýrast af vaxandi netnotkun og mötun á hægrahvels hugsun, afgerandi afstöðu, annað hvort eða hugsun.
Í opinberri umræðu greini ég margt fólk sem hugsar í svart/hvítu og hefur litla þolinmæði til að ræða fleiri hliðar máls. Þetta er t.d. áberandi meðal margra sem nú styðja Palestínumenn, en virðast ekki átta sig á, a.m.k. sumir, að þeir styðja þar með Hamas og útrýmingu allra Gyðinga og eyðingu Ísraelsríkis.
Stærsta hlutmengi þeirra, sem deila við mig og vilja ekki kannast við að á málinu séu a.m.k. tvær hliðar og í raun margar fleiri, virðast mér vera vinstrimenn og þá tala ég pólitískt. Ekkert samhengi þarf að vera milli vinstra fólks og þeirra sem eru með ríkjandi vinstrahvelshugsun. En mér finnst vinstri menn og ekki síst gömlu kommarnir, vera mjög vinstramegin í heilanum, þegar kemur að rökræðum um stóru málin í heiminum. Þeir ganga fram í einlægum kærleika, sem mér finnst vera meðvirkur, því hann setur engin skilyrði fyrir elskunni. Þetta er þekkt úr AA-fræðum og kallast þar að vera co-dependent eða meðvirkur. Og slík afstaða hjálpar lítið en eykur fremur eymd þess sem er hjápar þurfi.
Ég nefni hér dæmi um vinstrahvesl afstöðu. Ráðherra sem varð það á að finnast eitthvað heillandi í fari Trumps var útskúfaður af sumum fyrir það að sjá í honum eitthvað annað en enhliða dóma fordæmandi fólks. Við erum öll breyskar manneskjur. Þar með er ég ekki að afsaka Trump, sem ég á reyndar afar erfitt með að þola, svo ég játi nú eigin fordóma.
Þröngsýni er sjaldan góð afstaða þegar um fólk er að ræða. Kristur kenndi okkur og brýnir okkur enn með orðum sínum: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Það er ein af frumskyldum okkar.
En – og það er stórt EN – við þurfum ekki að elska allar skoðanir og gjörðir fólks. Til dæmis ber mér að elska múslima en mér er vægast sagt ekki vel við meingallaðar kenningar islam og framferði öfgamanna innan þeirrar trúar.
Og svo er gott að muna að engir tveir einstaklinga í öllum heiminum eru nákvæmlega sammála um allt. Við erum öll með okkar skoðanir, sem skarast á við álit margra annarra, en þó ekki allra.
Maður nokkur slaufaði mér á Facebook og sagði upp „vináttu“ okkar. Ég þakkaði honum fyri að láta mig vita og óskaði honum jafnframt til hamingju með að eiga eingöngu vini sem væru honum sammála um allt milli himins og jarðar!
Er slíkur vinahópur til?
Þú veist svarið.
You must be logged in to post a comment.